03.04.1978
Neðri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3057 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Í framsöguræðu hæstv. viðskrh. fyrir því frv., sem hér er til umr., sagði hann að frv. væri flutt til þess að efna loforð, sem hæstv. ríkisstj. gaf í stjórnarsáttmálanum þegar núv. ríkisstj. var mynduð í ágústmánuði 1974. Athygli hlýtur að vekja, að efndir á þessu loforði í stjórnarsáttmálanum eru með þessum hætti, að frv. um þetta mikilvæga mál er fyrst lagt fram nú, þegar líður á seinni hluta þinghalds á síðasta þingi fyrir kosningar. Mér sýnist líka að margt bendi til þess, að hæstv. ríkisstj. geri sér ekki miklar vonir um, að þetta frv. nái fram að ganga á þinginu, og hér sé um leið við það miðað eingöngu að leggja þetta frv. fram, en ekki að í rauninni sé til þess ætlast að frv. nái fram að ganga. Kemur einnig greinilega fram í grg., sem fylgir frv., að það virðist eiga litlu fylgi að fagna hjá mörgum þeim sem málið snertir þó æðimikið. Satt að segja fannst mér líka koma fram á óbeinan hátt í ræðu hæstv. viðskrh., sem talaði fyrir frv., að margt væri óljóst hjá honum sjálfum í sambandi við innihald frv. og mikill og sterkur fyrirvari á því, hvernig framkvæmdin gæti orðið.

Ég vík þá að nokkrum meginatriðum, sem felast í þessu frv.

Það er tvímælalaust rétt, sem kom fram í framsöguræðu hæstv. viðskrh., að meginefni þessa frv. felst raunverulega í 8. gr. þess, en þar er því lýst yfir, að verðlagning skuli vera frjáls þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun. Það er enginn vafi á því, að í þessari grein felst það sem telja má verulega nýjung í sambandi við það mál sem um er að ræða. Þarna er lýst yfir ákveðinni stefnu varðandi verðlagningarmál, þar sem beinlínis er ákveðið að verðlagningin skuli vera frjáls, þó að það atriði sé skilyrðum bundið. Síðan er að vísu í þessari sömu grein gert ráð fyrir því, að verðlagsnefnd geti ákveðið hámarksverð og hámarksálagningu, fyrirskipað ákveðna gerð verðútreikninga og jafnvel fyrirskipað ákveðna verðstöðvun tiltekið tímabil. Samt sem áður er ljóst, að ekki er ætlast til þess samkv. þessari grein, að vinnubrögð í þessa átt verði nema í undantekningartilfellum. Um þetta atriði segir í 10. gr. frv., að ákvæðið í 8. gr., sem varðar það að sett sé hámarksverð á vöru og hámarksálagning ákveðin, og eins það atriði sem snertir fyrirskipun og gerð verðútreikninga, þessi atriði eigi, þegar til þeirra er gripið, aðeins að gilda stuttan tíma. Meginreglan á því að sjálfsögðu að vera sú, að verðlagning skuli vera frjáls.

Ég hygg að allir, sem lesa þessa grein og hugsa um þessi mál og vita, hvernig þessum málum hefur verið fyrir komið hjá okkur um margra ára skeið, hljóti, þegar stefnumörkun eins og þessi kemur fram, að velta því fyrir sér, hvernig ætlunin sé að standa að því að framkvæma þetta atriði. Ég tók eftir því, að hæstv. viðskrh. gaf enga skýringu á því í ræðu sinni, hvað yrði um að ræða í framkvæmd, því a15 auðvitað kallar skilyrði eins og þetta, að álagning skuli vera frjáls þegar samkeppni er nægileg til þess að tryggja æskilega verðmyndun, á vissa skýringu á því hvað átt sé við með orðunum „nægileg samkeppnisaðstaða“. Ég vil t. d. spyrja hæstv. ráðh., sem að sjálfsögðu hefur hugsað um þetta mál, hvernig þetta yrði framkvæmt, hvernig yrði litið á þessi mál miðað við núverandi aðstæður. Mundi hann telja miðað við ástandið núna í verslun almennt — við skulum taka fyrst sem dæmi matvöruverslunina — að ríkjandi sé nægileg samkeppnisaðstaða til þess að verðlagningin eigi að vera frjáls? Nú spyr ég hæstv. ráðh. um þetta og við þessu þarf auðvitað að fá alveg ákveðin svör. Við vitum hvernig ástatt er hjá okkur nú varðandi t. d. matvöruverslun í landinu. Er þar ríkjandi nægileg samkeppnisaðstaða til þess, að samkv. þessu atriði eigi að gefa álagninguna frjálsa? Eða efast kannske hæstv. ráðh. um að svo sé? Ég spyr einnig, — því að hægt er að taka miklu fleiri greinar, sem ómögulegt er annað en hæstv. ráðh. hafi gert sér fulla grein fyrir, þó að hann víki sér undan því að gefa skýringar um þessi atriði í sinni framsöguræðu, — telur hann að sú aðstaða sem við búum við í dag, t. d. varðandi sölu á rafmagnstækjum, vefnaðarvörum, byggingarvörum, búsáhöldum og húsgögnum, svo að nokkur dæmi séu tekin, — telur hann nægilega samkeppnisaðstöðu í þessum greinum verslunar í dag til þess að gefa eigi verðlagninguna frjálsa? Að mínum dómi hefði hæstv. ráðh. að sjálfsögðu átt að gera grein fyrir þessu í framsögu sinni fyrir málinu, því að máli skiptir að vita um þessi atriði. Hitt gat verið fyrirgefanlegt, að það fylgdi ekki svo nákvæm skýring að hún næði yfir öll svið verslunarinnar. En þetta eru aðalsviðin sem ég hef nefnt. Hægt á að vera að svara því á afgerandi hátt, hvort viðskrh. telur að í þessum greinum sé um nægilega samkeppnisaðstöðu að ræða, þannig að hægt sé að gefa verðlagninguna frjálsa. Eða kemur það inn í myndina, sem hann minntist aðeins á í sínu máli, að vegna þess að hér ríki mikil verðbólga, miklar og örar verðbreytingar, þá sé ekki um nægilega samkeppnisaðstöðu að ræða og af þeim ástæðum ekki hægt að gefa álagninguna frjálsa?

