11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir skýrslu þá sem hann hefur gefið þinginu um utanríkismál. Ég tek af heilum hug undir orð síðasta ræðumanns, er hann lýsti þeirri von sinni, að þessi skýrslugerð væri nú orðin að hefð og hvað það snerti verði ekki aftur snúið.

Mér virtist strax við lestur þessarar skýrslu að hún væri að mörgu leyti ein heilsteyptasta skýrslan sem hæstv. ráðh. hefur gefið þau mörgu ár sem hann hefur nú verið í embætti. Má raunar vera að mér hafi fundist svo vegna þess, að það er færra sem ég hef við hann að deila nú en stundum á undanförnum árum. Þó vil ég geta þess í upphafi, að það kjörtímabil, sem nú er að líða, hefur verið miklu meiri festa í stjórn utanríkismála Íslendinga en var í tíð vinstri stjórnarinnar á undan, þegar staða þjóðarinnar var óneitanlega veik, mun veikari en hún þurfti að vera, vegna óvissu og átaka innan þeirrar ríkisstj.

Ég mun nú fara örfáum orðum um einstök atriði úr skýrslunni, en engan veginn leitast við að fjalla um alla kafla hennar, enda eru fjölmargir þeirra þess eðlis, að þeir gefa ekki ýkjamikið tilefni til langrar umr. þótt í þeim séu fróðlegar upplýsingar. — Það er raunar frekar í þessari skýrslu en flestum hinum fyrri, að þar sé að finna ýmsar fréttir, fyrir leikmenn, og tel ég það mjög til bóta.

Mér finnst það í fyrsta lagi eðlilegt, að hæstv. ráðh. nefni landhelgismálið á undan öðrum utanríkismálum. Það er fullkomin ástæða til þess að hann láti í ljós ánægju yfir þróun þess. Ég tek undir þau orð hans, að þjóðin getur öll glaðst, og ég er sammála þeirri lýsingu hans, að árangurinn hafi, þegar á allt er lítið, fyrst og fremst náðst vegna þess að í landinu ríkti alla tíð efnisleg samstaða, að heita má, þótt deilt væri um leiðir. Það var að sjálfsögðu hlutverk stjórnarandstöðu í þessu máli að reyna að draga eftir megni úr samningsgerð við aðrar þjóðir á þessu þróunarskeiði og reyna að takmarka það, að veiðihlunnindi væru veitt á því tímabili sem á fyrri stigum landhelgismálsins var kallað „umþóttunartímabil“ fyrir þá sem hér höfðu áður stundað veiðar. Lokastefnan varð auðvitað sú, að allir voru sammála um að fara nálega algerlega inn á þá stefnu að hætta samningsgerð og veita öðrum fiskveiðiþjóðum eins litlar veiðiheimildir og nú er komið.

Þá vík ég að kafla þeim sem fjallar um afvopnunarmál. Finnst mér ánægjulegt, að hæstv. ráðh. hefur jákvæð viðhorf til þeirra í heild og að hann skuli veita þeim þann sess sem þau skipa í skýrslunni. Þó sakna ég þess í kaflanum, að hæstv. ráðh. skyldi ekki nefna á nafn nevtrónusprengjuna, sem mjög er nú til umr. í fréttum. Tel ég að eðlilegt hefði verið, að í þessari skýrslu hefði komið fram yfirlýsing um að Íslendingar hefðu ekki í hyggju að leyfa staðsetningu á slíkum sprengjum hér, en ég hygg að tvær Atlantshafsbandalagsþjóðir hafi þegar gefið slíka yfirlýsingu. Þó vil ég vona að um þessa sprengju, jafnsérstæð og hryllileg og hún raunverulega er, gildi það sem hefur verið ríkjandi stefna í íslenskum utanríkismálum síðan við gengum í Atlantshafsbandalagið, að hvorki hún né önnur kjarnorkuvopn séu hér né megi hér vera með okkar leyfi.

Að vísu er rétt að gera sér grein fyrir því, að deilur þær, sem nú standa um nevtrónusprengjuna og hugsanlega framleiðslu hennar, bera vott um að jafnvægi gereyðingarvopnanna, sem hefur verið undirstaða friðar, a. m. k. á Evrópu- og Norður-Ameríkusvæðinu síðustu áratugi, er engan veginn traust. Sýnist lítill vafi á því, að fréttirnar af þessari sprengju og umtalið um hana séu amerískur leikur gegn ótta við það, að Sovétríkin hafi farið fram úr Bandaríkjamönnum í framleiðslu gereyðingarvopna. Ég nefni þetta aðeins sem einn vott þess, að varhugavert er að draga ályktanir eins og þær, að nú sé svo öruggt friðarástand að við getum hegðað okkur eftir því. Það er sorglegt, hversu hægt afvopnunarmálunum hefur miðað áfram, og það er sorglegt, hversu hægt þróunin til jákvæðari sambúðar austurs og vesturs hefur gengið undanfarin ár.

