06.04.1978
Efri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

49. mál, hlutafélög

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. Ed. hefur tekið til meðferðar frv.. til laga um hlutafélög. Hefur frv. þetta verið til meðferðar í n. síðan snemma í haust, en frv. samhljóða þessu frv. var flutt á s. l. vori.

Gildandi lög um hlutafélög eru frá árinu 1921. Litlar breytingar hafa verið gerðar á þeim á meira en hálfrar aldar gildistíma þeirra. Lögin eru því að mörgu leyti orðin úrelt, enda verður löggjöf sem þessi að fullnægja þörfum atvinnu- og viðskiptalífsins á hverjum tíma. Á þessum langa tíma, sem liðinn er síðan gildandi lög voru sett, hefur atvinnu- og viðskiptalíf tekið miklum breytingum. Reynsla hefur og fengist um lagareglur sem að hlutafélögum lúta og um kosti og galla þess forms sem hlutafélög eru. Á þessum tíma hefur hlutafélögum fjölgað ört. Er því orðið tímabært að setja ný hlutafélagalög.

Löggjöf um hlutafélög hefur verið endurskoðuð víða í nágrannalöndunum. Á síðustu árum hafa ný lög verið sett um hlutafélög á Norðurlöndum, ég held mér sé óbætt að segja á þeim öllum, þ. e. a. s. í Noregi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð, enda þótt þessi lönd hafi búið við mun yngri og fullkomnari löggjöf í þessum efnum en við. Innan Efnahagsbandalags Evrópu hefur verið unnið að samræmdum reglum um hlutafélög fyrir aðildarríki.

Frv. tekur einkum mið af norrænum lögum og tillögum samnorrænnar nefndar sem vann að þessari endurskoðun hlutafélagalöggjafar á Norðurlöndunum um margra ára skeið. Íslenskt fjárhagskerfi og þjóðfélagshættir krefjast þó margvíslegra frávika, enda hefur svo orðið annars staðar þrátt fyrir viðleitni til samræmingar á þessu sviði. En þótt ljóst sé að um algjörlega samræmda löggjöf getur ekki verið að ræða, t. d. innan Norðurlandanna, á þessu sviði, þá er mikils virði að leitast sé við að hafa löggjöfina sem mest samræmda, og má telja að það hafi tekist vel miðað við allar aðstæður.

Í frv. er m. a. leitast við að treysta hlutafélagsformið og auka lýðræði í hlutafélögum, t. a. m. með því að bæta réttarstöðu minnihlutahópa í félögunum, en réttarstaða minnihlutahópa hefur verið mjög lítil og réttur minnihluta hefur oft verið fótum troðinn og minnihluti ekki geta varist því, vegna þess að réttarstaða hans hefur verið lítil sem engin. Reynt er að leysa úr ýmsum vafaatriðum sem upp kunna að koma í hlutafélögum og í skiptum þeirra við aðra aðila.

Fjh.- og viðskn. Ed. hefur farið yfir frv. ásamt fjh.- og viðskn. Nd. fyrir hagkvæmnisakir, þar sem frv. er mjög yfirgripsmikið og athugunin hefur verið mjög tímafrek. Þetta starf var unnið á s. l. hausti, að n. fóru yfir frv. saman og sameiginlega. Á grundvelli þeirrar vinnu hefur síðan verið unnið að brtt. sem nú liggja fyrir.

Umsagna var leitað hjá ýmsum aðilum strax á s. l. vori þegar frv. var fyrst flutt. Síðan var haft samband við alla þá aðila, sem leitað var umsagnar hjá, og þeir inntir eftir því, hvort þeir hygðust senda umsögn, og hvattir til að gera það. Eftirtaldir aðilar skiluðu umsögnum: Landssamband ísl. útvegsmanna, Vinnuveitendasamband Íslands og Félag ísl. iðnrekenda sameiginlega, en því miður hefur fallið niður í grg. að geta þess, að Félag ísi. iðnrekenda sendi grg. eða umsögn um þetta mál ásamt Landssambandi ísl. útvegsmanna og Vinnuveitendasambandi Íslands. Þá barst umsögn frá Verslunarráði Íslands, Lögmannafélagi Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, lagadeild Háskóla Íslands, viðskiptadeild Háskóla Íslands, Sambandi ísl. viðskiptabanka, Seðlabanka Íslands, skattrannsóknarstjóra. Einnig var Alþýðusambandi Íslands og Sambandi ísl. samvinnufélaga sent frv. til umsagnar en umsagnir frá þessum aðilum hafa ekki borist.

