03.04.1978
Neðri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Nú við 1. umr. um þetta frv. ætla ég í fáum orðum að víkja að nokkrum atriðum varðandi frv. sjálft og ýmislegt sem er í tengslum við það. Athygli hlýtur að vekja að jafnveigamikið frv., sem fjallar um jafnveigamikinn málaflokk og hér um ræðir, skuli lagt fram núna örfáum dögum áður en þingi lýkur. Vart getur verið ætlun hæstv. ríkisstj. eða hæstv. viðskrh. að knýja þetta mál í gegnum þingið á þeim tiltölulega stutta tíma sem eftir er af því.

Eins og komið hefur fram og ekki síst hjá hæstv. viðskrh., er þetta frv. fram lagt til þess að efna gefin loforð í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka. Ég held að á þá staðreynd, að frv. kemur seint fram, beri að líta miklu frekar þannig, að formlega sé verið að fullnægja því loforði, að frv. skyldi lagt fram, en að sú geti verið ætlun hæstv. ráðh., að málið hljóti afgreiðslu á þessum stutta tíma sem eftir er þings.

Eins og frv. ber með sér, sem liggur fyrir, og lofað var, meginatriðið að afnema núgildandi verðlagslöggjöf. Nú er auðvitað ljóst og þarf ekki að taka fram, að margir eru þeirrar skoðunar og hafa verið nokkuð lengi, að ýmis atriði í gildandi verðlagslöggjöf — mörg sjálfsagt — mættu fara mun betur en raun hefur á orðið, ekki síst það sem lýtur að framkvæmd löggjafarinnar. Það er a. m. k. mín skoðun, að verðlagseftirlit í þeirri mynd, sem það hefur á sig tekið á undanförnum árum, hafi verið vægast sagt mjög bágborið og í mörgum tilfellum aðeins til málamynda. En ekki er þar með sagt, að svo sé vegna þess að löggjöfin sem slík sé slæm. Hér er fyrst og fremst um að ræða framkvæmdaratriði sem hefði mátt breyta til hins betra innan ramma þeirrar 1öggjafar sem fyrir hendi er.

Menn hafa horið við skorti á starfskrafti, eins og nú er víst skylt að orða það, og einnig skorti á ýmiss konar aðstöðu til þess að framfylgja raunverulegu verðlagseftirliti í landinu. Það er auðvitað ekkert vafamál, að frv., eins og það nú liggur fyrir, gerir ekki ráð fyrir minni mannafla, starfsaðstöðu eða minni fjármunum til þess að framkvæma ákvæði þess en eðlilegt hefði mátt teljast að farið hefði til þess að framkvæma raunverulegt verðlagseftirlit samkv. núgildandi löggjöf.

