12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3348 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Það munu vera liðnir 10 eða 11 dagar síðan talsvert miklar umr. urðu utan dagskrár í þessari hv. d. um fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins og að nokkru leyti um raforkumál almennt í því sambandi. Það tókst svo til við þær umr. fyrir nokkurn misskilning, að umr. var slitið þó að nokkrir væru á mælendaskrá. Ég tel fyrir mitt leyti óhjákvæmilegt, að nokkurt framhald verði á þeim umr. sem enduðu með þessum hætti, auk þess sem ég tel fulla ástæðu til þess að fá frekari upplýsingar um þetta stórmál en gefnar hafa verið til þessa.

Eins og hv. þm. minnast, lagði ég m. a. nokkrar fsp. fyrir hæstv. forsrh. í sambandi við þetta má4. Hann veitti þau svör sem þá voru í rauninni tiltæk í sambandi við þetta vandamál af því að þá hafði ríkisstj. nýlega fjallað um málið og gert nokkrar bráðabirgðaráðstafanir til þess að leysa úr fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. M. a. hafði hæstv. ríkisstj. tekið þá ákvörðun, að hækkaður yrði verðtaxti á húsahitunarrafmagni. Það lá þó fyrir í þessu tilfelli, að þessi verðtaxti hjá Rafmagnsveitum ríkisins var þegar 84% hærri en sams konar taxti er hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. 25% hækkun á þessum taxta þýðir því, að húsahitunarrafmagn frá Rafmagnsveitum ríkisins verður hér eftir, eða eins og mál standa nú, 130% hærra en er t. d. á Reykjavíkursvæðinu og hjá flestum rafmagnsveitum sem eru tengdar Landsvirkjun. Ég ætla að flestir hv. alþm. viðurkenni að hér er um slíkan verðmun að ræða að ekki verður við unað. Þetta er vitanlega alveg ótækt, að ætla sér að leysa fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins á þessum grundvelli, enda þótti hæstv. ríkisstj. nauðsynlegt að hafa þann vara á, að þó skyldi upphitun húsa samkv. þessum verðtaxta aldrei verða hærri en sem samsvaraði kostnaði við að hita upp hús með olíukyndingu. Það átti sem sagt að tryggja það, að þeir aðilar, sem hita upp hús sín annaðhvort með því að nota olíukyndingu eða þá á vissum stöðum á landinu að þeir höfðu hitað upp hús sín með rafmagni, yrðu allir að vera í hæsta flokki í þessum efnum, þó að vitað væri að fjöldi landsmanna byggi við miklu, miklu hagstæðari kjör. Ég vil segja það, að þetta eru kaldar kveðjur frá hæstv. ríkisstj. til allra þeirra í landinu sem verða að skipta við Rafmagnsveitur ríkisins og búa við þá aðstöðu að þurfa á slíku rafmagni að halda til að hita upp hús sín. En um það er víst ekkert að villast, að öll hæstv. ríkisstj. stendur að þessari samþykkt. Hæstv. forsrh. bætti því við upplýsingar sínar um þetta mál, að ríkisstj. hefði enn fremur ákveðið að aðrir verðtaxtar Rafmagnsveitna ríkisins yrðu einnig teknir til endurskoðunar í sambandi við fjárhagsvandamál fyrirtækisins. M. ö. o.: Nú er selt rafmagn til almennrar heimilisnotkunar hjá Rafmagnsveitum ríkisins eftir taxta sem nú þegar er 86% hærri en t. d. í Reykjavík, og verðtaxti á rafmagni til ljósa á þessum svæðum Rafmagnsveitna ríkisins er þegar yfir 100% hærri en t. d. í Reykjavík, en hugmynd ríkisstj. er að athuga hvort ekki séu tiltök að leysa fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins með því að hækka þessa taxta enn meir. Þetta er í rauninni alveg furðuleg tilkynning frá hæstv. ríkisstj. og verður að koma skýrt fram, að ég fyrir mitt leyti mótmæli þessu harðlega. Hér er verið að auka herfilega á misrétti sem fyrir er, misrétti sem er þess eðlis að eðlilegt var að ég spyrði um það í þessum umr., hvort hæstv. ríkisstj. hefði ekki í huga að gera ráðstafanir til að draga úr því. En svarið er sem sagt þetta. Ríkisstj. er með það í athugun, hvort hún geti ekki aukið misréttið, hvort hún geti ekki aukið það enn frá því sem það er nú. Ég veitti því einnig athygli, að hæstv. forsrh. svaraði þessu þannig, að ákveðið væri að ekki yrði um meiri verðjöfnun að ræða á raforku en þegar væri ákveðið, en sem sagt, hitt gat staðið opið, að það yrði látið draga enn meira í sundur en orðið er.

