05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (2371)

101. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Virðulegi forseti. Mál það, sem hér er til umr., er á þskj. 117, 101. mál Nd.: Frv. til l. um breyt. á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Flm. hv. þm. Sighvatur Björgvinsson og Benedikt Gröndal.

Frv. þetta var tekið til 1. umr. í hv. Nd. 6. mars s. l. og til framhaldsumr. 8. mars. Fyrri flm. flutti langar ræður í bæði skiptin. Enn fremur hafa tekið þátt í umr. hv. þm. Pálmi Jónsson og Páll Pétursson. Voru þeir andvígir þessu frv., höfðu ýmsar aths. fram að færa við málflutning frsm., enda hafa hv. þm. báðir reynslu og þekkingu á því málefni sem er til umr.

Frv. þetta er aðeins tvær greinar. Sú fyrri er um breytingu á 2. mgr. 12. gr. laganna. Hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Í fjárlögum hvers árs skal ráð fyrir því gert, að ríkissjóður ábyrgist að tilteknu marki greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir vegna útflutnings á sauðfjárafurðum annars vegar og nautgripaafurðum hins vegar. Verðábyrgð samkv. framansögðu skal miðuð við hvora búgrein um sig og greiðsla gerð upp sérstaklega fyrir hvora þeirra. Á hverju verðlagsári getur slík verðábyrgð mest orðið sem nemur 10% af framleiðsluverðmæti nautgripaafurða vegna útflutnings á afurðum þeirrar búgreinar og mest 12% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða vegna útflutnings á þeim afurðum.“

Þessi brtt. felur það í sér, ef samþykkt verður, að verðábyrgðin breytist frá því sem hún er og hefur verið síðan 1960, úr því að vera 10% af heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða ár hvert, þar sem framleiðsluráð hefur haft það á valdi sínu að ráðstafa þessu fjármagni hverju sinni eftir því sem hagkvæmast hefur verið talið hverju sinni, í það, að tryggingin verði hér eftir aldrei hærri en 10% af framleiðsluverðmæti nautgripaafurða vegna útflutnings á afurðum þeirrar búgreinar og mest 12% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða vegna útflutnings á afurðum þeirrar búgreinar. Í grg. með frv. kemur fram, að ef þessi regla hefði gilt fyrir verðlagsárið 1976–1977 hefði verðtryggingin orðið 1 milljarði kr. lægri en hún varð. Á þessari tölu vil ég enga ábyrgð bera frekar en á öðru sem í þessari grg. stendur. Hitt fer ekki á milli mála, hver óskadraumur þessara fulltrúa Dagblaðsins er, hvað fyrir þessum herrum vakir. Þó að hv. frsm. láti í veðri vaka í öðru orðinu, að hann beri hagsmuni bænda fyrir brjósti, þá þarf ekki annað en skoða innihaldið — þegar öllum orðaflaumnum er sleppt leynir sér ekki hvað fyrir honum vakir.

Hins vegar er 2. gr. frv. ákvæði til bráðabirgða, en í því felst nánast það, að á næstu 5 árum skuli aðlaga sauðfjárframleiðsluna þessum nýju markmiðum: verðlagsárið 1978–1979 megi greiða allt að 20% af framleiðsluverðmæti sauðfjárafurða, en síðan á verðtrygging þessara afurða að lækka um 2% á ári þar til verðlagsárið 1982–1983 að þessum 12% sé náð. Sem sé, þetta á að verða seindrepandi aðferð, en þó markviss.

Í grg. með frv. segir, með leyfi forseta:

„Tilgangurinn með flutningi frv. þessa er að benda á leið út úr þeim ógöngum, sem þjóðarbúið er komið í vegna greiðslu verðábyrgðar úr ríkissjóði á útfluttar landbúnaðarafurðir (útflutningsbætur). Í þeim efnum hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina að undanförnu uns í algert óefni er nú komið þegar flytja getur þurft út yfir 30% af framleiðsluafurðum einnar búgreinar.“

Þegar frsm. var kominn í lok síðari ræðu sinnar 8. mars s. l. var þessi prósenttala komin upp í eða yfir 50% af framleiðslu á lambakjöti og hefði það ástand varað um talsvert langan tíma. Þetta sagði hv. frsm.

