04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3093 í B-deild Alþingistíðinda. (2271)

176. mál, risna fyrirtækja

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Ég sendi fsp. hv. þm. til ríkisskattstjóraembættisins og óskaði eftir grg. af þess hálfu til þess að upplýsingar kæmu frá þeim yfirvöldum sem með þessi mál fara. Sem svar við fyrri fsp. segir í bréfi frá ríkisskattstjóra til fjmrn., dags. 3. apríl:

„Gjaldliður sá, er hér er til umfjöllunar, fellur undir ákvæði A-liðar 11. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt sem fjallar um rekstrarkostnað atvinnurekstrar, þ. e. þau útgjöld sem eiga að ganga til þess að afla tekna, tryggja þær og halda þeim við. Engin sérstök ákvæði er að finna í lögum um tekjuskatt og eignarskatt um risnu umfram framanrituð efnisleg ákvæði um rekstrarkostnað almennt.

Í 2. málsl. h-liðar 27. gr. reglugerðar nr. 245 frá árinu 1963, um tekjuskatt og eignarskatt, segir svo:

„Þá má og draga frá risnu vegna atvinnurekstrar eftir mati skattstjóra, enda verði hún talin sem skyldukvöð eða óhjákvæmileg til öflunar teknanna.“

Framangreind efnisleg ákvæði laga og reglugerðar um tekjuskatt og eignarskatt eru þær reglur sem skattstjórar hafa sér til stuðnings við afgreiðslu á þessum gjaldalið, sem er einn af umdeildustu liðum í framtölum milli atvinnurekenda og skattstjóra.

Samkv. framangreindu svo og eðli máls þessa er hér um að ræða matsatriði sem afar erfitt er að setja reglur um. Af hendi embættis ríkisskattstjóra hafa leiðbeiningar farið fram í því formi að senda skattstjórum úrskurði ríkisskattanefndar sem gildi hafa, svo og hafa þessi mál verið rædd á fundum með skattstjórum. Þau atriði, sem lögð hefur verið áhersla á að lítið sé til, eru eðli viðkomandi atvinnurekstrar, umfang, velta og hugsanleg hlunnindi eigenda, stjórnenda og starfsmanna.“

Vil ég leyfa mér að vitna til kafla úr bæklingi, sem saminn var á vegum embættis ríkisskattstjóra og notaður er til leiðbeininga og kennslu, bæði fyrir þátttakendur í námskeiðum og starfsmenn almennt, en þar segir:

„Engin skilgreining er á orðinu risna í reglugerðinni, en rætt um risnu sem skyldukvöð og óhjákvæmilega til öflunar teknanna og lagt í hendur skattstjóra að leggja mat sitt á þennan þátt. Af hálfu skattyfirvalda hefur verið litið á risnu sem kostnað, sem fyrirtæki verða fyrir fyrst og fremst vegna viðskiptamanna sinna til að efla tengsl við þá og hafa áhrif á viðskipti þeirra við fyrirtækið. Ýmis form hafa verið á þessum kostnaði, þ. e. veitingar, gjafir, fríðindi eða hlunnindi margvísleg. Kostnað vegna starfsmanna fyrirtækja, t. d. árshátíð starfsmanna, veitingar til þeirra og þess háttar, hafa skattyfirvöld á liðnum árum yfirleitt synjað um að líta á sem skyldukvöð eða óhjákvæmilegan kostnað. Á síðustu árum hefur þó ríkisskattanefnd fallist á að margvíslegur kostnaður, er fyrirtæki greiðir vegna starfsmannahalds, teljist vera rekstrarkostnaður og þar af leiðandi frádráttarbært. Enda þótt það sé lagt í hendur skattstjóra að meta risnuþörf fyrirtækis má ráða af úrskurðum ríkisskattanefndar, að skattstjóri verður að byggja mat sitt og ákvörðun um niðurskurð vegna áætlaðra einkaþarfa á rökstuddan hátt. Nauðsynlegt er því, að fyrir liggi nákvæmar upplýsingar um risnukostnað og tengsl hans við starfsemi fyrirtækisins.“

Þetta var tilvitnun í þann bækling, sem víkið er að í bréfi ríkisskattstjóra.

Sem svar við 2. fsp. segir í sama bréfi: „Þar sem fsp. þessi kemur fram á þeim tíma ársins sem undirbúningur að álagningu skatta gjaldársins 1978 er í fullum gangi, treysti ég mér ekki til að leggja þá miklu viðbótarvinnu á skattstjóra sem sæmilega tæmandi svar við fsp. hv. þm. krefst. Slík vinna þyrfti að fara fram síðari hluta árs. Ég hef því valið síðari kostinn, þ e. að gera hæfilegt úrtak. Úrtak það, sem ég lét gera, var þannig unnið, að tíunda hvert framtal skattskyldra félaga var tekið til athugunar í þremur stærstu skattumdæmum landsins, þ. e. Reykjavík, Reykjanesumdæmi og Norðurlandsumdæmi eystra. Í reynd varð þó úrtakshlutfall í Reykjavík 11.6% í stað 10%.

Niðurstaða úrtaksins sýnir tæpar 343 millj. kr. útgjöld vegna risnu hjá skattskyldum félögum á öllu landinu og hefur þá risnukostnaður í skattumdæmum utan Reykjanesumdæmis og Norðurlandsumdæmis eystra verið áætlaður með sama hlutfalli milli risnukostnaðar og hreinna tekna og fram kom í tveimur nefndum umdæmum milli risnukostnaðar og hreinna tekna þar.

Með tilliti til framanritaðs, svo og annarra atriða, sem of langt mál yrði að telja upp, en ég hef haft í huga, tel ég að heildarrisnuútgjöld skattskyldra félaga við álagningu 1977 hafi legið á milli 300 millj. kr. og 350 millj. Nákvæmari upphæðir treysti ég mér ekki til að nefna með hliðsjón af þeim gögnum og upplýsingum, sem ég hef aðgang að og hef notað.“

Ég tel ekki ástæðu til að bæta neinu við það bréf, sem ríkisskattstjóri hefur ritað fjmrn. til svars við þessari fsp., og vonast til þess að nægar upplýsingar komi hér fram til svars við þessari fsp.