Allir þessir aðilar, sem sent hafa umsagnir, töldu að mjög væri brýnt og nauðsynlegt að setja nýja löggjöf um hlutafélög og gerðu ýmsar athugasemdir við frv. Hefur verið leitast við að taka tillit til þessara athugasemda, eftir því sem unnt hefur verið og réttlætanlegt hefur mátt telja.

Við athugun á frv. naut n. einkum aðstoðar Gylfa Knudsens deildarstjóra, og kann n. honum bestu þakkir fyrir aðstoðina. Hann hefur unnið með n. mikið starf í sambandi við þetta frv. og einnig hafði hann unnið í langan tíma að undirbúningi frv. Þá fékk n. til aðstoðar og mætti á fundi n. Benedikt Sigurjónsson, og einnig aðstoðaði Ólafur Nilsson n. við nokkur atriði.

N. hefur fallist á að mæla með samþykkt frv. með þeim brtt. sem fram koma á þskj. 477. Þessar brtt. eru, eins og ég gat um áður, til komnar að miklu leyti vegna ábendinga í umsögnum og einnig vegna athugana og sjónarmiða sem fram hafa komið við yfirferð og starf n. að þessu frv. Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir helstu brtt. n., sem skipta mestu máli, en allítarleg grein er gerð fyrir þessum brtt. í nál.

Í fyrsta lagi gerði frv. ráð fyrir því að hækka lágmarksfjölda hluthafa úr fimm í tíu. N. telur að ekki sé til bóta að hækka lágmarksfjölda hluthafa úr fimm í tíu, enda er það í ósamræmi við þá leið sem víðast hvar hefur verið farin erlendis í þessum efnum. N. fær ekki séð að komið verði í veg fyrir stofnun gervihlutafélaga með þessari breytingu, en sá er tilgangurinn. N. leggur því til að sama regla gildi áfram um þetta atriði og er, þ. e. að hluthafar verði fimm hið fæsta. Þess má geta, að allvíða tíðkast að jafnvel sé leyfilegt að hluthafi sé einn, en n. hefur þótt rétt að halda þessari tölu. Það þekkja hana allir og ekki þykir ástæða til að breyta henni, og n. hefur því gert hana að till. sinni.

Þá er lagt til að lágmarksupphæð hlutafjár hækki úr 1 millj. í 2 millj., en frv. gerði ráð fyrir því, að hlutafé væri hið minnsta 1 millj. kr. Með nokkrum rétti má segja að 2 millj. sem lágmarkshlutafé sé ekki há fjárhæð, ef tillit er tekið til þess, hversu mikilvæg starfsemi getur átt sér stað innan vébanda hlutafélaga. En um það hefur orðið samkomulag í n. að binda sig við 2 millj. í þessum efnum. Hins vegar er ljóst, að vera má að fljótlega þurfi að endurskoða þetta mark. Geta má þess, að núgildandi hlutafjárupphæð, lágmarksfjárhæð í íslenskum hlutafélögum, er 2 þús. kr., og má því segja að sú upphæð sé að engu orðin.

Við 3. gr. er gerð sú brtt., að meiri hluti stofnenda félags skuli ekki aðeins hafa heimilisfestu hér á landi, heldur hafa haft heimilisfestu í minnst tvö ár, til þess að gera strangari kröfur um þessi atriði.

