04.04.1978
Sameinað þing: 61. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3114 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

356. mál, markaðsmál landbúnaðarins

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög ánægjulegt að umr. skuli fara fram um nauðsyn þess að auka kaup erlendis frá á íslenskum landbúnaðarafurðum, ekki síst þegar við horfumst í augu við þann vanda, að við þurfum nú að losa okkur við til útlanda um 40–50% af dilkakjötsframleiðslunni eins og hún hefur verið á ári. Það er sjálfsagt að leita allra ráða til þess að auka kaup útlendinga á þessari afurð okkar, en þó fyrst og fremst til að auka það verð sem við fáum fyrir þetta útflutta magn, einfaldlega vegna þess að við rísum ekki til lengdar undir því að greiða mjög háan mismun á því verði, sem fæst fyrir þessar afurðir erlendis, og því verði, sem þarf að fást fyrir þær til þess að framleiðendur geti við unað.

Það er líka mjög ánægjulegt, að leitað er til ýmissa forustumanna þjóðarinnar, þeirra sem líklegastir eru taldir til þess að geta aukið hag okkar í þessum málum á erlendum vettvangi, og mér til mikillar ánægju las ég í Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. apríl, þ. e. a. s. í dag, frétt þess efnis, að þýsk-íslensku félögin í Köln og Hamborg hefðu snúið sér til viðkunns Íslendings með beiðni um það, að hann tæki að sér að flytja erindi til stuðnings við íslenska útflutningsframleiðslu á sviði landbúnaðar úti í Þýskalandi. Hann varð að sjálfsögðu við þessari beiðni þýsk-íslensku félaganna og sjálfsagt til mikils framdráttar og ánægju fyrir samtök framleiðenda í landbúnaði hér á Íslandi. Þessi maður er fyrrv. formaður Alþfl., Gylfi Þ. Gíslason, og er gott til þess að vita, að valinkunnir menn skuli vera valdir til þess að vera áróðursmenn fyrir íslenskan landbúnað á erlendum vettvangi. Sýnir þetta þá alla vega það, að allir erum við Íslendingar af vilja gerðir til þess að gera gott úr málefnum landbúnaðarins.

En það er eitt, herra forseti, sem ég get ekki látið hjá liða að minnast á í því sambandi. Það er líka í Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. apríl 1978. Þar er skýrt frá því í frétt á 5. síðu, að verið sé að reisa fuglasláturhús í Mosfellssveit til að geta slátrað 500 fuglum á klukkustund. Þetta mun við fljótan hugarreikning þýða 20 þúsund fuglar á einni viku. Ég er ansi hræddur um að þarna sé verið að byggja fuglasláturhús fyrir miklu stærri þjóð heldur en Íslendinga, ef á að taka trúanlegt að það eigi að reisa sláturhús fyrir fugla á einu horni landsins sem með eðlilegum afköstum ætti að slátra 20 þúsund fuglum á viku. Ég leyfi mér að spyrja í þessu tilviki, — ég efast um að hæstv. landbrh. viti um það, — hvort þarna eigi að fara að stofna til útflutningsiðnaðar sem við höfum ekki kynnst í þessari atvinnugrein áður.