05.04.1978
Neðri deild: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2318)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til þess að gera í örfáum orðum aths. við vinnubrögð, sem ég tel ámælisverð, í a. m. k. sumum þeirra nefnda sem starfa innan hv. Nd. Ástæða þessa er fyrst og fremst sú, að ég tel óforsvaranlegt að mál, sem fyrir nærri 5 mánuðum var vísað til n., hafi ekki enn fengið umfjöllun í viðkomandi nefnd. 9. nóv. s. l. var vísað til fjh.- og viðskn. frv. til l. um sjónvarpssendingar á fiskimiðin við landið. Þetta er 65. mál Nd. Mér er ekki um það kunnugt, að þetta mál hafi enn verið tekið til umr. í viðkomandi n. Finnst mér full ástæða til þess að vekja sérstaka athygli á því, hvernig vinnubrögðum er háttað í a. m. k. sumum þeim n. sem starfa á vegum þingsins.

Ég hef tekið þetta sérstaka mál vegna þess, að það virðist vera alveg ljóst, að því er ég best veit eftir að hafa athugað það, að staðan varðandi meðferð málsins er þessi. Vel má vera að svo sé um fleiri mál, sem lögð hafa veríð fram á Alþ., að þau hafi ekki fengið umfjöllun í n. þrátt fyrir þann langa tíma sem liðinn er síðan þau voru fram lögð. Mér finnst algerlega óviðunandi fyrir hv. alþm., að ekki sé meira tillit tekið af hálfu þn. til starfa þeirra en raun virðist bera vitni um með tilliti til þess, hvernig fjh: og viðskn. Nd. meðhöndlar þetta mál. Ég vil því beina því til hæstv. forseta, að hann ýti nú við nefndaformönnum, a. m. k. form. hv. n. sem þetta mál hefur til umfjöllunar, því að ég trúi því ekki að þm. almennt vilji una því, að þau mál, sem þeir leggja fram, fái ekki a. m. k. athugun í n. og þinglega meðferð. Ég vil því ítrekað beina því til hæstv. forseta, að hann a. m. k. geri tilraun til þess að fá viðkomandi nefndarformann til að sjá svo um, að um þetta mál verði fjallað í n. Það hefur að mínu viti verið nægur tími s. l. nær 5 mánuði til þess að fjalla um málið. Ef svo er ástatt um fleiri mál, sem hér hafa verið lögð fram, þá er full ástæða til þess að ýta við öðrum nefndarformönnum, ef svipað er ástatt um mál hjá þeim eins og hér.

Ég þakka svo hæstv. forseta fyrir að hafa gefið mér tækifæri til þessa og skal ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni.