12.10.1977
Neðri deild: 2. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

Umræður utan dagskrár

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Þetta þing hefur hafist með nokkuð sérstöku og að mínu mati að ýmsu leyti skemmtilegu kapphlaupi milli Alþb. og Alþfl. Í gær var lögð fram á Alþ. till. frá Alþb: mönnum sem hljóðar á þá leið, að Alþ. kjósi fimm manna n., er skipuð sé einum fulltrúa frá hverjum þingflokki, til að semja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 52 1959, um kosningar til Alþingis er miði að því að gera kjósendum auðveldara en nú er að velja á milli frambjóðenda á þeim lista sem þeir kjósa. Í dag gerist svo það, að formaður þingflokks Alþfl. kemur upp og heldur fram sama máli og að mér virðist er hann að reyna að stela þessum króa af Alþb.

Mér finnst þetta kapphlaup skemmtilegt, þegar ég rifja upp fyrstu daga mína hér á Alþingi. Það var á sumarþinginu 1959 og þá var deilt um það kosningafyrirkomulag sem við búum við núna. Þá voru það Alþb. og Alþfl. sem höfðu samvinnu við Sjálfstæðisfl. og rufu reyndar vinstri stjórnina til að koma þessu fyrirkomulagi á. Og hver var sú meginbreyting sem gerð var með stjórnarskrárbreytingunni 1959? Meginbreytingin var sú að afnema persónulegt kjör þm. Fram að þeim tíma höfðu þm. verið að langsamlegu mestu leyti kosnir í einmenningskjördæmum, en það er eina fyrirkomulagið sem fullkomlega tryggir persónulega kosningu þm.

Megindeilan hér á Alþ. á sumarþinginu 1959 og reyndar á vetrarþinginu þar áður stóð nm þetta atriði, hvort ætti með einhverjum hætti að halda við persónulegri kosningu á þm. ellegar taka upp það fyrirkomulag sem upp var tekið með stjórnarskrárbreytingunni 1959 og afnam hana að langsamlega mestu leyti. Af hálfu Framsfl. voru lagðar fram till. til breyt, á stjórnarskránni sem ég tel að hafi að sumu leyti verið gallaðar, en byggðu þó á þeim megingrundvelli að haldið væri við persónulegt kjör á þm. Þessar till. fundu ekki náð hjá meiri hl. Alþ. þá, þ.e. Alþb. og Alþfl. ásamt Sjálfstfl. Meiri hl. tók upp það fyrirkomulag sem talsmenn Alþb. með till. í gær og talsmaður Alþfl. með ræðu sinni í dag eru sammála um að þurfi að breyta.

Raunar kom mér það ekki á óvart þó að þetta gerðist, og reyndar átti ég von á því að þetta mundi gerast miklu fyrr. Sú breyting á stjórnarskránni eða kosningafyrirkomulaginu, sem var tekin upp 1959, var að ýmsu leyti vanhugsuð og gerð í fljótræði, en mesti gallinn á henni var samt sá, að með henni var að mestu leyti afnumið persónulegt kjör þm. Og nú eftir 18 ár eru menn farnir að sjá að þessi breyting var röng, að það hefði átt að stefna að einhverju öðru, að svo miklu leyti sem þyrfti að breyta kosningafyrirkomulaginu, heldur en að afnema persónulegt kjör þm. Skoðun okkar framsóknarmanna er að sjálfsögðu sú sama og var 1959, að við teljum heppilegt að reynt sé að stefna að því að tryggja sem best persónulegt kjör þm. En mikil spurning er hvernig það sé hægt að gera, og ég hygg að það sé ákaflega erfitt að óbreyttu kosningafyrirkomulaginu eins og það er í dag. En sjálfsagt er að leita úrræða í þeim efnum og reyna að ná samkomulagi um það, hvort hægt sé að koma kjöri þm. meira í sömu átt og meðan þeir voru kosnir persónulegri kosningu í einmenningskjördæmum.

