31.10.1977
Efri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

37. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Í framhaldi af umr. föstudaginn 26. okt. um frv. til I. um breyt. á l. nr. 8 frá 1972, um tekjustofna sveitarfélaga, á þskj. 38, vil ég þakka hv. 1. flm., 5. þm. Norðurl. v., fyrir að hafa gefið mér tækifæri til þess að kynna mér framsöguræðu hans, og vil ég leyfa mér að gera eftirfarandi aths. við málflutning hans þá.

Í frv. er gert ráð fyrir að nokkur af stærri fyrirtækjum landsins, sem hafa starfsvettvang um land allt, greiði framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í stað aðstöðugjalda í heimabyggð sinni. Í grg. er enn fremur talað um að mörg fyrirtæki hafi landið allt sem viðskiptasvæði, en í frv. sé þó aðeins gerð till. um að nokkur hin stærstu þeirra verði undanþegin greiðslu aðstöðugjalds, en greiði í þess stað landsútsvar. Frv. gerir einnig ráð fyrir að gjaldstofn til landsútsvara umræddra fyrirtækja verði hinn sami og gjaldstofn aðstöðugjalda. Út af fyrir sig er hér um frávík að ræða frá gildandi lagaákvæðum sem gera ráð fyrir allt öðrum gjaldstofnum til landsútsvara en aðstöðugjalda. Alkunnugt er að aðstöðugjöld hafa verið mjög umdeildur gjaldstofn og þótt að mörgu leyti mjög óréttlátur. Engu að síður hefur tilvist aðstöðugjalda verið réttlætt með því, að rétt sé að fyrirtæki greiði til sameiginlegra þarfa þess sveitarfélags sem búið hefur þeim aðstöðu til starfrækslu, þ.e. aðseturssveitar Fyrirtækisins. Hér er að sjálfsögðu um allt annað hugtak að ræða en kemur fram í grg. með frv. þegar rætt er ýmist um starfsvettvang fyrirtækja eða viðskiptasvæði þeirra, og mér er nærri að halda að mikill meiri hluti allra fyrirtækja í landinu telji að starfsvettvangur eða viðskiptasvæði þeirra sé ekki bundið við heimilissveitina eina. Sem dæmi má nefna hótel úti á landi, t.d. hótel á Húsavík. Óumdeilt er að hótelið starfar á Húsavík eingöngu. En hvert er viðskiptasvæði hótelsins? Fróðlegt væri að vita hvað íbúar Húsavíkur eru stór hluti af viðskiptavinum hótelsins? Með sama hætti mætti nefna ýmis önnur fyrirtæki víðs vegar um landið. En hvar liggja mörkin á viðskiptasvæði slíkra fyrirtækja?

Eins og ég nefndi áður er meginhugsun laga um tekjustofna sveitarfélaga sú, að þar skuli fyrirtækin greiða aðstöðugjöld sem þau fá fyrirgreiðslu af hálfu sveitarfélaga. Ég tel ekki rétt að fara að hræra með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir í tekjuöflunarkerfi sveitarfélaga, en mundi ekki mæla á móti því að tekjuöflunarkerfið yrði tekið upp til athugunar í heild, og rannar kann það vel að reynast nauðsynlegt í sambandi við þá endurskoðun á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga sem nú stendur yfir. Sérstök rök hafa eflaust þótt mæla með því, að þeim fyrirtækjum, sem nú eru talin upp í 10. gr. laganna, hafi verið gert að greiða landsútsvör. Hér er í fyrsta lagi um að ræða nokkur ríkisfyrirtæki sem þó er heimilt að leggja aðstöðugjöld á að nokkru leyti, í öðru lagi eru það olíufélögin og í þriðja lagi bankarnir. Olíufélögin og bankarnir hafa þá sérstöðu að viðskiptasvæði þeirra spanna ekki einungis landið allt, heldur hafa þau einnig mjög víða starfsstöðvar í bæjum og sveitum. Þannig er alkunnugt að olíufélögin reka bæði birgðastöðvar víða um landið svo og dreifingu og sölu eflaust í öllum sveitarfélögum landsins. Þegar olíufélögunum var áður gert að greiða aðstöðugjöld og þau voru lögð á um land allt mun það hafa verið eilíft deilumál, hvernig meta skyldi til álagningar starfsemi félaganna í hverju sveitarfélagi nm sig. Þessi rök munu m.a. hafa verið til þess, að sú breyting var gerð að olíufélögunum var gert að greiða landsútsvar. Með sama hætti reka bankarnir starfsstöðvar víða um landið og af þeim sökum hefur e.t.v. þótt rétt að gera þeim að greiða landsútsvar, en þá er einnig rétt að geta þess, að bankarnir greiddu ekki aðstöðugjöld áður.

