11.04.1978
Sameinað þing: 64. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3274 í B-deild Alþingistíðinda. (2451)

349. mál, votheysverkun

Fyrirspyrjandi (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans en mér þykir rétt að fara nokkrum orðum um þau.

Ég er ekki nægilega ánægður með þau viðbrögð, sem hafa orðið í þessu máli frá því að Alþ. lýsti vilja sínum um þessi efni.

Hæstv. ráðh. fór út í hina einstöku töluliði þáltill. Í 1. tölul. er talað um að kynna bændum reynslu þeirra sem um árabil hafa byggt heyöflun sína að öllu eða mestu leyti á votheysverkun. Ég heyrði ekki að ráðh. gæti neitt um það, að gerðar hefðu veríð beinar ráðstafanir til þess að kynna íslenskum bændum reynslu þeirra sem mest hafa búið við votheysverkunina. Það hefði mátt hugsa sér að það hefði verið gert með því að halda t. d. námskeið eða senda menn um landið gagngert í þessu skyni. Auðvitað geri ég mér ljóst að unnið er merkilegt starf í þessu efni eins og öðrum á vegum Búnaðarfélags Íslands, en þessi þáltill. er samþykkt til þess að hnykkja á í þessum efnum, en láta ekki sitja í sama farinu.

Hæstv. ráðh. vék svo að 2. lið þáltill., varðandi hærri stofnlán til byggingar votheyshlaðna en þurrheyshlaðna. Með þessu er lögð áhersla á að breyta um útlánastefnu í þessum efnum frá því sem verið hefur, þ. e. a. s. að láta votheysgerðina hafa forgang.

Það sama er að segja um 3. liðinn, sem er um að breyta þurrheyshlöðum í votheyshlöður. Hæstv. ráðh. gat um ýmsa meinbugi á þessu. Svo er vafalaust ekki í öllum tilfellum, enda lá það ekki í orðum ráðh. En auðvitað verður að meta hverju sinni, hvað hagkvæmt er að gera í þessu. Aðalatriðið er þó, að í þessari þáltill. Alþ. er mótuð sú stefna að leggja áherslu á votheysgerðina.

Það er góðra gjalda vert, eins og ráðh. greindi frá, að unnið sé að rannsóknum á mismunandi heyverkunaraðferðum. Það verður lengst af, ef ekki alltaf, unnið að slíku í stofnunum landbúnaðarins. En þáltill., sem hér um ræðir, byggist á þeirri forsendu, að ekki þurfi að biða eftir neinum rannsóknum í þessu efni til þess að hefja aðgerðir, sem breyta stefnunni, vegna þess að það er lítið svo á að votheysgerðin hafi sannað ágæti sitt. Menn verða að hafa í huga, að með votheysverkun fá bændur öryggi svo sem frekast er unnt gegn duttlungum tíðarfarsins. Votheysverkun tryggir fóðuröflun í óþurrkatíð. Með votheysverkun afstýra bændur áföllum og fjárhagstjóni sem þeir verða fyrir í óþurrkasumrum sem ekki hagnýta þessa aðferð.

En votheysverkun er ekkert neyðarúrræði til að mæta óþurrkum, þvert á móti. Auk öryggisins, sem þessi heyverkun veitir um fóðuröflun, fylgja aðrir hinir mikilvægustu kostir. Votheysverkun tryggir fóðurgildi heyfengsins hvað sem liður tíðarfarinu. Votheysverkun krefst miklu minni vélakosts en þurrheysverkun og votheysverkun krefst minni vinnu.

Það er á grundvelli þessara staðreynda, sem í ljós hafa komið hjá þeim sem hafa beitt þessari heyverkunaraðferð og búið við hana, sem tímabært er að breyta um stefnu í þessum málum, ekki einungis að samþykkja ályktun um það á hv. Alþ., heldur að breyta um stefnu í verki.