31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

16. mál, sveitarstjórnarlög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Það er eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir um það mál sem hér liggur fyrir, og það er engan veginn víst að afstaða manna fari í því efni eftir pólitískum flokkum. Mín persónulega afstaða varðandi þetta mál er sú, að ég hef lengi verið hlynnt því að kosningaaldur svo og ýmis önnur réttindi, sem bundin eru aldursmarki, séu miðuð við lægri aldur en nú er.

Þessa afstöðu má rekja allt til þess tíma er ég sjálf starfaði í samtökum ungra sjálfstæðismanna, og ég geri ekki ráð fyrir að hugmyndir ungs fólks um stjórnmálaafstöðu séu síður í gildi í dag en þær voru þá. Mér sýnist einmitt að við, sem eldri erum, megum margt af ungu fólki læra, þó að fyrst og fremst sé hlutverk okkar að kenna þeim sem yngri eru.

Mér virðist svo mikil ábyrgð hvíla á ungu fólki í okkar þjóðfélagi, að ekki sé nema sanngjarnt að það fái nokkru ráðið um það hverjir hafi forræði og forstöðu um almenn málefni sveitarfélags eða þjóðar. Ég tel þó, á meðan þessi breyting verður, að gjarnan megi hafa þann hátt á að framkvæma hana smátt og smátt. Þegar n., sem skipuð var í framhaldi af þáltill. frá 1965 sem hv. flm. málsins gat hér um, gekk frá nál. sínu, var ég, sem átti sæti í þessari n., hlynnt þeirri hugmynd að kosningaaldurinn yrði færður nokkuð niður þó ekki yrði allt stökkið tekið í einu. En um þetta efni má einnig segja, að það er ekki óeðlilegt að rýmri kosningarréttur gildi um kosningu til sveitarstjórna en til Alþingis. Svo er einnig á fleiri sviðum en að því er aldurinn varðar. T.d. var það nýlega í lög leitt á öllum Norðurlöndum nema Íslandi að kosningarrétt til sveitarstjórna hafa útlendingar búsettir í landinu, séu þeir ríkisborgarar í einhverju Norðurlanda. Það er talið eðlilegt að sveitarstjórnarkosningarrétturinn sé að þessu leyti rýmri, vegna þess að sveitarstjórnarmálin eru, ef svo má segja, í enn meira nábýli við hvern einstakling heldur eu margt í löggjafarmálum.

Árið 1965 var leitað umsagnar um þetta atriði sem hér um ræðir og raunar almennan 18 ára kosningaaldur. Var leitað til Sambands ungra sjálfstæðismanna, Sambands ungra jafnaðarmanna, Sambands ungra framsóknarmanna, Æskulýðsfylkingarinnar, sem þá hét svo, Íslenskra ungtemplara og Sambands bindindisfélaga í skólum.

Afstaða þessara félagasamtaka var sú, að Samband ungra sjálfstæðismanna lýsti sig meðmælt till. og benti jafnframt á að e.t.v. væri tímabært að samtímis færi fram athugun á öðrum lágmarksaldursákvörðunum, svo sem lögræðisaldri. Samband ungra jafnaðarmanna staðfesti það sem talsmaður till. sagði áðan, að það hefði verið stefnuskráratriði þar í hópi frá því löngu áður, frá árinu 1960, að lækka kosningaaldurinn. Samband ungra framsóknarmanna taldi að rétt væri að athuga lækkun kosningaaldurs og þá einnig þjóðfélagsaðstöðu ungs fólks að því er varðaði lögræðis- og hjúskaparaldur og önnur sambærileg réttindi sem þá voru almennt miðuð við 21 árs aldur. Þessi samtök bentu einnig á þá leið, að leitað yrði álits æskufólks á aldrinum 18–21 árs á þessum atriðum með þjóðaratkvgr. innan þessara aldursáfanga.

Æskulýðsfylkingin lagðist mjög á þessa sömu sveif og sagði rétt að lækka kosningaaldurinn niður í 18 ár og einnig aldursmörk sem veittu réttindi á öðrum sviðum.

