10.04.1978
Neðri deild: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

162. mál, kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni

Frsm. minni hl. (Gunnlaugur Finnsson) :

Hæstv. forseti. Eins og fram hefur komið hjá hv. frsm. meiri hl. varð ekki algjör samstaða í n. um það, hvernig með málið skyldi farið. Þó má vissulega segja, að á margan hátt eru mín sjónarmið þau sömu og meiri hl., en ég tel hins vegar að málið sé þannig vaxið og þessi mál hafi þróast þannig á undanförnum árum, að ástæða sé til þess að staldra dálítið við, ekki síst með tilliti til þess, að ýmsum félagslegum forsendum er á annan veg farið í þessu efni en verið hefur þegar hreppum hafa á undanförnum árum verið veitt kaupstaðarréttindi.

Það er rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að það bárust tvær umsagnir. Samband sveitarfélaga á Suðurlandi tók ekki afstöðu til málsins, en sýslunefnd Árnessýslu lagði fram mjög gagngerar breytingar, þ. e. a. s. nánast breytingar í formi nýs frv. Sýslunefndin fjallaði um þetta ítarlega, hélt tvo aukafundi um málið og skilaði síðan áliti í formi raunar nýs frv. Ég treysti mér ekki til þess að svo komnu máli að gera þetta frv. að mínum tillögum. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því í 2. gr. frv., að Selfoss og Árnessýsla skuli vera eitt lögsagnarumdæmi. Ég leitaði mér upplýsinga um hvernig á þetta yrði lítið. Þær upplýsingar, sem bárust, voru á þann veg, að það orkar tvímælis hvort annað stenst að óbreyttum lögum en að hver kaupstaður verði sjálfstætt lögsagnarumdæmi. Ég segi að það orki tvímælis, vegna þess að ekkert liggur fyrir um það út af fyrir sig, að slíkt fyrirkomulag brjóti nein lög.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, búum við við tvenns konar sveitarfélög í landinu. Ekki er til nein heildarlöggjöf fyrir kaupstaði, en það hefur verið tekið fram í öllum lögum þegar sveitarfélög hafa fengið kaupstaðarréttindi, að þau skuli vera sjálfstæð lögsagnarumdæmi. Þó er það svo, að í lögum mun ekki vera til nein skilgreining á því, hvað lögsagnarumdæmi er. Hinn almenni skilningur hefur verið sá, að lögsagnarumdæmi væri sýsla eða kaupstaður. Ef nánar er að hugað er ekki til skilgreining á þessu hugtaki, en ef reynt er að túlka þetta hugtak þröngt, þá er nánast eini staðurinn, sem mér er kunnugt um, þar sem hana er að finna í lögum um meðferð einkamála í héraði, þar sem talað er um að hvert sveitarfélag sé sérstök dómþinghá. Þannig mætti skilgreina það, að hvert sveitarfélag í landinu væri í þeim skilningi sjálfstætt lögsagnarumdæmi. Það er vissulega líka gert ráð fyrir því í þeim lögum, að hægt sé að leggja tvo hreppa saman í eina þinghá eða hrepp eða hluta úr hreppi að kaupstað sem eina dómþinghá. Alla vega virðist ekki að betur rannsökuðu máli hægt að fullyrða að tillögur sýslunefndar Árnessýslu gangi í berhögg við ríkjandi lög í landinu, en ég tel að þarna þyrfti betri skilgreiningar við.

Í öðru lagi — það olli því að ég treysti mér ekki til þess að standa að þessum brtt. — vil ég benda á að ef Selfosshreppur verður gerður að kaupstað heyra fjárreiður hans beint undir félmrn., en eigi að síður ætti kaupstaðurinn aðild að sýslusjóði Árnessýslu og sýslunefnd. Þá vaknar spurningin um fjármálatengslin og um lögsögu sýslunefndar, þar með talið fulltrúa kaupstaðarins, yfir fjárreiðum hreppanna í sýslunni. Ég tel að þessi hugmynd sé út af fyrir sig framkvæmanleg, en nánari útfærslu þyrfti á því, hvort hugsanlegur sýslunefndarmaður, kosinn af hálfu kaupstaðar, ætti þá að hafa sömu réttindi og aðrir sýslunefndarmenn til þess að úrskurða sveitarsjóðsreikninga hreppa. Þá væri eðlilegt, að hann hefði ekki atkvæðisrétt til þess, þó að hann hefði jafnan atkvæðisrétt að öðru leyti. Þess vegna tel ég að vert sé að íhuga þessa hugmynd betur.

