05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3166 í B-deild Alþingistíðinda. (2358)

192. mál, sveitarstjórnarlög

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Þau eru orðin mörg frv. og till. varðandi fyrirkomulag kosninga. Þetta þing, sem nú er að líða, verður svo sannarlega þing lýðræðisástar og áhuga á þingræði. Það hefur sem sagt komið í ljós, að talsverður fjöldi þm. sér allt ómögulegt við það kosningafyrirkomulag, sem við höfum notast við nú um alllangan tíma, og hefur jafnframt haldið því fram, að réttur kjósenda hafi fram að þessu verið mjög fyrir borð borinn og allar kosningar fram á þennan dag verið hinar ólýðræðislegustu. Menn þessir, sem þannig tala, eru með því að segja að þeir hafi sjálfir, þessar þingræðis- og lýðræðishetjur, verið kosnir með ólýðræðislegum og vafasömum hætti.

Ástæðurnar fyrir þessum tillöguflutningi eru margar. En ég tel að ein höfuðástæðan fyrir því, að menn eru að reyna að breyta þessu öllu, sé sú, að úti í bæ hafi verið hávaðasamir strákar að vekja á sér athygli og lyfta sér upp á kostnað Alþingis og reyna að ófrægja þessa stofnun á allan hátt. Meira að segja hefur svo langt gengið, að landsfrægir ritsóðar hafa verið að nudda sér upp í efstu sæti flokka sinna með því að ráðast á Alþ. og kosningalögin á allan hátt. Þessi mál eru hins vegar ekki á dagskrá að þessu sinni nema að með þessu frv. er verið að leggja til að færa til kosningadaginn — ekki einu sinni hann má vera í friði.

Það merkilega er, að þó er hægt að finna jákvætt atriði í þessu frv., þó að fáir hefðu sennilega trúað því, ef tekið er tillit til þess, hver er í fyrirsvari fyrir þessu. Það er eina hugmyndin sem er jákvæð í þessu, að sameiginlegur dagur er fyrir allar hreppsnefndar- og sveitarstjórnarkosningar í landinu. Það mætti heita jákvætt. En annað er allt neikvætt. Ég satt að segja nenni ekki að halda um það langa ræðu, en gæti talið það upp í örfáum orðum.

Í fyrsta lagi yrði þessi breyting til þess að stytta bilið enn milli sveitarstjórnarkosninga og alþingiskosninga. Það tel ég vera til hins verra, og þarf ekki að rökstyðja það nánar.

Í öðru lagi er með þessari till. lagt til, að kosningarnar verði nú færðar yfir á laugardag, sennilega með það í huga að laugardagurinn sé orðinn almennur frídagur. Hann er kannske almennur frídagur vestur í Önundarfirði, til sveita, en hann er það ekki í sjávarplássunum úti á landi. Þar er líka unnið á laugardögum að talsvert miklu leyti einmitt á þessum tíma, og þá eiga menn þar verra með ekki aðeins að kjósa, heldur á almennt verkafólk ómögulegt með að taka þátt í kosningabaráttunni, að leggja sitt af mörkum til þess að berjast fyrir skoðunum sínum í kosningum.

Ég get varla skilið hvernig stendur á því, að hv. 1. flm. vill leggja áherslu á að verkafólk, t. d. í fiskiðnaðinum hafi minni möguleika til þess að vinna að pólitískum hugðarefnum sínum en hingað til hefur verið. En auðvitað hefur hann ekki hugsað út í þetta frekar en annað. Hann er bara að taka þátt í þessum söng, að hrekjast undan áróðursmönnum hér úti í bæ, þessum öskrandi strákum, og gefast upp fyrir þeim. Hann hefur ekkert athugað hverjir gallarnir eru. Þessi hv. þm. vissi ekkert af því, að sjómannadagurinn var líka á laugardegi í hinum stærri sjávarplássum a. m. k., þegar ég talaði við hann um þetta. Nú segir þessi hv. þm., að hann hafi rannsakað á hvaða degi kosningarnar ættu að fara fram fram að aldamótum, og þykir mér með ólíkindum að hann skuli hafa komist í gegnum það. Hann segir að þar séu tilfærslurnar ekki ýkjamiklar, það sé aðeins í tveimur tilfellum sem þurfi að færa kosningadaginn til svo að einhverju nemi. Hann las það þó sjálfur upp áðan að færa þyrfti sjómannadaginn til í fjórum tilfellum fram að aldamótum. Það er verið að tala um tímabilið fram að aldamótum eins og það sé eitthvað voðalega langur tími. Það eru ekki nema rétt liðlega 20 ár til aldamóta. Þær kosningar, sem nefndar voru, eru þó ekki nema sex. Í fjórum tilfellum af sex þarf að færa sjómannadaginn til. Það þykir honum ekki mikið.

Hann lagði ekki til, þessi hv. þm., að færa hvítasunnuna til, en ég sé ekkert athugaverðara við það að færa hana til en að djöfla sjómannadeginum fram og til baka eins og mönnum gott þykir — hátíðisdegi þeirrar stéttar sem stendur undir lífinu í þessu landi. Það skilur þessi hv. flm. auðvitað ekki heldur. Ég tel afar óheppilegt, a. m. k. í því byggðarlagi sem ég er alinn upp í og á heima í, að fara að hafa kosningar á sjómannadaginn. Og þessi tími fyrir sjómannadag, þessi dagur er ekki valinn af handahófi. Það er miklu óhægara að halda sjómannadag um miðjan júní en strax í byrjun júní, sérstaklega þar sem bátaútgerð er töluverð. Þar er óhægara um vík. Það skiptir ekki máli, segir hv. flm., bara að við fáum að breyta kosningalögunum eitthvað. — Fyrst aðrir voru búnir að stinga upp á því að breyta þarna öllum reglum, þá vildu þeir líka fá að breyta einhverju. Þá var aðeins tíminn eftir og þess vegna var frv. flutt.

Ég er á móti frv., a. m. k. því atriði frv. sem fjallar um þessa tímabreytingu. Hafa mætti þennan sameiginlega kosningadag í sveitarstjórnum ósköp einfaldlega þann kosningadag sem nú er notaður og hefur lengi verið notaður með sæmilegum árangri í kaupstöðunum, sem er síðasti sunnudagur í maí. Sjálfsagt hefur það einhverja galla líka, en þó ekki svo mikla sem sú breyting hefur sem þessir menn leggja til. Með þessu er verið að stytta bilið milli kosninga, þ. e. a. s. sveitarstjórnar- og þingkosninga, með þessu er verið að fara inn á vinnudaga fjöldamargs fólks sem ekki hefði jafngott tækifæri til þess að sinna hinum pólitísku áhugamálum sínum og taka þátt í baráttu fyrir hugsjónum sínum á kosningadaginn. Svo er auðvitað aldeilis ófært að fara að setja þetta á frídag eða hátíðisdag sjómanna. Kosningar yrðu að mínum dómi mjög óheppilegar á þessum degi, þegar menn eru að hugsa um allt annað en fara að kjósa sér sveitarstjórnarmenn á borð við hv. flm. sem flytja þetta mál hérna.

Ég legg þess vegna til að þetta verði fellt og flyt brtt. við þetta mál, ef skynsamir menn í stjórnarflokkunum gera ekki það sem ég býst raunar við að þeir geri, að stinga þessu máli einhvers staðar á góðan og þægilegan stað, þar sem þessir órólegu menn komast ekki í það og geta ekki nuddað því áfram og í gegn áður en þingi lýkur.