Þetta kemur býsna einkennilega saman við yfirlýsingar hv. alþm., sem m. a. styðja ríkisstj., um að þeir vilji vinna að jöfnun á raforkuverði í landinu, að þá skuli ríkisstj. þeirra tilkynna að hún hafi í huga að auka misréttið frá því sem nú liggur fyrir. Ég sagði í þessum umr., að augljóst væri að fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins yrðu ekki leyst með því að hækka verð á raforku frá þessu fyrirtæki. Og ég benti á að ekki væri í rauninni önnur leið í aðalatriðum færari til þess að fást við fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins, eins og þau liggja nú fyrir, en sú að taka nokkurn hluta af þeim mikla stofnkostnaði. sem Rafmagnsveitur ríkisins verða að bera nú, og færa hluta af honum yfir á ríkisheildina. Í rauninni tel ég að á óbeinan hátt sé fengin viðurkenning á þessu sjónarmiði, m. a. hjá hæstv. raforkumálaráðh., iðnrh. Hann undirstrikaði í ræðu sinni í sambandi við þessi mál, að menn yrðu að hafa það í huga, að Rafmagnsveitur ríkisins væru líka félagsleg stofnun, sem væri ætlað að leysa af hendi ýmis almenn félagsleg verkefni, sem ekki gætu flokkast undir það að tilheyra beinhörðum rekstrarsjónarmiðum þar sem viðskiptaaðilinn yrði að borga allan rekstrarkostnað. Í umr. kom m. a. fram, að þegar t. d. Orkubú Vestfjarða var stofnað þótti ekki fært að láta Orkubú Vestfjarða standa undir öllum sínum hluta að stofnkostnaði Rafmagnsveitna ríkisins. Ákveðinn verulegur hluti af heildarstofnkostnaði Rafmagnsveitna ríkisins, sem hefði út af fyrir sig átt að tilheyra Orkubúi Vestfjarða, var færður til og látinn enn tilheyra Rafmagnsveitum ríkisins. Auðvitað nær engri átt að segja síðan við aðra viðskiptamenn Rafmagnsveilna ríkisins, að þeir eigi að standa einir landsmanna undir þessum stofnkostnaði. Það var líka alveg augljóst mál, þegar Rafmagnsveitum ríkisins var falið það verkefni að tryggja betur en áður hafði verið rafmagnsflutning til Vestmannaeyja með því að leggja þar viðbótarstreng til frekara öryggis, að þar var um veruleg útgjöld að ræða sem voru í rauninni félagslegs eðlis, og þjóðfélagið sem heild átti að standa undir þeim, en ekki aðeins þeir sem keyptu raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins. Og auðvitað vita allir, að ýmsar línur, sem eru lagðar á vegum Rafmagnsveitna ríkisins um dreifbýli landsins, eru þannig, að alveg er vonlaust að ætla að segja að einstaka byggðarlög í landinu, sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins, eigi ein að standa undir þeim fjárhagslega vanda sem leiðir af þessum línum úti í dreifbýlinu. Allir sjá hversu fjarstætt þetta er, þegar meiri hluti landsmanna í aðalþéttbýlinu hefur verið skilinn þarna frá og tilheyrir öðru raforkusvæði og tekur ekki á sig neinn hluta af þessum fjárhagsvanda.

