11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3312 í B-deild Alþingistíðinda. (2462)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir þessa skýrslu, sem í ýmsum greinum er ítarleg, vil ég gjarnan bera fram eitt málefni sem mætti e. t. v. teljast umkvörtun, en það varðar samstarf okkar við hin Norðurlöndin. Í skýrslu þessari er vikið allnákvæmlega að samstarfi Norðurlanda að því er varðar áhrif þeirra til hjálpar ýmsum fjarlægum þjóðum eða þá á hvern hátt Norðurlönd vilja sameinast um ýmsar aðgerðir sem hafa eiga áhrif á málefni fjarlægra þjóða. Ég get ekki látið hjá líða að benda á, að mér þykir ekki á fullnægjandi hátt fjallað um íslensk utanríkismál í skýrslu utanrrh. okkar nema einnig sé að því vikið, á hvern hátt Norðurlönd vinna að því að bæta eigin málefni sameiginlega og gagnkvæmt. M. ö. o.: það, sem virðist skorta í þessa annars ágætu skýrslu, er að menn líti sér e. t. v. nær.

Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því í framsöguræðu sinni, að ástæðan til þess, að ekki væri í þessari skýrslu fjallað sérstaklega um Norðurlandaráð eða þess málefni, væri að búast mætti við skýrslu frá þn., sem í Norðurlandaráði starfar, eða Íslandsdeild Norðurlandaráðs. Slík skýrsla var gefin í fyrra. En það breytir hins vegar ekki þeim hluta málsins sem ríkisstj. varðar. Það fer fram margháttað samstarf á ráðherragrundvelli milli Norðurlanda. Frumkvæði ráðh. í störfum Norðurlandaráðs fer vaxandi og fyllsta ástæða er til þess, að fyrir því sé gerð grein á Alþ., eins og gert er í þjóðþingum hinna Norðurlandanna. Á ári hverju er af hálfu ráðh. lögð fyrir norska Stórþingið mjög ítarleg skýrsla um norrænt samstarf. Henni fylgir miklu styttri skýrsla Noregsdeildar Norðurlandaráðs og auk þess grg. um helstu stofnanir á sviði norrænnar samvinnu. Ég held að mjög æskilegt væri, að við tækjum upp síð þessum líkan, því að það er að sjálfsögðu svo bæði með starf Alþ. eða hlutdeild þess í starfinu innan Norðurlandaráðs og starf þm: í ýmsum öðrum samtökum þm., að alþm. eiga á því fyllsta rétt að fá að fylgjast með því, hvað í þessum samkundum fer fram og einnig hvað fer fram á ráðherrafundum sem starfa í sambandi við þessar alþjóðlegu samkundur. Hér er fjallað allítarlega um Evrópuráðið og ráðherrafundi þess, en að því er Norðurlönd varðar einungis um utanrrh.-fundi.

Ég óttast að skortur á upplýsingum um það, sem fram fer í samstarfi Norðurlandanna, geti smátt og smátt orðið til þess, að menn geri sér minni grein fyrir því en vert væri, hvaða þýðingu þetta samstarf hefur fyrir Ísland. Á hverju einasta ári er afgreiddur fjöldi mála og undirbúinn fjöldi mála sem hefur mikla þýðingu fyrir hversdagslegt líf og starf þessara þjóða allra. Ef ég aðeins vík að stærstu málunum, sem unnið var að á sviði ráðh. á síðasta ári, þá var þar um að ræða verulega mikilvæg stefnumál á nokkrum sviðum. Þeirri starfsaðferð hefur verið beitt æ meir á undanförnum árum og slíkar stórar stefnuyfirlýsingar voru samþykktar bæði í Helsingfors 1977 og nú í Osló á þessu ári. Í Helsingfors voru samþykktar stefnuyfirlýsingar á sviði byggingarmála, á heilbrigðis- og félagsmálasviði og stefnumörkun var gerð um umhverfismál á vinnustað. Í því efni eru ýmis nýmæli sem menn eru að taka upp í löggjöf þessara landa. Það hefur aðeins verið lítils háttar fjallað um þetta enn þá hér á landi. Á Norðurlandaráðsþinginu í Osló var samþykkt stefnumörkun ráðherranefndar um samgöngumál, um umhverfismál og jafnrétti karla og kvenna. Þetta nefndi ég aðeins til þess að minna á það, á hversu mörgum sviðum unnið er. Það segir sig sjálft, ef skýrsla væri um þetta gefin, að þarna væri af mjög mörgu að taka og margar hugmyndir sem nýtilegar væru á þingi okkar. Ég mun hins vegar ekki fara nákvæmlega út í þessi mál, því að ég geri ráð fyrir að formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, sem er hv. 4. þm. Reykn., Jón Skaftason, gefi þinginu skýrslu um starf Norðurlandaráðs síðasta ár, en hv. 4. þm. Reykn. er einmitt nú í dag erlendis á fundi í forsætisnefnd Norðurlandaráðs og getur þess vegna ekki tekið þátt í þessari umr.