Við 5. gr. frv. er gerð sú brtt., að ráðh. hafi heimild til að veita undanþágu frá hámarki stofnkostnaðar, en í frv. er gert ráð fyrir að hámark stofnkostnaðar sé 5% af hlutafé, og í stað opinberra skráningargjalda í 5. gr., sem undanskilja má hámarki stofnkostnaðar, komi opinber gjöld, en þá er haft í huga, að stimpilgjöld, gjöld fyrir atvinnuleyfi o. þ. h. falli undir þessa undanþágureglu.

Við 6. gr. er gerð sú brtt., að lagt er til að heimilt verði að ákveða hlutafé innan tiltekinna marka, þ. e. a. s. lágmark þess og hámark. Þetta hefur í för með sér, að ekki er nauðsynlegt að tilgreina ákveðna upphæð, heldur má einnig tilgreina lágmarksupphæð og hámarksupphæð, þannig að ákveðið svigrúm sé fyrir hendi við hlutafjárútboð.

Við 11. gr. frv. er gerð brtt. Fram kemur í frv. að minnst helmingur hlutafjár skuli vera greiddur við skráningu, þó aldrei minna en 600 þús. N. telur þessa reglu of stranga miðað við íslenskar aðstæður og leggur til, að miðað verði við fjórðung hlutafjár í þessum efnum eins og nú gildir, þó verði aldrei minna greitt við skráningu en 1 millj., sbr. tillögu um hækkun hlutafjár í 2 millj. Enn fremur leggur n. til að sömu reglur gildi um innborgun þess hluta hlutafjár sem greiddur er umfram nafnverð, þ. e. a. s. ef um yfirverð á hlutabréfum er að ræða.

Við 15. gr. er sú brtt., að í gildandi lögum eru engin ákvæði um hvenær greiða skuli það hlutafé sem ekki er greitt við skráningu. Það er því algerlega á valdi félagsstjórnar að ákveða hvenær eftirstöðvar skuli greiddar. Þetta hefur valdið því, að ekki hefur verið nein vissa fyrir því, að hlutafé væri að fullu greitt. Í frv. er lagt til að hlutafé verði greitt að fullu innan árs frá því að félag var skráð. N. telur þennan frest of skamman miðað við íslenskar aðstæður og leggur til að hann verði þrjú ár. Það eru mörg tilvik þess efnis, að þegar t. d. er verið að byggja upp atvinnufyrirtæki úti um land og um allt land, þá sé reynt að safna hlutafé meðal íbúanna og þeir fengnir til að leggja sitt af mörkum til að byggja upp atvinnulíf. Fer það oft þannig fram, að mönnum er gefinn kostur á að greiða það hlutafé á nokkrum tíma, t. d. í formi víxla. N. þykir rétt að slíkir möguleikar séu fyrir hendi og telur þess vegna rétt að lengja þennan tíma miðað við okkar aðstæður.

Brtt. er einnig við 18. gr., sem er nokkuð mikilvæg. Samkvæmt frv. er heimilt að leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf með ákvæðum í samþykktum, enda þótt nokkuð sé dregið úr möguleikum hlutafélaga í þeim efnum frá því, sem nú gildir. Þessar hömlur má leggja á hvort sem um er að ræða opin félög, þar sem hluthafar eru margir, eða lokuð fámenn félög. N. telur óeðlilegt að unnt verði að leggja hömlur á viðskipti með hlutabréf í fjölmennum félögum og álítur að viðskipti með hlutabréf í slíkum félögum eigi að vera hindrunarlaus. Er því lagt til að bannað verði að leggja hömlur á viðskipti með almenn hlutabréf milli íslenskra aðila í hlutafélögum þar sem hluthafar eru 200 eða fleiri, þ. e. a. s. ekki verður leyfilegt að viðhafa forkaupsrétt í hlutafélögum þar sem hluthafar eru 200 eða fleiri. Þetta ákvæði gæti orðið nokkuð mikilvægt skref í þá átt, að hlutabréf gætu gengið meir kaupum og sölum, menn ættu t. d. auðveldara með að koma hlutabréfum í verð þurfi þeir á því að halda.