Í þessu sambandi koma að sjálfsögðu upp miklu fleiri spurningar. Við vitum að í Reykjavík og í nokkrum öðrum stórum kaupstöðum landsins, en þó einkum í Reykjavík er hægt að tala um talsverða samkeppni í allmörgum greinum verslunar ef samkeppnin þá kemur fram í framkvæmd. Ég hygg að hægt sé að fullyrða, að í nokkrum greinum sé ríkjandi nokkur samkeppni. Þannig hefur t. d. verið skýrt frá því, að nokkrar stærstu matvöruverslanir í bænum hafi sannanlega selt sínar vörur talsvert undir lögleyfðri álagningu, ef tekið er meðaltal, ýmist gefið formlegan afslátt, eins og sum þessi verslunarfyrirtæki hafa gert, eða auglýst verulegan afslátt frá gildandi hámarksálagningarverði sem verðlagsyfirvöldin hafa tilkynnt. Það hefur því í sumum greinum átt sér stað, þrátt fyrir þær reglur sem gildandi hafa verið hjá okkur um hámarksálagningu, samkeppni sem orðið hefur til þess að verðlag hefur verið nokkuð undir því hámarki sem verðlagsyfirvöld hafa sett. Hitt vitum við auðvitað, að miklu algengara hefur verið að fulltrúar verslunarinnar í landinu hafa kvartað undan því, að hámarksálagningarreglurnar væru of þröngar, heimila þyrfti meiri álagningu, hærri álagningu. Sérstaklega hefur borið á þessu t. d. þegar gengisbreytingar hafa gengið yfir. Þá hefur venjulega verið gripið til þess, að áður gildandi hámarksálagning hefur verið lækkuð nokkuð þegar gengið lækkar. Verslunin hefur mótmælt slíkum lækkunum og því hefur mjög verið haldið fram, að hámarksálagningin væri of lág. Þess vegna verður að telja, miðað við allar upplýsingar sem fyrir liggja, að líkleg væri — a. m. k. á fyrsta spretti — talsverð hækkun á álagningu frá því sem verið hefur og þar af leiðandi verðhækkun.

Þegar rætt er um meginskilyrði fyrir frjálsri álagningu þ. e. a. s. að samkeppnisaðstaða sé fyrir hendi, kemur líka upp sú spurning, hvernig beri að skilja þetta þar sem verulegur aðstöðumunur er á hinum ýmsu stöðum á landinu. Þessu er t. d. á þann veg háttað, eins og ég greindi frá, varðandi stórar matvöruverslanir í Reykjavík, að sannað er að þær hafa selt vörur í allríkum mæli undir lögleyfðri álagningu, vegna þess að hér hefur verið ríkjandi nokkur samkeppni. En margir aðrir staðir á landinu eru þannig settir, að þar er aðeins um eina matvöruverslun að ræða. Telst þar vera nægileg samkeppnisaðstaða? Eða getur það verið, að ætlunin sé að heimila frjálsa álagningu — t. d. á matvörum — í Reykjavík, en hins vegar yrði að gilda hámarksálagning á svipaðan hátt og nú er í gildi á fjöldamörgum öðrum stöðum, t. d. úti á landi, vegna þess að þar sé ekki sú samkeppnisaðstaða sem rætt er um í frv.? Nú spyr ég hæstv. viðskrh.: Er ætlunin að standa þannig að framkvæmd þessara mála, að um geti verið að ræða frjálsa álagningu á vissum stöðum á landinu, en álagning yrði bundin í alveg hliðstæðri verslunargrein annars staðar á landinu, þar sem ekki er um að ræða samkeppni? Hæstv. viðskrh. vék ekki að þessum atriðum á neinn hátt í ræðu sinni. Auðvitað er nauðsynlegt að þetta komi fram.

