05.04.1978
Neðri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

246. mál, Seðlabanki Íslands

Flm (Páli Pétursson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 465 frv. til l. um breyt. á lögum um Seðlabanka Íslands, ásamt þeim hv. þm. Þórarni Þórarinssyni og Þórarni Sigurjónssyni.

Sú breyting, sem við leggjum til að gerð verði á seðlabankalögunum, er að í stað orðanna í 13. gr.: „Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta“, o. s. frv., sem um getur í 10. gr., þ. e. a. s. banka, sparisjóða og innlánsdeilda samvinnufélaga, Söfnunarsjóðs Íslands og hverrar þeirrar stofnunar annarrar, sem tekur við innstæðum frá almenningi eða rekur sambærilega starfsemi, komi: Ríkisstj. ákveður að fengnum tillögum Seðlabanka Íslands hámark og lágmark vaxta o. s. frv. — Þá er einnig lagt til að vextir af rekstrar- og afurðalánum atvinnuveganna verði háðir beinni ákvörðun ríkisstj., sökum þess hve geysimikilvægur sá lánaflokkur er fyrir þjóðarbúskapinn.

Breytingin, sem hér er lagt til að gerð verði á lögum um Seðlabanka Íslands, er fólgin í því, að ákvörðunarvald um vexti skuli fært frá Seðlabankanum til ríkisstj., þótt að sjálfsögðu verði Seðlabankinn ríkisstj. til ráðuneytis.

Það er hlutverk Alþ. og ríkisstj. í umboði þess að stjórna landinu, og er Alþ. legið á hálsi þegar stjórn landsins fer úrskeiðis. Ákvörðun vaxta er mjög mikilsverður þáttur í stjórn efnahagsmála og þróun atvinnulífs í landinu, og þess vegna er misráðið, ef Alþ. á að stjórna Íslandi á annað borð og ríkisstj. í umboði þess, að fela henni ekki ákvörðunarvald í jafnmikilvægu máli, enda beri þá ríkisstj. og stuðningsmenn hennar á Alþ. fulla ábyrgð á ákvörðunum þeim sem teknar eru.

Ríkisstj. á og verður að hafa heildaryfirsýn yfir efnahagsþróun í landinu og valdi til þess að hafa stjórn á henni. Því er að sjálfsögðu ekki til að dreifa, ef einstökum ríkisstofnunum er falin sjálfstæð ákvarðanataka um mikilsverðustu þætti efnahagsmála.

4, gr. seðlabankalaganna hljóðar að vísu svo, með leyfi forseta: „Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstj. að ræða, er Seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því, að sú stefna, sem ríkisstj. markar að lokum, nái tilgangi sínum.“

Þessi loðnu ákvæði 4. gr. skapa augljóslega enga tryggingu og skapa ríkisstj, ekki nægilegt svigrúm að mínum dómi til þess að taka sjálfstæða ákvörðun um einn mikilverðasta þátt efnahagsmála, enda bæri þá ríkisstj. og þingmeirihluti sá, sem styður hana, fulla og óskoraða ábyrgð á þeim ákvörðunum sem teknar eru, og mundi þá súpa seyðið af mistökum sem kunna að verða gerð. Þess er raunar nýlegt dæmi, að starfandi viðskrh., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, sór af sér ábyrgð á vaxtahækkun sem gerð var í ráðherratíð hans, 15. júlí 1974. Ég vil sem sagt, að það sé glögglega skilið á milli bakara og smiðs, þ. e. a. s. að smiðurinn smíði og að bakarinn baki og náttúrlega að bakarinn sé ekki hengdur fyrir smiðinn, svo framarlega sem smiðurinn hefur gert eitthvað af sér.