En ég vil spyrja: Hverju þjónar svona málflutningur? Væri ekki hollt fyrir þennan hv. þm. að kynna sér betur það málefni, sem hann flytur hér í hv. Nd., en raun ber vitni, áður en bann flytur um það langar ræður? Ég hef undir höndum skýrslu frá Hagstofu Íslands er sýnir, svo að ekki verður um villst, hvernig þessi mál hafa þróast: Árið 1960 var útflutningurinn á lambakjöti 21.1% af heildarframleiðslunni, 1963 27.4%, 1966 19.1%, 1969 43.6%, 1970 23%, 1971 17.3%, 1972 22.5%, 1973 20.5%, 1974 22.2%, 1975 27.9%, 1976 35% og á árinu 1977 mun útflutningurinn hafa verið svipaður. Þess ber að gæta í þessu sambandi, að þarna er um að ræða útflutning á lambakjöti eingöngu. Ef miðað væri við heildarframleiðsluverðmætið, þá kemur dálítið annað í ljós. Þá er þetta t. d. fyrir árið 1976 27.8%.

Frsm. gat um að það væru allt aðrar tölur, sem hann fengi frá Hagstofunni, en hefðu birst í blöðum. Tölurnar, sem hv. þm. fær frá Hagstofunni, eru miðaðar við almanaksárið, en þær tölur, sem birtust aftur á móti í Árbók landbúnaðarins, eru miðaðar við verðlagsgrundvallarárið. Þess vegna eru tölurnar aðrar. Miðað við t. d. verðlagsgrundvallarárið, þ. e. a. s. frá 1. sept. til 31. ágúst, þá er þessi tala, sem hann var með, um 35%, sambærileg við 24.13% sem útflutningurinn var það ár, 1976.

Eins og þessar tölur bera með sér, er ekki umtalsverð breyting á útflutningsþörf á kindakjöti, hvorki að magni til né hlutfallstölu, t. d. frá viðreisnarárunum. Allt tal um það efni er því út í hött. Tvisvar hefur þessi tala komist yfir 30%, miðað við þá skýrslu sem ég las áðan frá Hagstofu Íslands, þ. e. a. s. af heildarkjötmagninu. Það var árið 1969, eins og ég sagði áðan, 43.6% og síðan 1976 35%. Að af útflutningsþörf hafi verið flutt út 50% eða meira og það um talsvert langan tíma, eins og hv. frsm. sagði, er því eitt af hans mörgu hugarfóstrum sem á sér enga stoð í veruleikanum. Ef verðtryggingin hefði verið frá upphafi á þann veg sem nú er lagt til að hún verði samkv. þessu frv., þ. e. a. s. 10% á nautgripaafurðir og 12% á sauðfjárafurðir, þá hefði verið ríkari tilhneiging til þess að auka mjólkurframleiðsluna meira en verið hefur til að nýta verðtryggingarmöguleika á þeim afurðum, vegna þess hve stakkurinn var þröngt skorinn til framleiðslu á sauðfjárafurðum, til þess að ná fullu framleiðslukostnaðarverði fyrir þá vöru vegna þeirra fyrirmæla, hvernig nota mætti útflutningstrygginguna. Er það skoðun hv. flm., að hagstæðara hefði verið fyrir þjóðfélagið að mjólkurframleiðslan hefði verið meiri á liðnum árum og sauðfjárframleiðslan minni með tilliti til sölumöguleika á erlendum mörkuðum? Auðvitað hefur hann ekki myndað sér skoðun um þetta frekar en annað.

Hv. þm. komst þannig að orði, að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hefðu alltaf ráðið stefnunni í landbúnaðarmálum, þetta væri þeirra stefna. Manni skildist að þeir bæru einir ábyrgð á þróun þessara mála. Nú vil ég spyrja hv. frsm.: Hverjir stóðu fyrst og fremst að því að gefa út brbl. í desembermánuði 1959? Voru það framsóknarmenn? Ég man nefnilega ekki betur en að þá sæti að völdum minnihlutastjórn Alþfl. Ætli þm. að halda því fram, að Alþfl. hafi ekki ráðið því að umrædd brbl. voru sett 1959, er varla hægt að draga af því aðra ályktun en þá, að minnihlutastjórn Alþfl. hafi verið viljalaust verkfæri í höndum Sjálfstfl. Eða er hv. þm. að gefa í skyn að svo hafi verið? Hvað þá um öll viðreisnarárin? Er þá þm. að gefa í skyn, að Alþfl. hafi ekki ráðið neinu umtalsverðu í þeirri ríkisstj. heldur? En það breytir ekki því, að ábyrgðina hljóta báðir stjórnarflokkarnir að hafa af stjórnarstefnunni, þó að annar hafi ráðið ferðinni. Þó að hv. þm. vilji vinna það til nú að gera hlut Alþfl. sem aumkunarverðastan í samskiptum við Sjálfstfl. á viðreisnarárunum og hann telji sig geta með því skotið honum undan ábyrgð á stefnunni í landbúnaðarmálum, þá kemur það ekki að neinu haldi.