Eins og hér hefur komið fram, kom fram í framsöguræðu hæstv. viðskrh. fyrir frv., kemur meginatriði frv. fram í 8. gr. þess, þar sem fyrst og fremst er um það að ræða, að frjáls verðlagning eigi sér stað, þ. e. a. s. þar sem samkeppni — eins og það er orðað — er nægileg. Nú er það í mínum huga mjög mikið vafamál, hvar og þá í hvaða vöruflokkum slík samkeppnisaðstaða, eins og frv. gerir ráð fyrir, er fyrir hendi við þær aðstæður sem við búum við í dag. Mér þykir ekki ólíklegt, að hægt sé að finna hér á þessu þéttbýlissvæði samkeppnisaðstöðu eins og frv. gerir ráð fyrir, sem kynni að leiða af sér frjálsa verðlagningu, miðað við þær forsendur sem menn gefa sér í frv. En það er aldeilis útilokað, að ég held, að skilyrði til slíkrar samkeppni séu fyrir hendi nema á tiltölulega örfáum stöðum annars staðar á landinu. Því hlýtur að vakna sú spurning, hvort í raun og veru sé ætlunin að sums staðar á landinu gildi hin svokallaða frjálsa verðlagning með tilheyrandi samkeppni, en á öðrum stöðum sé hámarksálagning í gildi, sem í raun og veru þýddi að enn væri verið að auka á þann ójöfnuð og mismunun sem fólk nú býr við eftir því, hvar það er búsett á landinu. Þeir, sem halda því fram að frjáls verðlagning sé til hins betra og gæti haft í för með sér lækkun á vöruverði miðað við þessar forsendur, væru með framkvæmd eins og hér er verið að tala um að auka enn á mismunun með tilliti til búsetu. Því er ástæða til þess að spyrja hæstv. viðskrh. Ef við göngum út frá þeim kringumstæðum, sem við búum við í dag, hvar á landinu eru þau skilyrði fyrir hendi varðandi frjálsa álagningu að samkeppni geti orðið og í hvaða vöruflokkum eða greinum er að hans áliti þessi margumtalaða samkeppnisaðstaða fyrir hendi? Telur hann t. d. að þær kringumstæður séu, við skulum segja, fyrir hendi á landssvæðum eins og Vestfjörðum, Austurlandi eða Norðurlandi? Á flestum a. m. k. þessara smærri staða er einungis um að ræða eina verslun, á langsamlega flestum stöðum. Og það getur engin samkeppnisaðstaða verið fyrir hendi á stað þar sem slíkt ástand ríkir. Nauðsynlegt er því að fá um það upplýsingar, hvernig þessum málum yrði háttað miðað við þær kringumstæður sem við búum nú við og hljótum að búa við að þessu leyti í nokkurn tíma enn, hvað sem síðar kann að verða. En alla vega mundum við búa við þessar kringumstæður þann reynslutíma sem þessu frv., ef að lögum verður, er skammtaður. Ég get ekki ímyndað mér, að þær kringumstæður séu fyrir hendi nema á tiltölulega mjög afmörkuðum og fáum stöðum, slík aðstaða til samkeppni og það, sem henni tilheyrir. Allir aðrir staðir hlytu því að búa við annars konar fyrirkomulag en það sem sumir hverjir, sem að þessu frv. standa, telja hið æskilegasta.

Ég get tekið undir það; sem hér hefur komið fram og er raunar á margra vitorði og ekki hefur hvað síst verið ítrekað af hálfu launþegasamtakanna, að núverandi ástand verðlagsmála í landinu þarf talsverðra breytinga við. En það er mikill vafi í mínum huga á því, að frjáls verðlagning sé það æskilegasta og að henni eigi að stefna. A. m. k. þarf að upplýsa ýmis atriði áður en ég sannfærist um að hún sé æskilegasta leiðin til úrbóta. Og okkur sem erum a. m. k. í vafa, ef ekki andvígir því að fara þá leið og teljum að hún sé ekki til hins betra, hlýtur að vera ætíð mikið íhugunarefni, að hæstv. ríkisstj. leggur til að sú leið verði nú farin í kjölfar kauplækkunar og ógildingar á kjarasamningum sem nýverið hefur verið framkvæmd. Frjáls álagning og þar með að verulegu leyti hentisemi verslunaraðila til þess að ákvarða vöruverð í kjölfar kjaraskerðingar hjá launafólki hljóta að þykja íhugunarverðir atburðir, a. m. k. hjá þeim sem eru þeirrar skoðunar, að breytt stefna í þessa átt þýði hækkað vöruverð og auki á vandann sem fyrir hendi er.

Það er auðvitað ástæða til að ræða ýmislegt í þessu frv., en ég skal ekki gera það, a. m. k. ekki að sinni. En nú strax við 1. umr. finnst mér nauðsynlegt, áður en málið fer til n., að fá um það einhverjar upplýsingar hjá hæstv. ráðh., hvernig hann hefur hugsað sér framkvæmd þessarar hliðar málsins, verðákvarðana, sem er þó meginefni frv.