Ég er þeirrar skoðunar, að langt um of hafi verið gengið á vald Alþ. og brýnt verkefni sé fyrir það að endurheimta áhrif sín í þjóðfélaginu, sem því eru ætluð með stjórnarskrá og lögum. Væri brýnna verkefni fyrir alþm. að sækja aftur það vald, sem dregist hefur úr höndum kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og í hendur ýmissa æviráðinna starfsmanna kerfisins og sérfræðinga þess, heldur en eyða tímanum á Alþ. í það að biðja fólkið í landinu afsökunar á því, að þm. skuli hafa kaup. Okkur alþm. er brýnna að reyna að vinna fyrir kaupinu okkar með því að taka skynsamlegar ákvarðanir um þjóðmál en vekja athygli fjölmiðla á fórnfýsi okkar og óeigingirni og reyna að afla okkur vinsælda með því að segjast hafa of hátt kaup. Fólkið í landinu getur gert upp við okkur ekki sjaldnar en fjórða hvert ár. Við höfum enga æviráðningu og okkur er hægt að svipta umboði, ef við bregðumst því trausti sem fólkið í landinu hefur sýnt okkur. Það er ekkert annað en lítilmennska af stjórnmálamönnum að vera að veigra sér við því að taka þær ákvarðanir sjálfir sem þeirra er að taka. Fjölmargar ákvarðanir eru pólitískar í eðli sínu og eiga líka að vera það. Menn verða ætíð að vera reiðubúnir að standa þjóðinni reikningsskap gerða sinna. Valdið er til þess að nota það, nota það á þann hátt, sem þjóðskipulag okkar útheimtir, og á þann hátt, sem við teljum að verði þjóðfélaginu fyrir bestu. Virðing Alþ. felst ekki í því að ætla mönnum úti í bæ að taka þær ákvarðanir sem Alþingis er að taka.

Hvers vegna er ég að drepa sérstaklega á ákvarðanir Seðlabankans um vaxtakjör? Eru þau mál ekki öll í stakasta lagi með því fyrirkomulagi sem verið hefur að undanförnu? Þessu verð ég því miður að svara neitandi. Breyta um vaxtastefnu og umfram allt um vaxtagerjunaraðferðina. Ég verð hér að rifja upp þróun nokkurra síðustu ára.

Ég hef verið þm. í bráðum fjögur ár og á því tímabili hafa setið tvær ríkisstj., ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar sumarið 1974 og ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar síðan þá um haustið. Þegar ég kom fyrst í hv. d. voru forvextir af almennum víxlum 11–113/4%. Nú eru þeir 231/2%. Vextir af fasteigna- og handveðslánum til lengri tíma en tveggja ára voru 13%, nú eru þeir 26%. Forvextir á afurðalánum voru 7–9%, en eru nú 18%. Dráttarvextir voru 1.5% á mánuði, en eru nú komnir upp í 3% á mánuði, þ. e. a. s. 36% á á ári. Síðan hefur einnig verið fundinn upp nýr lánaflokkur, og það er nú saga að segja frá honum.

1. maí 1976 voru opnaðir til innlána vaxtaaukareikningar, þar sem menn gátu fengið okurrentu af peningum sínum. Þetta þótti fólki gott. Urðu innlög strax mikil og dró þá að sama skapi úr innlögum á almennum sparisjóðsvöxtum. Auðvitað var bönkunum ekki kleift að lána út með víxilvöxtum, sem voru 16.75% 1. maí 1976 þegar vaxtaaukareikningarnir voru opnaðir, peninga úr vaxtaaukareikningum sem teknir voru til geymslu fyrir 22% vexti. Af sjálfu leiðir. Þetta ráðslag varð til þess að víxlafyrirkomulagið, sem hafði að ýmsu leyti gefist vel, varð lamað og sums staðar alveg eyðilagt.

Nú er svo komið, að í stað víxla með eðlilegum vöxtum verða menn að taka vaxtaaukalán á 33% vöxtum. Allt var þetta gert í þeirri von að lagfæra efnahagskerfið og til þess að draga úr hraða verðbólgunnar. En batinn er samt hægur. Batinn er neikvæður, svo að við notum orðaleppa Seðlabankamanna sjálfra.

Það gefur auðvitað auga leið, að ekkert efnahagskerfi stenst svona ráðslag, hvað traust sem það væri. Verslun, sem þarf að búa við svona vaxtakjör, verður að fá vextina einhvern veginn uppi borna. Hún hefur tækifæri til þess. Þeir fara beint út í verðlagið. Neytendur, líka vaxtaaukaneytendur, þurfa að greiða hærra verð fyrir neysluvöru sína. Svipaða sögu er að segja frá iðnaðinum. Þar kemur þó eitrunin enn þá berlegar í ljós, þar sem vextirnir velta ekki eins hratt út í verðlagið eðli málsins samkvæmt. Auk þess hækka þeir framleiðsluna og spilla samkeppnisaðstöðu við erlendan iðnað. Þetta krenkir allan atvinnuveginn og því meir sem þetta vandræðaástand varir lengur.

