31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

147. mál, orkusparnaður

Stefán Jónason:

Herra forseti. Ég vil nú sem aðrir hv. þm. lýsa yfir stuðningi mínum og ánægju með þá þáltill., sem hér er til umr., og taka undir margt af því sem hv. frsm., Benedikt Gröndal, sagði í framsöguræðu sinni. Það er efalaust, að við getum sparað orku í stórum stíl á landi hér og sá sparnaður kemur, eins og að líkum lætur, ekki aðeins til hagsbóta fyrir þá einstaka borgara, sem nota hina dýrustu orku, þar sem olían er, til þess að kynda upp einkahíbýli sín, heldur einnig til góða fyrir þjóðfélagið í heild. Það er raunar nokkuð undarlegt, að ekki skuli hafa verið lagt fé og vinnuafl í það fyrir löngu að framkvæma ítarlega rannsókn af þessu tagi, ekki síst vegna þess að ýmsir af sérfræðingum okkar hafa þegar bent á stórkostlega ónotaða möguleika í nýtingu á hitaorkunni okkar. Fyrir liggja áætlanir um útflutning á heitu vatni til Skandinavíu með tankskipum sem nú liggja ónotuð í norsku fjörðunum, — útflutning á heitu vatni, sem eftir því sem sérfræðingar segja mér nú mundu borga sig, til þess að hita upp stórborgir Skandinavíu og Vestur-Evrópu. Það mundi borga sig miðað við olíuverð nú að flytja út heitt vatn með stórum tankskipum frá Íslandi til Gautaborgar. Það mundi borga sig, miðað við olíunotkun. Þá vaknar þessi spurning: Kynni þá ekki e. t. v. að borga sig að flytja heitt vatn í tankskipum til sjávarplássanna okkar fyrir austan og vestan, þar sem ekki er tiltækt heitt vatn? Mundi þá ekki enn þá fremur borga sig að flytja þetta vatn um skamman veg til upphitunar húsa?

Spurningarnar, sem vakna í þessu máli, eru ákaflega margar, og herra forseti, það ætla ég að til sanns vegar megi færa, að umr. um orkusparnaðinn snerti mjög einmitt það mál sem hér hefur nú verið mest rætt í dag, þ. e. a. s. orkuverðið í landinu sjálfu, og að þeir hv. þm., sem að vísu orðlengdu miklu meira um raforkuverðið á landi hér, hafi verið harla nærri anda þessarar till., þó ég fallist e. t. v. ekki á það með öllu, að aths. hv. þm. Karvels Pálmasonar um að hann hefði að öllum líkindum talað oftar og lengur hér úr ræðustól í vetur en hv. þm. Lúðvík Jósepsson, heyri beinlínis undir umr. um hugsanlegan orkusparnað.

Ég hlýt að taka undir það sem hv. þm. Karvel Pálmason og hv. þm. Lúðvík Jósepsson sögðu um dálítið hæpna stöðu hv. þm. Framsfl. sem hér hafa tekið til máls við umr. nú, þeirra Inga Tryggvasonar og Tómasar Árnasonar. Mér er það að vísu fulljóst og ég dreg það ekki í efa, að hv. þm. Ingi Tryggvason mæli af fullkomnum heilindum þegar hann lýsir yfir stuðningi sínum við þá stefnu, að raforka verði seld á sama verði um allt land. En þessi yfirlýsing hans er að gefnu hálfneikvæðu tilefni, þegar hún kemur daginn eftir að flokkur hans og sú ríkisstj., sem hann styður, hefur hækkað raforkuverð til húsahitunar á Norðausturlandi um upphæð sem mun nema í kringum 80 þús. kr. á meðalfjölskyldu á ári. Þá þegar daginn eftir lýsir hv. þm. yfir eindregnum stuðningi sínum við það, að raforka verði seld á sama verði um land allt. Þetta er að vísu gömul „taktík“ af hálfu þeirra framsóknarþm., og hvarflar nú að manni, minnugum þess þegar forustumaður Framsfl. vitnaði í Pál postula upp á það, að hin pólitíska afstaða skyldi vera já, já og nei, nei, hvort enn muni leiðarljósið sótt til Páls og þá e. t. v. í þann kapítulann þar sem hann vitnar í hinn klofna siðferðilega persónuleika og sagði: „Hið góða, sem ég vil gera, það geri ég ekki, en hið illa, sem ég ekki vil gera, það geri ég.“

Afstaða af þessu tagi í kjölfar ráðstafana eins og þeirra, sem gerðar voru í gær af hálfu hæstv. ríkisstj. með stuðningi hv. þm. Inga Tryggvasonar og Tómasar Árnasonar, þegar verðlag á raforku til húsahitunar er hækkað um upphæð sem samsvarar um 80 þús. kr. fyrir meðalfjölskyldu, birtist í því, að þeir skuli þá koma upp og lýsa yfir hryggð sinni einni saman, þó einlæg kunni að vera, yfir því sem þeir gerðu í gær og einlægum vilja til að gera hið gagnstæða þegar færi gefst. Hvenær gefst slíkt færi, ef hv. þm. halda áfram að þjóna hinu geðklofapólitíska hlutverki sem þeir virðast nú gera? Eigum við að skilja þetta svo, að slíka stefnu muni þeir styðja þegar næst verður mynduð vinstri stjórn, eða hver er raunveruleg stefna Framsfl. í þessum málum? Jú, því hefur áður verið svarað til af hálfu forustumanna flokksins almennt, þegar rætt er um pólitíska stefnu, að vitaskuld hafi Framsfl. sína pólitísku stefnu, þegar hún hlýtur meðbyr meðal kjósenda, þá fylgi hann henni, — þetta er rétt, — en þegar einhver önnur stefna verður ofan á og hlýtur byr, þá fylgi Framsfl. þeirri stefnu.

Við megum vænta þess, eins og fram hefur komið, að enn meir verði hert að því fólki, sem býr á orkusölusvæði Rafmagnsveitna ríkisins, á næstu mánuðum til þess að rétta við fjárhag þeirrar stofnunar. Þetta hefur verið boðað. Og nú skora ég á þm. Framsfl. að láta það ekki koma eins flatt upp á sig og vera búna fyrir fram að taka ákvörðun um að standa gegn því, að álögur á þetta fólk verði auknar.

Og svo aðeins þetta í lokin: Ég hygg að andi þáltill. þeirrar, sem hér er um að ræða, hnígi mjög í þá átt að gera okkur kleift að lækka orkuverð í landinu og að jafna það.