Íslenskir ungtemplarar kváðu skoðanakönnun innan þeirra samtaka hafa leitt í ljós að unga fólkið teldi sig ekki dómbært um stjórnmál um 18 ára aldur og fáir óskuðu eftir breytingu um lækkaðan kosningaaldur.

Stjórn Sambands bindindisfélags í skólum lýsti sig andvíga því að kosningaaldur yrði færður úr 21 ári niður í 18 ár. Þessi skoðun var rökstudd með því, að stjórn þessara samtaka teldi að fólk milli 18 og 20 ára aldurs hefði varla náð þeim andlega þroska sem þarf til að mynda sér ákveðnar stjórnmálaskoðanir. Enn fremur bentu þessi samtök á annað atriði, sem stundum kemur upp í umr. um þetta mál og er vitaskuld rétt að hafa í huga. Stjórn samtakanna taldi einnig að niðurfærsla á kosningaaldri verkaði sem andleg þvingun á marga vegna þess að stjórnmálaflokkarnir mundu eftir megni reyna að ná tökum á þessu unga fólki.

Þegar þessi álit eru athuguð, þá vil ég gjarnan fjalla örlítið um seinasta atriðið sem ég nefndi í þessum röksemdum, þar sem því er haldið fram að slík réttindaaukning mundi um leið hafa í för með sér nokkra andlega þvingun fyrir hið unga fólk vegna þess að stjórnmálaflokkarnir mundu vilja reyna að ná því í lið með sér. Ég sé nú ekki betur en slíkar aðgerðir séu í fullum gangi í þjóðfélaginu og kosningarréttur skipti þar út af fyrir sig ekki höfuðmáli. Að því er varðar hina röksemdina, að fólk hafi e.t.v. ekki náð þeim andlega þroska á þessum aldri að það sé dómbært um stjórnmál, þá er ég ekki þeirrar skoðunar. Deila um andlegan þroska, hvort hann er fullkomnari hjá einum aldursflokki en öðrum að því er stjórnmál varðar, er atriði sem ég tel að sé ekki alveg einsýnt að fari eftir aldrinum einum saman. Þvert á móti hefur mér virst að fólk á aldrinum 18–20 ára hafi oft meiri tíma og vil ja til að gera sér alvarlega grein fyrir málum, fyrir stefnum og straumum í þjóðfélaginu og fyrst og fremst fyrir grundvallarhugsjónum flokkanna. Þetta er atriði sem mörg okkar, sem eldri erum, gefum okkur of sjaldan tíma til að gera í dagsins önn. Ég held að niðurfærsla kosningarréttar um nokkur aldursár muni verka hinu unga fólki og okkar þjóðfélagi til góðs.

Ég vil láta þess getið að samtök ungra sjálfstæðismanna hafa hvað eftir annað ályktað í þá átt að færa beri kosningaaldur niður í 18 ár. Ég veit að það hefur verið áhugamál innan þeirra samtaka að færa einnig niður kosningaaldur að því er varðar prófkjör innan flokkanna, eins og hv. 5. þm. Vesturl. nefndi. Það atriði hefur ekki hlotið stuðning í hinum stærstu kjördæmum. En nú er það svo, að ungir sjálfstæðismenn, sem félagsbundnir eru og náð hafa 18 ára aldri, hafa slík réttindi og þar með viss tök á að móta svipinn á stjórnmálunum. En ég tel fyrir mitt leyti að þetta sé ekki nóg. Ég tel að hið unga fólk á aldrinum 13–20 ára sé sannast sagna engu síður hugsandi fólk heldur en við hin, og ég fyrir mitt leyti vantreysti því ekki til að fara með þennan rétt fremur en mörgum okkar hinna sem eldri erum.

Þetta vildi ég nú strax á þessu stigi láta koma fram, og ég vonast til að þetta frv., sem ég er efnislega samþykk, fái brautargengi hér í þing­ sölum.