Hvað varðar útgerðina og fiskvinnsluna, þá liggur það alveg ljóst fyrir, að við þessi vaxtakjör er þrengt mjög kosti útgerðarinnar. Þetta getur ekki farið öðruvísi en að grundvöllurinn undir fiskvinnslunni brestur og þar með útgerðin einnig, enda haldast þessar greinar í hendur þegar til lengri tíma er lítið. Þessi fyrirtæki verða að greiða rekstrar- og afurðalánavexti upp á 18% og 25% af yfirdráttarheimildum sem þau kunna að hafa, síðan 33% af vaxtaaukalánum sem þau neyðast til þess að taka og vegna þess að eðlileg víxillánafyrirgreiðsla er nú úr sögunni. Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: 36% dráttarvextir á ári ef ekki tekst að standa í skilum, og það er líklegt að þannig fari víða. Ég er ekki að segja að það þurfi að vera óeðlilegt að einhver fyrirtæki í útgerð eða fiskvinnslu fari á höfuðið. Raunar hefur, t. d. á Reykjanesi, fyrirtækjum verið haldið á floti sem ekki hafa átt raunverulega lífsvon. Góðir alþm., við getum ekki látið alla útgerð á Íslandi fara á höfuðið. Þetta er undirstaðan undir þeim útflutningi sem við höfum, og þess vegna verður að fleyta útgerðinni hvað svo sem það kostar. Þá byrði vitum við að við verðum að axla. Þess vegna er óvitaskapur að gleyma þessari hlið málsins.

Loks kem ég að landbúnaðinum. Samkv. verðlagsgrundvelli 1. mars er í vísitölubúinu gert ráð fyrir eigin fé 2 112 255 kr. Það ber vexti eftir gamla stíl, 5%, eða samtals vextir af eigin fé 105 613 kr. Þá eru skuldir við Stofnlánadeild 1 065 650 kr. með vexti upp á 10.9%. Þetta gerir samtals í vísitölubúinu 116156 kr. Síðan eru lausaskuldir áætlaðar 507 þús. og á þær eru reiknaðir rúmir víxilvextir, 23.75%, eða samtals 120 445 kr. Þetta gerir samtals vaxtakostnað upp á 385 804 kr. Það er nú allt og sumt.

Bóndi, sem á bú sitt skuldlaust og það fjármagn sem hann þarf í ársveltuna, getur bjargast vel. Að vísu fær hann enga vexti af ævitekjum sínum eða sinna sem bundnar eru í þessu búi, nema þá að verðbólgan hækkar verðmæti þess í krónutölu ár frá ári. Bóndi, sem ekki er svo ástatt um að hann eigi sjálfur allt sitt framkvæmda- eða veltufé, er miklu verr staddur. Reiknaðir vextir standa ekki undir nema litlu broti af því fjármagni sem það kostar að reka t. d. sauðfjárbú yfir árið, jafnvel þótt jörð og bú væru skuldlaus eign og einungis sé hægt að tal;a lán í rekstrarfé til ársrekstrar. Gjöld vísitölubúsins eru reiknuð tæplega 7.5 millj. og falla þau til allt árið. Ef við jöfnum þessa upphæð út og gefum okkur 3 millj. kr. skuld til jafnaðar allt árið, þá eru vaxtagjöld af þessum 3 millj., ef bóndinn væri svo heppinn að geta fengið að skulda þetta allt á víxilvöxtum, 712 500 kr. Þannig lítur málið út hvað viðvíkur þeim bændum sem hafa besta aðstöðuna. En hvernig fer þá fyrir þeim sem hafa lakari aðstöðuna eða þá frumbýlingunum? Þeim eru hreinlega bundnar drápsklyfjar. Skuldugir bændur hafa á undanförnum mánuðum neyðst til þess að taka vaxtaaukalán með 33% vöxtum, svo að mörgum tugum eða hundruðum millj. skiptir, til þess að fleyta áfram lausaskuldum sínum, enda hefur hæstv. ríkisstj. ekki komið því í verk að framkvæma til fulls ályktun Alþ. frá því í fyrravor um lausaskuldir bænda, en þá lagði ég til, og var það samþ. á Alþ., að fela ríkisstj. að útvega veðdeild Búnaðarbankans fjármagn til þess að breyta lausaskuldum verst settu bændanna í föst lán, að sjálfsögðu með viðráðanlegum vöxtum. Vaxtaaukalán hafa engir bændur efni á því að taka, nema þeir sem stórríkir eru.

