04.04.1978
Sameinað þing: 62. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

61. mál, hafnaáætlun 1977-1980

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta geta verið örfá orð. — Þegar hafnalög komu til umr. á Alþ. eða frv. til hafnalaga, þá lýsti ég yfir eindregnu fylgi við áætlun af því tagi, sem nú er til umr. Það fylgi var að sjálfsögðu bundið því, að við það væri miðað, sem þar var ráð fyrir gert, að hafnaáætlun yrði sem líkust í sniði og líkust í framkvæmd og vegáætlun, — áætlun sem mætti að miklu leyti byggja á til frambúðar.

Hafnaáætlun sú, sem nú hefur séð dagsins ljós, hefur að vísu komið nú þegar til umr., blandaðist að nokkru leyti inn í fjárlagaumr. fyrr í vetur. Vissulega varð ýmsum vonbrigði sú niðurstaða sem þar kom fram, dapurleg niðurstaða varðandi t. d. einstaka staði og niðurskurð á hafnaáætluninni eins og hún liggur fyrir í þessu plaggi. En um það verða þær umr., sem þá urðu, að duga. Ég mun ekki endurtaka það.

Það er rétt, sem hæstv. ráðh. segir, að óskir heimamanna eru vissulega margþættar í þessum efnum og óskalisti þeirra getur oft á tíðum áreiðanlega verið fullbjartsýnn. En hins er að gæta, að fjölmörg byggðarlög eiga alla afkomu sína undir því, að hafnaraðstaða þeirra sé sem allra best. Því er eðlilegt að heimamenn hafi um þetta ákveðnar óskir og reyni eftir megni að leggja sitt á móti til þess að þessar óskir geti ræst. Þegar þessi áætlun var til umsagnar bæði heimaaðila og eins til umsagnar okkar þm. þótti mér sem í raun og veru, að eftir á væri allt of lítið tillit tekið til þeirra aths. sem þar komu fram. Ég veit ekki hvað olli því. Þetta voru m. a. aths., sem við þm. Austurl. vorum allir sammála um að gera við hafnaáætlunina á sínum tíma og horfðu ekki beint til kostnaðaraukningar, en e. t. v. ýmissa breytinga. Ég varð ekki var við, að neinar þær aths. væru til greina teknar af Hafnamálastofnuninni, þegar þetta var gert. Og það er vissulega miður. Þó er ég ekki að segja, að þær hafi allar átt rétt á sér eða stofnunin hefði átt að taka þær allar til greina.

Hæstv. ráðh. vitnaði í lögin. Ég tek undir það og efast ekki um að áform hans séu þau, að áætlanagerð af því tagi, sem hér er um hafnirnar, verði sem svipuðust og varðandi vegagerðina. Að vísu hefur komið fyrir, að orðið hefur að skera niður ýmsar framkvæmdir í vegagerð að einhverju leyti og að ekki hefur allt staðist sem skyldi. En þó er vegáætlunin býsna áreiðanlegt plagg, sem menn geta byggt töluvert mikið á. Hafnaáætlunin finnst mér meira í ætt við óskalista en æskilegt er. Þessi bók er gefin út og menn fá þessa bók í hendur, mikið rit og veglegt og fallegt. Þegar menn líta í það, þá fara þeir auðvitað fyrst að kanna hvað sé áætlað á þeirra stað þetta og þetta árið. Þegar svo kemur í ljós við fjárlagaafgreiðslu, að fjárlög ákveða annað, ákveða niðurskurð t. d. algerlega á vissum framkvæmdum þar, þá telja menn að þarna hafi þm. verið að svíkja það sem þeir hafa áður samþykkt. Fyrir þeirri gagnrýni höfum við orðið áþreifanlega núna og eins í fyrra. Ég man eftir dæmum um það úr kjördæmi mínu þá varðandi stað eins og Eskifjörð og reyndar fleiri, og núna í ár höfum við Austfjarðaþm. fengið heldur óþvegið orð í eyra bæði fyrir framkvæmdir á Djúpavogi og Seyðisfirði, sem sem voru á þessari áætlun, en ekki komust inn á fjárl. núna, að við hefðum verið búnir, eins og menn sögðu, að heita framkvæmdum og gefa uppáskrift okkar í þessari hafnaáætlun, en hefðum svo vanrækt að fylgja því nægilega eftir, eins og alltaf er um okkur sagt, að þessar upphæðir kæmu í fjárlögum. Báðar þessar framkvæmdir áttu að vera á árina 1978, en féllu báðar út. Það verður hins vegar að segja, að við höfðum að hluta til skýringu á þessu, m. a. vegna Borgarfjarðar eystri sem við tókum þarna inn í með aukinni fjárhæð vegna þeirra sérstöku ástæðna sem þar sköpuðust. Ég hlýt að lýsa yfir ánægu minni með, að það tókst að ná því fram. Ég fagna því að hæstv. ráðh. skyldi taka eins vel á því máli og hann gerði.

