10.04.1978
Efri deild: 76. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3247 í B-deild Alþingistíðinda. (2431)

226. mál, stimpilgjald

Frsm. (Jón G. Sólnes) :

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hv. Ed. hefur fjallað um frv. það um stimpilgjald sem hér liggur fyrir til afgreiðslu. Eins og kemur fram í grg. frv. er um allviðamikinn lagabálk að ræða, sem er kominn til ára sinna, því að núgildandi lög um stimpilgjöld eru orðin 57 ára gömul og má segja að það sé vonum seinna sem breytingar á þessum lögum séu á ferðinni.

Fjh.- og viðskn. Ed. varð sammála um að leggja til að frv. yrði samþ. með þeirri breyt., að þar sem stendur í 38. gr. „1. apríl“ komi: 1. júlí. Fjarverandi afgreiðslu þessa máls voru þeir hv. þm. Albert Guðmundsson og Ragnar Arnalds.

Herra forseti. Mér þykir hlýða við þessa umr. málsins að geta þess, að síðan þetta nál. var gefið út af hv. fjh.- og viðskn. Ed., hafa okkur borist allmikilvægar upplýsingar frá aðilum, sem við viljum ekki sniðganga, um að þörf sé breytinga á því frv. sem hér liggur fyrir til umr. Höfum við ákveðið að kanna það mál nánar. Þannig má búast við að þegar málið kemur til 3. umr. í þessari hv. d. liggi fyrir brtt. við frv.