03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3026 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

213. mál, þroskaþjálfar

Helgt F. Seljan:

Herra forseti. Ég var ekki viðstaddur 2. umr. þessa máls, en af vissum ástæðum taldi ég rétt að segja um það örfá orð, ekki til að tefja frv., ég hlýt að styðja þetta frv. eindregið. Það er aðeins ábending, sem ég fékk frá aðila sem er þessum málum kunnugur, sem kom mér til þess að segja hér örfá orð almennt, bæði um frv. og eins koma á framfæri þeim ábendingum sem þessi aðili kom á framfæri við mig.

Ég tek það fram, að það er mikilvægt að þessi stétt manna fái fulla viðurkenningu á sínum starfsréttindum, þó ekki séu þarna að mínum dómi e. t. v. nógu skýr mörk á milli, hvort um heilbrigðisstétt sé að ræða eða stétt sem fremur á skylt við menntun, uppeldi og tilheyri fremur menntamálum. En það er ekkert aðalatriði. Meðan Kópavogshælið er aðalmiðstöð allrar starfsemi varðandi þroskahefta, svo sem er samkvæmt núgildandi lögum, þá er hér auðvitað um heilbrigðisstétt að ræða öðru fremur samkvæmt þeirra laga hljóðan. Um heildarlöggjöfina, sem þetta byggist m. a. á, skal ég ekki fjölyrða hér. En ég held að þroskaþjálfar öðrum fremur, einmitt vegna reynslu sinnar og þekkingar, leggi á það höfuðáherslu að fá löggjöf sem geri þeim kleift að sinna hlutverki sínu enn betur til aukinnar þroskunar þeirra einstaklinga sem þeim eru faldir til umönnunar. En hér er ekki staður til umr. þar um, enda meira mál en svo.

Í öðru lagi vil ég láta í ljós mikla ánægju með þróun Þroskaþjálfaskólans og þeirrar síauknu starfsþjálfunar sem þar er nú veitt. Það er ljóst, að þar ráða ferð framsýnir vel menntir aðilar sem í hvívetna fylgjast vel með í örri framþróun þeirra mála í heild og koma nýrri, vitneskju og nýjum aðferðum vel og rækilega á framfæri við nemendur sína.

Í þriðja lagi vil ég svo leggja áherslu á það, að þroskaþjálfar fái hvarvetna sem besta starfsaðstöðu til að kraftar þeirra og hæfileikar nýtist sem best. Þetta á ekki hvað síst við um aðalstöð þessara mála í dag, þ. e. a. s. Kópavogshælið. Þroskaþjálfaskortur er minnkandi, ef svo má segja. Þeir, sem nú eru í starfi, verða að eiga þess kost að hafa aukið frumkvæði í umönnunar- og uppeldisstörfum sínum og njóta sín í starfi. Er vonandi að svo sé alls staðar. Það þarf að auka mjög samband og samstarf sérkennara og þroskaþjálfa og ekki síður samstarf og samvinnu þessara aðila við aðstoðarfólkið á stofnununum, sem oft vinnur þar erfiðustu og e. t. v. vandasömustu störfin. Það fólk vill ráðgjöf og samhjálp, og vonandi er hvort tveggja í góðu lagi.

En tilefni þessara orða minna hér er í raun og veru það sem ég sagði áðan, langt og ítarlegt viðtal sem kona ein átti við mig rétt fyrir páskana. Hún hefur verið aðstoðarkona á stofnun í hálfan annan áratug og gjörþekkir þessi mál. Hún hefur af eigin rammleik og án þess vitanlega að hækka nokkuð í launum við það eða fá meiri viðurkenningu viðað að sér mikilli þekkingu um málefni þroskaheftra og gæti eflaust slegið einhverjum sérlærðum við í þeim efnum. Hún fagnaði þessu frv. Hún fagnaði því, að þroskaþjálfar fengju aukin og sjálfstæðari verkefni í kjölfar þessarar löggildingar sinna starfsréttinda. En hún sagði ýmislegt fleira sem ekki verður allt tíundað hér. Hún ræddi sér í lagi um nauðsyn þess, að aðstoðarfólk á þessum stofnunum fengi aukna fræðslu um hlutverk sitt og þá möguleika sem það hefði til þess beinlínis að hafa þroskandi og örvandi áhrif á það fólk sem það ætti að annast. Á því væri vissulega misbrestur sem væri mjög alvarlegur þegar þess væri gætt, hve samskipti aðstoðarfólksins og vistfólksins væru mikil daglega. Hér vildi hún láta þroskaþjálfana, sérkennarana, sálfræðingana og félagsráðgjafana, sem allir starfa hér að, fá aukin verkefni sem svo skiluðu sér margfaldlega aftur í starfi þessa sérlærða fólks og þó alveg sérstaklega í þroska, framförum og vellíðan vistfólksins. Þessi kona taldi að það væri þörf á því, að það aðstoðarfólk, sem ynni á þessum stofnunum, fengi einhver námskeið eða einhverja fræðslu, þegar það væri að byrja á slíku starfi, til þess að starf þess nýttist sem allra best. Það er nefnilega svo, að á sumum þessara stofnana og ég tala nú ekki um á aðalstofnuninni, á Kópavogshæli, er yfirgnæfandi fjöldi af starfskröftunum hið svokallaða ólærða aðstoðarfólk. Og mér þóttu þessi orð allrar athygli verð.

Ég vildi sem sagt mega beina þessum orðum til hæstv. ráðh. Ég skal ekki lengja þessar umr. Það væri vissulega þarna af nógu að taka, en ég held að þessi kona hafi þarna af sinni miklu þekkingu og reynslu drepið á atriði sem er mikillar athygli vert, þó við séum að bæta við og auka menntun þess hóps sem verður þarna auðvitað í forsvari, verður með aðalleiðsögnina á hendi, þroskaþjálfanna, og einnig þeirra sérkennara sem nú eru að taka síaukinn þátt í starfsemi þessara stofnana.

Lokaorð þessarar ágætu konu voru þessi: Hjálpið okkur að virkja alla sem við stofnanir þroskaheftra starfa, bæði lærðra sem ólærðra, til þess að útrýma með öllu geymslu- og gæsluhugsuninni, en fá í staðinn þroskun og þjálfun sem allir, sem þarna vinna að, gætu unnið að í sameiningu.