30.03.1978
Neðri deild: 68. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2969 í B-deild Alþingistíðinda. (2197)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er rétt að víkja fyrst nokkrum orðum að ræðu hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasonar. Það skorti ekki fullyrðingar og stóryrði í ræðu hans um að á engu sviði þjóðmála hefðu orðið meiri mistök hin síðari ár en á sviði orkumála. Ræða hans einkenndist öll af neikvæðri gagnrýni, en það voru engin úrræði, engar ábendingar, ekkert jákvætt í ræðunni. Ég skal hins vegar minnast á einstök atriði sem hann nefndi.

Hann spurði í fyrsta lagi hvort hægt væri að fá það upplýst, hver bæri ábyrgð á Kröfluvirkjun, hvort það væri núv. ríkisstj. eða fyrrv. ríkisstj. Ég held að því sé fljótsvarað, að það séu þær báðar. Það má bæta við: Skyldi hv. alþm. Gylfi Þ. Gíslason bera ábyrgð á því líka, vegna þess að hann samþykkti lögin um að ráðast í þessa virkjun? Annars fer ég ekki út í það mál frekar, því að ítarleg skýrsla um Kröfluvirkjun verður lögð fyrir Alþingi nú skjótlega.

Hv. þm. spurðist fyrir um Orkubú Vestfjarða og hvort ég einn hefði tekið ákvörðun um að Orkusjóður skyldi standa undir vöxtum og afborgunum af þeim lánum sem eftir standa hjá Rafmagnsveitum ríkisins eftir að nokkur hluti skuldanna hefur verið yfirfærður til Orkubús Vestfjarða. Það var á sínum tíma nokkurt álitamál, hvort þau lán eða þær skuldir, sem útilokað var að Orkubúið tæki að sér, ættu að verða á vegum ríkissjóðs eða Orkusjóðs. Niðurstaðan varð sú, að eðlilegt væri að þessar skuldir yfirfærðust þannig á Orkusjóð að hann stæði undir þeim. Þetta var samþykkt af ríkisstj. allri.

Í öðru lagi spurðist hann fyrir um Vestmannaeyjastreng, sem nauðsynlegt er að leggja til öryggis eftir að sá eini strengur, sem nú er, hefur bilað hvað eftir annað og skapar ekki nægilegt öryggi fyrir þetta byggðarlag með því blómlega atvinnulífi sem þar er. Þessi ákvörðun um að ráðast í lagningu Vestmannaeyjastrengs var samþykkt af ríkisstj.

Hv. þm. spurðist fyrir um yfirlýsingu sem eitthvert blað hafi sagt að ég hafi gefið á Egilsstöðum í sambandi við Bessastaðaárvirkjun. Ég vil endurtaka það, sem ég hef raunar sagt áður, að ég hef aldrei gefið neinar yfirlýsingar um það, að ákvörðun um Bessastaðaárvirkjun yrði tekin á ákveðnu tímamarki. Ég hef alltaf lagt áherslu á að undirbúningi yrði hagað þannig, að endanleg ákvörðun yrði tekin, þegar allar upplýsingar og rannsóknir lægju fyrir. Fyrir rösku ári töldu sumir að undirbúningi væri það langt komið, að unnt væri að taka ákvörðun um Bessastaðarvirkjun. En þá gerðist það, að rafmagnsveitustjóri ríkisins og orkumálastjóri óskuðu báðir eftir því, að frekari samanburðaráætlanir yrðu gerðar, og var að sjálfsögðu orðið við því. Það gerði það að verkum, að tillögur Rafmagnsveitna ríkisins eða rafmagnsveitustjóra lágu ekki fyrir um þá virkjun fyrr en um miðjan des. s. l. Þá var málið lagt fyrir ríkisstj.

Ég vil víkja sérstaklega að einum ummælum hv. þm., sem ég harma mjög að hann skyldi viðhafa og vil fremur telja til fljótfærni heldur en það hafi verið hugsað. Hann leyfir sér að fullyrða hér á Alþingi Íslendinga, að Rafmagnsveitur ríkisins séu gjaldþrota fyrirtæki sem hefði þurft að gera upp ef þær væru einkafyrirtæki. Þetta eru staðlausir stafir. Rafmagnsveitur ríkisins eru að ýmsu leyti vel stætt fyrirtæki eignalega séð, þannig að eignir þess eru auðvitað miklu meiri en skuldir. Það er líka eintómur misskilningur, að halli á rekstri RARIK sé 1200 millj., það er sú tala sem hv. þm. nefndi. Það liggur fyrir, hver hefur verið rekstrarhalli RARIK. Hv. þm. blandar hér saman annars vegar rekstrarhallanum og hins vegar þörf á framlögum eða lánsfé til ýmissa einstakra framkvæmda sem margar hverjar eru ekki einu sinni eign RARIK, því að t. d. stofnlínurnar eða byggðalínurnar eru ekki eign Rafmagnsveitna ríkisins, heldur ríkissjóðs. En ég vil andmæla því hér eindregið, að þetta fyrirtæki sé gjaldþrota, það eru algerlega staðlausir stafir og ég harma að hv. þm. skuli viðhafa slík ummæli.

