11.04.1978
Sameinað þing: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3325 í B-deild Alþingistíðinda. (2466)

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að halda langa ræðu til viðbótar þeirri skýrslu sem ég hef nú flutt samkv. hefð. Ég vil þó þakka þeim hv. þm., sem talað hafa, fyrir þátt þeirra í umr. Vissulega hefur ýmislegt komið fram sem ástæða væri kannske til að gera að umtalsefni, en ég mun þó reyna að stytta mái mitt mjög.

Ég held að það sé viðurkennd staðreynd, sem ekki verði út af breytt og ekki þurfi að lögfesta, að slík skýrsla um utanríkismál verði jafnan gefin á hv. Alþ. Auðvitað má endalaust finna að því, hvernig slík skýrsla er úr garði gerð, hvað í henni stendur og kannske hvað í henni stendur ekki. Ég hef fengið hér nokkrar ábendingar um það, hvað ætti að standa í næstu skýrslu. Mun ég koma því áleiðis til næsta ráðh., á sama hátt og ég hef fengið á undanförnum árum nokkrar ábendingar um það, hvað gott væri að hafa í þessari skýrslu, og tekið hefur verið inn í hana.

Ég held að tvö ár séu síðan fyrst var byrjað að fjalla um alþjóðlegt ástand í skýrslu sem þessari. Ég minnist þess ekki, að það hafi verið fyrr. Mér heyrist núna að það sé kannske það sem okkur er helst legið á hálsi fyrir, sem höfum samið þessa skýrslu, að þetta sé ekki nóg. En ég vil bara benda á að þetta er þó allmikið meira en áður tíðkaðist í sams konar skýrslum og vaxandi. Hefur þetta raunar verið viðurkennt hér og her að þakka.

Kannske er ekki ýkjaauðvelt að láta frá sér fara spádóma eða staðhæfingar um það, hvað sé að gerast í alþjóðamálum hjá hinum stóru þjóðum. Þetta er auðvitað meira og minna matsatriði, hvað maður heldur að sé í vændum, og mér dettur ekki í hug að halda því fram, að það, sem stendur í þessari skýrslu, og það, sem stóð í skýrslunni í fyrra, sé nákvæmlega það sem muni koma eða sýni sig að verði ofan á og niðurstaða sambúðar stórvelda og smærri ríkja þá líka. Það er t. d. áreiðanlega mjög forvitnilegt að bæta því við, hvað Kína er að hugsa, hvaða hlutverk það stórveldi kemur til með að hafa í framþróun alþjóðamála. En ég verð að játa að ég veit það ekki, og allar slíkar bollaleggingar mundu verða meira og minna út í hött. Á að trúa Bandaríkjamönnum, eða á að trúa Rússum? Eða hverjum á að trúa? Og hvað ætla Kínverjar sér að gera og hvernig ætla þeir að láta til sín taka í sambúð stórveldanna þegar þeim vex þannig fiskur um hrygg að þeir geta farið að láta verulega til sín taka? Ég spái því, að þá verði miklar breytingar í valdahlutföllum í veröldinni. En hvernig þær verða get ég ekki með nokkru lifandi móti giskað á.

Það er eins með svo margt, sem vafalaust mætti vera í þessari skýrslu, t. d. það sem síðasti hv. ræðumaður minntist á, um jafnréttismál karla og kvenna og ályktun fundar sem haldinn var í Mexíkó og konur áttu aðild að, þó ekki frá utanrrn. Ég hef talið að hér væri fyrst og fremst orðið um innanríkismál að ræða, hvernig framfylgt er þeim ályktunum sem vissir hópar í þjóðfélaginu gerast aðilar að. Það er ekki nema velkomið að afla upplýsinga um það, hvernig þessari ályktun hefur verið framfylgt, en ég tel ekki að þetta heyri lengur undir það rn. sem ég starfa í.

Þannig er um margt fleira, sem talað er um að ég hafi ekki minnst á, og það skal viðurkennt, að auðvitað vantar eitt og annað.

Ég minnist þess líka t. d., að ræða hv. 5. þm. Reykv. gekk öll út á það að kvarta undan því, að það væri enginn stafur um samstarf Norðurlandanna í þeirri skýrslu sem ég flutti í upphafi þessarar viðræðna, eða ákaflega lítið.