Við vitum að farin hefur verið sú leið að leggja á ákveðið verðjöfnunargjald, sem nú nemur 13%. Það var á sínum tíma stungið upp á af hálfu vinstri stjórnarinnar að taka upp þetta verðjöfnunargjald, en síðan kom í hlut núv. ríkisstj., rétt eftir að hún tók við völdum, að lögleiða það. Þarna lá fyrir viðurkenning allra á því, að ástandið væri þá þegar á árinu 1974 orðið þannig, að óhjákvæmilegt væri að verðjafna nokkuð á milli rafmagnssvæðanna í landinu með því að leggja á þetta verðjöfnunargjald. Auðvitað er hugsanleg leið að hækka þetta verðjöfnunargjald enn, eins og till. hafa komið fram um, úr 13% upp í 20%. Ég sagði í þessum umr., að mín skoðun væri að þetta væri ekki æskilegasta leiðin eins og nú stæðu sakir, m. a. af því að það sýndi sig, að á árinu 1975 og árinu 1976 stóð fjárhagur Rafmagnsveitna ríkisins nokkurn veginn í járnum miðað við það verðjöfnunargjald sem þá var í gildi. Það er allt annað, sem hefur komið til síðar í sambandi við þær sveiflur sem orðið hafa í öllu verðlagi og peningamálum og valdið hafa Rafmagnsveitum ríkisins ómældum útgjöldum. Ég hefði því talið, að aðrar leiðir hefðu verið æskilegri og benti á þá leið að taka nokkurn hluta af stofnkostnaði þeim, sem Rafmagnsveitur ríkisins bera nú, og færa yfir á ríkisheildina. Það verður þá að vera vandamál þjóðfélagsins sem heildar að rísa undir vöxtum og afborgunum af þessum fjármunum. Hitt hef ég líka tekið fram í umr., að ég tel þó að fáist ekki samkomulag um slíkt, þá verði að fara í það að hækka verðjöfnunargjaldið, það sé betra en una við það ástand sem er í dag, því að það er svo fráleitt að við það verður ekki unað.

Ég tók eftir því, að hæstv. forsrh. bar það einkum fyrir sig, að ef sú leið yrði farin, sem ég taldi eðlilegasta og reyndar fleiri, sem tekið hafa þátt í þessum umr., hafa einnig fallist á, — ef sú leið yrði farin að nokkur hluti af þessum mikla stofnkostnaði Rafmagnsveitna ríkisins yrði lagður á ríkisheildina, þá þýddi það að ég væri að fara fram á nýja skattheimtu. Hæstv. forsrh. getur auðvitað orðað þetta á þennan hátt ef hann vill. Ég get líka sagt það, að hann ætli að leysa allan þennan vanda Rafmagnsveitna ríkisins með því að leggja sérstakan aukaskatt á tiltekna menn í landinu, eins og yrði gert ef innheimta ætti viðbótartekjur handa Rafmagnsveitum ríkisins í gegnum orkusöluna. Auðvitað er enginn vafi á því, að ríkisheildin verður að standa undir þeim umframútgjöldum sem þarna er um að ræða, allir landsmenn. Ef það verður ekki gert á annan hátt en þann að afla þurfi nýrra tekna til þess, þá er að gera það. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, að slíkt væri framkvæmanlegt án þess, en það er aftur annað mál, getur verið ágreiningur manna á milli um það. Um hitt er eiginlega ótrúlegt að skuli vera ágreiningur, en hann sýnist vera á milli mín annars vegar og hæstv. forsrh. hins vegar, að það geti verið réttlæti í því, að þessi vandi verði lagður á þá fáu landsmenn sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins, sem mér sýnist vera sjónarmið hæstv. forsrh., en ég tel alveg fráleita aðferð. Þetta getur í rauninni aldrei endað með öðru en því, að viðskiptamenn Rafmagnsveitna ríkisins gefast upp og neita að taka þetta á sig til lengdar.

