12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3343 í B-deild Alþingistíðinda. (2499)

268. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Vilborg Harðardóttir:

Forseti. Ég ætla ekki að fjalla um þetta framlagða frv. í smáatriðum, en vil leyfa mér að benda á að fyrr í vetur lagði hv. þm. Magnús Kjartansson fram frv. sama efnis, um Iðntæknistofnun Íslands, sem var reyndar endurflutningur frá fyrri tíma, eins og kemur fram í því frv. sem fyrir liggur. Ég vil eindregið mælast til þess, að iðnn. fjalli jafnframt um frv. hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar, sem er 12. mál

Það eru að vísu ekki miklar breytingar, en þó nokkrar í þessu nýja frv. ráðh., sem mér finnst að þurfi að fjalla nánar um með tilliti til þess sem Magnús Kjartansson hefur lagt fram. Ég get bent á tvö dæmi, sem eru nokkuð veigamikil, um þessar breytingar. Það er t. d. það, að í sambandi við tekjur stofnunarinnar er í frv. hæstv. ráðh. gert ráð fyrir framlagi í fjárl. ótilgreindu. Í frv. Magnúsar Kjartanssonar eru hins vegar tilgreind prósent í sambandi við tekjurnar. Sömuleiðis sleppir ráðh. því í sambandi við skipun stjórnar sem kemur fram í till. Magnúsar, að í hana sé skipaður fulltrúi starfsfólks stofnunarinnar. Ég nefni þessi dæmi og beini því til þingheims, að þetta verði tekið fyrir hjá iðnn. jafnframt hinu nýja frv.