Þm. heldur því fram af miklum áhersluþunga, að þegar 10% verðtryggingarrétturinn var lögfestur hafi sumir þm. ekki gert sér ljóst hvað þeir voru að samþykkja. Þeir hafi staðið í þeirri trú, að 10% verðtryggingin gilti aðeins fyrir hverja búgrein fyrir sig, þ. e. a. s. útflutningsrétturinn til að flytja t. d. út sauðfjárafurðir væri 10% af heildarverðmæti sauðfjárafurða, og eins væri með nautgripaafurðir, en útflutningstryggingin væri ekki 10% af heildarverðmæti allrar landbúnaðarframleiðslunnar, eins og í lagagreininni felst. Þó er það svo afdráttarlaust í lögunum eins og það getur skýrast verið, að með öllu er óskiljanlegt hvernig nokkur þm. hefur getað skilið þetta atriði á annan veg en þann sem í framkvæmd hefur verið alla tíð. Ég er a. m. k. þess fullviss, að hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson fyrrv. landbrh., hefur gert sér fulla grein fyrir því, hvað í þessari lagagrein felst, og það frá upphafi. Ég hygg reyndar, að það heyri til undantekninga, ef menn hafa ekki áttað sig á því, hvað felst í þessu umrædda ákvæði. Það kann að vera að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson telji sér henta nú að reyna að koma því inn hjá þjóðinni, að þeir, þm., sem sæti áttu á Alþ. fyrir Alþfl. 1959 og 1960, hafi verið skilningsminni en aðrir þm. voru þá, og með því að þeir hafi ekki skilið hvað í lagasetningunni fólst, þá beri þeir ekki ábyrgð á lagasetningunni eða flokkurinn sem slíkur. Þó held ég að þessi söguskýring verði Alþfl. ekki til framdráttar, öðru nær. Ég a. m. k. get ekki betur séð en hlutur hv. 1. þm. Suðurl., fyrrv. landbrh., verði ekki minni við þessa nýju söguskýringu, ef talsmenn Alþfl. ætla að halda því fram að Alþfl. hafi engu ráðið um stefnuna í landbúnaðarmálum á viðreisnarárunum, þeir hafi blátt áfram verið á móti þeirri landbúnaðarstefnu sem ríkisstj. fylgdi þá fram og þeir samþykktu og studdu. Og svona til að undirstrika það enn frekar, að þeir hafi ekki átt neinn hlut að máli, þá er það skýring Sighvats Björgvinssonar að þeir hafi ekki skilið hvað fram fór. Er hægt að gera hlut Alþfl. aumkunarverðari en hv. þm. gerir með allri þessari miklu visku sinni?

En hvernig var þetta þá með aðra málaflokka? Skildi þingflokkur Alþfl. þá betur en það sem fram fór í landbúnaðarmálum? Þeir skildu samt, að þeir höfðu á þessum árum þrjá ráðherrastóla. Það hefur e. t. v. nægt þeim, annað ekki skipt máli. Og þar er líklega komin skýringin á því, hvers vegna sjálfstæðismenn voru svona ánægðir með stjórnarsamstarfið við Alþfl. á viðreisnarárunum. Að sögn Sighvats Björgvinssonar hafa þeir síðarnefndu ekki fylgst með því sem fram fór, og því hefur verið auðvelt fyrir Sjálfstfl. að fara sínu fram. En bæði framleiðsluráðslögin sem og allt annað samþykkti Alþfl. og ber því fulla ábyrgð á því til jafns við Sjálfstfl. og aðra þá sem að því stóðu.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði um og fór fram á að þm., sem teldu sig öðrum fremur fulltrúa bænda, eins og hann komst að orði, töluðu á hinu háa Alþ. af fullri skynsemi um þessi mál. En hvað um þm. sjálfan? Því gerir hann ekki fyrst og fremst kröfu til sjálfs sín? Og ég held nú að hollast væri fyrir hann að tala sem allra minnst, a. m. k. um landbúnaðarmál. Færi hann að hætta sér út í það, þá mælist ég til þess að hann geri það a. m. k. af meiri skynsemi en hingað til.

