05.04.1978
Efri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

224. mál, sala notaðra lausafjármuna

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. á þskj. 430 hef ég leyft mér að flytja frv. til laga um sölu notaðra lausafjármuna. Þar segir í 1. gr.:

„Hver sá, sem reka vill verslun eða umboðssölu með notaða eða gamla lausafjármuni, svo sem bifreiðar, bækur, innanstokksmuni eða annan varning, skal til þess hafa sérstakt leyfi lögreglustjóra viðkomandi lögsagnarumdæmis.“

Í 2. gr. er svo komið inn á leyfisveitingu. Leyfishafi skal fullnægja skilyrðum laga um verslunaratvinnu og fullnægja að öðru leyti þeim skilyrðum sem sett eru í lögum þessum eða öðrum lögum eða reglugerðum til að mega reka starfsemina.

3. gr. fjallar um afturköllun þessa leyfis ef leyfishafi hefur brotið ákvæði laga þessara eða almennar reglur um réttmæta verslunarhætti.

Í 4. gr. er talað um, í hvers konar húsnæði eða starfsstöð megi reka verslun af þessu tagi, enda fullnægi það ákvæðum reglugerða um öryggismál og húsnæði vinnustaða.

5. gr. fjallar um það, hvernig taka skuli til geymslu slíkan varning, nema um bifreiðar sé að ræða, til þess að menn geti sannað óvefengjanlega eignarrétt sinn á þeirri vöru sem þeir eru þannig að koma með til sölu.

6. gr. fjallar um heimildarskrá sem skylt er að halda um allan varning sem veitt er viðtaka til endursölu, hvort sem hann er keyptur eða tekinn til umboðssölu. Í þessa skrá skal svo færa upplýsingar eins og móttökunúmer, móttökudag, lýsingu hlutar, nafn, stöðu og heimilisfang þess sem hlutinn afhenti, söludag hlutar, nafn, stöðu og heimili kaupanda hlutar, innkaupsverð, viðgerðarkostnað, ef einhver er, og söluverð hlutar. Sé hlutur tekinn í vöruskiptum skal skiptaverðs getið.

Í 7. gr. er fjallað um, hversu lengi skuli geyma heimildarskrána og ýmsar aðrar upplýsingar um varning, svo sem kvittanir og bréf o. fl. Lögreglustjóra skal opinn aðgangur að þessari heimildarskrá, og er lýst hvernig hann geti krafist þess að fá skráðan sem óskráðan varning til skoðunar hvenær sem hann telur þess þörf.

Í 8. gr. er fjallað um það, að sá, sem verslunina reki, skuli jafnan sýna fyllstu aðgát við kaup og sölu gamals eða notaðs varnings. Telji hann ástæðu til skal hann krefja seljanda varnings um persónuskilríki. Óheimilt er að kaupa eða veita móttöku varningi til endursölu frá þeim sem yngri er en 16 ára. Svo er í raun og veru aðalatriði þessarar greinar: Seljandi bifreiðar skal sanna með vottorði Bifreiðaeftirlits ríkisins að hann sé skráður eigandi hennar.

Síðan er í 9. gr. heimild varðandi 5. gr., að lögreglustjóra sé heimilt að veita undanþágu frá ákvæðum 5. gr., þ. e. a. s. um geymslutímann. Er það í samræmi við önnur lög um þetta efni í nágrannalöndum okkar.

Þetta frv. skýrir sig að mestu leyti sjálft með því að lesa yfir þær athugasemdir sem því fylgja. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Að beiðni flm. frv. þessa, er það samið af Arnmundi Backman lögfræðingi. Víð samningu þess var einkum stuðst við gildandi reglur í Noregi og í því sambandi stuðst við gögn og ábendingar frá landssambandi löggiltra bílasala í Noregi, „Autoriserte Bruktbiihandleres Landsf orbund“.

Hinn 1. jan. 1977 gekk í gildi í Noregi reglugerð um sölu notaðra eða gamalla hluta. Reglugerð þessi var sett samkv. heimild í lögum um verslunaratvinnu, lov om handelsnæring frá 8. mars 1935, 10. kafla um „antikvar- og skraphandel“. Sambærilegum lagaákvæðum er ekki til að dreifa hér á landi.

Verslun og umboðssala með notaða gamla hluti, svo sem sala notaðra bifreiða, bóka, innanstokksmuna eða annars, hefur færst mjög í vöxt hér á landi á undanförnum árum, sér í lagi þó sala notaðra bifreiða. Verslun af þessu tagi er sérstaks eðlis. Hún byggir í aðalatriðum á því að endurselja ýmiss konar lausafjármuni, sem áður hafa verið í einkaeign. Af þeim sökum verður sölumaður að treysta eignarheimild þess sem hlutinn afhendir til sölu. Og sá, sem notaðan hlut kaupir, verður að treysta því að sú heimild hafi verið fyrir hendi, að hann hafi með lögmætum hætti eignast notaðan hlut.