Ef ég mætti nefna eitt málefni, sem mér virðist að gæti orðið til þess að auka mjög og bæta samstarf okkar við hinar Norðurlandaþjóðirnar, þá er það fréttaþjónustan. Ég tel og ég veit, að flestir hv. þm. eru sammála um að verulega þýðingu hefur fyrir Íslendinga að halda áfram að styrkja þann þátt í stjórnmálum okkar og menningu okkar sem er norrænn. Aðstaðan til þessa er e. t. v. ekki að öllu leyti eins góð og vera þyrfti. Ef litið er til þess, að nú um nokkurra ára skeið hefur Ísland ekki haft beint samband við neina norræna fréttastofu, þá sést að þarna er um töluvert takmarkaðar leiðir að ræða til þess að sýna okkur Íslendingum í fjölmiðlum okkar hvað er að gerast í heiminum í kringum okkur. Ég vanmet vissulega ekki það samband sem við höfum við fréttastofur hins engilsaxneska heims, en vissulega eru einnig á Norðurlöndum stórar og miklar fréttastofur, sem ég tel í raun og veru alveg fráleitt að við skulum ekki hafa beint samband við. Þarna er að vísu um nokkurt kostnaðaratriði að ræða, en ég held hins vegar að þetta atriði sé svo mikilvægt, að þarna sé vissulega ástæða til að reyna að leysa vandann og það jafnvel á grundvelli utanrrn. Leysa þarf þetta mál til þess að upplýsa betur almenning á Íslandi og létta undir með íslenskum fjölmiðlum með því að norrænir utanrrh. legðu þessu máli sitt lið.

Herra forseti. Erindi mitt í ræðustól var einungis að hreyfa við þessum eina þætti máls í þessari viðamiklu skýrslu. Hún fjallar um margvísleg málefni. Ég vildi aðeins leggja á það áherslu, eins og ég hef raunar áður gert, að samstarfi Norðurlanda verði gerð ítarlegri skil í skýrslu utanrrh. Óneitanlega er þarna um að ræða eitthvert mikilvægasta svið í íslenskum utanríkismálum og svo hefur verið um langt skeið. Í þessum efnum höfum við tekið mikinn þátt, og það skýtur nokkuð skökku við og lítur næstum því einkennilega út, að ekki sé á slíkt minnst í svo viðamikilli skýrslu.

Áður en ég hverf úr ræðustóli, herra forseti, get ég ekki látið hjá líða að víkja örfáum orðum að þeim aths., sem hv. 3. þm. Reykn., sem nú situr í forsetastóli, lét falla hér í sinni ræðu, er hann fjallaði um utanríkismál og Sjálfstfl. Hv. 3. þm. Reykn. gerði mikið úr því, að mismunandi skoðanir væru uppi í Sjálfstfl. að því er varðaði framkvæmd varnarmálanna. Hv. þm. taldi að þessar skoðanir byggðust á því, að sjálfstæðismenn hefðu í grundvallaratriðum mismunandi afstöðu til mikilvægis varnanna á Íslandi. Ég held að hv. þm. fari þarna villur vegar, því að það er löngu ljóst og margkomið fram opinberlega, að stefna Sjálfstfl. í utanríkismálum hefur í engu breyst. Hún er mörkuð af landsfundi Sjálfstfl., hún er staðfest af flokksráði Sjálfstfl., og grundvallaratriðið er þetta: Afstaða Sjálfstfl. til varna Íslands markast einungis af íslenskum öryggishagsmunum. Tilraunir fólks til þess að láta svo líta út, að þar séu aðrir hagsmunir í fyrirrúmi, eru á sandi reistar. Það er óskhyggja andstæðinga Sjálfstfl., að töluverður hluti sjálfstæðismanna sé nú í raun og veru búinn að tjá sig um það, að stefna Alþb., að mér skildist, gagnvart vörnum á Íslandi hafi verið sú rétta stefna, eins og hv. þm. ræddi um, menn gerðu lítið úr gildi varnarliðsins á Íslandi. Að því leyti virtist hv. 3. þm. Reykn. fagna því, sem kallað hefur verið „aronskusjónarmið“ í varnarmálum. Ég held þó, að þegar vel er að gáð sé niðurstaða hv. þm. ekki rétt. Margsinnis hefur verið sýnt fram á það, að niðurstaða skoðanakönnunar, sem framkvæmd var í sambandi við prófkjör sjálfstæðismanna hér í Reykjavík, gaf í raun og veru alls ekki upplýsingar um það, að stefna Sjálfstfl. í varnarmálum hefði breyst. Hún benti ekki heldur til þess, að nú vildi Sjálfstfl. taka gjald fyrir veru varnarliðs í landinu. Það var ljóst að hér var um að ræða málefni sem var á þann veg lagt fyrir, að svarið mátti túlka á margan veg og gaf því í raun og veru alls ekki heimild til þess að draga þá ályktun, að Sjálfstfl. setji í fyrirrúm aðra hagsmuni en alíslenska öryggishagsmuni og öryggishagsmuni eina, að því er varðar veru varnarliðs í landinu. Ég mun ekki ræða þessi mál frekar vítt og breitt. Mér fannst aðeins ástæða til að undirstrika þetta.

Að því er varðar fullyrðingu 3. þm. Reykn. um það, að skoðanaágreiningur væri innan hæstv. ríkisstj. um þetta efni, þá er það auðvitað ljóst og hefur komið fram hér á Alþ., að uppi eru skoðanir um að ýmislegt mætti endurskoða í framkvæmd varnanna hér á landi, en þær till., sem settar hafa verið fram af sjálfstæðismönnum á Alþ. um þetta efni, rúmast, að ég held, allar saman innan varnarsamningsins eins og hann er. Ég get ekki séð, að til þess að athuga þau atriði, sem aðrir sjálfstæðismenn hafa bent á hér á Alþ. í vetur, þurfi til að koma nein breyting á sjálfum varnarsamningnum. Á þetta vil ég benda til þess að undirstrika, að að þessu leyti til er stefna Sjálfstfl. á sviði varnarmála og öryggismála óbreytt, sem og aðalatriðið sem ég áður hafði nefnt. Stefna Sjálfstfl. í varnarmálum og öryggismálum markast af íslenskum öryggishagsmunum.