03.04.1978
Neðri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3084 í B-deild Alþingistíðinda. (2257)

245. mál, verðlag, samkeppnishömlur og óréttmætir viðskiptahættir

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það eru nokkrar aths. sem ég vildi gera við ræðu hæstv. viðskrh. Mér fannst hann ekki svara þeim spurningum, sem ég lagði fyrir hann, á þann hátt sem ég hafði gert mér vonir um. Ýmsar aths. hans voru þannig, að mér sýndist lítið tilefni til þeirra út af fyrir sig.

Hæstv. ráðh. sagði, að að sjálfsögðu gæti verðlagslöggjöf ekki ráðið við verðbólguvandamálið. Ég get ekki trúað því, að hæstv. ráðh. hafi skilið mál mitt á þá lund, að ég gerði kröfu um það eða ætlaðist til þess. Auðvitað er augljóst, að engum manni dettur slíkt í hug. Hinu er hins vegar ekki að neita, að þróun verðlagsmálanna er æðimikill hluti af verðbólguvandamálinu. Það er því ekki alveg sama hvernig gengið er frá þeim málum, hvort reynt er að hafa hemil á hækkandi verðlagi, eins og ég ætla að hafi verið tilgangurinn með þeim ráðstöfunum sem í gangi hafa verið, eða hvort menn gefast upp við að hafa hemil á því og gefa verðlagsmálin frjáls. Þetta átti ég við, því að mér sýnist að miklar líkur séu til þess, ef verðlagning verður gefin frjáls við núverandi kringumstæður, að þá muni það leiða til hækkandi verðlags, til vaxandi verðbólgu, til þess að auka vandann. Hinu hafði ég aldrei haldið fram, að verðlagslöggjöfin gæti dugað til þess að ráða niðurlögum verðbólgunnar, það er útúrsnúningur að tala um slíkt.

Aðalatriðið í svari hæstv. viðskrh. var að sjálfsögðu að skýra nokkru nánar, eins og beðið var um, hver væri skoðun hans á samkeppnisaðstöðu þeirri sem frv. gerir ráð fyrir að þurfi að verða til staðar til þess að álagning verði gefin frjáls. Hæstv. ráðh. lagði í svari sínu megináherslu á að aðalatriðið væri, hver ætti að úrskurða um hvort þessi samkeppnisaðstaða væri til eða ekki. Um þetta atriði spurði ég ekki út af fyrir sig, því að í frv. er afar ljóst hver á að úrskurða um þetta. Vandinn liggur ekki í því. En ég geri ráð fyrir því, þegar hæstv. ráðh. leggur til að þessi skipan verði tekin upp að hann hafi gert sér grein fyrir því, hvort stefnt sé að því eða ekki að álagningin verði gefin frjáls. Því spurði ég um álit hans, hvort hann teldi að núverandi aðstæður væru þannig, að t. d. ætti að gilda samkv. þessu frv, frjáls álagning í matvöruverslun og í öðrum verslunargreinum. Ég tel að hæstv. ráðh. hafi í svari sínu í rauninni, þó að það væri ekki mjög ákveðið, sagt að hann teldi aðstæður til þess að gefa álagninguna frjálsa í matvöruverslun. En hann vek sér alveg undan því að svara nokkru til um hinar greinarnar, sem eru vissulega mjög þýðingarmiklar líka. Í rauninni er ekki frambærilegt, að hæstv. viðskrh. skuli ekki vera við því búinn að svara því, hann sem á að vera gerkunnugur þessum málum, hvort hann telur að þær aðstæður séu fyrir hendi nú að gefa álagningu í hinum verslunargreinunum frjálsa eða ekki. Það er aðeins álit hans. Mér er alveg ljóst, að hugsanlegt er að álit hans færi ekki saman við úrskurð þessa verðlagsráðs, en það er allt annað mál. Ef álit hans kæmi skýrt fram um þetta, þá lægi þó fyrir að hverju hann stefndi með flutningi frv. miðað við núverandi aðstæður. Auðvitað á atriði eins og þetta að liggja fyrir, hvort ætlunin sé að túlka ástandið þannig, eins og það er nú, að gefa eigi álagningu frjálsa í þessum verslunargreinum sem ég minntist á. En sem sagt, hæstv. ráðh. kaus að víkja sér undan því að segja álít sitt á þessu nema aðeins varðandi matvöruverslunina.