Það eru miklar deilur uppí um það, eins og hæstv. ráðh. vék nokkuð að, hvort það fyrirkomulag, sem við höfum búið við í þessum efnum nú um nokkurra ára skeið, hefur tryggt okkur það eftirlit með álagningu, sem til var ætlast, eða hvort svonefnd frjáls álagning gæti e. t. v. aukið á samkeppni á milli verslana frá því, sem nú er, og þannig haft áhrif til verðlækkunar. Ég vil taka fram, að skoðun mín er sú, að kerfið, sem við höfum búið við í þessum efnum nú um margra ára skeið, sé stórgallað og gera þurfi á því verulegar breytingar. Ég held að allir þeir, sem hafa haft með framkvæmd þessa kerfis að gera, hafi ekki notfært sér í framkvæmd þær heimildir, sem lögin raunverulega bjóða, til þess að laga þetta kerfi meira við þær aðstæður sem upp hafa verið að koma. Það er t. d. skoðun mín, að mjög lítið samræmi sé orðið hjá okkur í hámarksálagningunni milli einstakra vörugreina, eins og hún er ákveðin í reglugerðum. Ég býst við að færa megi allsterk rök fyrir því að í einstaka greinum sé hin tilskilda hámarksálagning orðin í það knappasta, en sú er einnig mín skoðun, að í mörgum öðrum greinum sé hámarksálagningin mjög rífleg, sem m. a. hefur sannast á því, að þeir aðilar, sem búa við hana, hafa getað selt ódýrara í mörgum greinum en reglurnar segja til um.

Ég álít því að full þörf hafi verið á því að taka núgildandi lög til endurskoðunar og einnig og sérstaklega framkvæmdina. Ég legg áherslu á, að fyrst og fremst var um það að ræða að mínum dómi, að huga þurfti að framkvæmdinni og gera vissar breytingar á henni. Því fer hins vegar fjarri, að ég sé sannfærður um að það rétta sé, miðað við núverandi aðstæður, að gefa álagninguna frjálsa í verulega ríkum mæli. Ég dreg mjög í efa að slíkt væri til góðs, enda tel ég allar líkur benda til þess, af þeirri reynslu sem fyrir liggur í sambandi við þær vörugreinar sem njóta frjálsrar álagningar, að slíkt skipulag mundi beinlínis leiða til hækkandi verðlags. Og mér sýnist, ef ætlunin er — ég segi: ef, vegna þess að mér sýnist margt benda til þess að það sé réttmætt að segja ef, — ef ætlunin er að gefa verulegum hluta verslunarinnar við núverandi aðstæður álagninguna frjálsa, þá held ég að ekki séu aðstæður til slíks, nema þá menn séu við því búnir að taka við veralega hækkandi verðlagi.

Þá galla, sem hafa komið fram á gildandi kerfi í þessum efnum, var vitanlega hægt að sníða af án þess að fara þá leið sem farin er í þessu frv. Það hefur t. d. komið í ljós, að innflutningsverð á vörum hefur reynst hærra en þörf hefur verið á. Þetta atriði er opinberlega viðurkennt af innflytjendum sjálfum. M. a. hefur sannast í upplýsingum, sem hafa verið dregnar fram á hv. Alþ., að í mörgum tilfellum hafa innflytjendur beinlínis staðið að því að velja fremur hærra innkaupsverð en það lægsta sem hefði verið hægt að fá, til þess á þann hátt að útvega sér heimild til hærri álagningar. Það er auðvitað enginn vafi á því, að hægt var eftir núverandi lögum að sniða þennan galla af. Þarna þurfti aðeins að hafa framkvæmdina með nokkuð öðrum hætti en hún hefur verið, leggja miklu meiri áherslu á að fylgjast með innflutningsverðinu sjálfu og ganga fast eftir að verð á innfluttum vörum væri rétt. En ekki virðist hafa verið ýkjamikill áhugi á því, þó að opinberlega hafi verið viðurkennt að þessu væri svona háttað. Við Alþb.-menn höfum m. a. flutt tvívegis till. um það á Alþ.,Alþ. skipaði sérstaka rannsóknarnefnd til þess að draga fram sannindi þessa máls, svo að það lægi alveg skýrt fyrir, hvernig hér væri að málum staðið. En það einkennilega var, að m. a. hæstv. viðskrh. mælti gegn slíkri till., að gerð væri sérstök rannsókn af hálfu Alþ., taldi nægilegt að verðlagsstjóri og hans skrifstofa hefði með þessi mál að gera, þó að ekki sé sjáanlegt að út úr því hafi neitt komið annað en það, að kaupsýslumenn sjálfir staðfesta að þessu sé svona háttað, þeir hafi keypt inn vörur á hærra verði en hægt hefði verið að fá þær á.

Þá kemur einnig fram í þessum sama kafla, sem felur í sér aðalefni frv., þessum III. kafla. sem er um verðákvarðanir, í 12. gr. frv., ákvæði sem þarfnast skýringar, ekki síst vegna þess að þess er getið í grg., að þeir opinberu starfsmenn, sem sömdu frv. upphaflega, höfðu þetta ákvæði, sem ég ræði um og er að finna í síðari mgr. 12. gr. frv., ekki í sínum till., en segja að þetta hafi verið sett inn í frv. að frumkvæði ríkisstj. Þessi 2. mgr. 12. gr. er orðrétt á þessa leið, með leyfi forseta :