Hæstv. ráðh. minnti á að nú væru komin í samtök Sameinuðu þjóðanna 10 ríki, sem hefðu færri íbúa en við, og önnur 5, sem hefðu litlu fleiri. Þar eru því 15 eða 16 ríki, sem oft eru kölluð „mini-ríki“, örsmá ríki. Við skulum gera okkur það ljóst að margir líta á þetta sem mjög óeðlilegt fyrirbrigði, vegna þess að þessi örsmáu ríki hafa jafnmikinn atkvæðastyrk á Allsherjarþinginu og stórveldin og t. d. hið fjölmenna Kínaveldi. Það spretta alltaf öðru hverju upp umr. um það, hvort þetta eigi svo að vera, og það er hollt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því, hvað menn hugsa í þeim málum. Nú hefur það að vísu heyrst viðurkennt í erlendum skrifum um þessi mál, að Ísland væri dæmi um smáþjóð sem hefði staðið sig vel sem þátttakandi í Sameinuðu þjóðunum og sinnt þátttöku sinni á viðunandi hátt. Þeir, sem betur þekkja til, kunna e. t. v. að draga þetta í efa. En að svo miklu leyti sem það er rétt, er það að minni hyggju eingöngu að þakka samstöðu Norðurlandaríkjanna. Þau koma fram sem einn aðili innan Sameinuðu þjóðanna og hafa mjög náið samstarf í daglegri vinnu. Íslenska sendinefndin, jafnvel þó að í henni séu 10–12 manns á Allsherjarþingi, getur varla sótt alla fundi sem standa yfir samtímis, og það er gott að eiga hina norrænu vini, sem jafnan geta látið okkur vita hvað er að gerast og varað okkur við ef til atkvgr. á að koma einhvers staðar þar sem við vildum láta í okkur heyra,

Hæstv. ráðh. skýrði frá málefnum sunnanverðrar Afríku, sem ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af. Það kemur fram í skýrslunni, að hann og félagar hans, utanrrh. hinna Norðurlandanna, hafa á hinum tíðu fundum sínum fjallað um þessi mál. Á bls. 8 í skýrslunni er 2. liður upptalningar um það sem Norðurlöndin ætla í samræmi við stefnu sína að beita sér fyrir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þessi 2. liður er um það, að Norðurlöndin ætli að stuðla að tillöguflutningi í öryggisráðinu, sem leitt geti til bindandi samþykkta gegn viðskiptum við Suður-Afríku. En á sama tíma og hæstv. utanrrh. okkar tekur væntanlega einlægan þátt í þessari norrænu stefnumótun hafa viðskipti okkar við Suður-Afríku farið ört vaxandi. Samkvæmt Hagtíðindum keyptum við frá Suður-Afríku á s. l. ári fyrir 263.5 millj. kr., sem er helmingi meira í krónum talið en útflutningur þangað. Ég hygg að aðallega sé um að ræða kaup á ávöxtum og hin frjálsa verslun sé að verki, þó að það virðist vera næsta furðulegt, að við skulum kaupa svo mikið af ávöxtum af Apartheld-kúgurum í Suður-Afríku, á sama tíma sem við erum að velta fyrir okkur hvað í ósköpunum við getum keypt til viðbótar af Spáni og og Portúgal til að tryggja saltfisksmarkaðinn. Ég bendi á þessa þróun. Mér er fullkomlega ljóst, að enn þá eru ekki í gildi neinar bindandi samþykktir, sem ná til almennra viðskipta, þó að slíkar samþykktir séu þegar fyrir hendi varðandi vopnasölu og jafnvel fjárfestingu. En þar sem stefnan hefur verið mótuð í þessum 2. lið og lýst, hverju Norðurlöndin ætla að vinna að, held ég að þrátt fyrir allt viðskiptafrelsi og alla okkar samninga um að skipta okkur ekki um of af innflutningi og útflutningi, ættum við að reyna að breyta þessu og beina þessum viðskiptum til annarra ávaxtaframleiðenda, sem við höfum hag af að auka skipti okkar við.