Svo kom að því að svara því, hvort ákvæðin um frjálsa álagningu væri hægt að framkvæma þannig að um frjálsa álagningu yrði að ræða á einum stað á landinu í tiltekinni verslunargrein, þó að ekki yrði um frjálsa álagningu að ræða í sömu grein annars staðar á landinu. Hæstv. ráðh. svaraði því þannig, að öll lög næðu yfir landið allt. Þetta kalla ég að svara út úr. Auðvitað er ljóst, að lögin sem heild varða landið allt. Um það er ekki spurt. En þegar um er að ræða að ákveða, hvort gefa skuli álagningu frjálsa, og slíkt er þó bundið því skilyrði að nægileg samkeppnisaðstaða sé fyrir hendi, þá getur nægileg samkeppnisaðstaða t. d. verið til staðar í Reykjavík, þó að að mínum dómi sé hún ekki til staðar á landinu eða á ýmsum öðrum stöðum á landinu. Ég t. d. sætti mig ekki við þá skýringu, að nægileg samkeppnisaðstaða sé þar sem aðeins er eitt verslunarfyrirtæki í heilu byggðarlagi, jafnvel þó að hægt sé að segja að menn geti komist frá því byggðarlagi til annarra byggðarlaga og komist þar í samkeppnisaðstöðuna. Auðvitað fer verslunin ekki fram með þeim hætti, t. d. matvöruverslun, að menn fara á milli byggðarlaga sem langt er á milli. Auðvitað er alveg fráleitt að benda á það, að þannig geti þeir komist í það sem kallast samkeppnisaðstaða. Hins vegar hefði verið hægt að gera ráðstafanir til þess að tryggja sanngjarnt verðlag á þeim stöðum, sem svona er ástatt á. Ég get vel ímyndað mér að ákveðið hefði verið, t. d. í sambandi við matvöruverslun, að í Reykjavík væri til staðar nægileg samkeppnisaðstaða í þeirri grein og ákveðið hefði verið; að gildandi væri þar frjáls álagning. Þá hefði verið eðlilegt að verðlagseftirlitið, sem er til staðar, og verðlagsyfirvöld hefðu tryggt það með ákvæðum sínum, að hliðstætt verðlag og gildir á samkeppnissvæðinu Reykjavík ætti þá að gilda annars staðar þar sem samkeppnisaðstaða er ekki. En ef þeir, sem búa við það að aðeins er rekin ein verslun, eiga líka að taka því, að þar megi þeir, sem fara með verslunina, leggja á að eigin vild, er réttur þeirra neytenda orðinn æðitakmarkaður. Ég held því, að þessi skýring hæstv. ráðh. sé ekki nægileg. Fallegt er að tala um að álagning skuli gefin frjáls þar sem nægileg samkeppnisaðstaða sé til staðar. En að draga af því þá ályktun, að vegna þess að slík aðstaða er til á einum stað á landinu, þá eigi að vera frjáls álagning alls staðar á landinu, þó að þessi samkeppnisaðstaða sé þar ekki fyrir hendi, finnst mér heldur hæpið. Helst fannst mér að leggja yrði þá merkingu í orð hæstv. ráðh. varðandi þetta atriði, að ef ákveðin væri frjáls álagning í tilteknum vöruflokkum á einum stað, þá yrði sama að gilda á öllum öðrum stöðum. Mér finnst þá hefði þurft að koma eitthvert ákvæði um að verðlagsyfirvöld gætu gripið inn í, ef þeim fyndist ástæða vera til þess á einhverjum þeim stað þar sem ekki er um nægilega samkeppnisaðstöðu að ræða.

