05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3178 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

236. mál, sönnun fyrir dauða manna

Flm (Pétur Sigurðsson) :

Virðulegi forseti. Það frv., sem ég flyt hér, er um breyt. á lögum, sem eru orðin meira en hálfrar aldar gömul, um sönnun fyrir dauða manna sem ætla má að farist hafi af slysum. Í grg. frv. kemur glögglega fram, af hverju þetta frv. er flutt, en það er flutt að gefnum tilefnum nú á allra síðustu tímum, reyndar af tilefnum sem ég hef verið að reka mig á um nokkuð langt árabil. Hef ég orðið vissari um það eftir því sem árin hafa liðið, að við þyrftum að breyta þessum ákvæðum.

Í gildandi lögum segir að 6 mánuðir þurfi að líða til þess að hægt sé að úrskurða að maður sé látinn, ef talið er að hann hafi farist af slysi eða slysförum. Ef höfð er í huga sú þróun sem hefur orðið í ýmsum tæknibúnaði og vitneskju um ferðir manna og þá kannske sérstaklega skipa, sem ég hef nokkuð haft hliðsjón af í sambandi við gerð þessa frv., þá er ljóst að vitneskjan um slíkar ferðir í dag er orðin svo mikil, að ekki virðist ástæða til að halda sig við þau ákvæði sem eru sniðin af kringumstæðum sem giltu fyrir meira en hálfri öld.

Vera má að það geti valdið nokkrum ágreiningi, hvort 4. og 5. gr. frv. séu tímabærar í þeirri mynd sem þær eru, en ég segi enn, að ef hægt hefur verið að ákveða 6 mánuði í slíkum tilfellum áður, þá er nú óhætt að miða við þann tíma sem segir í frv.

Ég tel að í grg. sé málið svo vel skýrt, að ég þurfi ekki að vera að fara yfir þau atriði frekar sem þar eru dregin fram. Ég endurtek það, sem þar kemur skýrt fram, að hér getur verið um mikið peningalegt hagsmunamál fyrir eftirlifendur að ræða. Ekki er síður um tilfinningamál að ræða fyrir þá sem hafa misst ástvini sína, að kannske eru ýfð upp þau sár sem tekin eru að gróa þegar þessi tími er liðinn, þegar augljós vitneskja er máske um hvað hafi gerst, þótt ekki sé hægt að færa beinar sönnur þar á, eins og bent er á í grg. í sambandi við að bátar hafi farist.

Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að leggja til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og allshn. hv. deildar.