11.04.1978
Sameinað þing: 64. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

223. mál, útflutningur tilbúinna fiskrétta

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 429 fsp. til hæstv. sjútvrh., sem fjallar um útflutning tilbúinna fiskrétta. Fsp. er í fjórum liðum og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hefur verið athugað nýlega, hvort unnt er að framleiða tilbúna fiskrétti fyrir Bandaríkjamarkað í verksmiðjum hérlendis í stað þess að gera það vestanhafs? Ef svo er, hver er niðurstaðan?

2. Hve miklum gjaldeyri tapa Íslendingar á því, að þessi framleiðsla er ekki í landinu sjálfu?

3. Hve margt fólk starfar í fiskverksmiðjum, sem Íslendingar eiga erlendis?

4. Hverjar eru horfur í þessum málum á Evrópumarkaði?“

Ég vil til skýringar þessum fsp. minna á það, sem þingheimi er kunnugt, að Íslendingar eiga í Bandaríkjunum tvö blómleg fyrirtæki, sem reka þar verksmiðjur og framleiða tilbúna fiskrétti úr frystum fiski sem fluttur er héðan frá landi. Þegar þessum fyrirtækjum var komið upp voru gefnar á því ýmsar sennilegar og vafalaust réttar skýringar, þ. á m. hin mikla fjarlægð, sem um er að ræða, og vankantar á að flytja tilbúna frysta fiskrétti svo langa leið, í öðru lagi ýmsar tolla- og viðskiptaaðstæður, sem gerðu það óhjákvæmilegt, að verksmiðjurnar, sem ynnu hina endanlegu söluvöru, yrðu staðsettar í Bandaríkjunum á markaðnum sjálfum, en ekki hér á landi.

Nú eru liðin ærið mörg ár síðan, þessi fyrirtæki hafa blómgast og stækkað, og enginn vafi er á því, að þau hafa gert feiknamikið gagn við að koma íslenskum fiskafurðum á markað fyrir hátt og hagstætt verð. Þrátt fyrir þetta finnst mér að við þurfum að endurtaka öðru hverju spurninguna um það, hvort ástæður til þess, að þessar verksmiðjur eru staðsettar í Bandaríkjunum, en ekki hér á Íslandi, séu óbreyttar. Hefur tæknin ekki haft áhrif á þessi mál? Hefur hún haft svo mikil áhrif, að hún standi ekki í vegi fyrir því, að við gætum flutt tilbúna fiskrétti héðan og vestur um haf? M. ö. o. verðum við, þrátt fyrir það hve blómleg þessi fyrirtæki eru og að mörgu leyti ánægjulegt að eiga þau, stöðugt að vera á verði, stöðugt að halda uppi árvekni um það, hvort unnt sé að halda uppi þessari starfsemi á Íslandi. Á ég þá í sjálfu sér ekki við að leggja eigi verksmiðjurnar niður, a. m. k. ekki fyrst um sinn, heldur að áframhaldandi uppbygging gæti orðið hér á landi, en ekki vestra.

Spurning númer tvö hljóðar svo: „Hve miklum gjaldeyri tapa Íslendingar á því, að þessi framleiðsla er ekki í landinu sjálfu?“ Ég skal játa, og vænti að hæstv. ráðh. hafi séð það í hendi sinni, að þessi spurning er dálítið klaufalega orðuð. Þegar á málið er litið í heild höfum við að sjálfsögðu haft gífurlegan hagnað af því að koma upp þessu markaðskerfi. En það, sem fyrir mér vakti þegar ég samdi þessa spurningu, var miðað við þær aðstæður að verksmiðjurnar hefðu getað verið hér á Íslandi. Nú kann að vera að sú viðmiðun hafi ekki verið raunhæf. En meginefni fsp. er að fá enn endurskoðaða þá spurningu, hvort þessar aðstæður séu raunhæfar eða ekki.

Þriðja og fjórða spurning skýra sig sjálfar: Hve margt fólk starfar í þessum verksmiðjum, sem Íslendingar eiga erlendis, og hverjar horfur eru í þessum málum á Evrópumarkaði? Nú má búast við, að aðstæður þar muni kalla á meira af tilbúnum frystum fiskréttum. Kemur þá til álita, hvort við getum komist inn á þann markað, hvort við neyðumst til að fara sömu leið og í Bandaríkjunum að byggja verksmiðjur t. d. í Hollandi, eins og einu sinni var áætlað, eða hvort við getum ekki varðandi Evrópu, sem er töluvert nær okkur en Norður-Ameríka, byggt upp slíkan markað á þann hátt, að verksmiðjurnar, sem framleiða hina endanlegu neytendavöru, verði hér á landi.