Þá var það atriðið um skipan verðlagsráðsins. Ég verð að segja, að mér sýnist sú skipan á verðlagsráði, sem hæstv. ráðh. mælti fyrir og taldi fyllilega eins góða, m. a. fyrir launþegana í landinu, og þá sem nú gildir, mér sýnist hún vera miklu, miklu lakari og reyndar heldur hæpin líka fyrir stjórnvöld landsins. Valdsvið verðlagsráðs er æðimikið samkv. frv. Það fellir endanlegan úrskurð um viss atriði. Það er t. d. létt að sjá að með þessari skipan gæti til þess komið að tveir fulltrúar atvinnurekenda í verðlagsráði og tveir fulltrúar Hæstaréttar stæðu saman og mynduðu meiri hluta. Ekki kæmi mér á óvart að slík staða gæti komið upp æðioft, af þeirri reynslu sem fengin er af slíkri tilnefningu. M. ö. o.: hæglega gæti svo farið, að tveir fulltrúar neytenda og fulltrúi ríkisstj. væru í minni hluta og réðu ekkert um þær ákvarðanir sem teknar yrðu af hinum aðilunum. Mér þykir miklu eðlilegra að búa við það skipulag, sem verið hefur, að fari svo, að fjórir fulltrúar launþega standi gegn fjórum fulltrúum atvinnurekenda og komi sér ekki saman, þá verði aðilar að búa við það að hlíta þeim úrskurði sem fulltrúi ríkisstj. gefur. Ofureðlilegt er að það sé fulltrúi ríkisstj., sem ber höfuðábyrgð á framkvæmd verðlagsmálanna í landinu, hafi þetta úrskurðarvald. Mér finnst það ekki óeðlilegt á neinn hátt. Hitt finnst mér ekki góður kostur, að skipa í verðlagsráðið á þennan hátt og geta átt von á því, að þessir aðilar stæðu saman, sem ég tel mjög miklar líkur á. Afleiðingin yrði sú, að framkvæmdin yrði jafnvel á talsvert annan veg en stjórnvöld kysu í mörgum tilfellum. Það var engin tilviljun, að sú gamla skipan, sem hæstv. viðskrh. minntist á, að ákveðnir hagfræðingar höfðu mikið vald í þessum efnum í hinu gamla viðskiptaráði, var lögð niður. Viðskiptaráð var einmitt lagt niður vegna þess að fulltrúar vinnumarkaðarins töldu sig hafa mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við skipan verðlagsmála, vegna þess að þeir vildu gjarnan fá þessa aðstöðu, enda áttu þeir þarna mikið undir og töldu að þetta embættismannavald væri ekki hið æskilega fyrirkomulag. Og ég er á þeirri skoðun enn þá. Ég sé enga ástæðu til þess, að Hæstiréttur sé að skipa menn til að hafa áhrif á valdsvið verðlagsráðsins — enga. Að því leyti til sem svonefnd samkeppnisnefnd á að hafa hér lagalegt úrskurðarvald um viss atriði, þá getur gilt allt annað um það, ef í slíkri stjórn væru fulltrúar Hæstaréttar. En eins og ég hef sagt áður, þá sýnist mér að sá kafli frv. sé ekki ýkjamerkilegur, og ég á ekki von á að framkvæmdin þar breyti ýkjamiklu frá því sem verið hefur.

Ég held að hæstv. viðskrh. eigi eftir að þreifa á því, að þessi skýring, sem hann bar fram og fleiri hafa notað stundum, sé ekki meðmæli með löggjöf um þýðingarmikil málefni sem þeir, sem eiga þar mestra hagsmuna að gæta, séu allir á móti. Frv. er þannig úr garði gert, að þeir aðilar, sem sækja hér fastast á um að hafa mest frjálsræði í verðlagningarmálum, eru andvígir því eða telja það ekki nægilega gott, og hinir, sem af eðlilegum ástæðum vilja standa gegn miklum verðhækkunum, eru óánægðir. Það eru ekki merkileg rök með einu frv. að tefla því fram, að allir þessir aðilar séu sjálfsagt meira og minna óánægðir með málið. Það, sem, skiptir auðvitað mestu máli í þessu sambandi er, eins og hæstv. viðskrh. sagði, að takast megi að hafa áhrif á verðlagið svo að það hækki ekki frá því sem verið hefur eða frá því sem þarf að vera. Hið endanlega verðlag skiptir máli. Og ég óttast, eins og ég hef sagt áður, að verði verðlagningin gefin frjáls við núverandi aðstæður, muni verðlag fara hækkandi. Þeir aðilar, sem þar sækja fastast á, eru óánægðir með sinn hlut. Þeir vilja fá meira í sinn hlut. Vegna þess arna er ég andvígur þessu frv. Ég hef lagt á það áherslu, að þetta gildir auðvitað alveg sérstaklega við þær aðstæður sem við búum við í dag, því að verðbólga er mikil, mikil hreyfing í verðlagsmálum og mjög vandasamt að semja við þá aðila sem eiga svo mikla hagsmuni tengda við þróun verðlagsmála. Við þessar aðstæður tel ég hið mesta óráð að fara að gera tilraunir í þessum efnum, eins og mér skildist á hæstv. ráðh. að fyrir honum vekti. Hann talaði um að þessi skipan, sem hér ætti að taka upp, gæti verið eins konar tilrann. Ég tel tilraunastarfsemi af þessu tagi mjög óheppilega við núverandi kringumstæður. Það verður ekki hlaupið að því að snúa til baka aftur.

Ég saknaði þess, að hæstv. ráðh. svaraði spurningu minni varðandi 2. mgr. 12. gr. — þessa mgr. sem ríkisstj. hefur bætt við þau ákvæði sem embættismannanefndin hafði sett í frumvarpsdrög sín. En í 2. mgr. kemur alveg ný skýring á því, við hvað eigi að miða hámarksálagningu og hámarksverð, sé þeim ákvæðum beitt. Kannske fæst svar við spurningu þessari þegar unnið verður við frv. í n. og getur því beðið, en hæstv. ráðh. vék sér alveg undan að svara spurningum um þetta. Eflaust kemur fram við afgreiðslu málsins í n., hvað er á bak við þessi ákvæði.

