05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3176 í B-deild Alþingistíðinda. (2367)

222. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Í lögum um kosningar til Alþingis, nr. 62 14. águst 1959, er kveðið svo á, í 88. gr. þessara laga, að kjósandi eigi rétt á því að fá aðstoð við atkvgr. í kjörklefa ef hann skýri kjörstjórn frá því, að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess, að honum sé hönd ónothæf, eins og þar segir. Þessu er ekki svo varið um þá sem þurfa að kjósa utan kjörfunda. Það er orðið nokkuð langt síðan ég hreyfði því, bæði á hv. Alþ. og utan þess, að mikið óréttlæti væri fólgið í því ákvæði, að þeir, sem sjúkir eru eða ekki færir um að kjósa vegna sjúkdóms eða ellihrörleika, blindu eða af einhverjum öðrum ástæðum og þyrftu að kjósa utan kjörstaðar, gætu það ekki vegna þessa, en væri samt sem áður heimilað að kjósa samkv. þessum sömu lögum á kjördegi. Í þessu er fólgið mikið óréttlæti. Jafnframt vakti ég fyrir mörgum árum athygli á því, að ekki væri réttlátt að það fólk, sem væri á stofnunum, svo sem spítölum, dvalarheimilum aldraðra og öðrum skyldum stofnunum, og ætti ekki heimangengt á kjördegi, mætti ekki kjósa á viðkomandi stöðum. Til móts við ósk um þetta var komið með breytingu á þessum sömu lögum, kosningalögunum 1974, en þá var kjörstjóra við atkvgr. utan kjörfundar hér heima á Íslandi heimilað að leyfa sjúklingi að kjósa sem dveldist á sjúkrahúsi eða væri vistmaður á viðurkenndri stofnun. Þrátt fyrir þetta mikilsverða skref í réttlætisátt gilda enn um þessa kosningaathöfn sömu reglur og um utankjörfundaratkvgr. á skrifstofu eða heimili kjörstjóra, en þar segir, að kjósanda beri að koma á fund kjörstjóra í hentugt húsnæði innan viðkomandi stofnunar og að atkvgr. eigi að fara fram í sjúkrastofum eða herbergjum vistmanna. Við slíka kosningaathöfn, þ. e. a. s. á sjúkrahúsi eða dvalarheimili aldraðra, gilda að öllu leyti sömu ákvæði laga og um allar atkvgr. utan kjörfundar og að sjálfsögðu þ. á m. 2. mgr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis, að óheimilt sé að veita kjósanda aðstoð við sjálfa kosninguna.

Ég hef ákveðið að flytja þetta frv. á þann hátt að flytja það sem sjálfstætt frv., en ekki tengja það öðrum frv., sem hér hafa verið á ferðinni og fjalla um breytingar á þessum sömu lögum, vegna þess að ég tel það, sem ég er að leggja til, hafið yfir þann ríg sem hefur komið upp og mun að sjálfsögðu koma upp í sambandi við aðra þætti þessara laga.

Ég bendi á í grg. og bendi enn á, að ótrúlega margir þegnar þjóðfélags okkar eru settir á óæðri bekk og sviptir þessum grundvallarrétti í lýðræðisþjóðfélagi — kosningarréttindum. Ég veit að flestir þm. þekkja til þess, hafandi tekið þátt í kosningavinnu, máske áratugum saman, hvað það er leiðinlegt, svo að maður fyrirverður sig fyrir það, að verða vitni þess á kjörstað, utankjörfundarstað, að fólki er vísað frá vegna þess að það er ekki líkamlega hæft til þess að greiða atkv. Ég hef orðið vitni að þó nokkuð mörgum slíkum atvikum. Þetta á auðvitað ekki að eiga sér stað í lýðræðisþjóðfélagi, þetta er okkur — íslenska löggjafanum — til vansæmdar.

Með þessu frv., eins og ég hef lagt það fram, tel ég að verið sé að bæta aðstöðumun, sem hér hefur verið drepið á, og verið sé að heimila sömu hjálp til handa þeim sem kjósa utan kjörfundar og á kjörfundi.

Ákvæðið í lagafrv. um að bóka eigi á fylgibréfið er til þess að fyrirbyggja hugsanlega tortryggni kjörstjórnar í fjarlægri heimabyggð kjósanda, sem máske er kunnugt um vanhæfni kjósanda til að neyta atkvæðisréttar síns, en ekki um það, hvernig að atkvgr. hefur verið staðið. Jafnframt er líka í 2. gr. frv. látið falla á brott refsiákvæði við því að aðstoða kjósanda við atkvgr. utan kjörfundar og einnig refsiákvæði við kjósandann ef hann þiggur slíka aðstoð, en þau ákvæði eru í gildandi lögum.

Ég vil leyfa mér enn á ný að undirstrika þessi orð mín, að það er verið að svipta ákveðinn hóp manna réttindum sem einmitt við, sem erum á hv. Alþ., eigum að sjá um að allir þegnar þjóðfélagsins fái notið. Ég leyfi mér að fullyrða, að þótt ákveðin tilefni hafi gefist til þess fyrir mörgum tugum ára að setja slík viðurlög og slík forboð inn í þessi lög, sem ég er að leggja til að verði breytt, þá sé ekki ástæða til þess að ætla að svo geti orðið í dag, ekkert frekar á þessu sviði en öðrum, því að reyndar er hægt að brjóta öll lög ef ásetningur og vilji er fyrir hendi. En ég held hvað sem ég og aðrir segja í gagnrýni okkar á ákveðna embættismenn eða hóp embættismanna — það má gjarnan koma hér fram — að allir þeir, sem ég þekki til og stjórna kosningum og sjá um þær á kjördegi eða utan kjörfundar, sjá um utankjörfundaratkvgr., séu embættismenn sem mega ekki vamm sitt vita í neinu.

Ég vil leyfa mér, hæstv. forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.