06.04.1978
Neðri deild: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3228 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

172. mál, varnir gegn kynsjúkdómum

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Hæstv. forseti. Frv. þetta er komið frá Ed. Þar var gerð á því mjög lítil breyting, við 5 gr., þannig að í stað orðanna: „Í öllum íslenskum skipum skal vera alþjóðleg bók um kynsjúkdóma“ stendur: Í öllum skipum skal vera upplýsingarit um kynsjúkdóma o. s. frv.

Þetta frv. er að verulegu leyti flutt að till. nefndar, sem ég skipaði í júnímánuði á s. l. ári, en hlutverk þeirrar nefndar var að endurskoða gildandi lög um varnir gegn kynsjúkdómum. Í nefndinni áttu sæti Ólafur Ólafsson landlæknir, sem jafnframt var formaður, Hannes Þórarinsson yfirlæknir og Sigurður B. Þorsteinsson læknir.

Gildandi lög um varnir gegn kynsjúkdómum eru frá árinu 1932. Á þeim tíma var lítið hægt að gera til þess að lækna kynsjúkdóma. Tóku lögin því mið af því fyrst og fremst, að reynt yrði að koma í veg fyrir útbreiðslu þessara sjúkdóma. Þannig eiga mörg ákvæði laganna ekki við í dag, þegar tiltölulega auðvelt er að lækna kynsjúkdóma. Nauðsyn sérlöggjafar á þessu sviði er eigi að síður brýn, þar sem kynsjúkdómar eru enn þá töluvert heilbrigðisvandamál og þeim hefur fjölgað hér á landi hin síðari ár. Í slíkum tilvikum er nauðsynlegt að fljótt og örugglega verði brugðist við, því að margir þessara sjúkdóma eru mjög smitnæmir. Hins vegar þarf að færa löggjöfina í raunverulegra horf og er frv. þetta fram borið vegna þess.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um þetta frv., en vísa til þess sjálfs og aths. við það. Ekki get ég þó skilið svo við það, að ég minnist ekki á eitt þeirra nýmæla, sem fram kemur í þessu frv., og er merkilegast. Gert er ráð fyrir að veitt verði fræðsla um kynsjúkdóma í grunnskólum. Slík fræðsla hefur verið hornreka hér á landi og er kominn tími til ð úr verði bætt. Eðlilegast væri að slík fræðsla tengdist almennri kynfræðslu í skólum, en samkv. lögum nr. 25 frá 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, skal veita fræðslu um kynlíf og siðfræði þess á skyldunámsstigi og öðrum námsstigum.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr: og trn.