Ég skal minnast hér á nokkur atriði í tilefni af fsp. hv. 2. þm. Austurl., Lúðvíks Jósepssonar. Ég vil þá í fyrsta lagi minnast á það atriði, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa átt og eiga í verulegum fjárhagsvandræðum, en hin svokölluðu fjárhagsvandræði Rafmagnsveitnanna eru ekki nema að sumu leyti fjárhagsvandamál fyrirtækisins sem slíks. Að verulegu leyti er hér um að ræða fjárvöntun vegna framkvæmda sem ríkið hefur falið Rafmagnsveitunum, eins og t. d. byggðalínanna, sem eru ekki eign eða fyrirtæki Rafmagnsveitnanna. En hinu er ekki að neita, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa átt við veruleg fjárhagsvandræði að etja. En þetta er ekki nýtt fyrirbæri. Raunar má segja, að þetta sé krónískur sjúkdómur á Rafmagnsveitum ríkisins frá upphafi vega. Ég minnist þess frá þeim árum, þegar við hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason vorum saman í ríkisstj., að þá var það oft, jafnvel á hverju ári, sem þurfti í lok árs að leysa viss fjárhagsvandamál fyrir Rafmagnsveitur ríkisins. Þegar vinstri stjórnin lét af störfum var fjárhagsvandi Rafmagnsveitnanna með þeim hætti, að það þurfti að leysa um það bil 1000 millj. kr. vanda. Er því sá vandi sem nú er á höndum, miðað við verðgildi peninga, ekki ýkjastór í samanburði við það. En hvers vegna hafa Rafmagnsveitur ríkisins átt við þennan vanda að etja hvað eftir annað á sínum ferli? Það stafar einfaldlega af því, að Rafmagnsveitur ríkisins eru ekki eingöngu eða fyrst og fremst viðskiptalegt fyrirtæki sem hefur möguleika til þess að standa undir sér að sínu leyti eins og t. d. Sogsvirkjunin áður, Landsvirkjun nú, Laxárvirkjun, Andakílsvirkjun. Rafmagnsveitur ríkisins eru öðrum þræði og ekki síður félagsleg stofnun. Þeim hafa verið falin ýmiss konar félagsleg verkefni óarðbær, óarðbærar félagslegar framkvæmdir, sem hafa svo verið fjármagnaðar með lántökum, oft dýrum lánum, ýmist dýrum innlendum lánum eða erlendum lántökum. En það er mála sannast, að ríkið hefur aldrei í sögu RARIK tekið afleiðingunum af því, að þetta fyrirtæki er öðrum þræði félagslegt fyrirtæki. Það hefði þurft frá upphafi vega — og sú þörf er enn brýn — að afla Rafmagnsveitum ríkisins beinna tekjustofna og óafturkræfra framlaga vegna margvíslegra verkefna sem þessu fyrirtæki eru falin á hendur. Þetta er vandamál sem alla stund hefur loðað við Rafmagnsveitur ríkisins.