Í sambandi við þennan ágreining, sem mér sýnist að væri alveg augljós milli mín og hæstv. forsrh. varðandi lausn á þessum vanda, þá hlýt ég að spyrjast fyrir um það, hver sé afstaða Framsfl. í þessu máli. Hver er afstaða Framsfl.? Ég veit það eitt, að hann er með því að hækka húsahitunarrafmagnstaxtann hjá Rafmagnsveitum ríkisins og gera hann 130% hærri en nákvæmlega hliðstæðan húsahitunartaxta t. d. á Reykjavíkursvæðinu. Þetta liggur fyrir. Og það er einnig upplýst, að Framsfl. standi að þeirri samþykkt ríkisstj. að endurskoða alla þessa rafmagnstaxta hjá Rafmagnsveitum ríkisins með það fyrir augum að reyna að finna lausn á fjárhagsvandamálum fyrirtækisins. En getur verið að það sé stefna Framsfl., að viðskiptaaðilar Rafmagnsveitna ríkisins eigi í gegnum raforkukaup að standa einir sér undir öllum fjárhagsvanda þessarar stofnunar? Er það svo, að Framsfl. sé á þessari skoðun? (Iðnrh.: Það getur sannarlega verið.) Já, það getur svo sannarlega verið. Kannske er það. En ég segi: þetta er ekki í samræmi við það sem áður hefur komið fram hjá talsmönnum flokksins.

Ég hef veitt því athygli, að talsmenn Framsfl., sem tekið hafa þátt í umr. um þessi mál, hafa lagt á það áherslu, sem ég tel út af fyrir sig mjög réttmætt, að erfitt verði að finna viðunandi lausn á þessum málum til frambúðar án þess að taka afstöðu til þess, hvernig skipulag rafmagnsmálanna eigi að vera í landinu. Ég er þeim algerlega samþykkur í þessum efnum. Ég tel í rauninni að ekkert vit sé í því að skilja raforkumálin í landinu í sundur á þann hátt sem nú er gert, annars vegar sé Landsvirkjunarsvæði og hins vegar Rafmagnsveitur ríkisins og þar að auki nokkur minni raforkuveitusvæði. Eina rétta leiðin að mínum dómi er að tekin verði upp sú stefna, að einn aðili, sem fyrst og fremst sé á vegum ríkisins, standi að því að afla orkunnar og koma henni eftir aðalflutningslínum út á notendasvæðin og í beinu framhaldi af þessu verði síðan ákveðið sama raforkuverð um allt land.