Þá get ég ekki stillt mig um að víkja aðeins að þeim þættinum sem snýr að launþegasamtökunum, auk þess sem ég tel að sú hlið mála, sem ég hef gert að umræðuefni, snúi verulega að þeim. Ég á við það ákvæði frv., sem gerir ráð fyrir að minnka þau áhrif sem launþegasamtökin í landinu gætu haft á þennan mikilvæga málaflokk, sem er verðlagning vöru og þjónustu. Ég skil ekki hvaða rök liggja að baki því, að nauðsynlegt er talið að draga úr áhrifum þessara fjölmennu samtaka launafólks í landinu á þessi mál.

Augljóst er á umsögnum launþegasamtakanna, að þau eru að verulegu leyti andsnúin meginefni frv., og engu er líkara en það sé stefnumál hæstv. ríkisstj. að ganga í berhögg við launþegahreyfinguna í landinu. Þetta frv., sem er að verulegu leyti andstætt sjónarmiðum launþegahreyfingarinnar, í kjölfar kauplækkunarstríðs ríkisstj. við verkalýðshreyfinguna, hlýtur að vekja ugg í brjósti margra þeirra sem um þessi mál hafa hugsað og hugsa. Það hlýtur að þykja tímanna tákn, að það er engu líkara en hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkarnir ætli sér í flestum greinum að troða illsakir við launþegasamtökin, sem má þó furðulegt teljast. Ég held að full ástæða sé til þess fyrir hæstv. ríkisstj. að íhuga þetta mál frekar. Ég trúi því vart, að sú sé ætlun hæstv. ráðh., viðskrh. eða ríkisstj. sem heildar, að knýja þetta mál í gegnum þingið í svo mikilli andstöðu, ekki bara við launþegasamtökin í landinu, heldur og ýmsa aðra fjölmenna hagsmunahópa. Ég hygg að beinlínis sé nauðsynlegt, að hún slái af og fari ekki fram með slíku offorsi eins og ætla mætti að hugsunin sé, þó að ég, eins og ég hef áður sagt, trúi því vart að sú sé í raun og veru ætlun hæstv. ríkisstj.

Það kom fram í framsöguræðu hæstv. viðskrh. fyrir frv., að nú gætu þeir aðilar, sem hefðu haldið því fram, að það skipulag, sem frv. gerir ráð fyrir, þ. e. a. s. frjáls verslunarálagning, væri hið eina rétta, sýnt hvað í þeim byggi, því þeir fengju tækifæri til að framkvæma þetta og sanna réttmæti fullyrðinga sinna. Mér finnst að orðalag sem þetta hjá hæstv. viðskrh. verði að skilja þannig að a. m. k. hann sjálfur sé ekki ýkjasannfærður um að þetta sé sú hin eina rétta leið til þess að bæta fyrirkomulag í þessum efnum frá því sem nú er.

Aðalerindi mitt í ræðustól nú við þessa umr. var fyrst og fremst að biðja hæstv. viðskrh. að láta okkur í té álit sitt á því, hvernig framkvæma eigi t. d. við ríkjandi aðstæður það meginefni frv., að verslunarálagning sé gefin frjáls miðað við að samkeppnisaðstaða sé fyrir hendi, á hvaða svæðum hann telur að þetta sé hægt og þá í hvaða helstu tilteknu vöruflokkum þetta kæmi til greina, eins og ástandið er nú. Ég ítreka það, að eins og þetta kemur mér fyrir sjónir mundi framkvæmdin þýða í raun og veru að enn væri verið að auka á það ranglæti og þann ójöfnuð sem landsmenn búa við með tilliti til þess hvar þeir eru búsettir í landinu. Og út frá því sjónarmiði mínu tel ég slíkt auðvitað hreina fjarstæðu. Nógur er samt ójöfnuðurinn eftir búsetu, þó að ekki sé enn frekar en nú er með verð á vöru og þjónustu farið að auka hann. Staðreynd sú er öllum ljós, að landsbyggðarfólk býr við mun óhagstæðara verð á vöru og þjónustu, verulega hærra verð í flestum, ef ekki öllum greinum, en það fólk, sem býr hér syðra. Ég held að áður en sá munur verður gerður meiri ættu menn að staldra við og íhuga, hvort ekki sé nóg komið af slíku þótt ekki sé enn frekar að gert.