Fyrirtæki þau, sem frv. gerir ráð fyrir að greiði framvegis landsútsvör í stað aðstöðugjalda, eru óvefengjanlega með viðskiptasvæði um land allt, en hafa hins vegar starfsstöð og starfsaðstöðu í ákveðnum sveitarfélögum. Sum þeirra reka hins vegar útibú eða umboðsskrifstofur víða um land, og ég geri ráð fyrir að af þeirri starfsemi sé að sjálfsögðu greitt aðstöðugjald til viðkomandi sveitarfélags. Þannig munu t.d. Flugleiðir greiða aðstöðugjald á Keflavíkurflugvelli. Ísafirði, Akureyri, Egilsstöðum, Eimskipafélagið rekur vörugeymslur í Hafnarfirði og greiðir eflaust aðstöðugjald þar í bæ af þeirri starfsemi, og fyrirhuguð er starfræksla vörugeymslu félagsins á Akureyri. Þessi félög, svo og t.d. vátryggingafélögin, reka einnig umboðsskrifstofur víða um landið, og ég geri ráð fyrir að umboðsaðilar þessir séu sjálfstæðir skattaðilar hver í sinni heimasveit og greiði þess vegna aðstöðugjöld af þeirri starfsemi sem að umræddum félögum lýtur. Ég fæ hins vegar ekki séð að frv. geri ráð fyrir að undanþiggja slíka umboðsstarfsemi greiðslu aðstöðugjalda.

Af grg. með frv. má marka, eins og einnig kom skýrt fram í framsöguræðu 1. flm., að aðstandendur frv. telja það aðeins spor í þá átt að afnema aðstöðugjöldin að mestu eða öllu leyti, en taka upp landsútsvör í þeirra stað. Af hverju stíga þeir ekki skrefið til fulls? Er það ekki stefna þessara hv. þm. að leggja bara á einn skatt sem renni til ríkisins sem skipti honum síðan á milli sveitarfélaga landsins eftir því sem miðstjórnarvaldi kann að þóknast hverju sinni? Er það ekki þeirra stefna að draga sem mest úr frumkvæði og athafnafrelsi jafnt einstaklinga sem sveitarstjórna víða um land, en efla í þess stað miðstýringuna og ríkisbáknið?

Skoðun mín hefur ávallt verið sú, að aðstöðugjaldið væri óréttlátur tekjustofn sem bæri að afnema sem allra fyrst. En meðan þessi tekjustofn er við lýði tel ég réttlátast að hann komi heim sveitarfélögum til góða sem hafa með fjárfestingu og fyrirhöfn skapað þá aðstöðu sem laðar fyrirtækin að.

Í framsöguræðu 1. flm. fór ekkert á milli mála, að frv. var einkum og sér í lagi stefnt gegn borgarsjóði Reykjavíkur. Hann nefndi tveggja ára gömul dæmi um að tekjur Reykjavíkurborgar á hvern íbúa væru nokkru hærri en tekjur annarra kaupstaða. Nú er hins vegar vitað að á síðustu árum hafa atvinnutekjur Reykvíkinga einmitt hækkað um minna en atvinnutekjur íbúa margra annarra kaupstaða. Þegar af þessari ástæðu er sá samanburður, sem hv. þm. nefndi, orðinn úreltur og því ástæðulaust að sjá ofsjónum yfir honum. Þm. nefndi sérstaklega einn fyrirtækjahóp sem greiddi einungis gjöld til Reykjavíkurborgar. Það eru dagblöðin. Taldi hann sjálfsagt að þau ættu að greiða landsútsvör fremur en aðstöðugjöld til borgarsjóðs. Ég skal upplýsa hv. þm. um að dagblöðum hefur ekki verið gert að greiða aðstöðugjöld til Reykjavíkurborgar.

Í framsöguræðu sagði 1. flm. frv., að samþykkt þess mundi leiða til einhverrar örlítillar tekjulækkunar fyrir Reykjavíkurborg, og miðaði hann þá við árið 1975 og nefndi 65 millj. kr. í því sambandi. Af þessari ástæðu vil ég einnig upplýsa að fyrirtæki þau, sem frv. fjallar um að greiði framvegis landsútsvör, greiða í aðstöðugjöld á árinu 1977 samtals 321.7 millj. Miðað við ákvæði frv. mundi hinn örlitli tekjumissir borgarsjóðs á þessu ári nema um 149 millj. og á næsta ári, miðað við eðlilega hækkun, sennilega rúmlega 200 millj.

Ég er hér með skrá yfir öll þau félög sem aðstöðugjald greiða, og er hv. 1. flm. velkomið að skoða hana. Þar kemur í ljós, — ég ætla ekki að lesa upp þann lista allan, en hann hefur auðsjáanlega gleymt að telja þarna nokkur fyrirtæki með sem samkv. hans hugmynd ættu einnig að koma inn í þá mynd sem hann málar í sínu frv. Samtals væri þá, ef ég mínusa þau fyrirtæki sem hann gleymdi að telja upp, aðstöðugjaldsgreiðslan, sem Reykjavík fengi 1977, 321 697 700 kr., en fengi samkv. því frv, og þeim hugmyndum, sem eru uppi í því frv. sem hér er til umr., 172 millj. 151 þús, kr. Sem sagt, miðað við þessa útreikninga er tapið, eins og ég gat um, nákvæmlega 148 946 700 kr. Þessi útreikningur liggur frammi ef hv. 1. flm. kærir sig um að yfirfara hann og staðreyna hvort hann er réttur.

Herra forseti. Með hliðsjón af því, sem ég hef nú sagt, legg ég til að þetta frv. verði fellt.