Hvað frv. snertir eins og það liggur fyrir tel ég ekki tímabært að gera það að lögum eins og nú er komið. Ég skal þó viðurkenna, að miðað við þá þróun, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, þar sem fjöldi hreppa hefur hlotið kaupstaðarréttindi, má líta svo á, að fjölmennasti hreppur landsins, sem nú er Selfosshreppur, eigi á því nokkurn rétt að hljóta kaupstaðarréttindi. Ég tel þó, eins og ég sagði áðan, að sú þróun, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, sé mjög varhugaverð. Hún hefur í raun brotið niður það stjórnsýslukerfi sem við höfum búið við í þessum efnum í rúm 100 ár, þar sem ýmsar sýslur sem félagslegar einingar hafa orðið allt of litlar til þess að gegna því hlutverki sem þeim í raun og veru ber að gegna eða bæri að gegna sem stjórnsýslueiningu. Ég tel að ef óhindrað yrði haldið áfram á þessari braut mundi þeim sýslum fjölga sem þannig yrði ástatt um. Þó geri ég mér grein fyrir því að Árnessýsla yrði eftir sem áður ein stærsta eða stærsta sýsla landsins og þess vegna ekki of lítil út frá því sjónarmiði. Hins vegar lít ég svo á, að félagslega séð gegni þarna töluvert öðru máli en varðandi veitingu annarra kaupstaðaréttinda. Ég bendi t. d. á veitingu kaupstaðarréttinda til Seltjarnarneshrepps, Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps eða Grindavíkurhrepps, sem allir eru kaupstaðir núna. Þessi sveitarfélög hafa ekki sama eða svipuðu hlutverki að gegna í félagslegu tilliti og Selfoss hefur gegnt í Árnessýslu.

Ekki er hægt að líta fram hjá því, að Selfosshreppur sem slíkur hefur dafnað sem sameiginlegur þjónustuhreppur fyrir alla aðra hreppi Árnessýslu. Sýslan sjálf hefur byggt upp þennan stað. Jafnframt má líta á það, að þrátt fyrir þessa breytingu flyst þangað engin ný þjónusta sem nú er ekki fyrir hendi. Ég tel að það orki nokkuð tvímælis, hvort ástæða sé til þess að rjúfa þessi tengsl með samþykkt frv. En ég tek undir það, sem hv. frsm. meiri hl. sagði áðan, að ef við gerðum tillögur sýslunefndar Árnessýslu að okkar till, þá gerðum við ráð fyrir því, að þar myndaðist sveitarfélag með þriðju réttarstöðuna. Ég tel það út af fyrir sig vera óæskilegt.

En ég lít líka svo á, að ekki verði undan því vikist lengur að taka þessi mál til rækilegrar og alvarlegrar athugunar. Í afstöðu minni felst ekki að ég vilji endilega bregða fæti fyrir að Selfosshreppur njóti sömu réttinda og sveitarfélög af sambærilegri stærð. Hins vegar mótast afstaða mín af því, að ég tel málið ekki vera svo aðkallandi að þörf sé á því að samþykkja það nú, gefist frestur til þess að athuga þessi mál í nokkru samhengi. Ég veit líka að komið hefur upp nokkur önnur staða heima fyrir en áður var, þegar hreppsnefnd eindregið óskaði eftir því að þetta frv. yrði flutt. Ýmsir aðilar í hreppsnefnd vilja gjarnan huga betur að þeim hugmyndum sem sýslunefndin hefur sett fram.

Mér bárust í morgun bréf frá varaoddvita og frá tveimur hreppsnefndarmönnum í Selfosshreppi. Lét ég ljósrita þau og óskaði eftir, að þeim yrði dreift til nm. í félmn., þannig að þeir hefðu þessar upplýsingar í höndum, þegar frv. kæmi til 2. umr. Bréfritarar vænta þess, eins og orðrétt segir í öðru bréfinu, með leyfi hæstv. forseta. „að frekari meðferð frv. til laga um kaupstaðarréttindi til handa Selfosskauptúni verði látin bíða uns hreppsnefndin hefur fjallað um tillögur sýslunefndar og tekið afstöðu til þeirra.“

Tveir hreppsnefndarmenn skrifa undir þetta, Brynleifur Steingrímsson varaoddviti og Eggert Jóhannesson, og þeir, ásamt þriðja hreppsnefndarmanninum, Hafsteini Þorvaldssyni, hafa óskað eftir því að fundur verði haldinn um þetta mál í hreppsnefnd Selfosshrepps. Það virðist því 1jóst, að hreppsnefndin sjálf, eða a. m. k. hluti hreppsnefndarinnar, vill athuga þetta svolítið betur í tengslum við þær umr. sem hafa átt sér stað á þessum tveimur sýslunefndarfundum. og leggur ekki áherslu á að málinu verði hraðað. Mér finnst satt að segja að hér sé um það litlar breytingar að ræða út af fyrir sig, miðað við þá þjónustu sem þarna er fyrir hendi og mun ekki breytast, eins og ég gat um að það verði ekki nein vá fyrir dyrum né vandræði hljótist af, þó að málinn verði vísað til ríkisstj., svo sem ég legg til, og til viðbótar komi: „enda stefni hún að því að leggja fyrir næsta Alþ. frv. til laga, þar sem gert verði ráð fyrir samræmdri réttarstöðu allra sveitarfélaga í landinu.“ Ég tel nefnilega, vegna stjórnsýsluháttanna, að okkur sé orðin brýn nauðsyn að fá kaupstaðina alls staðar um landið til þess að vera virka þátttakendur í héraðsmálunum heima fyrir, hvern á sínum stað. Það er fyrst og fremst þetta sem liggur að baki þeirri afstöðu sem ég hef tekið til málsins.

Ég vil svo beina því að lokum til hæstv. forseta, að ég hygg að æskilegt sé nú að verða við þeim óskum, sem hafa komið heiman úr héraði frá þessum aðilum úr hreppsnefnd Selfosshrepps, og við fáum að heyra, hvert verði álit hreppsnefndarinnar á afgreiðslu sýslunefndar, áður en málið verður afgreitt hjá okkur við þessa umr.