Annað atriði, sem hér er rétt að drepa á líka og hefur nokkuð komið fram í umr., eru hitunarmálin. Nú er það þannig, að af framleiðslu- eða orkusölu Rafmagnsveitna ríkisins fara um 50% til hitunar húsa, tekjurnar af þeirri sölu eru ekki nema um 25% af heildartekjum Rafmagnsveitnanna. Þetta stafar af því, að sala á rafmagni til hitunar skilar raforkufyrirtæki miklu minni tekjum fyrir hverja selda kwst. heldur en flest önnur notkun. Nú er það ljóst, að í sumum tilvikum er nauðsynlegt að nota rafmagn til upphitunar. En rafmagn til hitunar húsa er að mörgu leyti dýr aðferð og æskilegra að nota aðrar aðferðir. Við skulum gera okkur þess grein, að þegar við berum saman meðalrafmagnsverð hjá RARIK annars vegar og ýmsum rafmagnsveitum, t. d. hér í Reykjavík, hins vegar, þá er þetta að því leyti ekki sambærilegt, að Rafmagnsveitur ríkisins hafa hlutfallslega miklu meiri orkusölu til hitunar á sinni könnu heldur en aðrar rafveitur. Sumar þeirra, t. d. Rafmagnsveita Reykjavíkur, hafa tiltölulega litla orkusölu til hitunar, vegna þess að hér er hitaveita sem nær til flestra húsa. Þetta meginatriði skiptir auðvitað verulegu máli, að þessi mikla rafmagnssala til hitunar skilar fyrirtækinu tiltölulega litlum tekjum miðað við aðra raforkusölu.

Því er ekki að neita, að það var varhugaverð stefna, sem fyrirrennari minn sem iðnrh. beitti sér fyrir, að hvetja sem allra mest til rafhitunar húsa. Það var varhugaverð stefna, bæði af þessari ástæðu, sem ég nú hef rakið, hver áhrif það hefur haft á afkomu Rafmagnsveitna ríkisins, en það var einnig varhugavert af öðrum ástæðum og m. a. þeirri, að vegna þess, hve rafhitun jókst verulega um hríð, hafa flutningskerfin víðs vegar úti um land, úti um sveitir og annars staðar, orðið of veik of snemma. Þetta kallar á geysimikla fjármuni til að styrkja dreifikerfin og veldur því, að spennufall og orkutap er víða miklu meira en þyrfti að vera af eðlilegum ástæðum.

Á þessari stefnu fyrirrennara míns um að auka sem allra mest rafhitun, varð gerbreyting haustið 1974 með stjórnarskiptunum. Í stað þess að auka og örva sem mest rafhitun í landinu var snúið sér að öðru. Það var snúið sér að því að reyna að nýta jarðvarmann sem allra mest. Það var gert með því m. a. að afla nýrra tækja, keyptir mikilvirkir borar, m. a. stærsti og mikilvirkasti bor landsins, Jötunn, sem kom til landsins snemma á árinu 1975. Hann og fleiri tæki, sem hafa verið keypt, og auknar rannsóknir á jarðvarma og nýtingu hans hafa valdið gerbyltingu í þessum efnum. Ég skal nefna aðeins eitt dæmi.

Vorið 1974 kom það fram í skýrslu, sem Magnús Kjartansson iðnrh. lagði fyrir Alþ., að höfuðstaður Norðurlands, Akureyri, yrði að vera á rafhitunarsvæði, því að ekki væru líkur til þess að nægilegur eða nýtanlegur jarðhiti eða jarðvarmi fyndist þar. Eftir að þessi nýju tæki og fyrst og fremst þessi nýi, stóri bor kom var eitt af fyrstu verkefnum hans, að það var ákveðið að hann skyldi kanna möguleika í Eyjafirði, með þeim árangri sem öllum er kunnugt um, að nú er byrjað að leggja hitaveitu á Akureyri. Þetta sama hefur gerst víðs vegar um land, þannig að í nýtingu jarðvarma til upphitunar húsa hefur orðið bylting á þessum 3–4 árum.

En það er ekki aðeins þetta, það er annað sem einnig þarf að gera, og það eru svokallaðar fjarvarmaveitur. Í byggðarlögum, þar sem einhver jarðhiti er, þarf að byggja fjarvarmaveitur sem geti nýtt að nokkurn leyti þann jarðvarma sem fyrir hendi er. E. t. v. er vatnið ekki nægilegt að magni til eða ekki nógu heitt, en þá þarf fjarvarmaveitan að geta nýtt bæði vatnið, sem kann að fyrirfinnast, og afgangsorku og orku frá atvinnufyrirtækjum, eins og bræðsluverksmiðjum, eða öðrum verksmiðjum á staðnum, sem oft er hægt að hafa mjög mikið gagn af í þessu efni, og loks, ef á þarf að halda, verður að nýta dísilolíu á topptímum.