Þá er gert ráð fyrir því í brtt., að nýr kafli komi í frv. Á eftir V. kafla komi nýr kafli í þremur greinum. er verði VI. kafli og fjalli um lántökur með sérstökum skilmálum. Hér er um að ræða skuldabréfalán hlutafélaga sem breyta má í hluti í því. Ákvæði um þetta efni hafa verið tekin upp í löggjöf um hlutafélög m. a. á Norðurlöndum. Vegna sívaxandi fjárfestingarþarfar atvinnulífsins hefur víða verið leitað eftir öðrum leiðum til fjármögnunar en með hlutafjárframlögum og venjulegum lánum. Þau breytanlegu lán, sem hér um ræðir, eru eins konar millistig venjulegra lána og hlutafjár. Þessi háttur hefur tíðkast alllengi víða í Evrópu og í Bandaríkjunum. Um þessi breytanlegu skuldabréf eru ákvæði í 39. og 40. gr. Þar eru settar ýmsar reglur um ákvörðun um töku slíkra skuldabréfalána. m. a. vísað til þeirra reglna sem gilda um ákvarðanir um hækkun hlutafjár. Ákvæði greinanna sýnast að öðru leyti skýra sig að flestu leyti sjálf.

Með ákvæðum í 41. gr. er veitt heimild til lántöku með skuldabréfum þar sem vextir taka mið af arði eða árságóða. Hér er um að ræða svokölluð arðgefandi skuldabréf. Opinberum vaxtaákvörðunum verður vitaskuld að hlíta. N. þykir rétt að hafa ákvæði um þessi skuldabréfalán í frv., þótt ljóst sé að knýjandi þörf kalli ekki á reglur um þetta nú. Hins vegar þykir rétt að þessi möguleiki sé fyrir hendi í íslenskri hlutafélagalöggjöf, því að búast má við því, ef frv. þetta verður að lögum, að við munum búa um alllangt skeið við þessa löggjöf. Þess vegna þykir rétt að hafa opna möguleika í þeirri löggjöf ef aðstæður breytast og ástæða þykir til m. a. að nota slíka leið til lántöku.

Við 44. gr. er gerð sú brtt., í því skyni að auka vernd minni hluta, að heimilt verði að hafa við aðrar kosningaaðferðir en venjulega meirihlutakosningu við stjórnarkjör í hlutafélögum. Er hér annars vegar um það að ræða. að hlutafélögum verði heimilt að ákveða slíkt í félagssamþykktum, og hins vegar að veita tilteknum minni hluta. eða nánar tiltekið 1/4, rétt til að krefjast þess. að annarri kosningaaðferð verði heitt. Þær kosningaaðferðir, sem velja má um, eru annars vegar hlutfallskosning og hins vegar svokölluð margfeldiskosning. Margfeldi, kosning er nýtt orð sem þarfnast nánari skýringa. enda er þessi kosning ekki eins kunn og hlutfallskosning.

Slíkri kosningu er þannig háttað, að gildi hvers atkvæðis í félaginu er margfaldað með tölu þeirra manna sem kjósa á, en síðan má hluthafi verja öllu atkvæðamagni sínu, hvort sem er á jafnmarga menn eða færri en kjósa skal. Ef t. d. einum manni er greitt atkvæði er kjósa skal fimm manna stjórn, hefur hver hlutur fimmfalt atkvæðagildi. Þetta ákvæði gæti orðið til þess, að minnihlutahópur hefði ávallt möguleika til þess að fá mann kosinn í stjórn hlutafélags, en t. d. meiri hluti, sem ræður yfir 51% atkvæðamagns, gæti ekki ávallt ráðið því, hvaða menn væru í stjórn, heldur yrði einnig að taka tillit til minni hlutans. Það er alveg ljóst, að nauðsynlegt er að auka vernd minni hluta og minni hluti verður að eiga sinn rétt í félaginu. Hins vegar er ljóst, að meiri hluti hlýtur einnig að hafa mikinn rétt o g meiri rétt og á að ráða félaginu, en minni hluti verður þó að hafa möguleika á að hafa sín áhrif þar. Þetta ákvæði er sett inn í því skyni, að ávallt sé tryggt að minnihlutahópar geti haft áhrif á stjórn félaganna.