Nú er það svo í fyrsta lagi, að miklu meira um samstarf Norðurlandanna er í þeirri skýrslu, sem útbýtt var í sérstakri bók og samin var af sendinefnd okkar hjá Sameinuðu þjóðunum. Í öðru lagi er svo Norðurlandaráð, sem ég gerði grein fyrir í framsöguræðu minni að mundi vafalaust, eins og á s. l. ári, skila grg. um starfsemi sína. Svo er að lokum ekki síst samstarfsnefnd ráðh. starfandi, en ég á enga aðild að henni og enginn maður úr utanrrn. Ef það er ósk hv. 5. þm. Reykv. að fá skýrslu um hvað ráðherranefndin hafi afrekað á s. l. ári, þá eru hæg heimatökin að spyrja formann Sjálfstfl. að því, því að hann er í samstarfsnefnd ráðh. Ég mundi telja mig fara algerlega út fyrir minn verkahring, ef ég færi að gera grein fyrir þessu hvoru tveggja. Annað er á vegum Alþ., hitt er á vegum forsrn. og heyrir ekki að mínu mati undir það sem ég á að flytja hér.

Öðru máli gegnir að nokkru leyti um Evrópuráðið, vegna þess að samstarfsráðh. þar, ef svo má segja, er utanrrh. Þess vegna heyrir það raunar beint undir utanrrn., þó að alþm. taki þátt í starfi Evrópuþingsins.

Ég ætla ekki að eyða tíma ykkar í að vera að tala meira um það sem ekki stendur í skýrslunni, að undanskildu því, að í sambandi við hlutverk smáþjóða er það vafalaust mikið rétt, sem hv. þm. Svava Jakobsdóttir sagði, að sjálfsagt mætti hugsa sér að smáríki hefðu meiri áhrif í fleiri málum en t. d. landhelgismáli. Það má vel vera. En ég hef sagt áður og skal endurtaka það, að ég hef ekki trú á því, að það verði til framdráttar því að varnarbandalög verði lögð niður þó að Ísland segi sig úr NATO. Ég held að þar þurfi miklu meira til að koma. Ég hef áður reynt að leiða rök að því og mun ekki endurtaka þau, heldur vísa til þess sem ég hef sagt áður.

Það er auðvitað alveg rétt, að hringrás vígbúnaðarkapphlaupsins heldur áfram. Rússar hafa búið til öflugar sprengjur, sem heita — ef ég man rétt — SS-20. Ég held að þeir séu búnir að framleiða þær. Svar Bandaríkjamanna átti víst að vera að framleiða það sem nú er kallað nevtrónusprengja, sem þeir hafa þó hætt við. Hér var spurt: Hvar hefur svar Íslands við nevtrónusprengju komið fram? Það skal ég upplýsa. Svarið hefur verið birt. Það gerðist í Brüssel 9. des. 1977, þegar ég, sem þá var þar fulltrúi okkar, skýrði frá því, að Íslendingar mundu ekki sætta sig við að geymd yrði slík sprengja á Íslandi. Hitt mun vera rétt, að ég hef ekki komist nær því að segja að hvorki eigi að framleiða SS-20 sprengju né nevtrónusprengju en það sem stendur í þessari skýrslu og hv. þm. var svo vinsamlegur að lesa upp. Ég tel að það sé út af fyrir sig svar sem vel megi taka mark á.

Ég neita því algerlega. að ég hafi í starfi mínu fylgt stefnu Bandaríkjanna í einu og öllu, eins og hv. 3. þm. Reykn. sagði að gert væri. Ekki veit ég hvort ég átti það, en það var a. m. k. rækilega ítrekað í síðari ræðu að ég muni hafa átt það. Ég neita því alveg. Ég hef í starfi mínu hvorki lagt boð né bönn Bandaríkjamanna, hvorki í núv. stjórn né fyrrv., til grundvallar þeirri afstöðu sem Íslendingar hafa tekið á erlendum vettvangi. Ef við hefðum gert það, þá hefðum við aldrei þorað t. d. að berjast fyrir 200 mílna fiskveiðilögsögu, aldrei nokkurn tíma, því að við vorum á undan þeim og við vorum í andstöðu við þá, þegar við byrjuðum að færa landhelgina út í 50 sjómílur. Sú utanríkismálaákvörðun var a. m. k. ekki þaðan, og þær eru margar fleiri sem ég gæti tínt til, sem ekki heldur eru þaðan.