Það er lærdómsríkt að kynna sér uppgjör fyrirtækja, bæði stórra og smárra, og bera það saman ár frá ári. Nú er víða svo komið, að fjármagnskostnaður í fyrirtækjum er orðinn hærri en vinnulaun, sem voru þó lengstum hærri fyrir nokkrum missirum. Of háir vextir skapa mjög mikið misrétti milli þeirra, sem hafa stofnað heimili og komið sér upp íbúðarhúsnæði fyrir nokkru, og þeirra, sem eru að gera það nú eða eiga það eftir. Á þann hátt er unga fólkinu í landinu að sjálfsögðu gert mjög erfitt fyrir. Sagan er ekki öll sögð enn, það er meira blóð í kúnni. Við getum ekki treyst því, að vextir séu komnir í hámark. Ekki er gert ráð fyrir því, að nú verði stansað af sjálfu sér. Ég leyfi mér að vitna til 1. heftis Fjármálatíðinda 1978 — tímarits sem Seðlabankinn gefur út. Þar segir Bjarni Bragi Jónsson í grein sem heitir: „Verðtrygging fjármagns á Íslandi“, á bls. 9, með leyfi forseta:

„Reynslan af vaxtaaukaforminu gaf tilefni til upptöku almenns verðbótaþáttar vaxta, og var það nýmæli upp tekið 1. ágúst 1977 með 8% verðbótaþætti, er féll inn í vextina án aðgreiningar í sjálfum gangi lánsviðskiptanna. Féll vaxtaaukinn þar með saman við verðbótaþáttinn. Upprunaleg hæð verðbótaþáttar var tengd 26% verðbólgu á ári og skyldi þátturinn breytast sem svaraði 6/l0 af breytingu verðbólgustigs að mati Seðlabankans fyrst um sinn eða þar til annað yrði ákveðið. Stigmögnun verðbólgunnar með haustinu olli svo hækkun verðbótaþáttarins upp í 11% frá 21. nóv. “ — og frá 21. febr. upp í 14%.

Þannig standa málin núna. Verðbótaþátturinn er búinn að færa vextina sjálfvirkt fram um 6% síðan 1. ágúst í sumar. Með svona aðförum hlýtur verðbólgan að magnast hröðum skrefum. Hvenær verða vextir 50–60 eða 70%? Hvar stinga menn við fótum? Þetta slævir ekki verðbólgubálið, þetta er eins og ef slökkviliðið færi að dæla bensíni á eldinn til þess að reyna að slökkva hann. Það er að vísu rétt, að sparifé hefur rýrnað á Íslandi að undanförnu, ekki í raun og veru eins mikið og hávaxtarpostular hafa viljað vera láta, vegna þess að sparifé hefur notið skattfrelsis, en rýrnað samt.

Hverjir eiga svo þetta sparifé og hverjir hafa verið rændir? Sparifjáreigendum má skipta í þrjá meginhópa. Í fyrsta flokki er fólk sem leggur inn peninga í hanka um stundarsakir, ætlar sér að fjárfesta bráðlega eða flakka til sólarlanda. Örfáir vilja eiga fyrir skattinum næst. Þessi hópur er stærstur, á honum er langmest hreyfing. Þarna er ekki um verulegt óréttlæti að ræða þar sem rýrnunin dreifist á tiltölulega mjög marga aðila. Þá eru börn og unglingar með lítils háttar upphæðir. Þeirra fé rýrnar auðvitað. Þó er sú meðferð ekkert hjá meðferðinni á unglingum þeim sem leggja skyldusparnað sinn inn í húsnæðislánakerfið, en þar er um ógurlegt óréttlæti að ræða. Loks er svo hópur aldraðra, sem leggur fé fyrir til elliára. Þeirra hlut verður að tryggja. Hann mætti bæta gegnum tryggingakerfið og e. t. v. eftir fleiri leiðum. Þá er verðtrygging leið sem hugsanlega mætti fara í auknum mæli. En sá er meginkostur almennrar verðtryggingar, að þá óska flestir eftir því, að verðbólga haldist í skefjum. En það er ekki raunin með hávaxtastefnunni.

Sú skoðun, að hlut sparifjáreigenda verði að tryggja, er góðra gjalda verð. En hlut þeirra má ekki skoða sem afmarkað svið, óháð öðru efnahagsástandi í þjóðfélaginu, enda er hlutur þeirra engu bættari ef efnahagskerfið er lagt í rústir og atvinnuvegirnir lamaðir. Hér verður að breyta um stefnu. Hlutur sparifjáreigenda er eins og annarra landsmanna svo best tryggður að hér sé blómlegt atvinnulíf og gjaldþoli einstaklinga sé ekki ofboðið. Þess vegna tel ég að rétt sé að breyta Seðlabankalögunum og fela ríkisstj. milliliðalaust vald sem hennar er í umboði Alþingis.!

Herra forseti. Ég læt máli mínu lokið og geri að till. minni, að frv. þetta verði sent að lokinni þessari umr. hv. fjh: og viðskn. til athugunar.