31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

16. mál, sveitarstjórnarlög

Jóhann Hafstein; Herra forseti. Ég er nú svo gamall sem á grönum má sjá og ég ætla að lýsa því yfir nú þegar við 1. umr. þessa máls, að ég er á móti því að færa kosningaaldurinn niður í 18 ár.

Hv. flm. vék að því, að víða í nágrannalöndum okkar væri búið að færa kosningaaldurinn niður í 18 ár og með góðri reynslu. Þetta gat hann ekki sannað. Hann færði engar sönnur á það. Skoðun mín er sú, að það sé langt frá því að 18 ára fólk hafi þann þroska að það eigi að fá kosningarrétt til Alþ., og ég álít að það sé eðlilegra og sjálfsagðara að það fylgist að kosningarréttur til Alþ. og til sveitarstjórna. Ef hins vegar Alþ. færir kosningaaldurinn til Alþ. á sínum tíma niður í 18 ár, þá finnst mér eðlilegt að þar fylgist með kosningarréttur til sveitarstjórna.

Hv. flm. lét aðeins í það skína að Alþfl. hefði verið einhver forgangsflokkur í að færa niður kosningaaldurinn. Ég álít að það sé ekki rétt hjá honum. Það var í fyrstu stefnuskrá Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, fyrir 1930 að færa kosningaaldurinn niður í 21 ár. Hann hélt fast við það og síðan hélt flokkurinn einnig fast við það að færa aldurinn niður í 21 ár. En um þetta er tilgangslaust að vera að deila og ég skal ekki eyða tímanum í það, en ég vildi lýsa þessu yfir nú þegar sem skoðun minni.