Það er enn fremur mjög jákvætt, hversu hæstv. ráðh. eyðir miklu máli í kaflann um mannréttindamál. Hann sýnir þar áhuga, og það er vel að við reynum að efla þau mál sem allra mest á alþjóðlegum vettvangi og mætti gjarnan tengja það við Suður-Afríku og að kaup okkar á vörum frá því landi hafa farið ört vaxandi, þó að e. t. v. kunni einhverjir að segja að fjórðungur úr milljarði sé ekki mikið fé í alþjóðaviðskiptum nú á dögum.

Hafréttarráðstefnan er enn á dagskrá og virðist því miður ganga hægt að ljúka henni. Við verðum að vona að það muni þó takast áður en stórveldin missa þolinmæðina og nota tækni og fjármagn til að hefja vinnslu á auðæfum hafsins, sem mest hefur verið deilt um nú á síðustu fundum. Það var skemmtilegur viðburður fyrir okkur Íslendinga, þegar aðalfulltrúi okkar, Hans G. Andersen, gat minnst þess á fundi þar að 30 ár væru liðin síðan við settum landgrunnslögin, sem barátta okkar í landhelgismálum hefur að miklu leyti byggst á alla tíð síðan, enda þótt við séum nú í síðustu útfærslu komnir út fyrir landgrunnið á ýmsum stöðum.

Kaflinn um Háskóla Sameinuðu þjóðanna er að ýmsu leyti athyglisverður, en við skulum gera okkur grein fyrir því, að hann sýnir okkur að við fáum ekkert ókeypis. Ef við höldum fram hugmyndum um að æskilegt væri að fá hingað svo sem eina deild úr þessum háskóla, þá er eins gott að vera við því búinn að við verðum látnir borga meginhlutann af kostnaðinum. Raunin ætlar að verða sú. En ég tel að þrátt fyrir það sé rétt að halda áfram þessari viðleitni og reyna að draga hingað með þessari deild, ef við fáum hana, eitthvað af þekkingu annarra varðandi jarðhita, því að við höfum frétt af því nú undanfarið, að þurft hafi að senda borunarmenn okkar kringum hálfa jörðina til þess að reyna að átta sig á verkefnunum — og hver veit nema einhvers staðar í húsakynnum Kröfluvirkjunar sé hægt að koma fyrir ágætri deild um þessi mál.

En önnur þróunaraðstoð hefur á síðustu 2–3 árum fallið í skaplegri farveg en hún áður gerði, sérstaklega við það að við hættum að þiggja slíka aðstoð sjálfir. Mér líst mjög vel á það sem gerst hefur í samskiptum okkar við Kenýa og Cap Verdeeyjar. Ég hef alltaf haldið að við myndum geta gert mest gagn með því að senda duglega sjómenn og láta þá kenna öðrum, því að menn geta gefið soltnum manni fisk og mettað hann til eins dags, en við getum kennt honum að fiska og þar með að sjá sér farborða alla ævi.

Andstætt þeim köflum, sem ég hef nú rætt, er kaflinn um varnarliðið og öryggismál okkar Íslendinga mjög stuttur, þó að hann sé kjarnyrtur og nefni meginatriðin í framkvæmd þess samkomulags sem hæstv. ráðh. gerði grein fyrir. Ég vil leggja áherslu á að þarna er mörg vandamál við að etja, mörg fleiri en grundvallaratriðin sem hv. síðasti ræðumaður fjallaði um. Mér finnst ganga allt of hægt að komast að niðurstöðu um þau mál, hvernig unnt verður á skaplegum tíma að skilja að athafnasvæði varnarliðsins og hinna alþjóðlegu flugstöð. Það er að verða erfiðara með hverju ári sem liður að þola þetta samkrull, eins og það er nú þarna suður frá. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, að það er versnandi sambúð við Keflavíkurflugvöll, það er meira umtal og fullyrðingar um spillingu og smygl og annað slíkt nú en ég hef heyrt um langt árabil. Kann að vera að ástæðan fyrir þessu sé að einhverju leyti sú, að atvinnuástand á Suðurnesjum er mjög slæmt og við slíkar aðstæður gerist fólk öllu gagnrýnna en það er þegar betur árar. Engu að síður er augljóst að hafa þarf vakandi auga með framkvæmd á svo til hverjum lið varnarsáttmálans, og ég vil taka undir það, sem hér kom fram, að kominn er tími til að endurskoða algjörlega frá grunni verktakasviðið allt saman.