Ég kemst ekki hjá því að ræða enn frekar nokkur atriði úr ræðu þm., til þess að færa orðum mínum stað, með leyfi forseta.

„Það er sök sér,“ segir þm., „þó að menn misskilji efni frv. Hitt er öllu verra, þegar menn leggja út í langar umr. um frv. eins og þetta og standa svo hér uppi í ræðustól í hv. d. berir að því, að þeir hafa ekki einu sinni lesið frv. Þetta kom fyrir hv. þm. Pálma Jónsson. Hann sagði t. d., að ef frv. yrði að lögum mundi niðurskurður á útflutningsuppbótum frá því, sem núv. kerfi gerir ráð fyrir, og yfir til þess, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, nema 1 milljarði kr., ef frv. yrði samþykkt, mundu útflutningsbætur verða lækkaðar um 1 milljarð kr., úr 3 milljörðum í um það bil 2 milljarða.“ — Ég endurtek: Úr 3 milljörðum í 2 milljarða. — „Þetta sýnir og sannar að hv. þm. fer hingað upp í ræðustól til þess að halda langa ræðu og leggjast gegn frv., því sem hér er flutt, án þess að hafa komist lengra í að lesa frv. en rétt um miðja fyrstu síðu, vegna þess að meginefnisatriðið í 2. gr. frv. er einmitt að koma í veg fyrir að slíkur niðurskurður verði. 2. gr. frv. gerir ráð fyrir því, að því meginkerfi verðábyrgðar, sem 1. gr. fjallar um, verði komið á í áföngum. Yrði frv. samþykkt nú á þessu þingi, mundi niðurskurður á útflutningsbótum þannig ekki nema 1000 millj. kr., eins og hv. þm. Pálmi Jónsson sagði. heldur 231 millj. kr.“ Ég endurtek: 231 millj. kr. — „vegna þess að 2. gr. frv, gerir ráð fyrir að tilgangi 1. gr. verði náð í áföngum á 4–5 árum.

Ég sagði það, segir þm., „í upphafi ræðu minnar, þegar ég ræddi um þetta mál, í framsöguræðu minni, að við flm. frv. værum fúsir til þess að fallast á athugun á því, hvort hægt væri að taka þessi skref eitthvað skemmri í áföngum en lagt er til að gert sé í 2. gr.“ Og síðan heldur þm. áfram: „Ég vil sem sé leiðrétta þetta: Ef frv. yrði samþykkt eins og það er úr garði gert, þá mundu útflutningsuppbæturnar ekki lækka um 1000 millj. kr., heldur um 231 millj.“

En svo fer þm. að reikna. Og hann reiknar og segir: „Greiddar útflutningsuppbætur á mjólkurafurðir yrðu 330 millj. kr., nákvæmlega eins og gert er ráð fyrir að greiða vegna útfluttra mjólkurafurða. Útflutningsuppbætur vegna útfluttra sauðfjárafurða yrðu samkv. frv. 1740 millj. í stað 2070 millj.“ En þegar hann fer að draga frá, segir hann: Heildarlækkunin er 231. — Ég hélt að þetta væri 330 en ekki 231. Ég held að það þyrfti að lengja skyldunámið áður en menn færu á þing. Svo segir hann, að eftir þessu yrðu þessar útflutningsuppbætur 2 milljarðar og 70 millj. Ég tel að ef 2 milljarðar og 70 millj. eru dregnir frá 3 milljörðum, þá séu eftir samkv. mínum barnaskólalærdómi — 930.