Þegar búið verður að tengja Austurland við Suðurlandsveitukerfið með byggðalínunni héðan frá Suðurlandi til Norðurlands og síðan með austurlínunni frá Laxársvæðinu til Austurlands og þegar við á Austurlandi förum að kaupa rafmagn eða verðum að byggja rekstur okkar í þessum efnum að verulegu leyti á raforku frá Landsvirkjunarsvæðinu á meðan ekki er ráðist í nýja virkjun fyrir austan, þá er auðvitað alveg fráleitt að ganga út frá því, að þeir, sem þar eru, eigi að kaupa raforkuna á allt öðru verði en hinir, sem kaupa hana á þessu svæði. Samtengingin hlýtur eðlilega að kalla á eitt og sama verð yfir allt svæðið. Ég get tekið undir þetta sjónarmið, að marka þurfi stefnu í þessum málum. Satt að segja er mjög furðulegt, að ekki skuli takast að fá fram samþykkt á Alþ. um að marka þessa stefnu, vegna þess að það hefur verið tilkynnt á Alþ., að Framsfl. sem slíkur hafi mótað stefnu sína á þessa lund. Við í Alþb. höfum tilkynnt hið sama og flutt till. sem fer í sömu átt. Ég hef ekki heyrt betur en æðimargir þm. til viðbótar við þessa tvo flokka séu á alveg sömu skoðun og því sé greinilegur meiri hl. á Alþ. fyrir því að slá þessari stefnu fastri, jafnvel þó að allur Sjálfstfl. væri þarna á móti, sem ég hef þó enga ástæðu til að búast við að sé mótfallinn þessu. Hvernig stendur þá á því, að ekki er hægt að fá fram samþykkt á Alþ. fyrir því að móta þessa stefnu? Ég álít að Framsfl. verði fyrst og fremst að svara því. Er hann reiðubúinn að sameina atkv. sín atkv. annarra þm. á Alþ. til þess að mynda meiri hl. til þess að samþykkja þá meginstefnu sem kemur fram í tillöguflutningi framsóknarmanna? Hér er um svo mikilvæg mál og alvarleg að ræða, að ekki verður við það unað, að spurningum um þetta mál sé svarað á þann hátt sem hæstv. forsrh. gerði í umr. fyrir 10 eða 11 dögum. Ekki verður unað við að það svar eitt sé gefið, að ríkisstj. hafi aukið á verðmuninn á milli þessara raforkusvæða með því að hækka einn taxtann og sé að hugsa um að hækka aðra og hún neitar frekari verðjöfnun og þar við sitji. Í rauninni er að því látið liggja, að þeir, sem skipta við Rafmagnsveitur ríkisins, verði í gegnum viðskipti sín við fyrirtækið að standa undir öllum kostnaði þess fyrirtækis. Ég vil því alveg sérstaklega kalla eftir því, að hæstv. dómsmrh., formaður Framsfl., sem jafnframt situr í ríkisstj., svari því, hver sé afstaða Framsfl. til þessara mála: Hvernig hugsar hann sér að standa að því að leysa fjárhagsvandamál Rafmagnsveitna ríkisins? Er hann hlynntur því, sem ég hef talað fyrir, að taka beri ákveðinn hluta af stofnkostnaði fyrirtækisins og færa hann yfir á ríkisheildina? Ef hann hallast að því að hækka aðeins verðjöfnunargjaldið á raforku, þá er sjálfsagt að það komi fram. Það er e. t. v. möguleiki að fá fram meirihlutaafstöðu fyrir slíku, ef ekki virðist vera um annað að ræða.

Ég verð að segja, að mér fannst málflutningur hæstv. forsrh. hinn furðulegasti þegar kom að samanburði á þessu raforkuverði. Auðvitað gat hæstv. forsrh. ekki borið á móti því, að þær upplýsingar voru réttar sem ég flutti um raforkuverðið og samanburð í rafmagnstöxtum og komnar voru beint frá æðstu mönnum Rafmagnsveitna ríkisins. Hann veit að þarna er nákvæmlega rétt skýrt frá. Afveg hliðstæðir rafmagnstaxtar liggja fyrir, og þessi samanburður er viðurkenndur sem réttur. En þá kom hæstv. forsrh. með þá einkennilegu kenningu að