31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

40. mál, skólakostnaður

Jónas Árnason:

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn, að við erum sammála ég og hv. þm. Karvel Pálmason. Og hann hefur sýnt mér þann heiður að taka mig sem meðflm. að þessu ágæta frv. Ég tek undir allt það sem hann hefur sagt um nauðsyn þeirrar lagasetningar sem hér er stefnt að.

Samkvæmt lögum eða reglugerðum ber íslenskum börnum að kunna hitt og þetta og þar á meðal að synda. Við fullnaðarpróf er skírteini um tiltekinn þroska bundið því skilyrði af hálfu hins opinbera að börnin kunni að synda. Mér sýnist að þessi krafa leggi það á herðar hinu opinbera að sjá til þess að börnin hafi aðstöðu til þess að læra að synda. Eins og hv. 1. flm. þessa frv. hefur bent á fer því fjarri að sú aðstaða sé, fyrir hendi alls staðar. Hana vantar mjög svo tilfinnanlega þar sem þörfin fyrir hana er hvað mest, en það er í sjávarplássum þar sem, eins og hv. 1. flm. benti á, eru mestar líkur á að um líf og dauða geti verið að tefla fyrir einstaklinga að hann kunni að synda.

Með aukinni sundkunnáttu Íslendinga hefur að sjálfsögðu aukist öryggi á sjó. Mörg alvarlegustu sjóslys fyrri tíma urðu við þær aðstæður, að ef viðkomandi skipshafnir hefðu kunnað að synda, þá horfði manntjón e.t.v. ekki orðið neitt þar sem það varð hins vegar mjög alvarlegt.

Þó að aðstaða til sundiðkunar sé ekki fyrir hendi, þá er reynt að bæta úr með hópferðum þangað sem sundlaugar eru, löngum ferðalögum, og iðulega verður að fella niður annað nám á meðan legið er við á öðrum stöðum þar sem hægt er að kenna börnunum að synda.

Ég tel að hér sé um að ræða sjálfsagt réttlætismál og læt í ljós þá von mína, eins og hv. 1. flm., að málið nái nú fram að ganga. 200 millj. segir hann að menntmn. segi að þetta mundi kosta, en það mundi duga til framkvæmda sem enst gætu æðilengi. Þetta er ekki miklu meiri upphæð en fer á ári í fyrirtæki sem hefur verið æðimikið til umr. hér á Alþ. (KP: Nefndu það bara.) Það er Sinfóníuhljómsveitin. Menntmn. hefur ekki svo ég viti, talið eftir þá peninga.

Úr því ég minntist á Sinfóníuhljómsveitina, þá má gjarnan minna á það að sundstaðir eru hinir mestu menningarstaðir. Hér í höfuðstaðnum eru sundstaðirnir þeir staðir að mínum dómi sem höfuðstaðurinn má vera hvað stoltastur af. Ég verð nú að hrósa þeim sem stjórnað hafa alllengi í höfuðstaðnum, að þeir hafa á þessu sviði unnið margt gott verkið. Sundlaugarnar í Reykjavík eru frábærir staðir og mjög nauðsynlegir okkur sem höfum komist upp á lag með að synda daglega, iðka daglega þá líkamsrækt sem okkur er nauðsynleg og hentar sumum okkar betur en önnur líkamsrækt. En eins og allir vita, þá hafa læknar mjög mælt með sundinu sem heilsuræktarþætti. Ég minni á að það fólk, sem býr þar sem ekki eru sundlaugar, fer á mis við þetta. Því veitist ekki tækifæri til að stunda þessa líkamsrækt. Um leið og maður hugleiðir þetta, þá vaknar að sjálfsögðu sú spurning: Hvernig stendur á því að þessir dýrðlegu staðir, sundstaðirnir, og aðrir staðir til íþróttaiðkana, eru ekki meira sóttir en raun ber vitni? Nú fyrir stuttu var viðtal við fólk í sjónvarpinu um líkamsrækt. Spurt var hvort þetta fólk stundaði líkamsrækt. Af þeim, sem spurðir voru, sem ég held að hafi verið hátt í 10, var, held ég, einn eða tveir sem sögðu að þeir gerðu það. Aðrir létu það alveg vera. Mér virðist að þarna sé um að ræða þversögn, mótsögn, þegar maður athugar í fyrsta lagi, hve mikið fjármagn fer til íþróttaiðkana á Íslandi, og einnig hitt, hve mikill áróður er hafður í frammi varðandi íþróttir. Ég er hræddur um að ef þetta mál yrði kannað, þá kæmi það í ljós, sem oft vill verða, að það sé allt of lítill hópur sem þarna kemur við sögu, það sé allt of lítill hópur Íslendinga sem stundar líkamsrækt, það sé allt of lítill hópur Íslendinga sem hefur veralegt gagn af öllu því sem gert er fyrir íþróttir.

Ég vil fyrir mitt leyti taka það fram, að mikla ánægju hef ég haft af því að horfa á íþróttir og þá sérstaklega knattspyrnu. En mér þykir það illt til afspurnar fyrir þá menn sem stjórna þessum málum, íþróttamálum okkar Íslendinga, að svo fáir virðast taka þátt í íþróttum. Er þetta ekki að verða sýningaratriði fyrst og fremst? Og ef svo er, hvað getum við þá gert til þess að bæta úr? Íþróttir eiga fyrst og fremst að vera til þess að bæta heilsufar fólks, almennings, ekki einskorðast við þá sem afrekin vinna, ekki einskorðast við stjörnurnar. Ég kasta því hér fram, hvort ekki sé nauðsynlegt að kanna þessi mál og auka þá fjárframlög til þeirra þátta sem gætu orðið til þess að auka þátttöku almennings í íþróttum.

Mér finnst það voðalegt til afspurnar fyrir okkur Íslendinga, að könnun, sem gerð var fyrir nokkrum árum, leiddi það í ljós að líkamsþrek okkar hefur minnkað stórlega. Í samanburði við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, sem við erum alltaf að bera okkur saman við, þá skilst mér að við séum aftastir. Þetta er ekki gott. Lítið samræmi er í þessu, — að við skulum vera of latir eða of miklar rolur eða hver sem ástæðan er til þess að fara út og stundaíþróttir, — það er lítið samræmi í því og svo hinu, að heilsufari þjóðarinnar hrakar á vissum sviðum og svokallaðir menningarsjúkdómar magnast mjög svo alvarlega. En ráðið við þeim, segja einmitt vísindamenn, er hreyfing og líkamsrækt.