Við 46. gr. er gerð sú brtt., að viðmiðunartölu þar verði breytt, en grein þessi fjallar um skyldu hlutafélags til þess að ráða einn eða fleiri framkvæmdastjóra. Í 46. gr. frv. segir, að í félagi, þar sem hlutafé er 10 millj. eða meira, skuli ráða framkvæmdastjóra. N. álítur, að þessi viðmiðunartala sé of lág, og leggur til, að hún verði hækkuð í 30 millj.

Í 51. gr. frv. segir, að ekki megi kjósa framkvæmdastjóra félags sem formann. N. telur, að þetta sé of strangt miðað við íslenskar aðstæður, og leggur því til, að þetta verði aðeins í félögum þar sem hlutafé er hærra en 30 millj. kr. Hér er því sama viðmiðun sem ég gat áður um varðandi 46. gr.

Í 51. gr. frv. eru ítarlegar reglur um vald og starfssvið fulltrúanefnda, þar sem m. a. kemur fram, að í samþykktum megi ákveða að kjör stjórnar og ákvörðun um þóknun stjórnarmanna sé á valdi fulltrúanefndanna. N. telur óheppilegt að hafa mjög ítarlegar reglur í frv. um vald og starfssvið fulltrúanefnda, þar sem engin reynsla er af slíkum nefndum hér á landi. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að þessar ítarlegu reglur falli niður, en ákveða um slíkt, ef fulltrúanefnd er kjörin, nánar í samþykktum um starfssvið fulltrúanefndar og vald hennar.

Við 64. gr. er sú brtt. að lengja fresti. En einnig kemur þar fram. að frv. gerir ráð fyrir að sú vernd, sem minni hluta er veitt í 3. mgr. 64. gr.. miðist við hluthafahóp sem ræður minnst 1/10 hlutafjár. N. telur, að þarna sé um of lítinn hóp að ræða, og leggur hví til, að miðað verði við 1/5. Samsvarandi breyting um vernd minni hluta á ýmsum sviðum er á öðrum stöðum í frv., úr 1/10 í 1/5. Má í því sambandi nefna 113. gr. og 121. gr.

Við 77. gr. er gerð sú brtt. að endurskoðandi þurfi aðeins að vera einn í hlutafélagi ef um löggiltan endurskoðanda er að ræða, en samkv. frv. skulu endurskoðendur ávallt vera tveir eða fleiri. N. þótti rétt að leggja ekki óþarfaskyldur á hlutafélög í þessu efni, ef um það er að ræða að fagmaður á þessu sviði ábyrgist og annist slíka endurskoðun.

Á 79. gr. er lagt til að sú breyting verði gerð, að þau mörk, sem skylda til að kjósa löggiltan endurskoðanda í félögum, verði hækkuð og þeim breytt. Frv. gerði ráð fyrir því, að í hlutafélögum þar sem hlutafé er 5 millj. kr. eða þar yfir og þegar skuldir og bundið eigið fé nemur samtals 100 millj. kr. og þar yfir eða heildarvelta nemur 300 millj. kr. eða meira, skuli a. m. k. einn endurskoðandi, sem kosinn er á aðalfundi, vera löggiltur. Ekki hefur farið fram nein athugun á því, hvað þetta mundi þýða við okkar aðstæður, t. d. hversu mörg félög mundu falla undir þetta ákvæði. N. hefur því gert það að till. sinni, að þessum mörkum verði breytt þannig, að í stað 5 millj. kr. hlutafjár og þar yfir komi 30 millj., í stað 100 millj. í skuldir og bundið eigið fé komi 500 millj. og þar yfir, og í stað heildarvellu 300 millj. kr. eða meira komi 100 starfsmenn, þ. e. a. s ársmenn. Mætti í því sambandi miða við vinnuvikur, sem ávallt liggja fyrir upplýsingar um á framtali því sem félög senda skattyfirvöldum um laun starfsmanna sinna, og breyta þessu í 100 starfsmenn. Ef félag, sem býr við eitthvað af þessum atriðum, þ. e. a. s. 30 millj. kr. hlutafé, 100 starfsmenn eða meira eða ef skuldir og bundið eigið fé nemur samtals 500 millj. kr. eða þar yfir, þá skal a. m. k. einn endurskoðandi, sem kosinn er á aðalfundi vera löggiltur. Hins vegar hefur n. þótt rétt, að athugað verði nánar hvaða þýðingu þetta ákvæði muni hafa, bæði hversu mörg félög muni falla undir þetta ákvæði og hvort endurskoðendur eru tilbúnir að taka við slíkum skyldum og anna þeim. Þess vegna hefur n. lagt til að ákvæði þetta öðlist ekki gildi fyrr en 1. janúar 1982 til þess að kanna megi þessar aðstæður.

