03.04.1978
Neðri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3038 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

103. mál, gjaldþrotalög

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Hæstv. forseti. Frv. til gjaldþrotalaga hefur verið lagt hér fram í hv. d. og var á sínum tíma vísað til allshn. til frekari umfjöllunar. Nú hefur allshn. skilað frá sér nál. ásamt allmörgum brtt. við þetta frv. Sá háttur var hafður á við athugun á frv. að kalla saman allshn. beggja deilda og lesa yfir frv., og tel ég að þau vinnubrögð séu til bóta þegar um það er að ræða að kanna og fara yfir svo viðamikið frv. sem hér um ræðir. Þá var haft náið samráð við höfund frv., Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómara, svo og við Stefán Má Stefánsson settan prófessor, sem hefur góða þekkingu á þessu máli og m. a. kennir það við lagadeild háskólans. Báðir þessir menn áttu þátt í samningu frv. og veittu góð ráð þegar n. fjallaði um frv., og voru höfð full samráð við þá þegar gengið var frá brtt. af hálfu nefndarinnar.

Þetta frv. er löngu tímabært, vegna þess að lög um gjaldþrotaskipti eru orðin allgömul hér á landi. Þau voru á sínum tíma sniðin eftir dönskum lögum og hafa að vísu tekið nokkrum breytingum frá því í fyrstu, en eru að stofni til hin sömu og þau voru sett hér fyrst, þ. e. a. s. 1894, og sú lagagerð var sniðin eftir dönskum lögum frá 1872. Má því augljóslega sjá að hér er þörf breytinga, enda hefur gjaldþrotamálum verið mjög illa komið í mörg ár, þar sem meðferð slíkra mála hefur verið þunglamaleg og seinvirk og búsmeðferðin í litlu samræmi við umfang málanna, kostnaður og vinna oft allmikil, en uppskera ekki alltaf í samræmi við kostnaðinn eða vinnuna, sem í er lögð. Þar að auki má segja að hagsmunir gerðarbeiðanda hafi ekki verið nægilega tryggðir í núgildandi löggjöf. Það hefur verið mat allra þeirra, sem með þessi mál fara og eru þeim kunnugir, að hér hafi þurft úrbóta við og knýjandi nauðsyn að gera róttækar breytingar á löggjöfinni, enda kemur það fram í þeim umsögnum sem n. hafa borist um þetta frv. Allir þeir, sem hafa tjáð sig um það, eru þess mjög fýsandi, að þetta frv. nái fram að ganga. Það var leitað umsagna hjá allmörgum aðilum, en eftirtaldir aðilar skiluðu hins vegar skriflegum umsögnum: Dómarafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands, lagadeild háskólans og skiptaráðandi á Akureyri. Þessir aðilar allir mæltu með því, að frv. yrði samþykkt í öllum aðalatriðum, gerðu einstakar aths., m. a. Lögmannafélag Íslands, en þó var tekið fram í umsögn þeirra, að aths. þeirra jafngiltu þó ekki því, að þeir væru andvígir frv., þó að aths. næðu ekki fram að ganga.

Í frv. felast nokkrar meginbreytingar sem rétt er að telja upp.

Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að meðferð búa, sem eru talin minni háttar, hverfi til sérstaks bústjóra, sem sé skipaður hverju sinni.

Í öðru lagi, að kostnaður af starfi þessara bústjóra eða annarra þeirra sem gegna slíkum störfum, svo sem skiptastjóra eða aðstoðarmanns skiptaráðanda, sé greiddur af fé þrotabúsins.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því, að hægt sé að ákveða greiðslustöðvun, fara fram á hana og ákveða greiðslustöðvun undir þeim kringumstæðum að það sé mat bæði lánardrottna og kröfuhafa að hagsmunum allra aðila sé fyrir bestu að slík greiðslustöðvun eigi sér stað. Þessi greiðslustöðvun orkar e. t. v. nokkurs tvímælis. Hún getur undir vissum kringumstæðum leitt til þess, að skuldarar notfæri sér þetta lagaákvæði til þess að sjá því á frest að greiða kröfur og að skjóta sér undan ábyrgð, en þó hefur n. komist að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að gera þessa tilraun, enda er hún í samræmi við lagaákvæði, sem gilda á Norðurlöndum, og hefur reynst vel eftir atvikum. Þar að auki má benda á að í frv. er gert ráð fyrir því, að ýmsir varnaglar séu slegnir til þess að koma í veg fyrir þessa misnotkun, og þar að auki hefur n. nú enn til frekara öryggis gert brtt. um að ekki megi biðja um greiðslustöðvun, ef hún hefur átt sér stað áður innan tilskilins tíma.

Í fjórða lagi eru bústjórum eða þeim, sem annast búskiptin, gefnar mun frjálsari hendur um meðferð búsins en nú er, og ætti það að flýta fyrir afgreiðslu þeirra.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því, að riftun á ráðstöfun þrotamanns og vissar fullnustugerðir lánardrottna verði greiðari en nú er, sem jafnframt ætti að greiða fyrir afgreiðslu mála.

Og í sjötta og síðasta lagi eru í frv. mörg ákvæði sem miða að því að leysa úr vafaatriðum og einfalda alla skiptameðferð. Fyrir víkið verður þessi löggjöf, ef frv. verður samþykkt, nokkru ítarlegri en sú, sem nú er í gildi, og oft farið út í smærri atriði en nú er fjallað um í löggjöfinni. En þetta ætti þó að verða til þess að auðvelda og einfalda málarekstur og taka af vafa um það, hvernig með mál skuli fara.

Á þskj. 445 eru ásamt nál. prentaðar brtt., sem n. hefur leyft sér að flytja. Ég held að það sé ástæðulaust fyrir mig að fara að tíunda þessar brtt. allar, enda eru þær fjölmargar. Þær eru margar hverjar til leiðréttingar og til enn frekari glöggvunar á ákvæðum frv. Þær eru samdar með hliðsjón af þeim umsögnum sem hafa borist, m.a. frá lagadeild háskólans, Lögmannafélaginu og Dómarafélaginu, og eru samdar í fullu samráði við höfund frv. og með samþykki hans. Hæstv. rn. á jafnframt að vera kunnugt um þessar brtt., og n. hefur ekki heyrt aths. þaðan um þær. Ég held því, hæstv. forseti, að það sé eftir atvikum ástæðulaust fyrir mig að hafa frekari orð um hetta frv. og nál. allshn., en með þessari grg. og með því að leggja fram nál. mælir n. með samþykkt frv. með þeim brtt., sem hér eru gerðar.