05.04.1978
Efri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3145 í B-deild Alþingistíðinda. (2314)

230. mál, kaup ríkisins á síldarverksmiðjunni á Þórshöfn

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir þessari hv. þd. til meðferðar, er að mínu mati dæmigert um það þegar ákveðnir þm. þurfa á vissu sjónarspili að halda og þurfa á því að halda að geta skapað sér tækifæri til þess að viðhafa áróður í sem viðtækustum mæli þannig að hann komist til skila. Allur tilbúningur frv. og mátinn sem hafður hefur verið í sambandi við flutning þess, svo og framsöguræða hv. 5. þm. Norðurl. e. um þetta mál, eru órækust merki um þetta.

Það er rétt, að málefni Þórshafnar hafa verið mjög til meðferðar í vetur hjá þm. kjördæmisins almennt. Hvað svo sem sagt er í frv. eða í grg., þá held ég að mjög erfitt sé halda því fram, að ekki hafi verið full samstaða meðal þingmanna kjördæmisins um að reyna að verða Þórshafnarbúum að liði í hinum erfiðu og vandasömu málum þeirra eftir því sem frekast væri kostur. Rétt er það einnig, eins og tekið er fram í grg. þessa frv., að erindi barst frá forsvarsmönnum Þórshafnarbúa, hreppsnefndinni, atvinnumálanefndinni, verkalýðsfélaginu og Hraðfrystistöðinni, í bréfi dags. 22. febr., um að þm. beittu sér fyrir því, að Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu verksmiðjuna. En hv. flm. þessa frv. var jafnvel kunnugt um það og okkur öðrum þm. Norðurl. e., að búið var að vinna verulega mikið að því að reyna eftir öllum færum leiðum að koma þessum kaupum í kring, og við nutum stuðnings mikilsverðra ráðamanna í þjóðfélaginu við þetta mál. Hins vegar var málinu þannig háttað og því var tekið með þeim hætti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, að mjög erfitt virtist vera að koma því máli þar í gegn. Mér vitanlega varð ég aldrei þess var, að fulltrúi þess flokks, sem hv. flm. þessa frv. tilheyrir, sá fulltrúi Alþb. sem á sæti í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, hefði verið neinn sérstakur stuðningsmaður þessarar hugmyndar.

Ég held að þó svo að hv. flm. þessa frv. vilji staðhæfa bæði í grg. og í umr. á hinu háa Alþ., að ekki séu á döfinni nein áform um að leysa vandamál Þórshafnar, verði hann a. m. k. að undanskilja þm. Norðurl. e., hvar í flokki sem þeir standa, því svo miklu höfum við eytt af tíma okkar, a. m. k. á þeim vetri sem nú er að liða, að leysa vanda Þórshafnar. Og ég held að kinnroðalaust megi segja það hér úr ræðustól á þingi, að eftir atvikum hafi vel til tekist, a. m. k. að útvega fjármagn.

Málsgr. í grg., sem er að finna á bls. 2, ber að mínu mati nokkurn vott um þann áróðurskeim sem er af frv. sem liggur fyrir til umr. Mig langar til — með leyfi hæstv. forseta — að lesa hana upp. Orðrétt stendur svo.:

„Í haust er leið, er togarinn Fontur hafði beðið lengi viðgerðar, en hvergi örlaði á marktækum vilja yfirvalda til þess að tryggja peninga til framkvæmdanna, fóru Þórshafnarbúar þess á leit, að ríkisstj. keypti af þeim fyrrgreinda síldarverksmiðju og greiddi andvirðið til togaraviðgerðanna. Málinu vék ríkisstj. einfaldlega til stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, sem komst að þeirri niðurstöðu að kaupin yrðu ekki arðbær fyrir stofnunina.“

Mig langar í sambandi við þessa málsgrein, sem ég hef verið að lesa, að beina þeirri fyrirspurn til hv. flytjanda frv., hvernig hann heldur að snúist hefði verið við þessari ósk til að mynda í vinstri stjórninni, þar sem sjávarútvegsmálin heyrðu undir einn þm. Alþb., úr því að honum finnst að hann geti komist þannig að orði: „Málinu vék ríkisstj. einfaldlega til.“ Er ekki flm. þessa frv. sammála mér um það, að ef slík beiðni hefði borist og Alþb. hefði átt sjútvrh., mundi hafa farið ósköp líkt um meðferð slíks erlendis? Á ég þar við, að ég hygg að sú stjórnardeild, þó hún hefði notið forstöðu Alþb., hefði ekki viðstöðulaust borið upp í ríkisstj. að verða við þeim óskum sem þarna var um að ræða, um kaup á umræddri verksmiðju. Ég held að sá ráðh. mundi ekki hafa talið óeðlilegt að vísa slíkum tilmælum til stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins.

