05.04.1978
Neðri deild: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3158 í B-deild Alþingistíðinda. (2324)

Umræður utan dagskrár

Ólafur G. Einarsson:

Hæstv. forseti. Það eru dæmalausir útúrsnúningar hjá hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, að ég hafi verið að leggja þá ábyrgð á herðar hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að það væri hans sök að ekki væri búið að afgreiða þetta mál í n. Það gerði ég alls ekki. Ég sagði þvert á móti, að Lúðvík Jósepsson hefði rekið á eftir málinu, en ég sagði: ekki af neinum þunga. Þess vegna er óþarfi að vera með svona útúrsnúninga af þessu tilefni. Meira að segja hafði hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagt mér fyrir nokkrum dögum, að búast mætti við því, að hv. þm. Karvel Pálmason kæmi upp í ræðustól utan dagskrár og kvartaði undan því, að þetta mál hefði ekki hlotið afgreiðslu. Þetta gerði hv. þm. Lúðvík Jósepsson. En hv. þm. Karvel Pálmason sá enga ástæðu til þess að segja mér af því, að hann mundi fara í ræðustól utan dagskrár út af þessu máli. Hann sá enga ástæðu til þess.

Ég lít ekki svo á, að skilyrði fyrir því að fá mál afgreidd séu að flm. viðkomandi máls eigi sæti í þeirri n. sem fær málið til meðferðar. Mér dettur ekki í hug að halda slíku fram. Það, sem ég held að ráði fyrst og fremst um þann hraða sem mál fá í n., er kannske fyrst og fremst mikilvægi málsins. Og ég verð að viðurkenna að ég lít ekki á þetta mál sem það mikilvægasta sem hefur komið fyrir hv. fjh.- og viðskn. á þessu þingi, þó að ég vilji alls ekki gera lítið úr málinu. En ég vil jafnframt nefna það, að fjh.- og viðskn. er ekki alls kostar ókunnug því sem hérna er fjallað um. Hún hafði til meðferðar á síðasta þingi mál sem gekk í svipaða átt og þetta frv. Það var till. um sjónvarpssendingu að vísu á tilteknum fiskimiðum. N. kynnti sér þá málið allrækilega með viðtölum við verkfræðinga frá sjónvarpinu og Landssímanum, og þær viðræður leiddu ekki til þess, að n. þætti ástæða til að mæla með samþykkt þeirrar tillögu.

Eins og ég sagði áðan, hefur þetta tiltekna frv. ekki fengið sérstaka umræðu í fjh.- og viðskn. En ég ítreka, að ég mun boða til fundar á morgun, ekki þó af þessu tilefni, alls ekki. Það bíða miklu mikilvægari mál núna meðferðar hjá fjh.- og viðskn., og þau verða tekin til meðferðar á morgun. En eins og ég sagði áðan, þá mun þetta mál einnig verða til meðferðar í n. á morgun.