12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Í tilefni af þessu, sem fram kom hjá hv. 3. landsk. þm., vil ég segja um fyrra atriðið, um lánin, að alltaf hafa verið veitt sömu lán til íbúðarhúsa í sveitum og í kaupstöðum, svo að ekki er um neinn mismun á lánsfjárhæðum að ræða þar. Hins vegar þyrfti að skoða betur reglur um rými. Hægt er að hugsa sér að ákveða það í reglugerð, enda yrði miðað við þá reynslu sem þar er fyrir.

Um gjaldið, sem er meginmálið, er það að segja, að það er nákvæmlega sama hvort vextir af stofnlánum til landbúnaðarins eru hækkaðir um 4% eða þetta gjald er tekið. Vextir af stofnlánum eru teknir inn í verðlagið hverju sinni, svo að hér er miklu fremur um að ræða jöfnun á milli bændanna innbyrðis en það, að þetta kæmi út í verðlagið þó að í vaxtaformi væri. Það er þetta sem gerði þessa leið æskilegri. Að öðrum kosti hefðu það eingöngu verið þeir, sem taka lánin núna og hér eftir, sem yrðu að greiða þetta, en kunnugt er að bændur eins og aðrir eru farnir að kaupa kjöt í verslunum sínum, en slátra ekki heima fyrir eins og áður var. Þess vegna jafnast þetta og nákvæmlega sama upphæð hefði komið út við 4% hækkun á vöxtum, sem hefði orðið að eiga sér stað ef þessi leið hefði ekki verið valin. Þess vegna varð samkomulag í nefndinni um þessa leið. — Þessa skýringu vil ég gefa.