04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

229. mál, lausaskuldir bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til þess, úr því að þetta mál er komið hér á dagskrá, að þakka hæstv. landbrh. fyrir það sem þegar hefur verið gert í málinu, þá vinnu sem hann hefur þegar látið fara fram. Hins vegar get ég ekki látið hjá liða að lýsa því, að ég er langeygður eftir því að málið komist fyllilega í höfn, ~því að mergurinn málsins er náttúrlega sá, að sú fjárútvegun, sem fyrir hendi stendur, takist. Það er sem sagt ljóst eftir þeim tölum, sem hæstv. ráðh. var að lesa hér upp, að ályktun Alþ. frá því í fyrravor var fyllilega tímabær.

Það er rétt að menn hafi það í huga, að þessar tölur eru miðaðar við árslok 1976. Það er að sjálfsögðu rétt að endurskoða þetta eftir útkomunni frá s. l. ári, 1977, en ég hef á tilfinningunni að það hafi dregið í sundur með þessum mönnum. Þessir 407 standa flestir verr að vígi núna heldur en þeir gerðu þá. Hins vegar hefur staða sumra annarra bænda batnað á árinu 1977.

Skuldugir bændur eiga ekki góðra kosta völ. Við vitum allir hvernig vaxtakjörum er háttað orðið í þessu þjóðfélagi og ég ætla ekki að fara að eyða þessum nauma ræðutíma mínum í að geta um þau að öðru leyti en því, að sumir þessara manna hafa orðið að bægja frá sér brýnasta vandanum með því að taka vaxtaaukalán sem nú bera 33% vexti. Guð má vita hvaða vexti þau bera næsta ár um þetta leyti, og slík lán geta bændur ekki tekið, nema þá stórríkir bændur. Það er ekki nokkur lifandi leið fyrir fátæka bændur að standa undir fjármagnskostnaði sem fenginn er á þennan hátt. Ég held, að það sígi hratt á ógæfuhlið fyrir þeim sem lakast eru settir og því hraðar sem lengur líður, og bilið á milli þeirra, sem bjargast af, og hinna breikkar stöðugt.

Ég heiti nú á hæstv. landbrh., sem ég reyndar veit að er allur af vilja gerður — og ég geri það vegna þess að ég veit að hann er allur af vilja gerður, að bjarga þessu máli, að herða nú á fjárútvegun eins og hann mögulega getur. Þeir segja hjá Byggðasjóði, að þeir séu búnir að loka búðinni. Byggðasjóður hefur reyndar alltaf verið lokaður fyrir landbúnaði í flestöllum tilfellum. Þennan vanda verður að leysa, en hann má ekki leysa með því að bjóða bændum illseljanleg eða óseljanleg skuldabréf.