„Verð og álagningu má ekki ákvarða lægra en svo, að fyrirtæki þeirrar tegundar, er í 1. mgr. getur, fái greiddan nauðsynlegan kostnað við innkaup eða endurinnkaup vörn, framleiðslu, aðflutning, sölu, flutning ásamt afskriftum, svo og sanngjarnan, hreinan hagnað, þegar tekið er tillit til áhættunnar við framleiðslu vörunnar og sölu.“

Þessi ákvæði eru allmikið frábrugðin því sem er í gildandi lögum. Hér er beinlínis svo fyrir mælt, að sé gripið til hámarksverðs eða hámarksálagningar á vöru megi ekki ákveða það verð af hálfu verðlagsyfirvalda á öðrum grundvelli en þeim, sem segir í þessu, sem ég las upp. Þar er m. a. þetta ákvæði, að tryggja eigi þeim, sem með vörusölu hefur að gera, þannig verslunaraðstöðu að hann geti staðið undir endurinnkaupum á vöru. Spurningin er sú: Hvernig á að túlka þetta atriði? Hvernig á að tryggja honum að hann fái ekki aðeins verð þeirrar vöru, sem hann hafði keypt inn og greitt, þegar hann selur hana, og þann kostnað, sem hefur fylgt sölumeðferðinni, heldur einnig tryggja honum það, að hann geti keypt inn vörur á nýjan leik? Nú vitum við að þannig er ástatt í þessum efnum, eða hefur verið nú um langan tíma, að hið nýja innkaupsverð hefur gjarnan verið hærra en það eldra. Er þá með þessu verið að ákveða að beinlínis skuli í álagningunni tekið tillit til þess, að ekki sé aðeins staðið undir nauðsynlegum kostnaði við sölumeðferðina, heldur eigi einnig að; vera eftir nokkur afgangur til þess að standa undir því að kaupa inn á nýjan leik dýrari vöru en áður? Ég vek athygli á því, að slík ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum, og deilur hafa einmitt verið um það við kaupsýslumenn, hvort ætti að taka tillit til þessa við ákvörðun á álagningu. Nú hefur þannig verið staðið að gerð þessa frv., að embættismennirnir, sem sömdu frv., gerðu ekki ráð fyrir þessu, en hæstv. ríkisstj. hefur hlutast til um að þetta ákvæði yrði sett inn í frv. Þetta kallar því á skýringu af hálfu hæstv. viðskrh. Ég óska eftir því, að hann geri grein fyrir því, áður en málið fer til n., hvað raunverulega felst í síðari mgr. 12. gr. frv. Hvað þýðir þetta í framkvæmd varðandi hámarksálagningu eða hámarksverð, sé það ákveðið? Er ætlunin að taka upp nýja framkvæmd þessara mála eða á í rauninni ekkert að fara eftir þessu og hafa framkvæmdina svipaða og hún hefur verið? Ég óska eftir skýringum á þessu atriði.

Eins og fram kom hjá hæstv. viðskrh., er um að ræða mjög viðkvæmt mál — mál sem varðar marga aðila í landinu og ýmsa þá aðila sem ekki þykir sem auðveldast að leggja í bönd eða binda við eitt eða annað. Við vitum t. d. að það ráð var tekið upp fyrir nokkrum árum að skipa verðlagsnefndina, sem ákveður hámarksálagningu og hámarksverð, þannig að í nefndinni hafa verið níu menn. Einn formaður nefndarinnar, hefur verið skipaður af viðskrh. án tilnefningar, en síðan hafa aðilar vinnumarkaðarins, eins og það hefur verið kallað, skipað hina átta í nefndina eða tilnefnt þá raunverulega, þ. e. a. s. samtök launafólks hafa tilnefnt fjóra í þessa nefnd og samtök atvinnurekenda hafa skipað aðra fjóra. Ástæðurnar til þess, að þetta skipulag var tekið upp, voru þær, að allt það, sem snertir álagningarreglur þótti tengjast svo mjög þeim miklu hagsmunamálum sem þessir aðilar fjalla um að sjálfsagt þótti að taka upp þetta skipulag. Í rauninni var þetta ákveðið samfara samkomulagi sem gert var við aðila vinnumarkaðarins upp úr kaupdeilu. Þá var þetta skipulag tekið upp. Þó að ýmislegt sé hægt að segja um það, hvernig fulltrúar þessara aðila hafa staðið sig í verðlagsnefnd, verður því þó ekki neitað að háðir þessir aðilar, þ. e. a. s. samtök launþega og samtök atvinnurekenda, hafa lagt allmikla áherslu á að hafa þarna fulltrúa og koma sínum sjónarmiðum á framfæri í sambandi við þennan hlutann í ákvörðun verðlagsmála. En með þessu frv. er út af þessu brugðið og ákveðið að minnka áhrifavald þessara aðila stórkostlega frá því sem nú er. Mér sýnist að sérstaklega sé verið að minnka áhrifavald fulltrúa launþeganna í þessu nýja verðlagsráði.