Það er rétt, sem flm. frv. tekur fram í grg., að hann leitaði eftir stuðningi annarra þm. kjördæmisins, bað þá að verða meðflm. að þessu frv. Ég segi fyrir mitt leyti, að þegar þessi tilmæli bárust mér stóð þannig á að ég gat ekki tekið afstöðu til þess. Ég skýrði fyrir þeim aðila sem bar mér þessi tilmæli, að ég gæti ekki tekið afstöðu um slíkt málefni fyrr en ég væri búinn að bera ósk um þátttöku mína upp í mínum þingflokki, en þannig stóð á, þegar mér barst þessi ósk, — ég hygg að það hafi verið á fimmtudegi, — að ekki var væntanlegur fundur í þingflokknum fyrr en næsta mánudag þar á eftir. Tjáði ég hlutaðeigandi, að ég væri ekki reiðubúinn að gefa svar viðvíkjandi umræddri beiðni fyrr en að loknum þeim tíma er fundur hefði verið í þingflokknum. Þetta var það svar sem ég gaf í sambandi við þetta.

Þetta frv. var samt sem áður flutt og er búið að vera nokkrum sinnum á dagskrá í hv. Ed., hefur ekki komið til umr. fyrr en nú. Mér hefur skilist að sá dráttur, sem orðið hefur á því að taka þetta mál til umr., stafi af því, að hv. flm. hafi beinlínis óskað eftir því, að umr. ætti sér ekki stað, henni yrði frestað. Ég hef þá skýringu fram að færa, — hann leiðréttir mig þá ef það er rangt, — að við höfum verið að reyna að vinna að því, þm. Norðurl. e., undir forustu 1. þm. kjördæmisins, hv. þm. Ingvars Gíslasonar, að flytja, allir þm. kjördæmisins þáltill. um málefni Þórshafnar. Þar leggjum við áherslu á hvílík vandamál eru á höndum, og við leggjum áherslu á að þau verði tekin til gaumgæfilegrar athugunar með það sjónarmið fyrir augum að leysa þau. Sú till. hefur nú þegar verið flutt, a. m. k, er búið að semja till.. það er búið að skrifa upp á hana. Ég veit ekki annað en að hún sé komin í prentun og ég verð að lýsa undrun minni, því að ég hélt ég mundi sjá þessa till. ásamt mjög ítarlegri grg. og miklum fskj. núna. Ég hélt að hún mundi liggja á borðum þm. í dag.

Hv. flm. þessa frv. er einn af meðflm. þáltill., svo að ætla mætti að úr því að hann gat beðið svo lengi eftir því að þetta frv. hans yrði tekið til umr. í deildinni, þá væri hann orðinn sáttur á þá meðferð málsins og skapast hefði því samstaða allra þm. kjördæmisins um að vera flm. að greinargóðri þáltill., þar sem lögð væri fram einlæg ósk og áskorun til ríkisstj. um að taka einbeittum og ákveðnum tökum á þeim vandamálum sem er við að etja. (Gripið fram í.) Nei, hv. þm. stóðst ekki þá freistingu né lét sér það happ úr hendi sleppa að flytja hér í hinu háa Alþ. mikla áróðursræðu, sem væntanlega verður rakin mjög gaumgæfilega í þingfréttum útvarpsins, birt sjálfsagt orðrétt á síðum Þjóðviljans og útdráttur í blaði flokks hans fyrir norðan, Norðurlandi. Þetta ásamt góðri mynd af flm. er ágætis undirbúningur undir þá baráttu sem hann á fyrir hendi. Ég má kannske ekki segja það, en þetta er sjálfsagt eðlilegt og mannlegt, þó einhvern veginn finnist mér það ekki stórmannlegt. Og ég verð að segja það að þessi framkoma er ekki sú leið sem mér líkar best til þess að ná því takmarki sem ég er ekki í minnstum efa um að vakir fyrir hv. flm. þessa frv., sem er að reyna að bæta úr þeim vandamálum sem vissulega eru fyrir hendi á Þórshöfn.

