04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3105 í B-deild Alþingistíðinda. (2282)

229. mál, lausaskuldir bænda

Fyrirspyrjandi (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans við fsp. minni. Ég efa það ekki, að þeir menn, sem hann hefur falið að vinna að þeirri athugun sem felst í þeirri þál. sem hér er til umr., eru hinir hæfustu menn. Ég tel, að þeim málum sé vel komið í höndum þeirrar nefndar, og læt í ljós sérstakt traust á þeim manni sem hefur forustu fyrir þessari n., Arna Jónassyni. En ljóst er að fjarri fer því, að hæstv. ráðh. hafi verið í aðstöðu til þess að boða okkur lausn þessara mála. Og þó að ég geti í sjálfu sér tekið undir með hv. þm. Páli Péturssyni, að okkur beri að þakka honum það sem hann hefur gert, þá verð ég að segja að það vantar nokkuð á að hann hafi gert nóg. Og ég tek undir hvatningu þess hv. þm. til hæstv. ráðh. að láta nú hendur standa fram úr ermum að útvega fjármagn til þess að bæta úr þeim mikla vanda sem hér um ræðir. Ég tek einnig undir með Páli Péturssyni, að vafalaust er hæstv. ráðh. allur af vilja gerður. En í þessu efni á við hið fornkveðna, að „góð meining er enga gerir stoð“. Það er ekki nóg að ráðh. sé af vilja gerður. Hann verður að hafa afl þeirra hluta sem gera skal. Og ég tek undir þau hvatningarorð, að hann fari nú að reka tryppin af meiri krafti.