Þm. segir að útflutningsuppbæturnar hafi ekki aðeins vaxið í krónutölu, heldur líka vaxið mjög stórkostlega í raunverðmætum, eins og hann kemst að orði. Og til þess að sýna þetta miðar hann við framfærsluvísitölu á hverjum tíma. Hvort sem það er að yfirlögðu ráði eða hugsunin er ekki nægilega skýr, þá yfirsést honum algerlega að taka tillit til niðurgreiðslna á vöruverði í þessu sambandi. Sé hv. þm. á annað borð að leita eftir réttum mælikvarða til þess að finna út, hvert sé raunverulegt verðmæti útflutningstryggingar landbúnaðarvara hverju sinni, þá fæst það ekki með því að miða við framfærsluvísitölu, ekki nema taka þá fullt tillit til niðurgreiðslna á vöruverði á hverjum tíma. Hann vitnar t. d. til ársins 1973–1974, þar sem hann segir að útflutningstryggingin hafi orðið 68.9% hærri í raunverulegum verðmætum en 1963–1964. Ég vil minna þm. á það, að einmitt þetta ár voru niðurgreiðslur í því hæsta sem þær hafa nokkurn tíma verið. Þær voru t. d. á smjöri yfir 70% af heildsöluverði. Það er einmitt engin tilviljun, að þm. tekur þessa viðmiðun. En það er a. m. k. ekki síður raunhæft að miða við hvað þessi verðtrygging hefur verið hátt hlutfall af ríkisútgjöldum á hverjum tíma. Það er a. m. k. raunhæfara en miða við framfærsluvísitölu á hverjum tíma. En ef það er athugað, þá kemur í ljós, og þar vitna ég í skýrslu frá Hagstofunni, að hæst hefur þetta hlutfall verið af ríkisútgjöldum árið 1966, þegar Alþfl. tók þátt í ríkisstj. og hv. 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson, var landbrh. 1966 var þetta hlutfall 6.4% af ríkisútgjöldum. 1969 var það 3.9%, 1970 3.4% og 1971 3%. En síðan hefur það aldrei náð 3%, aldrei síðan 1971. Það var 1977 talið vera 2.3%, en 1975 var það t. d. innan við 2%.

Frsm. vitnar í ræðu fyrrv. landbrh., er hann flutti 1959 þegar umr. fóru fram á Alþ. um brbl. um framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Ummælin, sem hann hafði, voru þessi, með leyfi hæstv. forseta:

„Og nú er öllum sú staðreynd ljós, að landbúnaðarframleiðslan vex ekkert í hlutfalli við aukna notkun innanlands, ekkert í samræmi við fjölgun fólksins í landinu og þess vegna er það rétt . . . að það eru litlar líkur til þess, að útflutningsbæturnar verði þungur baggi á ríkissjóði...“

Ég hygg að 1. þm. Suðurl., Ingólfur Jónsson fyrrv. landbrh., hafi að því leyti til reynst sannspár, að framleiðslan hafi ekki aukist meira en hann gerði ráð fyrir. Á síðustu 10 árum hefur t. d. fólksfjölgun í landinu orðið 12.8% og heildarframleiðsla landbúnaðarins hefur ekki aukist meira. Aukningin hefur orðið á þessu tímabili tæp 16% á sauðfjárafurðir, en 7.5% á nautgripaafurðir, eða þegar á heildina er litið nokkru minni en fólksfjölgunin. Það eru aðrar ástæður sem valda því, að útflutningstryggingin mun ekki nægja þetta framleiðsluár að öllu óbreyttu, en að framleiðsluaukningin hafi orðið meiri en gera mátti ráð fyrir. Ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst þær, að orðið hefur breyting á nauðsynjum þjóðarinnar. Neysla landbúnaðarvara hefur minnkað hlutfallslega síðustu árin, og hin mikla verðbólga, sem hér hefur orðið síðari ár, hefur gert það að verkum, að með hverju árinu sem liður hefur reynst óhagstæðara að flytja út búvörur. Það fæst ekki nema um eða innan við 50% af framleiðslukostnaðarverði nú á erlendum mörkuðum þar sem best lætur, en fyrir 4 árum fékkst fyrir sömu vöru yfir 80%, t. d. kindakjöt. Að útflutningsþörfin hafi verið meiri hin síðari ár en t. d. á viðreisnarárunum, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson taldi vera, hefur ekki við rök að styðjast, hvorki í hlutfalli né magni. Og þm. segir að rangt sé að þetta frv. hafi þann tilgang að minnka útflutningsuppbætur. Ætlar þm. e. t. v. að halda því fram, að frv. hafi tilgang að auka útflutningsuppbætur á útfluttar landbúnaðarvörur? Það kann vel að vera, að sú verði túlkun hans á þessu frv. í kosningabaráttunni vestur á fjörðum. Það væri a. m. k. í samræmi við ýmsan annan vísdóm sem frá þessum þm. kemur.