Þetta nýja verðlagsráð á að vera skipað sjö mönnum. Ráðh. á að skipa einn án tilnefningar, sem verður formaður ráðsins eins og áður. Síðan eiga launþegasamtökin að tilnefna tvo í stað fjögurra og atvinnurekendur tvo í stað fjögurra, en aftur á móti skipar síðan Hæstiréttur tvo fulltrúa í þetta verðlagsráð. Auðvitað, eins og vant er þegar Hæstiréttur er settur inn í mál eins og þessi, er talað um að fulltrúar séu óháðir, en reyndar um það getið, að þeir eigi að vera löglærðir eða hagfræðingar. Má því þrengja það nokkuð, hvaða óháðir menn þetta eru. Mér sýnist að þessi skipan mála dragi mjög úr áhrifavaldi þessara stóru og miklu samtaka, launþegasamtakanna og samtaka atvinnurekenda, og raunverulega blasir við, að segja má að t. d. launþegasamtökin geta treyst þarna tveimur fulltrúum af sjö, en þeir munu nú telja að hinir fulltrúarnir séu ekki sérlega líklegir til þess að fylgja fram sjónarmiðum launþega.

Ég tel fyrir mitt leyti, að þessi breyting sé röng, miðað við aðstæður nú hjá okkur, a. m. k. sé rangt að taka upp þessa breytingu eins og nú háttar, nema þá að slíkt sé gert í fullu samráði við þessa þýðingarmiklu aðila. Auðvitað er enginn vafi á því, að fulltrúar launþega í nefnd eins og þessari eiga almennt að hafa áhuga á því að gæta hófs í verðlagningu og halda kröfum þar nokkuð niðri. Reyndar ættu fulltrúar atvinnurekenda í mjög mörgum tilfellum að hafa þar hagsmuna að gæta, af því að þær reglur hafa verið í gildi hjá okkur í langan tíma, að hækki verðlag, þá leiðir af því hækkandi kaup. Ég tel því, að þessi breyting sé óheppileg og muni fremur auka á vanda í þessum málum öllum en minnka hann. En það er auðvitað mikilvægt atriði í skipan þessara mála að reyna að hafa nokkurt vald yfir verðlagsþróuninni í landinu. Það er ofurskiljanlegt, að þeir, sem selja vörur eða taka greiðslu fyrir þjónustu, leita jafnan á með það að fá aðstöðu til þess að hækka þjónustutekjur sínar. Þetta er ofureðlilegt, þótt að sjálfsögðu sé hægt að hugsa sér, að ríkjandi sé slík samkeppni að ætti að vera nægileg til þess að halda þeim í skefjum, en við höfum séð af nokkurri reynslu okkar í þessum efnum, að það virðist þurfa að búa vel um hnúta, ef samkeppnin ein á þarna að duga, a. m. k. við þær aðstæður sem við höfum búið við, Það er því skoðun mín, að eðlilegt hafi verið, eins og ástatt er hjá okkur, að þessir aðilar hefðu allmikið vald í verðlagsráði eða verðlagsnefnd.

Þessi atriði, sem ég hef gert aðallega að umtalsefni, snerta alveg sérstaklega þann hluta frv. sem fjallar um verðákvarðanir og skipulag þeirra mála. Og eins og ég sagði áður er þessi hluti frv. að mínum dómi aðalefni frv., eins og hæstv. viðskrh. viðurkenndi. Þetta er kjarni málsins. Önnur atriði, sem síðan eru sett inn í þetta frv., eiga að mínum dómi varla heima með þessum atriðum frv., sem ég hef verið að ræða.

IV. kafli frv. er um markaðsráðandi fyrirtæki og samkeppnishömlur. Vissulega mega atriði varðandi þessi mál vera í lögum. Ég gef hins vegar ekki mikið fyrir þau ákvæði, sem er að finna í frv., um þetta. Það er allt saman þokukennt og mér sýnist allt eftirlit í þessum efnum vera mjög veiklað. Gert er ráð fyrir því, að sérstök samkeppnisnefnd eigi að skera úr um það, hvenær brotnar eru reglur varðandi eðlilega samkeppni. Samkeppnisnefnd er skipuð þannig að í henni á að vera formaður verðlagsráðsins, sá fulltrúi, sem skipaður er af ráðh., og svo fulltrúarnir tveir sem Hæstiréttur skipar. Í framhaldi af því, sem ég hef þegar sagt, verð ég að segja að mér finnst þessi nefnd ekki vera mikils trausts verð, — ekki frá mínum sjónarhóli séð. Ég hef ekki ýkjamikla trú á því að þessir tveir fulltrúar, sem Hæstiréttur tilnefndi og ættu að standa að eftirliti samkv. þeim reglum sem er að finna í þessum kafla, væru mikils virði. Hér er um mjög óákveðin atriði að ræða, þ. e. a. s. hvernig fyrirtæki haga starfsemi sinni varðandi samstarf sín á milli, og mér sýnist að ganga hefði þurft öðruvísi frá eftirliti með framkvæmdum á þessu en gert er með þessari samkeppnisnefnd. Ég hefði þó talið aðeins betra að allt verðlagsráðið hefði haft þetta eftirlit með höndum heldur en þetta úrtak úr verðlagsráðinu, sem þarna er gert ráð fyrir. M. ö. o.: að mínum dómi dregur þetta alveg úr því, að nokkuð sé á því byggjandi að þarna verði um nokkra teljandi breytingu að ræða, enda er gert svo ráð fyrir í þessum kafla frv., að samkeppnisnefndin geti veitt undanþágur þegar henni sýnist ástæða vera til. Sem sagt, varðandi þennan kafla hef ég ekki mikið að segja. Ég legg ekki mikið upp úr honum og hef enga trú á því, að menn geri það yfirleitt.

