31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2996 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

147. mál, orkusparnaður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs við þessar umr. nema vegna nokkurra atriða sem fram komu í ræðu hv. þm. Inga Tryggvasonar. En áður en ég vík að því vil ég aðeins lýsa fylgi mínu við þessa þáltill. Það er ekkert vafamál, að það er full þörf og nauðsyn á að vinna markvisst að því að auka hagkvæmni í orkunotkun þjóðarinnar, og ég get því fyllilega lýst samþykki mínu við þessa þáltill. En eins og ég sagði áðan, ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Inga Tryggvasonar, þar sem hann fjallaði miklum mun almennara um orkumálin heldur en þessi þáltill. kannske gæfi tilefni til.

Hv. þm. Ingi Tryggvason gerði nokkurn samanburð á orkuverði á hinum ýmsu svæðum og sagði réttilega að það væri brýn þörf á því og nauðsyn að vinna að því, að sem fyllstur jöfnuður næðist í orkuverði í landinu. Ég efast ekki um að hv. þm. er þessarar skoðunar og kannske fleiri hv. þm. Framsfl. En það hlýtur að vekja athygli, að strax daginn eftir að ráðh. Framsfl. samþ. í ríkisstj. að auka þennan mismun, sem fyrir var, og gera hann meiri með því að hækka um 25% þann taxta á húshitun, sem fyrir var, þá skuli þm. Framsfl. koma hér upp daginn eftir á Alþ. og fara að tala um þann herfilega mismun sem fyrir hendi sé og þurfi nauðsynlega að laga. Þetta gefur tilefni til þess að spyrja þennan hv. þm. og þm. Framsfl. aðra en hæstv. ráðh. — þeir hafa svarað: Eru þeir andvígir þessari hækkun, 25% hækkun á húsahitunartaxtanum sem ríkisstj. ákvað í gær? Eru þeir á móti henni eða hafa þeir samþ. hana? Ég held að það hljóti að vera, að hv. þm. Ingi Tryggvason, eftir því sem hann talaði hér áðan, hljóti að vera á móti þessari hækkun ella er ekkert samræmi í málflutningi hans.

En það er ekki bara þetta sem kemur spánskt fyrir, þegar sumir hverjir hv. þm. Framsfl. tala í þessum efnum. Hv. þm. Ingi Tryggvason gerði hér samanburð einungis á raforkuverði. Nú er auðvitað sú orka, sem hvað tilfinnanlegust er varðandi fjárútlát, það er sá kyndingarkostnaður sem er á þeim landssvæðum sem þurfa að búa við olíuupphitun á sínum híbýlum. Hann kom að vísu aðeins inn á það hér áðan, en það er þó miklu, miklu meira ranglæti, sem þar er á ferðinni, að ætla þessum íbúum, sem búa víðs vegar á Vestfjörðum, Austurlandi, Norðurlandi, að standa undir þessum drápsklyfjum vegna þess orkuverðs, sem þar er um að ræða, heldur en þó er í samanburði við annars vegar taxta frá Rafmagnsveitum ríkisins og hins vegar taxta frá t. d. Rafmagnsveitum Reykjavíkur, eins og dæmi hafa verið tekin um. En hvað hafa þá fulltrúar Framsfl. gert í þessum efnum til að minnka þennan mun sem er annars vegar milli þeirra, sem þurfa að borga olíukyndinguna, og hins vegar þeirra, sem hafa aðra hitagjafa?

Ég held ég muni það rétt, að það var 1973 sem olíustyrkurinn var upp tekinn, — það sé rétt munað hjá mér, að það væri árið 1973. Sá styrkur var til þess ætlaður eingöngu að minnka þann gífurlega mun sem var milli þeirra aðila, sem þurftu að hita hús sín með olíu, og hinna, sem gátu hagnýtt sér aðra orku. En eftir að núv. hæstv. ríkisstj. tók við völdum, allt frá árinu 1974 hefur þessi styrkur til þessara aðila, sem fyrst og fremst áttu hans að njóta og á honum þurftu að halda, sífellt farið minnkandi þrátt fyrir stórkostlega hækkun á olíuverði. Þetta gerist allt, að því er virðist, með blessun Framsfl. og kannske ætti frekar að segja undir forustu Framsfl. Það hlýtur því að vekja furðu þegar einstakir þm. Framsfl., sem ekki hefur verið vitað til að hafi æmt eða skræmt á einu eða neinu stigi þegar svona ákvarðanir hafa verið teknar, skuli koma hér upp daginn eftir að hæstv. ríkisstj. ákveður og ráðh. Framsfl. standa að því að gera þennan mismun miklu meiri en hann var fyrir. Þessi 25% hækkun á hitataxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins er samþ. af framsóknarráðh. án þess að nokkur hækkun hafi átt sér stað t. d. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem menn eru að bera sig saman við. Framsóknarráðh. standa að þessari hækkun, þrátt fyrir það að engin hækkun hafi orðið hjá öðrum rafveitum, og auka þannig muninn. Það gefur tilefni til þess að spyrja a. m. k. þennan hv. þm. og raunar fleiri þm. Framsfl. og hæstv. ráðh. hans, sem að vísu er enginn nú viðstaddur, hvort þeir hafi verið algjörlega andvígir því að fara þó fremur í hækkun á verðjöfnunargjaldinu heldur en að auka svona muninn á milli þeirra aðila, sem hér um ræðir, með þessari sérstöku hækkun á hitataxta íbúðarhúsnæðis. Vildu þeir heldur skattleggja enn frekar þessa einstaklinga, sem þurfa að nota rafmagn til húshitunar, heldur en að hækka eitthvað verðjöfnunargjaldið í heild, sem kæmi þá á fleiri aðila? Ég tala nú ekki um það, sem er auðvitað réttast og sanngjarnast, ef menn á annað borð hafa einhverja tilfinningu fyrir sanngirni nú orðið, sumir hverjir a. m. k., þá er auðvitað sanngjarnast að það verði þjóðarheildin sem heri þessar byrðar sem hér um ræðir, en ekki fyrst og fremst haldið áfram að leggja auknar byrðar á þá sem borga mest fyrir. En það er engu líkara en a. m. k. ráðh. Framsfl. hafi kosið fremur að auka byrðarnar á þeim einstaklingum, sem nota rafmagn til húshitunar, heldur en að láta alla þjóðfélagsþegna standa undir því.