En hvað segir svo hv. þm. sjálfur í ræðu sinni, þegar hann talar fyrir þessu frv. 6. mars s. l., með leyfi forseta: „ . . að greiðslur vegna verðábyrgðar verðlagsárið 1976–1977 mundu lækka um 1 milljarð kr. frá því sem nú er, ef þessi breyting hefði tekið til þess verðlagsárs.“

Svo kemur þessi sami hv. þm. hér upp í ræðustól tveimur dögum síðar og segir það rangt, að aðaltilgangurinn með flutningi frv. sé að minnka útflutningsuppbætur. Hvað á svona málflutningur að þýða? Svo kvartar þessi þm. yfir því, að hann sé ekki tekinn alvarlega. Ég held að þessi þm. ætti að reyna að hugsa aðeins skýrar þegar hann talar í hv. d., ef honum á annað borð er umhugað um að hann sé tekinn alvarlega.

Ein fullyrðing þessa hv. þm. var sú, að iðnaðurinn hefði ekki þörf fyrir framleiðsluna eins og nú væri, þar sem verulegt magn af ull og gærum væri nú flutt út óunnið. Það hefur legið fyrir, komið fram í blöðum, að ull er flutt út í stórum stíl vegna þess að ekki er til önnur en sú úrgangsull sem verksmiðjurnar telja sig ekki geta notað. Það er hún ein sem flutt er út. Þetta ætti þm. að kynna sér svolítið betur.

Þm. fullyrti enn fremur, að á fundum bænda væri verið að ræða um slíkar breytingar sem felast í þessu frv. Það er æðimargt sem þessum þm. dettur í hug eða hann dreymir um. En þeir draumar hans hygg ég nú að seint rætist fremur en hann vísi mönnum af rangri leið til réttrar áttar, eins og hann margtók fram í sínum ræðum. Ég vil ráðleggja hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að hugleiða í fullri alvöru, hvernig líklegt sé að búskapur mundi þróast t. d, á Vestfjörðum, ef frv. hans yrði lögfest. Gerðar hafa verið t. d. tvær byggðaáætlanir í þeim landshluta til að efla og viðhalda búskap þar: Inn-Djúpsáætlun og áætlun um Árneshrepp á Ströndum. Slíkar framkvæmdir hljóta að leiða af sér framleiðsluaukningu. Að mati þm. Alþfl., og þó fyrst og fremst hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, hafa þessar byggðaáætlanir verið hrein vitleysa í báðum þessum tilvikum. Þó man ég ekki til þess, að nein aðvörunarorð kæmu fram af hendi Alþfl. minna þegar þessi mál voru til umr. Eða gerðu þeir sér e. t. v. ekki grein fyrir því, að af þessum framkvæmdum hlyti að leiða aukna framleiðslu á kindakjöti? Þegar hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir var að hvetja til stuðnings við þessar byggðaáætlanir, þá varð ég ekki var við það a. m. k., að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kæmi með nein andmæli gegn því. Það hefði hann átt að gera væri hann samkvæmur sjálfum sér.

Ég hef leitt rök að því, að sá vandi, sem steðjar nú að bændastéttinni, sé ekki vegna þess að framleiðslan hafi vaxið meira en búast mátti við. Ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst verðbólgan hér, hinn ört vaxandi framleiðslukostnaður, en hins vegar stendur útflutningsverðið því sem næst í stað, þar sem viðskiptaþjóðir okkar auka sífellt niðurgreiðslur á landbúnaðarvöruframleiðslu sinni til þess að hamla gegn verðbólgu hjá sér. Við verðum svo að keppa við þetta niðurgreidda verð. Einnig hefur neysla á búvöru dregist saman hjá okkur á undanförnum árum. Útflutningsþörfin hefur ekki aukist svo að umtalsvert sé í þau l8 ár sem liðin eru síðan umrædd verðtrygging var tekin upp hvorki að magni til né hlutfallslega, hvað sem síðar verður. Útflutningsverðtryggingin hefur reynst þjóðinni vel, og koma má með sterk rök fyrir því, að hún hefði að jafnaði verið nægjanleg, ef neyslan hér innanlands hefði haldist í svipuðu hlutfalli og áður var og verðbólgan hefði ekki verið meiri hér en í aðalviðskiptalöndum okkar.