Stungið er upp á, að 85. og 86. gr. verði sameinaðar og þeim breytt, en þessar greinar fjalla annars vegar um áritun endurskoðanda á reikninga hlutafélaga og hins vegar um endurskoðunarskýrslu. Lagt er til að þessar greinar verði sameinaðar og þeim breytt þannig fyrst og fremst, að sú tvískipting endurskoðunaryfirlýsingar, sem frv. gerir ráð fyrir, er afnumin og áritun og endurskoðunarskýrsla eru sameinaðar í eina endurskoðunaryfirlýsingu. Með þessu er lögð áhersla á það, að ekki verði hætta á því, að t. d. í áritun endurskoðanda á ársreikninga hlutafélags verði vísað í endurskoðunarskýrslu, en endurskoðunarskýrslan sé ekki birt með ársreikningi. Þetta gæti valdið því, að nauðsynlegar upplýsingar kæmu ekki fram. Þess vegna hefur n. talið heppilegra að þessi yfirlýsing væri í einni grein, enda tíðkast það víðast hvar. Samsvarandi breyting hefur verið gerð m. a. í norsku lögunum um hlutafélög, sem einnig voru byggð á samnorrænum till. sem ég hef áður getið um.

Þá er gerð sú brtt. við 102 gr., en sú grein fjallar um samstæðureikning og samstæðuskýrslu, að ákvæði frv. um samstæðuskýrslu er fellt niður og veitt er heimild til að víkja frá ákvæðum greinarinnar ef gerð samstæðureiknings er verulegum vandkvæðum bundin. Má í þessu sambandi nefna, að ef um mjög ólíka starfsemi er að ræða í félögunum, t. d. bankastarfsemi, tryggingastarfsemi, útgerð eða verslun, geta komið upp þær aðstæður, að gerð slíks samstæðureiknings sé verulegum vandkvæðum bundin. Hins vegar liggur ekki fyrir, hvaða áhrif slíkt ákvæði mundi hafá, hversu viðtækt það mundi verða, að félög þurfi að gera samstæðureikninga. Einnig þarf slíkt ákvæði alllangan aðlögunartíma. Það er nokkuð mikið verk að gera slíka samstæðureikninga, og menn þurfa að búa yfir nokkuð mikilli þekkingu varðandi þá tækni, sem við það er notuð, og þess vegna hefur n. þótt rétt að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1982, en tíminn notaður til að kanna betur hvaða áhrif þetta mundi hafa við okkar aðstæður og þess vegna gæti myndast svigrúm til að breyta þessu aftur, ef ástæða þætti til.