Það hefur verið talað um það hér, að þessum breytingum megi ná með tvennum hætti: annaðhvort með breytingum á stjórnarskránni eða á kosningalögum eða hvoru tveggja. Sennilega þyrfti að gera hvort tveggja. Ég hallast nú meira að því persónulega, að ef að því ráði verði horfið að gera breytingu í þessum efnum, þá ætti að leggja megináherslu á að gera breytingar á stjórnarskránni. Þó að megi leiðrétta þetta eitthvað með breytingu á kosningalögunum, þá getur það aldrei orðið nema kák og það verður margt eftir sem nauðsynlegt er að gera. Það verða að koma breytingar á stjórnarskránni ef það á að ná fullkomlega þeim tilgangi sem stefnt er að í þessum efnum. Ég er hræddur um, ef horfið væri að því ráði að gera eingöngu breytingu á kosningalögunum nú, að þá gæti það orðið til þess að tefja fyrir breytingum á stjórnarskránni sem þarf að gera. Þess vegna legg ég persónulega áherslu á það, að verði nú hafið samstarf milli flokkanna, eins og ríkisstj. ákvað að beita sér fyrir, um að reyna að finna lausn á þessu máli, þá verði frekar unnið að því að breyta stjórnarskránni, að ganga róttækt til verks og breyta stjórnarskránni í samræmi við þetta og þá kosningalögunum á eftir.

Það kom líka greinilega fram hjá hv. 4. þm. Reykn. áðan, að þó að horfið væri að því að reyna að jafna á milli kjördæma með því að breyta úthlutun uppbótarþingsæta, þá mundi, miðað við úrslit síðustu kosninga, ekki verða nein breyting á þeirri tölu þingmanna sem Reykjaneskjördæmi fékk. Ég held að menn geti viðurkennt það, eins og nú er komið, að það er óeðlilegt að þetta stóra kjördæmi fái ekki nema 5 þm.

Auk þess eru í sambandi við þetta ýmis atriði í stjórnarskránni sem nauðsynlegt er að breyta, ef menn vilja tryggja fullkomið jafnrétti. Ég vil t.d. benda á það, að hálft orð í stjórnarskránni getur valdið því, að þúsund eða tíu þúsund, jafnvel 12 þúsund atkv. falli dauð. Í d-lið 31, gr. stjórnarskrárinnar segir á þessa leið — það er um úthlutun uppbótarsæta: „11 landskjörnir þm. til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu sína við almennar kosningar.“ Vegna þess að þarna er talað um þingflokka, en ekki flokka, þá þýðir þetta að enginn flokkur kemur til greina við úthlutun uppbótarsæta nema sá flokkur sem hefur fengið kjördæmakosinn þm.

Nú munaði minnstu síðast, eins og þm. mun áreiðanlega reka minni til, að Alþfl. fengi kjördæmakosinn þm., en ef hann hefði engan kjördæmakosinn þm. fengið þá hefðu rúmlega 10 þús. atkv. fallið dauð. Þetta er að sjálfsögðu ákvæði sem þarf að lagfæra. Það er létt að sporna gegn því, að hér geti myndast óeðlilega margir smáflokkar, en hins vegar ganga hömlur í þeim efnum of langt þegar svo er komið að flokkur, sem fær yfir 10 þús. atkv., fær engan þm. kjörinn. Þetta er eitt af því sem mér finnst hvetja til þess, að verði horfið að því ráði núna að gera breytingar á kosningafyrirkomulaginu, þá verði það bæði látið ná til stjórnarskrár og kosningalaga, en ekki dregið að gera breytingar á stjórnarskránni.

En um þessi atriði ætla ég ekki að ræða frekar að þessu sinni. Ég vil aðeins endurtaka það, að ég er mjög ánægður með þær umræður sem hafa farið fram hér í dag, sérstaklega þegar ég minnist þeirra umr. sem voru hér í Alþ. þegar ég tók hér fyrst sæti. Nú eru þeir, sem beittu sér þá fyrir að afnema persónulegt kjör þm., komnir á þá skoðun, að það sé nauðsynlegt að vinna að því, þó að þær aðferðir, sem þeir benda á, séu e.t.v. ekki sem heppilegastar. Sem sagt, sú stefna, sem við framsóknarmenn beittum okkur fyrir 1959 og hafnað var þá, virðist vera að fá aukið fylgi aftur og það er vel.