05.04.1978
Neðri deild: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3159 í B-deild Alþingistíðinda. (2326)

Umræður utan dagskrár

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs eftir aths. þá sem hv. formaður fjh.- og viðskn. gerði varðandi hv. þm. Lúðvík Jósepsson, hvort hann hefði sýnt í verki þann vilja sinn, að það mál, sem hér er fyrst og fremst til umr., þ. e. a. s. sjónvarp fyrir fiskimenn, yrði tekið föstum tökum í n. Hv. þm gaf það vissulega í skyn með þessari aths. sinni, að Lúðvík Jósepsson hefði ekki sýnt þessu mikinn áhuga, svo að það var alls ekki að ófyrirsynju að hv. þm. Svava Jakobsdóttir kom hér upp í stólinn. En ég vil vekja athygli á mjög svo æpandi mótsögn í málflutningi hv. þm., þar sem hann segir að hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafi ekki fylgt þessu máli eftir með þunga, og hann er varla búinn að fullyrða þetta þegar hann segir að hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafi talað við hv. formann n. og sagt honum, að ef hann tæki ekki málið fyrir, þá mundi hv. þm. Karvel Pálmason koma hér upp utan dagskrár og gera málið að umtalsefni. (ÓE: Af hve miklum þunga?) Ég veit ekki, hvort hægt er að fylgja máli eftir með öllu meiri þunga en þessum. Svo vil ég vekja athygli á dálítið óviðurkvæmilegum hroka hæstv. iðnrh. í sambandi við aðra aths. sem hér var gerð. Það var verið að þýfga hann um skýrslu, sem honum bar skylda til að skila fyrir nýár. Hann svaraði með þótta. Þetta er reyndar ekki einsdæmi varðandi þennan hæstv. ráðh. né embættismenn yfirleitt. Við vitum það allir, að þeir hafa flestir tilhneigingu til þess að sýna hroka. En ég sé enga ástæðu til annars en að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, komi hér upp aftur og aftur og krefji ráðh. um það sem honum ber að gera. Þetta kann að virðast þráhyggja í augum hæstv. ráðh., þráhyggja eins og sú sem Cato gamli sýndi þegar hann endaði hverja ræðu — ég leyfi mér að tala latínu — með þessum orðum: „Ceterum censeo, Carthaginem esse delendam.“ Þetta bar reyndar árangur, eins og menn vita. Og ég sé enga ástæðu til að fetta fingur út í það, að þessi hv. þm. notar þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh. hvað liði þessari skýrslu — sannarlega ekki. Hann mætti mín vegna enda hverja ræðu sína með þessum latnesku orðum: Centerum censeo, Kraflam esse disputandam, — sem útleggst: Auk þess legg ég til, að Krafla sé rædd.