Við 143. gr. flytur n. þá brtt., að tekin verði upp heimild til handa ráðh. til að heimila opinberan aðgang að hlutafélagaskránni. Víða erlendis hefur almenningi verið veittur réttur til að kynna sér allt það, sem tekið hefur verið í hlutafélagaskrá, ásamt fylgigögnum. N. telur það vera í samræmi við kröfur tímans að veita sem víðtækastan aðgang að skránni og einnig reikningum hlutafélaga sem verða í vörslu skrárinnar. Þar sem nauðsynlegt kann að reynast að aðgangur verði gerður almennur í áföngum, telur n. heppilegast að ráðh. kveði á um þetta. Ljóst er að samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að mjög víðtæk og mikil hlutafélagaskrá verði tekin upp. Spurningin er í hvaða tilgangi á að nota þessa hlutafélagaskrá. Hún hlýtur að vera gerð í þeim tilgangi, að einhverjir hafi afnot af henni. Því þykir n. rétt að veita ráðh. slíka heimild. Hins vegar er ljóst að það krefst verulegrar vinnu að móta slíkt sem opinberan aðgang að þessari skrá, og það kann einnig að reynast nauðsynlegt að takmarka hana á einhvern hátt, en sú skoðun hefur víðast hvar verið mjög ríkjandi, að aðgangur að slíkum skrám væri sem almennastur.

Að lokum gerir n. brtt. við 154. gr., sem fjallar um gildistöku þessa frv. Frv. felur í sér miklar breytingar frá gildandi lögum. Ýmsar nýjar skyldur og kvaðir eru lagðar á hlutafélög með því. Nauðsynlegt er því, að hlutafélögum gefist nægilegur tími til að átta sig á breytingunum og aðlaga sig þeim. Frv. gerir enn fremur ráð fyrir því, að núv. hlutafélagaskrár verði sameinaðar í eina skrá, sem krefst tímafreks undirbúnings. N. telur því að gefa verði rúman tíma frá því að lögin eru samþ. og þar til þau taka gildi. N. leggur því til, að lögin taki gildi 1. janúar 1980. Er það hið skemmsta sem unnt er með góðu móti að komast af með.

N. telur þó óhætt og eðlilegt, að ákvæði 3. mgr. 1. gr. um lágmarksupphæð hlutafjár, að hlutafé skuli vera hið minnsta 2 millj. kr., taki gildi strax, enda er núgildandi lágmarksfjárhæð, 2 þús. kr., að engu orðin vegna verðlagsþróunar. Hér er einungis um það að ræða, að fjárhæðin sem slík er hækkuð. Reglur gildandi laga um innborgun við skráningu og greiðslu eftirstöðva gilda áfram, þar til ákvæði þessa frv. koma almennt til framkvæmda.

Sérstaklega verður að taka fram, hvenær ákvæðin um ársreikning koma til framkvæmda. Lagt er til, að þau taki gildi fyrir það reikningsár sem hefst á árinu 1979, þ. e. gert skal upp al árinu 1980 eftir hinum nýju reglum.

Eins og ég hef áður tekið fram, taldi n., að þörf væri á lengri gildistökufresti varðandi skyldur hlutafélaga til að hafa löggiltan endurskoðanda sbr. 79. gr. og skyldu til að gera samstæðureikning, sbr. 102. gr. Lagt er til, að þessi ákvæði komi til framkvæmda 1. janúar 1982. Kanna þarf hversu mörg hlutafélög mundu falla undir skyldu skv. 79. gr.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir brtt. n. og starfi n. að þessu máli. N. hefur lagt verulega vinnu í þetta frv. og telur að mjög nauðsynlegt sé að þessi löggjöf verði sett. Áður hefur verið gerð tilraun til þess að breyta lögum um hlutafélög. Mig minnir að það hafi verið 1953. Það væri mjög ákjósanlegt — ég vil leggja á það ríka áherslu — ef unnt yrði að afgreiða frv. þetta sem fög frá Alþ. á þessu þingi. Hér er um mjög viðamikinn bálk að ræða, sem krefst mikillar vinnu og undirbúnings, og það, að frv. næði ekki fram að ganga á þessu þingi, mundi þýða það, að þráðurinn slitnaði, og ekki er að vita hvenær hægt væri að byrja aftur á þessu starfi.

Ég vil að lokum ítreka það, að n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem fram koma á þskj. 477. Hv. þm. Ragnar Arnalds undirritar nál. með fyrirvara.