En ég vil aðeins í sambandi við þetta leggja áherslu á að þær hafnaáætlanir sem í framtíðinni verða samdar, verði þannig úr garði gerðar, að þær standist sem allra best og það verði reynt af öllum mætti, nema einhverjar sérstakar ástæður hamli því, að koma þeim framkvæmdum, sem þar eru ráðgerðar og skráðar, í framkvæmd á því ári sem áætlunin segir til um. Það hefur ekki verið að ófyrirsynju, að menn hafa sagt víða við mig í kjördæmi mínu: Það vantar ekki, að Grundartangahöfnin gengur sinn gang. Þar hlýtur að vera um einhverja forgangsframkvæmd að ræða samanborið við þessar fiskihafnir. Þar gengur allt sinn gang, þó að tiltölulega sé stutt síðan hún var ákveðin, en okkar hafnir, t. d. bæði á Djúpavogi og Seyðisfirði. var hægt að skera niður. — Ég tek auðvitað undir þá gagnrýni, sem víða hefur komið fram um þá framkvæmd alla. Ég er auðvitað andvígur þeirri framkvæmd sem slíkri, og enn síður vil ég að hún sé eins konar forgangsframkvæmd í þessum efnum.

Ég sem sagt vil aðeins taka fram. að ég vona að hæstv. ráðh., hverjum sem með þessi mál fer í næstu ríkisstj. eftir næstu kosningar, takist það markmið, sem hæstv. ráðh. vék að áðan, að gera hafnaáætlunina sem næst vegáætluninni að áreiðanleika, að sem best og mest verði staðið við þau áætlunarverkefni sem sett eru þarna á blað. Hér er um að ræða verkefni sem stofnunin er búin að vinsa úr óskalista heimamanna og skera auðvitað stórlega niður frá því sem heimamenn hafa óskað eftir. Ég vona því þegar þær tölur hafa verið settar á blað, sem sjást í þessari miklu bók, og þær framkvæmdir einnig verði ákveðnar, sem þar eru settar á blað, geti menn í stórum dráttum — helst alveg — treyst því, að á hverju ári áætlunartímabilsins verði staðið sem allra best við þær framkvæmdir sem þar eru ákveðnar. Það hygg ég að sé ætlun hæstv. ráðh., þó að svona hafi tekist til, eflaust víðar en hjá okkur á Austurlandi. Það er um að gera að vekja traust manna á þessari áætlun, þannig að menn trúi því, að í þessar framkvæmdir sé hægt að ráðast á þeim árum, sem ákveðið er í áætluninni, og menn geta búið sig undir það. Heimamenn verða þá líka að standa við sinn hlut og verða reiðubúnir til þess að axla þær byrðar sem því fylgja að ráðast í framkvæmdir þessar. En þá má ekki að því reka, að þegar að framkvæmdum er komið samkv. áætluninni sé upphæðin öll skorin niður og framkvæmdinni frestað um eitt ár eða jafnvel lengur, því að slíks gætu einnig verið dæmi.