Það kom ekki til af góðu, sem hér var nefnt, að á fyrstu árunum eftir stríðið var lægst tala íslenskra starfsmanna á vellinum. Það var vegna þess að þá voru þar erlendir verktakar sem fluttu inn verkafólk, og sambúðin við það fólk var einhver hins versta sem við höfum átt við að stríða. Þess vegna var farið inn á þá braut að reyna að koma framkvæmdunum á íslenskar hendur, en þá var ekki unnt að gera það, nema með því að mynda allstóra samsteypu. Nú eru mörg ár liðin og ég hygg að íslenskt atvinnulíf geti boðið miklu fleiri kosti og ráðið miklu betur við þau verkefni, sem þarna eru, en áður var og ástæðulaust sé að halda áfram því einokunarástandi sem þarna er. Það verður að íhuga og endurskoða stöðu varnarliðsins, þýðingu þess, frá ári til árs og gera sér grein fyrir því. Það verður líka að endurskoða stöðugt og fylgjast vandlega með því, hvernig framkvæmd á varnarsamningnum, meðan hann er í gildi og þarf að vera, farnast.

Að lokum vil ég koma að síðasta kafla skýrslunnar, sem er að vanda um utanríkisþjónustuna sjálfa. Ég vil láta í ljós viðurkenningu á því, hversu vel hefur til tekist að halda kostnaði í hófi og hversu vel hefur tekist að leysa verkefni utanríkisþjónustunnar með 39 manna starfsliði, sem hefur verið óbreytt um langt árabil. Að vísu verður að standa á hemlum hvað snertir kostnað í utanríkisþjónustu, eins og í allri yfirbyggingu á svona litlu þjóðfélagi sem lýðveldi okkar er. En það verður að vega og meta hverju sinni, hvað nauðsynlegt er að gera. Við þurfum að sjálfsögðu að gæta okkar ef talað er um að setja upp nýtt sendiráð, vegna þess að það er ekki kostnaður einu sinni, heldur væntanlega til frambúðar. En við þurfum að íhuga af raunsæi önnur vandamál, sem koma upp, t. d. það sem hæstv. ráðh. nefndi: Eigum við að taka sæti í öryggisráðinu eða ekki? — Það er ljóst, að við verðum í fyrsta lagi að hafa mjög hæfa menn til þess að geta gert það. Ég dreg ekki í efa, að við eigum þá menn til. Í öðru lagi verðum við að gera okkur það ljóst, að þessu fylgir töluvert mikill kostnaður, því sá maður, sem situr í öryggisráðinu, jafnvel þó það kæmi ekki fyrir að hann fengi að vera þar í forsæti, sem getur þó alltaf gerst, þarf jafnvel að hafa frá okkar eigin sendiráði einn eða tvo starfsmenn með sér, en þeir gera ekki mikið annað á meðan. Þetta mundi verða hrein viðbót, og auðvitað er það ástæðan fyrir því, að við höfum hliðrað okkur hjá þessu verkefni og ýmsum sem segja má að séu sambærileg. En af því að hæstv. ráðh. talaði um landkynningu, sem vissulega er nauðsynleg og þarf að sinna, þá er rétt að gera sér grein fyrir því, að sæti í öryggisráðinu — ég tala nú ekki um forsæti ef það kæmi í okkar hlut einhvern tíma — getur orðið landkynning sem er svo stórbrotin að margra ára fjárveitingar til beinnar landkynningar komast þar hvergi nærri.

Mér er minnistætt þegar Danir sátu fyrir nokkrum árum í öryggisráðinu og Hans Tabor, sem síðar varð utanrrh. og mun nú vera sendiherra, var fulltrúi þeirra. Hann var svo heppinn, ef svo má komast að orði, að vera í forsæti þegar einhver alþjóðleg deila, sem ég man ekki í svipinn hver var, barst til öryggisráðsins og þótti svo fréttnæm, að sjónvarpsvélarnar voru þar inni dag eftir dag. Maðurinn varð þekktur og land hans víða um heim fyrir þetta eitt. Ég held að við eigum að meta þessa hluti. Við eigum ekki að rjúka í öll verkefni, en gera okkur grein fyrir, hver þeirra eru líklegri en önnur til þess að verða okkur að gagni, bæði til að þroska sjálfa okkur og okkar eigin menn og einnig til þess að sýna að við séum menn til þess að standa fyrir okkar þætti í alþjóðlegum viðskiptum.

Ég mun nú ekki hafa þessi orð fleiri, en vil ítreka það, að ég þakka hæstv. ráðh. skýrsluna og það, að hún skuli bera vott um meiri festu í utanríkismálum en við höfum átt að fagna fyrr á þessum áratug allt fram undir þetta kjörtímabil.