Á s. l. sumri ritaði ég Rafmagnsveitum ríkisins bréf og fól þeim að hefja undirbúning að áætlunum um slíkar fjarvarmaveitur sem víðast og að hefja slíka starfsemi á Austurlandi, og hefur þegar verið unnið mjög gagnlegt starf í samráði við sveitarstjórnir á hverjum stað. Einnig hafa farið fram slíkar athuganir í Bolungarvík og víðar. Ég er í engum vafa um að með þessum hætti má vinna hér mjög mikilvægt verk í orkumálum, með þessari stefnu, að nýta jarðhitann til hitunar húsa sem allra mest og byggja fjarvarmaveitur, en nota raforkuna því aðeins til hitunar húsa, að önnur hagkvæmari úrræði séu ekki fyrir hendi. Þessi stefna held ég að hafi þegar valdið og muni enn fremur valda straumhvörfum í þessum efnum.

Aðrar ástæður til þess, að Rafmagnsveitur ríkisins hefur skort fé nú og lent í verulegum vandræðum nú að undanförnu, eru m. a. þær, að kostnaður við framkvæmdir, sem Rafmagnsveitunum er falið að ráðast í, er yfirleitt áætlaður löngu fyrir fram. Tökum dæmi: Í fjárl. fyrir 1978 eru um framkvæmdir, sem RARIK er falið að vinna að á þessu ári, á þessu sumri og hausti, kostnaðaráætlanir frá því í maímánuði 1977. Þetta lá allt saman ljóst fyrir bæði í fjmrn. og fjvn. þegar fjárlög voru afgreidd, og rafmagnsveitustjóri gerði ítarlega grein fyrir þessum vandamálum. Það má því segja, að við afgreiðslu fjárl. hafi vandamálum Rafmagnsveitna ríkisins að ýmsu leyti ekki verið gerð viðhlítandi skil. Það kom því að sjálfsögðu strax upp um áramót eða í desemberlok, að hér voru veruleg vandamál á ferðum, bæði vegna rekstararhalla RARIK og skorts á fé til framkvæmda, bæði 1977 og 1978. Fulltrúar frá iðnrn., frá Rafmagnsveitum ríkisins, frá fjmrn. og ríkisendurskoðun hafa síðan um áramót unnið að því að gera sér nákvæma grein fyrir í hverju þessi vandamál eru fólgin og reyna að finna leiðir til lausnar á þeim.

Eitt vandamál, sem hér kom upp, var Austfjarðalína. Mér finnst sannast sagna alveg furðulegt að hlusta hér á hörkuádeilur frá hv. 9. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, út af málefnum Austurlands, vegna þess að það er einmitt í tíð núv. ríkisstj. sem hvort tveggja hefur gerst, að byrjað er á Austurlínu til að tengja Austurland við raforkukerfi landsins og þeim framkvæmdum verður lokið fyrir næsta vetur, og í annan stað hefur verið unnið að mjög rækilegum undirbúningi að virkjun Bessastaðaár, sem nú liggja fyrir ákveðnar till. um frá Rafmagnsveitunum. Ég veit ekki til þess, að í annan tíma hafi verið á jafnskömmum tíma gerð önnur sambærileg átök til umbóta í raforkumálum Austfirðinga.

Varðandi Austurlínu var ákveðið í fyrra, að hún skyldi framkvæmd á árunum 1977 og 1978 og lokið á þessu ári. Í fjárlög og lánsfjáráætlun var sett ákveðin upphæð, rúmur milljarður, til framkvæmda við Austurlínu. Þessi áætlun var miðuð, eins og kannske flestar kostnaðaráætlanir sem undirbúnar voru vegna fjárlagafrv., við kostnað í maímánuði 1977. Við þær verðlags- og kaupgjaldsbreytingar, sem orðið hafa, telja Rafmagnsveitur ríkisins að hér vanti 180 millj. til viðbótar, til þess að hægt sé að ljúka línunni. Þetta fé þarf því að útvega til viðbótar. Og það er rétt mönnum til fróðleiks að upplýsa það, hvað mundi gerast í þessum efnum ef ekki væri séð fyrir auknu fjármagni til þess að ljúka þessari línu. Ég bað rafmagnsveitustjóra ríkisins um að gera um það skýrslu og áætlun. Það lítur þannig út, að ef Austurlínunni yrði ekki lokið á þessu ári, þá mundi kostnaður við orkuvinnslu í dísilstöðvum og kaup á nýjum dísilstöðvum vegna Austurlands nema um 740 millj. og þar af er erlendur gjaldeyrir 492 millj. kr. Nú er það auðvitað sameiginleg stefna okkar — ég vænti okkar allra — að forðast að hækka erlendar skuldir. Hins vegar verður öll slík stefnumörkun auðvitað einnig að hafa mið af því, ef heilbrigð skynsemi bendir á að þjóðinni sé óhagkvæmara að bæta ekki við lántökur. Nú má vel vera og við vonumst til þess, að hægt verði að leysa þetta mál án þess að taka erlend lán. En jafnvel þótt þyrfti að taka til viðbótar 180 millj. kr. erlend lán, þá er það auðvitað stórkostlegur hagur fyrir þjóðina í heild, í stað þess að hafna slíkri leið og fleygja nærri 500 millj. kr. í gjaldeyri í olíueyðslu.