segja: Ég vara menn við því að gera samanburð á einstökum rafmagnstöxtum, eins og t. d. rafmagnstaxta til heimilisnotkunar, rafmagnstaxta til stórra iðnfyrirtækja, rafmagnstaxta til lýsingar. — Þó er þetta hinn algildi samanburður hjá þeim sem um þessi mál skrifa og birta skýrslur og hefur aldrei verið deilt um. Hann varar við þessu, en kemur svo með þá fráleitu kenningu að segja: Ef hins vegar litið er á verð á hverri notaðri kwst. hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, þá kemur í ljós, að verðið á hverri kwst. hjá Rafmagnsveitum ríkisins er selt á eins lágu eða lægra verði en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. — Þá er hann farinn að gera samanburð á því, að auðvitað er raforka til húsahitunar seld í allríkum mæli hjá Rafmagnsveitum ríkisins, þar sem er um landsvæði að ræða þar sem engar hitaveitur eru, en hins vegar er hitaveita í Reykjavík og því tiltölulega mjög lítið selt af raforku til beinnar húsahitunar í Reykjavík. Hann blandar saman öllum þessum ólíku og óskyldu töxtum og segir: Meðaltalsverðið er orðið svipað. — Auðvitað vita allir, sem eitthvað þekkja til þessara mála, og ég efast ekki um að hæstv. forsrh. veit það sjálfur, að samanburður á þessum grundvelli er fráleit grautargerð sem segir ekki neitt. Það er mál út af fyrir sig, hvort Rafmagnsveitur ríkisins telja sér hagkvæmt að selja raforku til húsahitunar eða ekki. En það kemur t. d. í ljós, ef maður ber saman raforku til húsahitunar á Austurlandi, þar sem ekki er um neinar hitaveitur að ræða, og raforku til húsahitunar á raforkusvæði Reykjavíkur eða Suðvesturlands, að þá eru margir staðir á raforkusvæði Suðvesturlands sem nota rafmagn til húsahitunar, margir einstakir staðir, í ríkari mæli að meðaltali en staðir á Austurlandi. Þetta á vitanlega ekki við um Reykjavík sjálfa, sem nýtur hitaveitu, en um leið og komið er að öðrum byggðarlögum á þessu svæði, þá nota þau rafmagn til húsahitunar – eftir skýrslum sem liggja fyrir — í eins ríkum mæli og ríkari mæli en á sér stað t. d. á Austurlandi. Vitanlega væri hægt að telja upp þessa staði fyrir hæstv. forsrh., ef hann efast að þetta sé rétt, því að alveg nýlega er komin út skýrsla frá orkumálastjóra um þessi atriði. Hann mun sjá, ef hann athugar þessa skýrslu, að t. d. eru mjög margir staðir á Suðvesturlandi sem svona er ástatt um, en vitanlega er ekki um hitaveitur að ræða í þeim byggðarlögum á þessu svæði, svo að ástandið hjá Rafmagnsveitum ríkisins er ekkert sérstakt í þessum efnum. Rafmagnsveitur ríkisins hafa selt fólki á sínu svæði rafmagn til húsahitunar, þó með mikilli tregðu og eftirgangsmunum. Fólk þar, sem skiptir við Rafmagnsveitur ríkisins, hefur því átt kost á því að hita upp hús sín með raforku á nokkuð svipaðan hátt og fólk í byggðarlögum t. d. suðvestanlands, þar sem ekki er um hitaveitur að ræða. Eini réttmæti samanburðurinn á raforkuverði er að líta á sambærilega verðtaxta, eins og heimilistaxtann, iðnaðartaxtann og húsahitunartaxtann. Vitanlega verður að gera samanburð á sambærilegri notkun, þegar menn ætla að átta sig á þessum verðum. En þessi fráleiti málflutningur, sem fram kom hjá hæstv. forsrh., að mínu mati, byggðist í rauninni allur á því, að hann var að reyna að réttlæta þá leið út úr fjárhagserfiðleikum Rafmagnsveitna ríkisins að ætla að velta þessum vanda yfir á raforkukaupendur hjá Rafmagnsveitum ríkisins.