Það, sem ég er með þessum orðum að átelja, er að hv. þm. skyldi ekki standast freistinguna og taka á þessu máli með okkur hinum, spara sér það að vera að gera þetta að einhverju einkaáróðursmáli fyrir síg í hv: Ed. Hann gat alveg sparað sér þau frýjunaryrði, sem hann viðhafði í framsöguræðu sinni, ekki væru á döfinni nein áform um að leysa vandamál þessa byggðarlags, því það er fjarri öllum sanni.

Hv. þm. gaf það fyllilega í skyn, að að mörgu væri að gá þarna austur frá. Í ræðu hans kom fram, að eiginlega væri enginn vandi að leysa þessi mál ef aðeins væri vilji fyrir hendi. Hv. flm. bar fram óskalista: það þyrfti einungis að leggja þessu byggðarlagi til fjármuni til þess að íbúar þess gætu fengið nýtt og betra skip en það togskip sem þeim var útvegað með ærnum stuðningi þm. kjördæmisins, — skip sem því miður, mót von okkar allra, hefur ekki reynst slík björg í bú sem við höfðum óskað. Þm. hafði einnig á óskalista sínum að tryggja þyrfti íbúum þessa byggðarlags fjármuni til þess að endurbyggja verksmiðjuna svo hún gæti komist í fullan gang, helst undir stjórn heimamanna. Og í þriðja lagi: tryggja þyrfti íbúum þessa byggðarlags nægilegt fjármagn til þess að gera nauðsynlegar umbætur á hafnaraðstöðu, svo að þær umbætur, sem nauðsynlegar eru á verksmiðjunni, kæmu að fullum notum. Allt er þetta rétt og satt. En þarna eru engar smáupphæðir á ferðinni. Þetta eru ekki nokkrir tugir milljóna. Hér er óskalisti, sem ég hygg að muni ekki vera langt frá milljarðinum ef við leggjum allt saman. Hér þyrfti beinlínis að leggja fram mjög háa upphæð.

Ég er ekki í neinum vafa um að hv. flm. þessa frv. er jafnljóst og mér, að við þau skilyrði, sem við búum við í þessu þjóðfélagi í dag, er gjörsamlega útilokað, með hversu góðum vilja og hversu góðu hugarfari sem við viljum ganga til leiks, — þá er gjörsamlega útilokað að við gætum útvegað þá fjármuni sem þarf til þess að koma aðeins þessum framangreindum þremur liðum á óskalista hv. þm. í framkvæmd.

Eins og ég skýrði frá fyrr í máli mínu höfum við allir þm. Norðurl. e. sameinast um að flytja þáltill. Ég er því miður ekki með hana, en hún er til þess ætluð að vekja athygli hæstv. ríkisstj. á þeim vandamálum sem steðja að þessu byggðarlagi, Þórshöfn. Í þessari þáltill. er lögð rík áhersla á að hvetja ríkisstj. til þess að taka þessi vandamál föstum tökum. Þar er bent á sem úrræði að reyna að koma þeirri skipan á, að síldarverksmiðjan gamla á Þórshöfn verði endurbætt og henni komið í gagnið. Mín skoðun er sú, að samþykkt slíkrar till. og samstöðu þm. um að hafa áhrif á þau mál, sem greint er frá í umræddri þáltill., verði gefinn gaumur og unnið að lausn þeirra eftir því sem hægt er hverju sinni og muni slíkt gagna Þórshöfn og íbúum þar og málefnum þeirra mun betur en sú sýndarmennska sem felst í því, að þessi hv. þm. sker sig út úr og flytur þetta frv. Mín skoðun er sú, að flutningur þessa frv. og sá leikaraskapur, sem að mínum dómi felst í flutningi þess, leysi því miður ekki þann vanda sem steðjar að íbúum Þórshafnar. Vandinn verður ekki leystur með langri og ítarlegri grg. og langri og ítarlegri áróðursræðu. Til þess að leysa þennan vanda þarf samstillt átök, fleiri og ábyrgari aðila, svo að gagni megi koma.