Um eðli fornverslana eða umboðssölu notaðra bifreiða verður ekki farið fleiri orðum í grg. þessari. Sérstaða þeirra í verslunarviðskiptum er augljós. Af þeim sökum telur flm. þessa frv. brýnt að lögfest verði ákvæði sem tryggja ættu sæmilegt réttaröryggi í viðskiptum þessum. Með slíkt í huga er frv. þetta lagt fram. Í öllum aðalatriðum er ákvæðum hinnar norsku reglugerðar fylgt.“

Hér er sú leið farin að festa í lögum ýmis þau ákvæði, rammaákvæði þó, sem í Noregi eru í reglugerð og reyndar einnig á hinum Norðurlöndunum. Lagaákvæði þau, sem reglugerðin þar byggist á, eru ekki finnanleg í lögum hér á landi, og því þótti okkur, sem að þessu stöndum, mér sem flm. og Arnmundi Backman lögfræðingi, sem samdi frv., nauðsyn bera til að hafa um þetta nokkru skýrari lagaákvæði en eru í norsku lögunum, m. a. af því að um sumt er það eðlilegra þegar um nýmæli er að ræða í lagasetningu.

Hér er á engan hátt verið að setja óeðlilegar hömlur á þessi um flest eðlilegu viðskipti með notaða hluti, aðeins að veita þeim ákveðið aðhald í lögum, svo sem telja verður sjálfsagt, því að viðskiptin fara sívaxandi, einkum hvað bílasölurnar snertir, aðhald sem t. d. Landssamband löggiltra bílasala í Noregi hefur beinlínis óskað eftir þar í landi. Það er eðlilegt og sjálfsagt ákvæði, að leyfisveiting til verslunar sem þessarar sé bundin því, að almennt verslunarleyfi sé fyrir hendi: Sama er að segja um húsnæðið, að það hlýtur að þurfa að vera viðunandi sem vinnustaður, bæði hvað snertir öryggismál og hollustuhætti.

Í 5. gr., um 14 daga geymslufrest, er farið eftir norsku ákvæðunum, sem þó eru mun stífari því að í 9. gr. þessa frv. er gefið leyfi til undanþágu að fengnu samþykki lögreglustjóra. Hér er komið að því, sem er meginatriði þessa frv., en það er að fyllsta réttaröryggis sé gætt. Sá, sem með vöruna verslar, og sá, sem hana kaupir, verður að vera öruggur um að engin eftirmál eigi sér stað, að varan, sem keypt er, sé á eðlilegan og löglegan hátt komin í hendur þess sem selur nýjum aðila, þ. e. að eignarréttur þess, sem upphaflega selur fornverslun eða bílasölu hlut, sé ótvíræður eða sem allra ótvíræðastur. Þetta meginatriði varð t. d. orsök þess, að þessir aðilar í Noregi, sem eru með mikla verslun af þessu tagi, beinlínis óskuðu eftir ítarlegri ákvæðum hvað þetta snerti bæði í lögum og alveg sérstaklega í reglugerð.

Um bifreiðar gegnir alveg sérstöku máli. Bæði er það, að þar er um mjög mikla aukningu að ræða í viðskiptum, en þar er líka um mjög verðmæta hluti að ræða. Því er í stað 14 daga frestsins sett inn ákvæðið, sem ég var að lesa áðan, að seljandi bifreiðar skuli sanna með vottorði Bifreiðaeftirlits ríkisins að hann sé skráður eigandi hennar. Um þetta atriði var haft samráð við þá aðila hérlendis sem gleggst til þekkja, m a. þá sem hafa fengið mál til meðferðar í þessu sambandi, þ. e. þar sem eignarréttur seljanda hefur verið vafasamur og ábyrgð hans í raun engin þegar til átti að taka. Um þetta segir í athugasemdum við 8. gr:

„Í niðurlagi greinarinnar er lagt til að seljanda notaðra bifreiðar verði gert skylt að sanna með vottorði Bifreiðaeftirlits ríkisins eignarheimild sína. Í viðskiptum sem þessum hefur í seinni tíð borið talsvert á svokölluðum „raðsölum“, þ. e. að bifreið fer um hendur nokkurra seljenda sem þó eru ekki skráðir eigendur hennar. Hefur þetta þótt skapa talsverða réttaróvissu. Bifreið er fyrirferðarmikið tæki í nútíma þjóðfélagi. Á eigendum og ökumönnum hvílir veruleg ábyrgð samkv. lögum. En meðan „raðsölurnar“ án skráningar hvers eiganda viðgangast eru opinberar skrár ófullkomnar um skráningaskylda eigendur bifreiða.“