Svo er blandað inn í frv. atriðum, sem í rauninni er viðurkennt að verulegu leyti að eigi ekki nema takmarkaðan rétt á sér í þessu frv. Það er t. d. sagt í grg. frv. á þessa leið:

„Ekki tíðkast erlendis að steypa saman í eina löggjöf ákvæðum, sem fjalla um verðlag og samkeppnishömlur annars vegar, og reglum um óréttmæta viðskiptahætti og neytendavernd hins vegar.“

Auðvitað er enginn vafi á því, að við eigum eftir að gera mikið í því að setja reglur um neytendavernd og er æðivandasamt að byggja upp það kerfi þannig að það komi að einhverju gagni. En að hringla því saman við verðlagsmálalöggjöf okkar sýnist mér vera alveg fráleitt. Og í rauninni get ég ekki lesið annað út úr þessu ákvæði en það, að hæstv. viðskrh. hafi þótt ögn betra að hafa með í frv. eitthvað um neytendavernd og rétt neytenda — í því frv. sem annars felur fyrst og fremst í sér að lýst er yfir því, að hér eftir skuli tekin upp frjáls verslunarálagning. Ég held að þetta tvennt eigi ekki frekar saman hjá okkur en annars staðar. Miklu eðlilegra hefði verið að skilja þarna á milli og hafa þetta ekki í sama frv.

Svo er rétt að velta því nokkuð fyrir sér, hvernig aðstaðan er hér á landi til þess að gera meiri háttar breytingar á því fyrirkomulagi sem ríkjandi hefur verið í verðlagsmálum og verðlagningarmálum. Ég held að allar aðstæður séu nú hinar verstu til þess að gera miklar breytingar. Ég hef þó viðurkennt, að hægt hefði verið og réttmætt hefði verið að breyta nokkuð framkvæmdinni í þessum málum samkv. gildandi lögum og reglum. En að hugsa sér þá breytingu, sem raunverulega felst í þessu frv. eða verður að ætla að felist í þessu ákveðna orðalagi um frjálsa álagningu! Ég held að aðstæður allar í þjóðfélagi okkar nú séu svo afleitar að gera ætti engar tilraunir í þessum efnum.

Við vitum að hér er ríkjandi mjög mikil verðbólga, og segja má að allt verðlag sé á fleygiferð. Hæstv. ríkisstj. hefur talið þessum málum þannig komið nú, að hún hefur neyðst til þess að gripa inn í nýlega gerða kjarasamninga og rifta undirskrifuðum samningum um launakjör, vegna þess að þessir launasamningar kynnu að leiða til of mikillar verðhækkunar í landinu. Nú hefur hæstv. ríkisstj. viðurkennt, að út af fyrir sig hafi þessi ákvörðun hennar verið neyðarráðstöfun. Hún hafi ekki í sjálfu sér gripið inn í svo sem gert var nema út úr neyð. En getur hún þá hugsað sér, þegar svona stendur á, að taka upp þá breytingu í verðlagsmálum og verðþróunarmálum í landinu að segja við þá aðila, sem annast sölu á vörum og varningi í landinu eða hafa með þjónustu að gera, að þeir megi taka það sem þeir vilji í sinn hlut, þeir þurfi ekki að vera undir neinu eftirliti, það eigi að ríkja frjáls álagning?

Ég veit að hæstv. viðskrh. svarar því til, að það sé ekki meiningin, þó að um frjálsa álagningu verði að ræða, að hætta öllu eftirliti. En auðvitað er fráleitt að tala um það, að fyrst eigi að gefa alla álagningu frjálsa við þær aðstæður, sem við búum við í dag, og svo eigi þar á eftir að stórauka eftirlit með einhverjum raunverulegum hugsuðum árangri. Það er auðvitað alveg fráleitt, jafnvel þó að hæstv. ráðh. bæti því við og undirstriki það mjög í sinni ræðu, að fjölga þurfi eftirlitsmönnum hjá verðlagsstjóra, þar þurfi að vera vel menntaðir menn og mikið fjármagn þurfi til þess að halda uppi þessu eftirliti. Ég er ansi hræddur um að hæstv. ráðh. eigi eftir að reyna það, ef út í þessa sálma er farið, að það dugir lítið þótt hann ráði heilan her af mönnum til þess að líta eftir í þessum efnum, ef hann hefur við núverandi aðstæður gefið alla álagningu frjálsa. Við skulum hafa í huga að þeir, sem með verslun fara, hafa að undanförnu lagt á það áherslu, að þeir þyrftu að fá að hækka álagninguna. Getur þá hæstv. viðskrh. búist við öðru en því, að frjáls álagning mundi leiða til þess, — þegar aðilar kvarta undan því, að álagningarheimildin sé of lág, — að álagningin mundi hækka?