Hv. 2. landsk. þm. tjáði mér, að hann þyrfti að fara af fundi, og ég mun þá ekki eyða neinu sérstöku púðri í að svara því sem hann setti fram til gagnrýni á þessa skýrslu. Hann talaði um að ósamræmi og viss hræsni væri í því að samþykkja á utanrrh.- fundum vissar viðskiptahömlur á Suður-Afríku, en kaupa svo appelsínur fyrir 240 millj. kr. Það má vel vera að eitthvert ósamræmi sé í þessu. En ég er ansi hræddur um að ósamræmið hjá hinum Norðurlöndunum sé æðimiklu meira, ef farið væri að bera það saman, því að allir hinir liðirnir eiga við þá: fjárfestingar norrænna fyrirtækja í landinu, viðskipti og erlent fjármagn sem þar er notað í stórum stíl, sem hvorugt er til hjá okkur. Ég veit ekki hvern það hittir ef þessi appelsínukaup féllu niður, aðra en þá fátækustu og vesælustu, sem eru að tina appelsínur sér til lífsframfæris. En auðvitað má benda á að hér sé visst ósamræmi og vafalaust meinum við það, að við ætlum ekki að kaupa neitt af Suður-Afríkumönnum, enda ber okkur engin skylda til þess, m. a. vegna þess að þeir kaupa ekki fyrir eina einustu krónu af okkur, svo að það væri þá kannske goldið líku líkt.

Ég þakka svo fyrir það sem sagt var hér um Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Ég held að það sé til mikilla hóta fyrir okkur að fá þessa jarðhitadeild. Ég fyrirgef 2. landsk. þm. auðvitað fúslega að geta ekki látíð fyrirtæki eins og Kröflu, sem liggur svona vel við höggi, alveg í friði þegar verið er að ræða um jarðhitarannsóknir á Íslandi. Mér finnst ósköp eðlilegt að hann þyrfti að bæta því við, og ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það.

Það er rétt, að illa gengur að aðskilja einkaflug og herflug á Keflavíkurflugvelli, sem var þó tilgangurinn með samningunum sem gerðir voru 1974. En ég satt að segja taldi óþarfa að vera að staglast á því einu sinni enn, að ég væri á móti þessum her. Ég get auðvitað vel gert það — kannske er vissara að gera það svona upp á sálarheillina í framtíðinni. Ég tel að við ættum að geta búið ein í þessu landi eins og nú standa sakir. Ég vona að sá dagur komi, að þingstyrkur Alþ. verði þá til þess, en hann er það ekki núna, enginn þarf að halda það.

Svo vil ég lýsa því yfir í lok þessarar ræðu minnar, að ég hef frá fyrstu tíð verið á móti því sem kallað hefur verið aronska. Það hefur engin hugarfarsbreyting orðið hjá mér í því. Ég hef til athugunar að breyta tilhögun á útboðum framkvæmda á Keflavíkurflugvelli. Ég hef oft heyrt þau rök, sem hv. þm. Gils Guðmundsson flutti fyrir því, að herliðs- eða varnarliðsvinnan hefði óheillavænleg áhrif á Suðurnesjum. Stundum hef ég líka heyrt að gott væri að hafa hana. Það hefur mér virst dálítið fara eflir atvinnuástandi á Suðurnesjum. Hv. þm. taldi það til óþæginda, að Suðurnesjamenn sætu fyrir þessari vinnu. Það gera verkalýðsfélögin á Suðurnesjum ekki. Þau standast ekki reiðari en þegar ráðinn er maður sem ekki á heima á svæðinu — telja sig algerlega eiga þetta. Þetta er kannske þessi mengun hugarfarsins sem verið er að berjast á móti, en svona er þetta nú. Þegar lítið er að gera, þegar illa árar í fiskvinnslu og annarri starfsemi á Suðurnesjum, þá er komið í utanrrn., varnarmáladeildina og sagt: Það þarf að auka vinnuna og láta Suðurnesjamenn sitja fyrir þeim störfum, sem hér falla til. — Svo gengur vel að fiska og vantar fólk í þau störf. Þá er komið og sagt við okkur: Þið takið allt fólkið frá okkur og nú höfum við engan mann til þess að verka fiskinn. — Svona hefur mér virst þetta horfa við í þau ár sem ég hef starfað í utanrrn. Má vera að það sé misskilningur.

Ég ætlaði að reyna að halda þessa svarræðu þannig, að hún þyrfti ekki að verða eldsneyti fyrir mjög harðskeyttar umr., því að mér finnst alveg ástæðulaust að vera að kveikja ófriðarbál. Þær ræður, sem hér hafa verið haldnar, hafa síður en svo gefið tilefni til þess. En ég vil að lokum endurtaka þakkir mínar til þeirra þm., sem tóku þátt í umr., og þá ekki síst fyrir það, að mér virðist að skilningur á vaxandi mikilvægi íslenskrar utanríkisþjónustu sé að verða meiri og meiri.