Hér er beinlínis verið að tryggja það, að þessar óæskilegu „raðsölur“ án skráningar nýs eiganda hverju sinni fari alls ekki fram, en að því eru vaxandi brögð. Fyrir því hef ég sjálfur orðið að nokkru leyti varðandi bílakaup mér náskyldra. Veit ég þess vegna, að þetta er vægast sagt vafasamt, ef ekki verða sett skýrari ákvæði þar um. Þar kom það sem sagt í ljós, að fara þurfti til þriðja aðila í raun og veru til þess að finna þann sem skráður var sem eigandi þeirrar bifreiðar sem seld var, svo undarlegt var þetta.

Um heimildarskrána kunna að vera uppi efasemdir, en grannþjóðum okkar hefur þótt nauðsyn bera til að hafa um þetta ákveðnar reglur, og því er lagt til að hún verði svo ítarleg sem segir í 6. gr. Ég legg engan dóm á það, hvort þetta er svo nauðsynlegt sem þeir telja í nágrannalöndum okkar, en ef nefnd getur tekið þetta til einhverrar umr. nú eða athugunar á þessu þingi, sem verður auðvitað að teljast frekar vafasamt að verði gert að nokkru ráði, þá auðvitað athugar n. það, hvað af þessu má vera beinlínis í lagaformi og hvað þá í reglugerðarformi. Sama er að segja um geymslu slíkrar skrár. Hér er í engu gengið lengra en grannar okkar ganga, en sjálfir vilja fornsalar og bilasalar í löndum þessum hafa sem nákvæmast og best yfirlit um viðskipti sín og geta haft það í höndum hvenær sem á væri þörf. Aukið réttaröryggi í þessum sívaxandi viðskiptum er markmiðið með frv. þessu og því ættu allir hlutaðeigandi að fagna mjög.

Ég hef aðeins heyrt örla á þeim misskilningi, að þetta frv. sé sett til höfuðs bílasölum og fornsölum. Slíkt er fjarstæða. Um leið og viðskiptavinum þeirra er tryggt betur en áður, að allt sé með felldu um kaup þeirra á hlutunum, hvort sem það er bók, þvottavél eða bíll, og engin eftirmál hljótist þar af, um leið ættu seljendurnir að tryggja sinn hlut. Annars er ekki allt eins og það á að vera. Það hlýtur að vera markmið hvers þess sem hér við fæst, að allt sé sem hreinast og ótvíræðast Ég efast ekki um það, að þeir sem hafa beinlínis óskað eftir þessu, sjálfir aðilarnir sem hafa beinlínis óskað eftir þessu í grannlöndum okkar hafi ekki gert það að ástæðulausu. Ég efast ekki um það heldur, því að svo vaxandi viðskipti er um að ræða, að við munum þurfa einnig að setja um þetta ákvæði. Þó er ég langt í frá að segja, að þau þurfi að vera nákvæmlega eins og hér er ráð fyrir gert, því að hér er um að ræða nokkuð óljós mörk milli laga annars vegar eða reglugerðar hins vegar.

Ég hef líka aðeins fengið eina hringingu út af því, að húsnæðis- eða starfsstöðvarákvæði væru of ströng, það sé óviðkunnanlegt að hafa þau svo ströng. Ég skildi þetta að vísu ekki. Ég tel að þau eigi síst að vera lakari en sams konar ákvæði um aðra verslun yfirleitt, og gjarnan mætti líta á umhverfið líka. Ég hef ekki farið út í það í sambandi við þetta. Það yrði þá reglugerðaratriði. Það mætti t. d. gjarnan buga að því einnig, að í kringum bílasölurnar yrði sem allra snyrtilegast og öllu sem best fyrir komið.

Ég hef á því trú, að þörf sé laga sem þessara. Ég hef sjálfur rekið mig á einkennileg dæmi í sambandi við þetta, og það var í rann og veru kveikjan að þessu frv. Ég hef á því trú einnig, að allra hagur sé að einhver lög af þessu tagi verði sett, hvort sem þau verða með þessum hætti eða einhverjum öðrum. Frv. má breyta og það má eflaust bæta. En fari menn að skoða löggjöf og reglur nágranna okkar hygg ég að fremur yrði um að ræða ítarlegri og fyllri ákvæði, nema menn vildu þá setja þar um sérstaka reglugerð.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.