12.04.1978
Neðri deild: 75. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3356 í B-deild Alþingistíðinda. (2509)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson) :

Herra forseti. Samkv. samkomulagi okkar hæstv. viðskrh. vildi ég segja hér nokkur orð. Ég hélt að ég hefði talað nógu skýrt og skilmerkilega í umr. um þetta mál á dögunum svo að hv. 2. þm. Austurl. mætti skilja, svo skýr og greinargóður sem hann almennt er.

Ég vil taka það fram, að ákvörðun ríkisstj., þegar hún fjallaði um fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins, var byggð á till. þriggja manna nefndar, sem ríkisstj. skipaði til þess að fjalla um þetta vandamál, og ríkisstj. féllst á fyrstu till. þessara þremenninga, sem iðnrh. hafði einnig gert að sinni og ég gat um í minni ræðu um daginn og hljóðar svo: „Hitunartaxti verður hækkaður frá 1. maí n. k. um 25%.“ Skýring þriggja manna nefndarinnar er síðan eftirfarandi: „Lengst af var taxtinn látinn fylgja olíuverði, en nokkur vanhöld hafa verið á því að undanförnu, þannig að hitunartaxtinn hefur nú dregist aftur úr sem nemur þessum 25%“.

Ég sagði enn fremur orðrétt í ræðu minni um daginn, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég tel aftur á móti réttlætanlegt að hækka hitunartaxta Rafmagnsveitna ríkisins að því marki sem hugmyndir þremenninganna benda til og ríkisstj. hefur samþykkt, þ. e. a. s. að hitunarkostnaður fari ekki fram úr kostnaði olíukyndingar.“

Síðan kemur í ljós, að till. þremenninganna hafði verið byggð á óniðurgreiddu olíuverði, en eins og kunnugt er er olíuverð til húsahitunar niðurgreitt. Það er rétt að fram komi, að þegar ríkisstj. fékk vitneskju um það, þá óskaði hún eftir nákvæmari samanburði á þessum töxtum Rafmagnsveitna ríkisins vegna rafmagnshitunar og olíukyndingarkostnaði. Við höfum fengið bráðabirgðagrg. eða skýringu á einu blaði, en töldum þá skýringu ekki fullnægjandi af hálfu Rafmagnsveitna ríkisins og óskuðum einnig eftir nákvæmum samanburði á öllum töxtum Rafmagnsveitna ríkisins og helstu rafmagnsveitna í landinu, sem ekki er kominn. Sá samanburður liggur fyrir að nokkru leyti fyrir liðin ár í opinberum skýrslum Orkustofnunar, en það, sem máli skiptir, er samanburðurinn eins og er í dag. En sé miðað við þær upplýsingar, sem nú liggja fyrir hendi, sýnist ljóst vera, að með 25% hækkun hitunartaxta Rafmagnsveitna ríkisins muni hitunarkostnaður þeirra, sem nota rafmagn frá Rafmagnsveitum ríkisins til upphitunar húsakynna sinna, vera hærri en hitunarkostnaður þeirra landsmanna, sem verða að búa við olíunotkun, vegna þess að þeir fá olíustyrk. Ég tel rökrétt að hitunarkostnaður þeirra, sem nota rafmagnshitun frá Rafmagnsveitum ríkisins og verða að þessu leyti að borga meira fyrir hitun híbýla sinna en þeir, sem búa við olíukyndingu, verði greiddur niður að sama marki, að þeir njóti niðurgreiðslu eins og olíunotendur. Ég rökstyð þetta bæði með jafnréttisviðmiðun og sömuleiðis með því að rétt sé að hafa sama greinarmun á niðurgreiðslu olíu til húsahitunar eftir því hvort um íbúðir er að ræða eða annað húsnæði, bæði hvað snertir þau hús, sem tengd eru rafmagnshitun hjá Rafmagnsveitum ríkisins, og þau hús, sem kynt eru með olíu. En ég vildi bæta því við, að þessi mál eru til frekari meðferðar hjá ríkisstj. og upplýsinga er aflað til þess að ákvarðanir séu teknar á traustum grundvelli.

