31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3003 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

147. mál, orkusparnaður

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hér hafa orðið allmiklar umr. undir þeim dagskrárlið sem ætlað er að fjalla um till. til þál. um orkusparnað á þskj. 308. Umr. hafa dreifst nokkuð frá dagskrárefninu, og er það tilefni þess að ég kem hingað til að segja örfá orð.

Um till. sjálfa vil ég segja eins og aðrir sem um hana hafa rætt, að tilgangur hennar er þarfur og gagnlegur og Íslendingar mættu huga meira en gert hefur verið að sparnaði í meðferð orku sem og sparnaði yfirleitt, því að hann er ekki, svo áberandi sé, í tísku í okkar þjóðfélagi.

Ég skal ekki segja neitt frekar um það, annað en að lýsa stuðningi við þann tilgang till., að athugað verði á hvern hátt komið verði við meiri sparnaði í meðferð orku en hingað til hefur verið gætt, og á ég þá bæði við erlenda og innlenda orku.

Út af þeim umr., sem hér hafa orðið um gjaldskrármál, held ég að sé rétt að rifja það upp, hvernig sú hækkun á hitatöxtum Rafmagnsveitna ríkisins, sem ákveðin var á ríkisstjórnarfundi í gær, hefur í rauninni orðið til. Hér var ekki um að ræða till. frá Rafmagnsveitum ríkisins. Hér var um að ræða till. frá n. sem skipuð var af ríkisstj. og í áttu sæti að vísu fyrrv. form. stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins, Helgi Bergs, Gísli Blöndal hagsýslustjóri og Páll Flygenring ráðuneytisstjóri iðnrn. Þær till., sem n. lagði til, voru í nokkrum liðum og að mínum dómi var a. m. k. réttlætanlegt, ef ekki sjálfsagt að líta á þær sem heildstæðar till. Þar var gert ráð fyrir í fyrsta lið 25% hækkun á hitatöxtum Rafmagnsveitna ríkisins, í öðrum lið hækkun á verðjöfnunargjaldi raforku úr 13% upp í 20%, hvort tveggja frá 1. maí n. k. Síðan voru till. um framlengingu lána og öflun nýrra lána, svo sem kunnugt er frá umr. um þessi mál hér í gærdag.

Það varð hins vegar niðurstaða í ríkisstj., og hlýtur hún að bera fulla ábyrgð á því, að samþ. var að hækka hitunartaxta RARIK um þau 25% sem till. vorn um, en synjað um hækkun verðjöfnunargjaldsins, og má þó að mínum dómi líta svo á, að þetta hafi í till. n. tengst nokkuð saman. Hér er þetta sagt einungis til þess að rifja upp hvernig þessa hluti bar að og hvernig þeir voru ákveðnir, og má líta svo á að ég segi þessi orð í tilefni af því að hér hafa orðið nokkur orðaskipti um þessi efni.

Ég lít svo til, að sú hækkun, sem hér er ákveðin á hluta af gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins, sé það mikil og feli í sér að verð á þessum þætti af orkusölu RARIK verði það miklu hærra en er frá ýmsum öðrum orkusölufyrirtækjum í landinu, að ekki muni unnt að láta það standa til frambúðar. Ég lít svo á, að hér sé um tímabundna lausn að ræða til þess að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins til loka þessa árs, og skortir verulega á að það hafi verið gert til fulls eða sem svarar 235 millj. kr. Hins vegar vil ég ítreka það sem ég sagði hér í gær, að í sambandi við þá miklu fjármagnsbagga, sem á herðum Rafmagnsveitna ríkisins hvíla, þá verður ekki undir þeim staðið með gjaldskrárhækkunum til frambúðar og jafnvel ekki heldur með hækkun verðjöfnunargjalds. Þar þarf annað að koma til. Ég ræddi það örlítið í gær og var nokkuð í samræmi við það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði áðan. Það verður að koma til að létta hluta af þessum gífurlega fjármagnskostnaði af rekstri RARIK, þannig að hægt sé að láta venjulega orkusölu standa undir því sem eftir er. Um þetta eru raunar þegar fordæmi í okkar landi í nýlegri löggjöf, og á ég þar við lög um Orkubú Vestfjarða, þar sem verulegum meiri hluta af þeim fjármagnskostnaði, sem ella hefði fallið á Orkubúið, er létt af og fært yfir á herðar ríkissjóðs, eða, eins og það var að forminu til gert, á herðar Orkusjóðs. Þar er því fordæmi, og ég tel að þurfi að huga gaumgæfilega að því, hvort ekki finnast möguleikar þegar gengið verður næst til afgreiðslu fjárl. að taka einhvern hluta, ég skal ekki segja hve mikinn, en nokkurn hluta af þeim skuldabagga, sem á Rafmagnsveitum ríkisins hvílir, yfir á herðar þjóðfélagsins í heild til þess að unnt sé að reka fyrirtækið með venjulegri orkusölu og þeim tekjum, sem það getur þannig aflað sér.

Þetta taldi ég rétt að láta koma hér fram, vegna þess að ég legg á það áherslu, að ekki er unnt við það að búa, að svo mjög vaxi mismunur á orkuverði og gerst hefur að undanförnu á milli einstakra orkusölusvæða.