Þá er ekki síður athyglisvert í þessum efnum, að einmitt hæstv. viðskrh. hefur lagt á það manna mest áherslu, að taka þurfi til endurskoðunar og í rauninni gerbreytingar ákvæðin um verðtryggingu á launum, um vísitölubætur á laun, endurskoða þessar vísitölureglur og gerbreyta þeim frá því sem verið hefur. Sýnist honum það í raun og veru líkleg leið til ávinnings í þessum efnum að grípa fyrst inn í gerða launasamninga á þann hátt, sem gert hefur verið, boða það að breyta eigi verðtryggingarreglum og þeim vísitöluákvæðum sem í gildi hafa verið, en segja á sama tíma: Þeir, sem hafa með verslun og viðskipti að gera, geta fengið að taka sér álagningu eins og þeim sýnist, eins og þeir meta nægilegt? — Ég held að allir, sem hugsa um þessi mál, hljóti að viðurkenna, að við þessar aðstæður eru vinnubrögð af þessu tagi alveg fráleit.

Svo er orðalag eins og kom fram hjá hæstv. viðskrh. varðandi þessi atriði. Hann sagði eitthvað á þá leið, að þeir aðilar, sem héldu því fram, að hægt væri að koma fram lækkun á vöruverði með því að gefa álagninguna frjálsa í samkeppni, fengju með þessu tækifæri til þess að sanna að þetta væri rétt Mér fannst orðalag hæstv. ráðh. í þessum efnum vera alleinkennilegt. Það var engu líkara en hann segði: Ja, það eru ýmsir sem halda þessu fram. Best að lofa þeim að sýna hvað þeir geta. — Hæstv. ráðh. fyrirgefur, ef ég ætla honum um of skoðun í þessum efnum. Mér fannst eins og þetta lægi á bak við orð hans. Hann efaðist um þetta, en því verður þetta bara dregið til baka aftur, því að hann hefur heimild til að draga allt til baka aftur, ef það stenst ekki.

Eru vinnubrögð af þessu tagi eðlileg eða líkleg? Ég held ekki. En allt þetta skil ég. E. t. v. er ætlunin að leggja fram frv. af því að fyrir 4 árum var lofað að leggja það fram. Svo á frv. að fá að veltast svolítið í n. og svo og svo lengi í þinginu án þess að koma úr n. Þá er þó hæstv. viðskrh. a. m. k sloppinn út úr þessu öllu saman í bili, og kannske fleiri í ríkisstj. geti kvittað fyrir, að þeir hafi þó alltaf sýnt frv.

Athygli mína vekur, að oftar en einu sinni kemur fyrir í grg. þessa frv. setning eitthvað á þessa leið: „ef frv. þetta verður samþykkt.“ — Það er mjög óvenjulegt að sjá í stjfrv., að verið sé að taka fram alltaf annað slagið í sambandi við skýringar: „ef frv. þetta verður samþykkt.“ Ég hafði búist við því, að frv. eins og þetta, sem er flutt í samræmi við stefnuyfirlýsingu stjórnarflokkanna, væru ekki aðeins frv. hæstv. viðskrh. og ríkisstj., þetta væri frv. stjórnarflokkanna. Er einhver efi á því að stjórnarflokkarnir sem slíkir standi að frv.? Hafa stjórnarflokkarnir ekki hvor fyrir sig samþykkt þetta frv.? Ekki er minnst á það, ég hef ekki rekið mig á að minnst væri neins staðar á það í grg. með frv., að stjórnarflokkarnir hefðu neinn fyrirvara á um þetta stjfrv. Ég vil því spyrja hæstv. viðskrh., hvort þetta frv. hafi ekki verið samþykkt af báðum stjórnarflokkunum. Er t. d. eitthvert lát á Framsfl. í sambandi við frv. — eða Sjálfstfl.? Eða er í rauninni nokkur ástæða til þess að vera að taka þetta óvenjulega oft fram í grg. með frv.: „ef frv. verður að lögum“ ef það er öruggt, að mikill meiri hluti á Alþ., sé með frv., því hér er um stjfrv. að ræða? Auðvitað getur ríkisstj. komið frv. fram fyrir þinglok, ef hún ætlar sér það En ég leyfi mér að draga mjög í efa, að ætlun ríkisstj. sé að gera þetta frv. að lögum, hér sé miklu frekar um hitt að ræða, að ríkisstj. hafi talið óhjákvæmilegt vegna loforða að leggja frv. fram.

Þá er þess einnig að geta í sambandi við þetta frv., að frá því er skýrt í grg., að frv. hafi verið sent mörgum aðilum til athugunar og umsagnar. Þar er um býsna þýðingarmikla aðila að ræða við skipan þessara mála allra. Og það einkennilega er, að nær allir, sem leitað hefur verið til, virðast hafa mikið við frv. að athuga og vera því andvígir að verulegu leyti. Þannig kemur t. d. fram, að Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja eru greinilega andvíg þessu frv. Það eitt út af fyrir sig, að þessi stóru launþegasamtök eru andvíg frv., er að mínum dómi alveg nægilegt til þess að rangt megi telja, miðað við núverandi aðstæður, að ætla að knýja frv. fram. Það hefði átt að leita eftir samkomulagi við þessa aðila um breytingar á núgildandi skipulagi, því að fram kemur m. a. í umsögn Alþýðusambandsins, að fyrir liggur viðurkenning af þess hálfu á því, að gera þurfi verulegar breytingar á núgildandi kerfi. En hér er um miklu fleiri aðila að ræða, sem spurðir hafa verið, og virðast þeir yfirleitt jafnandvígir frv. og áðurnefnd samtök. Mér sýnist t. d., að hin fjölmennu samtök kaupsýslumanna séu ekki heldur mjög hrifin af frv. Þau tala um að frv. sé stórgallað og gera þurfi á því verulegar breytingar. Það má vel vera, að t. d. samtök kaupsýslumanna vilji fá enn þá ótvíræðari ákvæði um frjálsa álagningu en er að finna í frv. En hvað um það. Höfuðatriðið er, að eitthvert samkomulag takist við þá aðila sem eiga mestra hagsmuna að gæta um þessi mál.