En ýmis önnur ákvæði hefði verið ástæða til þess að minnast á. Hér er t. d. eitt sem ég vildi gjarnan líka fá skýringu á, þó að það sé í kaflanum sem ég sagði áður að mér sýnist ekki að ég gæti tengt miklar vonir við, en það er IV. kafli frv. Í 25. gr. er ákvæði um það, að samkeppnisnefndin geti skyldað fyrirtæki til þess að selja nánar tilgreinda vöru eða þjónustu til þess að koma í veg fyrir að þarna séu hafðir uppi óeðlilegir verslunarhættir. M. ö. o.: aðili, sem rekur almenn viðskipti, er skyldaður til þess að selja án óeðlilegra skilyrða þá vöru sem hann hefur til almennrar sölumeðferðar. Út af fyrir sig finnst mér þetta mjög eðlilegt atriði, og væri betur að samkeppnisnefndin beitti þessu ef ætti að fara að geyma vöru á þennan óeðlilega hátt.

En í grg. með frv. kemur nokkuð einkennileg skýring á þessu. Þar segir varðandi þetta atriði, þegar það hefur verið skýrt að öðru leyti:

„Rétt er þó að taka fram, að þessi lagasetning á ekki að koma í veg fyrir, að t. d. samvinnusambönd geti hér eftir sem hingað til útvega,ð kaupfélögum vörur án þess að eiga yfir höfði sér að vera skyldað til að selja þær vörur öðrum.“

Í fyrsta lagi hafði ég skilið þessa grein þannig að hér væri fyrst og fremst um almenna sölu að ræða til neytenda, því að það skiptir máli í þessum efnum, þarna er um að tefla hagsmuni hins almenna neytenda. Ég tel að þessi regla eigi að sjálfsögðu að gilda um kaupfélög eins og önnur verslunarfyrirtæki, að reki þau opin og almenn viðskipti eigi þan líka að vera skyldug til þess að selja vöru sínar öllum þeim, sem um þær biðja, eftir hinum almennu sölureglum sem um það gilda. Mér sýnist hin skýringin, sem þarna er gefin, vera út í hött að taka sérstaklega fram að samvinnusamband megi selja vörur sínar til kaupfélaganna. Ég fæ engan veginn skilið ákvæði 25. gr. þannig, að hún gæti komið í veg fyrir neitt slíkt. En ég vil ekki heldur fyrir mitt leyti skilja þessi ákvæði í grg. þannig, að t. d. samvinnuverslun sé undanþegin þessari almennu skyldu við neytendur. Ég vona að skýringin sé ekki sú, því að það finnst mér óeðlilegt. Reki verslunarfyrirtæki, af hvaða tegund sem er, almenna sölustarfsemi, þá á neytandinn að hafa þennan rétt, að eiga kost á vörunni undir öllum venjulegum kringumstæðum án þess að hægt sé að skjóta sér á bak við það, að öðrum sé búin ætluð. En atriði eins og þetta skýrist eflaust líka í n., þegar málið verður þar til frekari athugunar.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um málið á þessu stigi. Tækifæri gefst til þess síðar. En ég ítreka það, sem ég hef sagt áður, ég tel þann tíma, sem valinn er til þess að gera breytingar af því tagi sem felast í þessu frv. um verslunarálagningu, vera mjög óheppilegan. Ég held að við núverandi aðstæður sé þessi tilraun, sem hæstv. ráðh. hefur kallað svo, dæmd til að mistakast. Hún mun leiða til hækkandi verðlags. Ég er afar hræddur um að sú mikla trú, sem einstakir menn hafa á frjálsri samkeppni, eigi eftir að dofna. Við höfum reyndar staðið frammi fyrir því áður, þegar tilraunir í þessa átt hafa verið gerðar, að þær hafa mistekist, en sérstakar eru þær aðstæður sem við búum við í dag. Þetta þýðir ekki, að ekki hefði verið hægt að gera ýmsar gagnlegar breytingar á núverandi löggjöf, einkum framkvæmd hennar. Ég er ekki með þessari afstöðu minni á neinu hátt að mæla bót úreltum ákvæðum, sem eru í gildi og mér er ljóst og hefur verið ljóst lengi að þarfnast endurskoðunar. En við þær aðstæður, sem við búum við nú í verðþróunarmálum og efnahagsmálum almennt, tel ég fráleitt að gefa verslunarálagninguna frjálsa. Það mundi leiða til stórhækkaðs verðlags og vaxandi erfiðleika, bæði í launamálum og þróun efnahagsmála yfirleitt.