05.04.1978
Neðri deild: 70. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3162 í B-deild Alþingistíðinda. (2336)

219. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Frsm. (Pétur Sigurðsson) :

Hæstv. forseti. Frv., sem hér er til umr., er um breyt. á lögum um verðlagsráð sjávarútvegsins. Breytingin er ekki stórvægileg, og fulltrúar aðila, sem setu eiga í verðlagsráðinu, eru sammála um að mæta með þessari breytingu. En þar eiga sæti, eins og þm. er kunnugt, fulltrúar allra þeirra aðila sem hagsmuni sína sækja undir ákvarðanir þessa ráðs.

Það eru tvær breytingar sem fjallað er um í þessu frv. Sú fyrri er, að verðlagsráðið skuli í framtíðinni ákveða verð á síldarúrgangi, en það var samið um það meðan síld fékkst og veiddist hér við land. Að sjálfsögðu kom ekki slík ákvörðun eða samningar til greina meðan engin síld veiddist, en eftir að leyft var að veiða hana á ný, urðu aðilar sammála um að leggja til að þessi háttur yrði tekinn upp.

Hin breytingin er fólgin í því, að lagt er til í frv. að lifur frá veiðiskipunum verði í framtíðinni verðlögð í fiskúrgangsdeild. Máske mun mörgum þykja þetta kátlegt. En þegar málið er athugað betur geri ég ráð fyrir, að flestir muni vera þessari breytingu fylgjandi, hafandi það í huga, að gengið hefur erfiðlega að fá aðila til þess að víkja sæti í verðlagsráðinu þegar verið er að verðleggja fisk, t. d. þorsk, sem er kannske meginmál verðlagsráðs oft og tíðum, en þar undir hefur verðlagning á fisklifur heyrt til þessa. Nú eru það aðrir aðilar sem eiga í hlut af kaupenda hálfu þegar um lifur er að ræða, og m. a. vegna þess er verið að gera þessa breytingu, svo að þeir geti komist að og komið skoðunum sínum á framfæri innan ráðsins þegar verið er að verðleggja þessa fiskafurð.

Sjútvn. hefur haft til athugunar þetta frv. og er sammála um að mæla með samþykkt þess.