03.04.1978
Efri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3028 í B-deild Alþingistíðinda. (2238)

121. mál, áfengislög

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var til afgreiðslu hjá allshn. þessarar hv. d., sem ég á sæti í, lýsti ég þeirri afstöðu minni í sambandi við ákvæði þess frv., sem hér er til umr., að það eina, sem ég gæti út af fyrir sig fylgt í sambandi við þau ákvæði sem þetta frv. inniheldur, er sú sjálfsagða leiðrétting, að upphæð skattsekta verði leiðrétt. Það gefur auga leið, að núgildandi sektarákvæði eru fyrir löngu orðin úrelt og því ekki óeðlilegt að sú breyting verði gerð á áfengislögunum sem tilgreind er í 5. gr. þessa frv. við 2. málslið: „Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af útsöluverði sambærilegs áfengis hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.“ Þetta er eina ákvæðið í þessu frv. sem ég er samþykkur.

Ég benti á í n. að öll áfengislöggjöfin væri fyrir löngu orðin úrelt og algerlega óviðunandi, og ég hef lýst þeirri skoðun minni áður í þessari hv. d., að ég tel einmitt að til þeirra staðreynda, hversu illa hefur verið búið að áfengislöggjöf þjóðarinnar og framkvæmd þeirrar löggjafar, megi rekja margar ástæður þess hörmulega ástands sem ríkir í áfengismálum þjóðarinnar, svo að eitt af því allra nauðsynlegasta, sem liggur fyrir, er að taka núgildandi áfengislög til gagngerðrar endurskoðunar, og ég tel að ekki ætti að draga það úr hömlu.

Ég minnist þess, að á síðasta Alþ. var borinn fram allviðamikill frv.- bálkur um breytingar á áfengislöggjöfinni. Ég flutti brtt. við frv. Örlög þessa frv. urðu þau, að frv. fór til n. En eftir að brtt. mín hafði séð dagsins ljós var eins og horfinn væri allur áhugi á því að koma fram umræddu frv., sem þó innihélt að mínu áliti mörg skynsamleg ákvæði um breytingar á núverandi áfengislöggjöf sem hefðu vissulega getað orðið til bóta, sem sagt áhugi nm. á því, að frv. fengi þinglega afgreiðslu, virtist fara veg allrar veraldar, því að frv. fékkst ekki lengur tekið fyrir í n. og var aldrei afgreitt þaðan. Þetta sýnir m. a. í hvaða óefni er komið og í hvaða sjálfheldu við erum í sambandi við þessi viðamiklu mál, sem allir viðurkenna að séu eitthvert stórkostlegasta vandamálið með þjóðinni. En það er eins og það sé ríkjandi skoðun, að ekki megi taka á þessum málum af skynsemi og sæmilegri íhygli, heldur þarf þetta að vera einhvern veginn umfjallað af einhverri skinhelgi og yfirdrepsskap, eða svo hefur mér oft fundist.

Herra forseti. Ég vil aðeins með þessum orðum undirstrika, að þó að ég hafi ekki skrifað undir þetta nál. með fyrirvara og hafi ekki flutt brtt. við þetta frv., þá ber ekki að skoða það svo, að ég sé samþykkur því á neinn hátt að öðru leyti en því sem ég hef nú gert grein fyrir og mun ég greiða atkv. við meðferð frv. samkv. því sem ég hef nú rætt.