Hvað sem einstökum þm. Framsfl. liður, hvort sem þeir koma hér upp fleiri en hv. þm. Ingi Tryggvason og mæla á svipaðan hátt og hann gerði, þá verður Framsfl. og hans þinglið ekki undanskilið því, að það hefur staðið að því sem hefur verið að gerast í þessum málum á undanförnum árum. Hann hefur staðið að því að minnka stórlega þann styrk, sem upphaflega var ætlaður til þeirra sem nota olíu til kyndingar sinna híbýla, og hann stendur að því nú síðast í gær að auka stórlega þann mismun og þann ójöfnuð, sem var fyrir að því er varðar orkuverð milli hinna ýmsu þegna í landinu. Þessu geta framsóknarmenn ekki af sér vikið, þessu hafa þeir staðið að.

Ég hef áður tekið það fram, og það verður aldrei of oft tekið fram, hversu gífurlegar byrðar það eru sem lagðar eru á herðar þess fólks víðs vegar um landið, sem verður að nýta olíu til upphitunar á íbúðum sínum. Hér er um svo stórkostlegan útgjaldalið að ræða, að það má furðulegt teljast að stjórnvöld, ég tala nú ekki um stjórnarþm. af þessum svæðum sem hér um ræðir, skuli bókstaflega ekkert gera annað en að láta orð um það falla einstaka sinnum að hér þurfi bót á að ráða. Það fer alltaf á verri veginn. En á sama tíma geta þessir hv. þm. Framsfl. flestir hverjir, sem betur fer ekki allir, staðið á því að selja útlendingum orku á miklu minna en kostnaðarverði, á sama tíma og á henni er í sumum tilvikum okrað á Íslendingum sjálfum. Þetta eru þeirra verk.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessi orð öllu fleiri. En aðeins út af því, sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni út af ríkisfjölmiðlunum, þá dreg ég ekkert í efa að það sé rétt, sem hann sagði hér áðan. En guð hjálpi okkur hinum, ef hv. 2. þm. Austurl. þarf að kvarta yfir því að hafa ekki fengið inni í fjölmiðlum það sem hann hefur látið frá sér fara hér á hv. Alþingi! Hvað þá með okkur hina? Það er auðvitað staðreynd og það er ekki að gerast fyrst núna, það gerðist ekki bara í gær, það er alltaf að gerast, að það er mismunandi sem fulltrúar ríkisfjölmiðlanna láta frá sér fara eftir því hver einstaklingur á í hlut eða flokkur. Það er ekki að gerast bara núna. Þetta hefur líklega gerst svo árum skiptir, eða a. m. k. hefur það gerst síðan ég fór að fylgjast með fréttaflutningi héðan frá Alþ. og getað borið hann saman við það sem fram fer hér í raun og veru. Ég segi þetta ekki til að réttlæta það, að ekki skyldi vera meira sagt frá því sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér í gær, því vissulega var margt af því athyglisvert. En sé svo komið, að hv. þm. Lúðvík Jósepsson þurfi að kvarta undan fréttaflutningi af ummælum hans hér á Alþ., hvað þá með okkur hina, sem alltaf höfum verið að verulegu leyti settir hjá. (Gripið fram i.) Ég efast um að þó að sessunautur hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar hlaupi undir bagga með honum, að það verði finnanlegt sem röksemdir, að í þessum tilfellum hafi ég talað hér meira en hv. þm. Lúðvík Jósepsson, þannig að það eru ekki rök í málinu þó að hv. þm. Lárus Jónsson vilji hlaupa undir bagga með sessunaut sínum í þessum efnum.