04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3104 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

229. mál, lausaskuldir bænda

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég fagnaði að sjálfsögðu mjög þeirri till. sem fram kom hér í fyrra og fór í gegn á nánast methraða, sem sýndi það, að menn höfðu fullan skilning á því, að hér væri um mikinn vanda að ræða, þar sem það var að leysa úr lausaskuldamálum bænda. Ég vissi um örðugleika nokkurra — næstum að segja tuga manna í mínu kjördæmi, og fyrir nokkra þeirra a. m. k. held ég að það gæti skipt sköpum um það, hvort þeir halda áfram búskap eða ekki, hvort á þessu fæst lausn eða ekki nú hið bráðasta. Það er hins vegar mála sannast hvað snertir hag þeirra stofnfjársjóða, sem að landbúnaðinum standa, bæði Stofnlánadeildar og Veðdeildar, að hagur þessara deilda er mjög slæmur nú. Það er ljóst, að það verður mjög erfitt að fullnægja lánsumsóknum hjá Stofnlánadeild nú, og Veðdeildin er í raun og veru gjaldþrota með því fyrirkomulagi sem þar er í dag. Því er alveg ljóst, að það þarf að fá aukafjármagn til að leysa þessi mál og þau þarf auðvitað að fá sem fyrst.

Ég átti þátt í því að semja í n. frv. til nýrra laga um Veðdeild Búnaðarbankans. Hún kemur inn í þetta. Ég heyrði það á hæstv. ráðh. á dögunum, að hann hafði ekki verið mjög hrifinn af því frv. Ég áleit þá jafnvel að óánægja hans stafaði af því, að við hefðum ekki tekið þetta mál þarna inn i, þessa nauðsyn sem er á því að veðdeild gæti sinnt verkefni eins og þessu. En það kom glögglega í ljós í máli hæstv. ráðh. áðan, að þarna hefur önnur n. að starfað, og ég fagna því sem sagt, að við höfum ekki í því efni misskilið okkar hlutverk í þessari ágætu n. En ég vildi taka undir heitstrengingu þá, eða það, þegar hv. þm. Páll Pétursson var að heita á hæstv. ráðh. að reyna að leysa þessi mál sem allra fyrst. Ég veit að það er ekki auðvelt, og einmitt af því að ég veit að það er ekki auðvelt að fá núna viðbótarfjármagn til landbúnaðarins, þá veit ég að það þarf að hafa hér hröð handtök. Og ég treysti á hæstv. ráðh. að sjá til þess, að þau handtök verði viðhöfð.