En í beinu samhengi við þetta mál — og skal ég nú stytta mál mitt — tel ég óhjákvæmilegt, að inn í þessar umr. komi einnig það sem snertir alveg sérstaklega Austurland, af því að það er einn stærsti notandinn hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Heita má að allt Austurland fái alla sína raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins. Þannig er ekki ástatt með neinn annan landshluta. En nú vita allir, því að ástandið þar er óöruggt og miklir erfiðleikar, þar sem hefur skort á raforku oft og tíðum og þurft að skammta orku og framleiða mjög mikið af raforkunni með notkun dísilvéla, að að því hefur verið stefnt að koma upp orkuflutningslínu frá Norðurlandi til Austurlands á þessu ári. Ég skildi svör hæstv. forsrh. um það atriði, hvort þeirri línu yrði komið á á árinu, þannig, að að því væri stefnt af hálfu ríkisstj., að svo gæti orðið. Þetta er út af fyrir sig þýðingarmikið. En hitt er öllum ljóst, sem þekkja til þessara mála á Austurlandi, að algerlega er nauðsynlegt í sambandi við raforkumálin á Austurlandi að fá úr því skorið, hvort hæstv. ríkisstj. vill fallast á að ráðast í nýja vatnsvirkjun á svæðinu, sem er undirbúin að öllu leyti og tillögur liggja fyrir um þar sem eingöngu stendur á því, að hæstv. ríkisstj. tali og segi til um það, hvort hún vill fallast á að ráðist skuli í þessa virkjun. Hæstv. iðnrh. hefur gefið þær upplýsingar í umr. um þessi mál á Alþ. nýlega, að hann hafi í desembermánuði lagt tillögu fyrir ríkisstj. um að taka ákvörðun í málinu, en nú er komið fram undir miðjan apríl og nú stendur á ákvörðun ríkisstj. um það, hvort ráðist verði í þessa virkjun eða ekki. Rafmagnsveitur ríkisins hafa auðvitað gert sínar tillögur um það líka, að ákvörðun verði tekin í málinu, það stendur á ríkisstj. Af því vil ég spyrja í beinu samhengi við þessi mál sem heild: Á hverju stendur hjá ríkisstj. að taka ákvörðun í þessu máli? Getur hún ekki, getur ekki hæstv. forsrh. lofað því á Alþ.,ríkisstj. taki nú innan tíðar ákvörðun um að ráðist skuli í þessa virkjun, sem er svo aðkallandi á þessu svæði? Ég vil einnig beina því til formanns Framsfl.: Stendur á Framsfl. í þessum efnum, fyrst iðnrh. hefur lagt þetta til og leggur kapp á að ná þessu fram? A. m. k. sýnist vera orðinn meiri hl. í ríkisstj., ef Framsfl. vill styðja málið og þekkt höfum við þau vinnubrögð að myndaðar hafi verið meiri hl. í ríkisstj. til að koma fram ákveðnum ákvörðunum. Ég vil því spyrja hann, hvort eitthvað slíkt sé í veginum í þessu tilfelli. Vill Framsfl. styðja það, að ákvörðun sé tekin í þessu máli? Fyrst iðnrh. hefur reifað málið og gert tillögu, þá sleppur Framsfl. ekki undan því að segja til um afstöðu sína. Það er alveg útilokað að hann sleppi á þann einfalda hátt, sem helst kemur í blöðum framsóknarmanna á Austurlandi, að segja að þetta sé allt iðnrh. eða raforkuráðh. að kenna, eða þá að segja sem svo, að það sé forsrh. sem stöðvar allt saman. Ég vil fá svar við þessu. Hefur Framsfl. tekið afstöðu til þessarar till. iðnrh.? Styður hann það, að tekin verði ákvörðun um þessa virkjun, eða ekki? Það liggur þá alveg skýrt fyrir, hver þarna heldur í endann og stöðvar þessa nauðsynlegu ákvörðun.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð að sinni. Ég hef gert mínar aths. við málflutning hæstv. forsrh., sem mér þótti í þessum efnum ófullnægjandi og benda mjög í ranga átt miðað við það sem ég hefði talið eðlilegt. Ýmsar upplýsingar vantaði varðandi málið, og af því vildi ég gjarnan að umr. yrðu áfram um þetta þýðingarmikla mál. Nú vænti ég þess, að ég heyri einnig í fulltrúum Framsfl., hver sé afstaða þeirra.