Undarlegt er að ætla að taka upp skipan, sem t. d. hin fjölmennu launþegasamtök eru andvíg og telja stefna í öfuga átt, ef hún uppfyllir ekki heldur kröfur hinna aðilanna. Það var auðvitað sjónarmið út af fyrir sig ef ríkisstj. tæki afstöðu með kaupsýslumönnum í þessu og miðaði till. sínar við till. þeirra, en þeir virðast hafa mikið við frv. að athuga. Þannig sé ég t. d. að samtök stórkaupmanna, Kaupmannasamtökin, Verslunarráð Íslands og Samband málm- og skipasmiðja ljúka bréfi sínu á þessa leið: „Drög embættismannanna þriggja eru í grundvallaratriðum andstæð þessum sjónarmiðum“ — sem þeir eru búnir að gera grein fyrir að séu þeirra sjónarmið. Samtökin lýsa sig hins vegar fús til samstarfs við stjórnvöld um lagfæringar á drögunum í samræmi við umsögn þessa. Svipað er að segja um afstöðu Félags ísl. iðnrekenda, Landssambands iðnaðarmanna og Vinnuveitendasambands Íslands. Þessir aðilar gera grein fyrir afstöðu sinni og segja m. a.: „Drög þau, sem hér um ræðir, eru ófullnægjandi að því er snertir ýmis framangreind atriði“ — sem þeir hafa gert grein fyrir í sinni afstöðu. Mér sýnist því, að samlyndið sé ekki ýkjamikið.

Ég vil svo að lokum segja það, og ég vil að það komi skýrt fram, að ég er síður en svo ánægður með skipulagið sem gildir hjá okkur nú í þessum efnum. Ég tel að gera þurfi á því verulegar breytingar, sérstaklega til þess að gera allt eftirlit miklu haldbetra en það er nú, en auk þess til þess að koma fram margvíslegum leiðréttingum, einnig til handa þeim sem hafa með viðskipti að gera, því að auðvitað eiga þeir sinn rétt í þessum efnum og taka þarf tillit til hans á sanngjarnan hátt.

Ég tel að sú meginstefna, sem kemur fram í þessu frv., sé ekki á neinn hátt í samræmi við þær aðstæður sem við búum við í dag. Ég held að samþykkt þessa frv. mundi magna vandann í verðlags- og efnahagsmálum. Ég held að miklu erfiðara yrði eftir samþykkt þessa frv. að komast að eðlilegu samkomulagi við þá aðila sem óhjákvæmilegt er að taka tillit til í sambandi við verðlags- og atvinnumál. Mér sýnist satt að segja að þetta frv. stefni í þveröfuga átt, tefji fyrir samkomulagi við þessa aðila. Mér sýnist einnig að fjarri sé því, að samtök hinna, þ. e. a. s. þeirra sem hafa verslun með höndum, séu ánægð með frv., — í rauninni kalli ekkert á það, eins og mál standa nú, að knýja þetta mál í gegn og því sé rétt að gefa sér tíma til þess að taka málið til nýrrar athugunar. Þá hefði ég talið rétt að einmitt þessir aðilar, sem leitað hefur verið til umsagnar um málið, eða a. m. k. fulltrúar frá þessum stærstu samtökum ættu beina hlutdeild að því að reyna að finna lausn sem væri viðunandi í þessum málum.

Afstaða mín til þessa frv. er því sú, að ég er á móti því. Ég tel að ákvæði þess um það sem mestu máli skiptir, sem eru verðlagsmálin, séu mjög óljós og óákveðin og frv. sem heild sé með afbrigðum grautarlegt. Það er verið að grauta saman atriðum sem ekki eiga saman í löggjöf. Ég held að samþykkt frv. mundi gera illt verra.

En fróðlegt væri að heyra, hvað hæstv. viðskrh. hefur að segja í sambandi við þær fsp. sem ég hef borið fram um hvað raunverulega felist í ýmsum ákvæðum frv., því að skýringar hans á þeim atriðum geta að sjálfsögðu haft allmikið gildi. Hræddur er ég um, að ef það er ætlun hæstv. ráðh. að fylgja 8. gr. frv. og III. kaflanum öllum, um verðákvarðanir, á þann hátt að hér verði tekin upp frjáls álagning í öllum aðalatriðum, þá mundi hæstv. ríkisstj. standa frammi fyrir miklum vanda fljótlega, miklu meiri vanda en hún stendur frammi fyrir í dag í verðlags- og efnahagsmálum. — Ég bið svo eftir því að heyra frekari útskýringar hæstv. ráðh. á þeim atriðum sem ég hef spurst fyrir um.