04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

143. mál, hönnun nýs alþingishúss

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég lít svo á, að þessi fsp. sé öllu frekar áminning, vegna þess að það eigi að vera fráleitt með öllu að það þurfi lengur að spyrja hvort opinberar byggingar, sem enn eru á teiknistigi eða varla komnar á það, verði hannaðar öðruvísi heldur en svo, að faltað fólk eigi að geta haft fullan umgang og starfað í þeim byggingum. Þetta tel ég sjálfsagt.

Engu að síður gefa aðstæður í þessu húsi tilefni til að leggja fram þessa fsp. Það hefur hvarflað að mér, hvort ekki hefði átt að vera annar liður á þá lund, hvort það hefði verið kannað hvort ekki er hægt að koma fyrir lítilli lyftu í þessu húsi, því að við eigum eftir að nota það um langa hríð. Það er ekki viðunandi, að Alþingi Íslendinga búi við þau starfsskilyrði, að fólk geti ekki setið á þingi vegna þess að það er fatlað.