Það er mikill misskilningur, sem kemur fram í máli hv. þm., að þær ráðstafanir, sem hann lætur sig dreyma um að koma fram, að minnka framleiðslu sauðfjárafurða um allt að 1/3, komi eingöngu niður á bændastéttinni. Ef slíkur draumur yrði að veruleika, mundi það ekkert síður koma niður á ýmsum í þéttbýli og á þjóðinni allri. Ég hef ekki orðið var við það, að hv. þm. Alþfl., sem þetta frv. flytja, hafi gert grein fyrir því, hvernig þeir ætla að standa að atvinnuuppbyggingu í landinu í staðinn fyrir þann samdrátt í landbúnaði og um leið í iðnaði og úrvinnslu úr þessum vörum sem mundi auðvitað af þessu leiða. Ég hygg að þeir verði ekki margir sem sætta sig við að hafa atvinnu af fullyrðingum hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. En þm. fullyrti, að þriðjungsminnkun á sauðfjárframleiðslunni mundi ekki koma neitt niður á iðnaðinum, þótt það sé staðreynd, eins og ég sagði áðan, að flytja verður inn ull í stórum stíl, — ull sem hefur aðra eiginleika en okkar ull og allt útlit er fyrir að geti spillt því góða áliti sem ullariðnaður okkar nýtur víða á erlendum mörkuðum. Eða á e. t. v. úrræðið að vera það að flytja út vinnuafl, eins og gert var á viðreisnarárunum, í stað kindakjöts og iðnaðarvöru úr ull og skinnum? Nei, ég held að hagkvæmara sé fyrir þjóðina að fara ekki eftir þessari leiðsögn.

Einnig er hollt fyrir hv. þm. Sighvat Björgvinsson að átta sig á því, að ef útflutningstrygging á landbúnaðarvörum hefði verið frá upphafi eins og hann leggur til að hún verði, hefði aldrei verið gerð nein byggðaáætlun fyrir Vestfirði og því síður gerðar neinar framkvæmdir við Inn-Djúp eða í Árneshreppi á Ströndum. Og þá er hætt við því, að íbúafækkunin hefði orðið verulega meiri í því kjördæmi en hún hefur þó orðið, því að það er staðreynd að þéttbýli og dreifbýli styður ekki svo lítið hvort annað. Og ef þm. kæmist til þeirra áhrifa að geta eytt búskap á Vestfjörðum, þá er hætt við því að sumum þéttbýlisstöðunum þar yrði einnig hætt. Hv. þm. Alþfl. ættu að gefa sér tíma til að kynna sér stefnu jafnaðarmanna í landbúnaðarmálum, t. d. á Norðurlöndum. Þeir gætu áreiðanlega mikið af þeim lært. Jafnaðarmenn á Norðurlöndum eru ekki með landeyðingaráform eins og Alþfl. hér. Þar skilur líka á milli feigs og ófeigs.

Miklar umr. hafa farið fram um málefni landbúnaðarins á undanförnum mánuðum, t. d. í fjölmiðlum. Mest hefur í þeim heyrst sem minnst skilja og minnsta þekkingu hafa á heim málum. Bændur hafa haldið fundi og rætt þessi mál og svarað fullum hálsi þeim gegndarlausa áróðri sem haldið hefur verið uppi gegn þeim af þessum aðilum. 6. og 8. mars s. l. máttu hv. þm. hér í þessari d. svo hlusta á eina útgáfuna af þessari speki. Og til að vera samkvæmur sjálfum sér lagði frsm. til, að frv. yrði vísað til fjh.- og viðskn. í stað landbn., en til landbn. hefur öllum frv. um framleiðsluráð landbúnaðarins verið vísað frá því að þau lög voru fyrst sett. Er því við hæfi að þetta frv. komist ekki til 2. umr., eins og að því er staðið á allan hátt. Legg ég því til og skora á hv. þm. að greiða atkv. gegn því. að frv. fari til 2. umr. Með því móti mundi það fá þá afgreiðslu hér í hv. d. sem það verðskuldar.