05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2360)

192. mál, sveitarstjórnarlög

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Sem einn af flm. þessa frv. og nm. í hv. félmn., vil ég segja örfá orð.

Fyrst vil ég mótmæla því, sem kom fram í ræðu hv. þm. Garðars Sigurðssonar, að þetta frv. sé flutt vegna þess að við flm. séum að hrekjast undan áróðursmönnum úti í bæ, sem sífellt tali um það óréttlæti sem gildi í kosningaréttarmálum okkar. Ekki ætla ég að ræða neitt um ritsóðana landsfrægu, sem eru að nudda sér upp í efstu sæti á framboðslistunum, sem hv. þm. var að tala um. Ég veit ekkert við hverja bann átti, hvort það eru þeir sem skrifa að staðaldri í Þjóðviljann eða í eitthvert annað blað. Ég kann ekki að rekja það.

Þm. hafði flest á hornum sér í sambandi við þetta mál, en þó sá hann eitt jákvætt — þ. e. að sami kjördagur skyldi gilda í öllum sveitarfélögum landsins. Þykir mér út af fyrir sig vænt um að heyra að hann sér þó þessa glætu í frv. En margt fann hann að því.

Þá ræddi hann sérstaklega um 1. gr., sem fjallar um það, að almennar sveitarstjórnarkosningar skuli fara fram fyrsta laugardag júnímánaðar. Hann nefndi einkum þrennt sem hann taldi mæla gegn því, að í þessa breytingu yrði farið. Það væri í fyrsta lagi, að hann vill ekki að bilið milli sveitarstjórnarkosninga og þingkosninga styttist, sem það mundi gera í þessu tilviki að því er tekur til sveitarstjórnarkosninga í þéttbýli, en þær eru nú síðasta sunnudag í maímánuði. Ég hef heyrt þessa röksemdafærslu og þ. á m. hjá flokksbræðrum mínum, einkum í Reykjavík, að þeir eru andvígir því, að bilið milli þessara kosninga verði stytt. Það kann vel að vera, að það komi sér illa fyrir suma, en ég get ómögulega fallist á þessi rök. Mér finnst þetta ekki vera nein rök. Það hefur ekki verið rökstutt þannig í mín eyru, að ég geti fallist á að þetta sé til óhagræðis. Ég vil benda hv. þm. á, að ef hann mælir með síðasta sunnudegi í maí, þá tekur hann ekkert tillit til landbúnaðarhéraðanna, því að þar mun þetta koma sér mjög illa, og það er ástæðan fyrir því að að sveitarstjórnarkosningar eru ekki á sama tíma í öllum sveitarfélögunum. Þær eru í júní í dreifbýlinu, einmitt vegna þess að hændum hentar illa að vera í kosningum síðustu helgina í maí. Þá er sauðburði yfirleitt ekki lokið. Mér finnst að hv. þm. ætti að taka tillit til landbúnaðarhéraðanna ekkert síður en til sjávarsíðunnar, sem hann ber svo mjög fyrir brjósti. Hann er nefnilega þm. fyrir kjördæmi þar sem talsvert mikill landbúnaður er stundaður. Hann hefur kannske gleymt því þegar hann var að tala áðan.

Í öðru lagi er það laugardagurinn, sem mönnum líst ekki á. Ég skal fúslega viðurkenna að þetta hefur bæði kosti og galla. Hv. þm. Garðar Sigurðsson sá að vísu ekkert nema gallana. En ég sé kosti við það. Aðalröksemdin, sem við flm. höfum fært fram, er sú, að laugardagurinn er yfirleitt ekki vinnudagur nú orðið, sem hann var hins vegar áður, þegar þessi skipan var sett á. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það kemur til umr. á Alþ., að kosið skuli á laugardegi fremur en sunnudegi. Mér er sagt að um þetta hafi orðið töluverðar umr. þegar breyting var gerð á kjördæmaskipuninni 1959, en þá hafi tvennt ráðið úrslitum: að laugardagurinn var þá almennur vinnudagur og svo hitt, að það komu mjög ákveðin mótmæli frá aðventistum, en þeir halda heilagt á laugardögum. Menn vildu ekki, að því er mér var sagt, fara út í miklar deilur um þetta og því var horfið frá þessu ráði. Nú er laugardagurinn ekki almennur vinnudagur, eins og ég sagði áðan, en aðventistar halda að vísu heilagt enn þá á laugardegi, en ég held þó ekki lengur en til kl. 18.00, þannig að þeir gætu þess vegna neytt síns kosningaréttar. Það kann hins vegar að vera galli á laugardeginum, að menn hafa þá ekki almennan frídag daginn fyrir til þess að vinna að undirbúningi kosninganna. Ég viðurkenni það sem galla, að hinir fjölmörgu sjálfboðaliðar stjórnmálaflokkanna eiga þá erfiðara með að láta vinnu sína í té daginn fyrir kjördag. Þetta er alveg rétt. Engu að síður finnst mér að laugardagurinn sé vel mögulegur sem kjördagur. Og hvers vegna ætti okkur að vera vandara um en sumum öðrum þjóðum sem kjósa jafnvel í miðri viku? Það er að vísu ekki algengt, en það kemur þó fyrir. M. a. man ég eftir því, að í Danmörku er oft kosið í miðri viku.

Ég vil svo aðeins láta það koma fram, að í mínum augum er meginmálið það, að sami kjördagur verði í öllum sveitarfélögum landsins. Ég legg ekki megináherslu á það, að hann verði fyrsti laugardagur í júní. Það má vera sunnudagur líka þess vegna. Ég get staðið að slíkri brtt., að fallið verði frá laugardeginum, og ég hef ekki svo fastar skoðanir á þessu, að ég geti ekki fylgt einhverri annarri till. en kemur fram í þessu frv. En meginmálið er þetta, að sami kjördagur verði í öllum sveitarfélögum landsins, og svo hitt, að 2. gr. frv. nái fram að ganga, þar sem fjallað er um aðra skipan en nú gildir um kosningu varamanna. Og ég vænti þess að menn láti ekki þennan laugardag, sem nefndur er í 1. gr., villa sér svo sýn, að þeir geti ekki stuðlað að framgangi frv., ef menn koma sér saman um eitthvert annað orðalag á 1. gr. frv.