10.04.1978
Efri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3245 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

167. mál, Fiskimálaráð

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Sjútvn. Ed. hefur fjallað um frv. til laga um afnám Fiskimálaráðs. Hún leggur einróma til að frv. verði samþ. óbreytt.

Lengi hefur verið í undirbúningi að sameina Fiskifélag Íslands og Fiskimálaráð. Mönnum hefur verið ljóst, að verkefni þessara stofnana væru mjög svipuð og oft þau sömu, en í framkvæmd hefur ekki orðið nein ákveðin verkaskipting á milli þessara stofnana. Þessar stofnanir eru samkv. eðli sínu tæki hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þær eru ráðgefandi um mótun heildarstefnu í sjávarútvegi í krafti þessara sömu aðila, og starfslið þessara stofnana ásamt forstöðumönnum þeirra er ábyrgt gagnvart hagsmunaaðilum fyrst og fremst. Þess vegna er álitið, að hagkvæmt sé að sameina þessar stofnanir í eina, og þótt breyta þurfi fleiri lögum og reglugerðum til þess að svo verði, þá er þetta fyrsti liðurinn í þeirri áætlun að sameina Fiskimálaráð og Fiskifélag Íslands.