Ég vil undirstrika það hér út af fsp. hv. 2. þm. Austurl., sem forsrh. var raunar búinn að gera, að það er ætlun og ákvörðun ríkisstj. að Austurlínunni verði lokið á þessu ári.

Varðandi Vestfjarðalínu, sem mjög hefur borið á góma og verið skrifað um, t. d. í gær í leiðurum tveggja blaða af miklu óviti og vanþekkingu, þá liggur það mál þannig fyrir, eins og kunnugt er, að tenging Vestfjarða við orkukerfi landsins er brýn nauðsyn og ætlunin var og till. iðnrn. að það yrði gert á þessu og næsta ári, að á þessu ári yrði varið til þess upphæð sem mun hafa numið um 800 millj. kr. Var síðan samkomulag um að taka heldur minni áfanga að þessu sinni, í ár, án þess að áætlun um að ljúka línunni á næsta ári breyttist, þannig að inn í fjárlög og lánsfjáráætlun var sett upphæðin 408 millj. kr. til Vestfjarðalínu. Meginhluti fjárins átti að fara í að leggja línu frá Hrútatungu í Glerárskóga og að hefja undirbúning að vissum köflum öðrum. Þetta er brýnt nauðsynjamál og það var ákvörðun Alþ. og ríkisstj. að þetta yrði gert. Í samræmi við þetta ritaði iðnrn. Rafmagnsveitum ríkisins 23. des. s. l. bréf um Vesturlínu, þar sem það rakti sundurliðað þessa samþykkt og fól Rafmagnsveitunum að undirbúa og haga framkvæmdum við línulögnina á árinu 1978 í samræmi við þetta. Síðan gerist það, að um síðustu mánaðamót fregnar iðnrn. að ekki sé enn búið að panta efni eða staura í þessa línu, hins vegar hafi verið aflað verðupplýsinga og fengnar upplýsingar um afgreiðslufrest. Þegar þetta vitnaðist var auðvitað ljóst, að ef pöntun á þessu efni drægist lengur, nokkuð að ráði, þá mundi vera mjög hæpið eða útilokað að framkvæma þetta verk, sem Alþ. og ríkisstj. höfðu ákveðið, á þessu ári. Afgreiðslufrestur var nokkrir mánuðir. Þegar ég vissi um þetta, fól ég Rafmagnsveitunum að panta þetta efni. Stjórn Rafmagnsveitnanna vildi ekki verða við því, og þá skrifaði ég bréf, dags. 21. mars, til rafmagnsveitustjóra ríkisins, á þessa leið:

„Hér með er yður falið, herra rafmagnsveitustjóri, að láta nú þegar í dag panta allt nauðsynlegt efni í Vesturlínu, þannig að framkvæmdir á þessu ári verði í samræmi við lánsfjáráætlun og fjárlög fyrir árið 1978.“

Þetta var gert. Einnig tókst að fá styttan nokkuð afgreiðslufrestinn, eða um röskan mánuð frá því sem upphaflega hafði verið ráðgert, þannig að nú horfir það mál þannig, að þetta efni verði tilbúið hjá framleiðanda eða seljanda, sem er í Bandaríkjunum, upp úr miðjum maímánuði n. k.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta mál. En þrír stjórnarmenn Rafmagnsveitnanna töldu sig ekki geta unað við þetta og sögðu af sér. Ég hef litið á það sem skyldu mína að framkvæma þær ákvarðanir sem Alþ. hefur tekið og beinlínis mælt fyrir um í fjárl. Hér var um að ræða bæði bráðnauðsynlega framkvæmd vegna orkumála á Vestfjörðum og samþykkt og ákvörðun Alþingis og ríkisstj.

Ég skal, hæstv. forseti, ekki fara frekar út í þessi mál. Hæstv. forsrh. gerði hér ítarlega grein fyrir því, hvernig þessi mál stæðu nú, og eftir ríkisstjórnarfund í morgun má telja að meginfjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins sé leystur.