31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

40. mál, skólakostnaður

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Mér þykir vænt um að heyra í ræðum þeirra hv. þm. Karvels Pálmasonar og Jónasar Árnasonar skilning á mikilvægi íþróttanna. Ég held að það fari ekki á milli mála að sú skoðun er rétt, og undir hana er tekið a.m.k. af mér, að nauðsynlegt sé að byggja hér upp myndarleg íþróttamannvirki sem allra fyrst. Að því leyti hef ég síður en svo á móti þessari till., að byggðar séu sundlaugar sem víðast um landið. Ég held að skilningur hafi komið fram í áliti hv. menntmn. á tveimur undanfarandi þingum hvað það varðar. Hins vegar er 1. flm. þessarar till. kunnugt um að ágreiningur er um þessa till., einkum af tæknilegum ástæðum.

Hv. menntmn., en þar á ég sæti, hefur fjallað nm þetta frv:, og þrátt fyrir ágreining og þrátt fyrir rök, sem mæla gegn því að samþ. þessa till. eins og hún liggur fyrir, þá hefur n. sýnt till. þann velvilja, að vísa henni til athugunar hæstv. ríkisstj. og með því að vissu leyti tekið undir meginhugsunina sem felst í þessari tillögu.

Ég vildi hins vegar enn á ný taka fram, að ég hef haft við það að athuga að verið væri að setja í lög ákvæði sem gerðu ráð fyrir fjárstuðningi sem bundinn er við ákveðna staði með ákveðnum hætti. Ég held að fjárstuðningur ríkisvaldsins og hins opinbera eigi ekki að vera háður slíkum reglum, heldur eigi hann að vera almennur, hvort sem um er að ræða fámenna eða fjölmenna staði og hvort sem um er að ræða sundlaugar eða önnur íþróttamannvirki.

Athugasemdir mínar beinast því að því, að hér er gert ráð fyrir því að styrkja sérstaklega og meira en önnur málefni sundlaugar og þá aðeins sundlangar sem eru í útgerðarstöðum sem hafa innan við 4 þús. íbúa. Ég sé marga annmarka á þessu frv.

Ég geri ráð fyrir að menn þurfi líka að hugsa sig um áður en þeir samþ. orðalaust að mæla með hækkun, þá væntanlega á fjárlögum, sem nemur 200 millj. kr., ef útreikningur 1. flm. er réttur. Ég er líka þeirrar skoðunar að þetta mál sé liður í miklu stærra vandamáli sem blasir við fjárveitingavaldinu og okkur, en það er fjármögnun íþróttamannvirkja yfirleitt. Á fundi fjvn. í morgun kom fram, að þrátt fyrir að fjárveitingar til Íþróttasjóðs vegna byggingar íþróttamannvirkja hækka um 117 millj. kr. frá síðustu fjárlögum og eru nú komnar upp í 261 millj. kr., þá gerir þessi fjárveiting ekki meira en að standa undir skuldbindingum sjóðsins, en gerir ekki ráð fyrir neinni fjölgun eða aukningu íþróttamannvirkja, og ekki er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að neitt íþróttamannvirki fari af stað á næsta ári. Samkv. áætlun íþróttafulltrúa ríkisins þyrfti Íþróttasjóður að fá fjárveitingu að upphæð 540 millj. til að standa undir fyrri skuldbindingum og örfáum íþróttamannvirkjum til viðbótar.

Af þessu má sjá að vandi Íþróttasjóðs er geigvænlegur og ekki í fljótu bragði séð hvernig leysa má úr þeim vanda.

Vegna orða síðasta ræðumanns, hv. þm. Jónasar Árnasonar, um mikilvægi íþróttanna og þeirra athugasemda hans, að íþróttastarfið sé fyrst og fremst fyrir afreksmenn og keppnisfólk, vil ég, um leið og ég tek undir þessi ummæli að nokkru leyti, vekja athygli á því, að talið er samkv. útreikningum íþróttafulltrúa ríkisins að rekstur íþróttastarfsins innan frjálsíþróttahreyfingar sé nú um 410 millj. kr. á ári — aðeins reksturinn, en fjárveitingar héðan frá fjárveitingavaldinu, frá hinu opinbera, til þessa mikla starfs eru um 40 millj. á fjárlagafrv. núna. Mismuninn verða hin frjálsu íþróttafélög að jafna með eigin tekjuöflun, með sjálfboðaliðastarfi o.s.frv. Og skýringin á því, að íþróttafélögin hafa ekki getað sinnt almenningsíþróttum sem skyldi, er einfaldlega sú, að þau hafa ekki til þess aðstöðu og ekki til þess mannafla. Ég held, að það sé fullur hugur á því í íþróttahreyfingunni að reyna að taka á móti sem mestum fjölda til þess að reyna að útbreiða íþróttirnar sem mest og til þess að fá sem flesta á öllum aldri til þess að stunda íþróttir, en til þess hefur einfaldlega ekki gefist tækifæri, ekki svigrúm, vegna þessa mikla vanda sem íþróttafélögin eiga við rekstrarlega séð.

Það er þó talið að innan vébanda íþróttahreyfingarinnar séu rúmlega 60 þús. manns, og það er ekki lágt hlutfall ef íbúafjöldi þjóðarinnar er hafður í huga. Þennan fjölda mætti auðveldlega auka. Og ég er algerlega sammála því, að það mundi hjálpa mjög heilsufarslega og það mundi lækna marga menningarsjúkdóma ef fleiri gætu stundað íþróttir á vegum íþróttafélaganna víðs vegar um landið, ef fleiri gætu sótt íþróttastaði, íþróttamannvirki. Ég held því að besta lausnin á því sé að reyna að auka fjárveitingar til byggingar íþróttamannvirkja og til reksturs íþróttahreyfingarinnar, vegna þess að það margsamlega borgar sig fyrir fjárveitingavaldið og fyrir þjóðina að hjálpa til á þessum vettvangi. Og þá hef ég það í huga sem ég nefndi áðan, að starfið kostar um 410 millj. Auðvitað kemur ekki til greina að borga það allt saman, en menn geta ímyndað sér hvers konar baggi þetta yrði fyrir fjárveitingavaldið ef íþróttafélögin legðu niður starf sitt, ef sjálfboðaliðastarfið legðist niður.

Þetta vildi ég taka fram nú við þessa umr., að það er alls ekki um að ræða neina óvild eða andúð gagnvart því að setja meira fé í byggingar sundlauga, heldur þarf að athuga það mál í samhengi við þetta mikla vandamál sem blasir við íþróttastarfinu í landinu. Ég held að það geti verið gott verkefni fyrir áhugasama menn í fjvn. að athuga rækilega hvernig leysa megi vanda Íþróttasjóðs nú á næstu missirum.