Ég vil líka taka fram, að ég taldi alveg nauðsynlegt að við tækjum ekki eingöngu til samanburðar einstaka taxta, annars vegar hjá Rafmagnsveitum ríkisins og hins vegar hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur eða ýmsum öðrum þéttbýlisrafmagnsveitum þar sem orkuverð hvað einstaka taxta snertir er töluvert lægra en hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Ég taldi rétt að vekja athygli á því, að á síðasta ári var meðalsöluverð raforku miðað við hverja kwst. lægra frá Rafmagnsveitum ríkisins en frá þéttbýlisrafmagnsveitum. Skýringin er, eins og hér hefur komið fram, að miklu leyti fólgin í því, að hitun er meiri hluti af raforkusölu frá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá ýmsum öðrum rafmagnsveitum. Einkum á þessi mismunur við þegar Rafmagnsveita Reykjavíkur er tekin til samanburðar, en þó ern hitunartaxtar hjá ýmsum rafmagnsveitum í þéttbýlinu töluverður hluti orkusölu, eins og t. d. til skamms tíma á Akureyri.

Það er vert að menn hugleiði hvernig á þessu stendur, að meðalverð á kwst. frá Rafmagnsveitum ríkisins er lægra á síðasta ári en frá þéttbýlisrafmagnsveitum víðs vegar um landið, þótt í augum uppi liggi að dreifing raforku hlýtur að vera dýrari hjá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá þéttbýlisrafmagnsveitum. Skýringin er sem sagt að miklu leyti fólgin í svokölluðum marktöxtum, en meðal þeirra vegur hitunartaxtinn einna þyngst. En þá er spurningin: Hefur rétt stefna verið tekin af Rafmagnsveitum ríkisins hvað snertir tengingu húsa til upphitunar með rafmagni? Ég er þeirrar skoðunar, að sú stefna, sem löngum hefur ráðið í þeim efnum, sé röng.

Þetta er of dýr háttur að hita upp híbýli manna að tengja hvert hús fyrir sig við rafmagnsveitukerfið. Ábyrgð á þessari stefnumörkun ber umfram aðra Alþb. eða fulltrúi þess í ríkisstj., sem fór með yfirstjórn Rafmagnsveitna ríkisins, og því kemur það úr hörðustu átt þegar formaður Alþb. gagnrýnir hækkun á hitunartöxtum raforku, en það eru einmitt flokksbræður hans sem hafa umfram aðra markað þessa stefnu. Það er sannast best að segja, að skynsamlegra er að haga þessu með öðrum hætti að áliti sérfróðra manna, að nýta raforkuna, fyrst og fremst afgangsraforku til þess að hita upp í fjarvarmaveitum, hvort sem þær fjarvarmaveitur byggjast á heitu vatni, sem þó kann ekki að vera nægjanlega mikið eftir aðstæðum, eða á olíukyndingu þegar toppálag eða mesta álag er á raforkunotkun. Með þessum hætti er unnt að gera hitunarkostnað húsa mun lægri en ella, en ekki með þeirri stefnu að tengja hvert einstakt hús við raforkukerfi landsmanna, eins og stefna Alþb. hefur verið og er e. t. v. meginástæðan fyrir þeim fjárhagsvanda sem Rafmagnsveitur ríkisins nú standa í, — meginástæðan fyrir þeirri kröfu hv. 2. þm. Austurl., að skattar séu hækkaðir á landsmenn til þess að greiða fyrir þessa vitleysu sem hann ber ábyrgð á.

Ég vil einnig láta það koma fram, að ríkisstj. hefur ekki tekið afstöðu til frekari breytinga á töxtum Rafmagnsveitna ríkisins. En þetta sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

Þessu til viðbótar vil ég að fari fram og ríkisstj. hefur talið eðlilegt að fari fram könnun á taxtauppbyggingu Rafmagnsveitna ríkisins og með hvaða hætti unnt er á rökréttan hátt að afla fyrirtækinu tekna á þann hátt. Ákvörðun hefur engin verið tekin um það, hvort eða að hve miklu leyti hækkanir muni leiða í kjölfar þeirrar athugunar.“

Þessu til viðbótar taldi ég líka rétt, að fram færi könnun á rekstri byggðalína og hvernig tekjur af flutningi raforku um byggðalínur væru nýttar, a. m. k. á þessu ári, til þess að leysa fjárhagsvandræði Rafmagnsveitna ríkisins, vegna þess að fjármagnskostnaður byggðalínanna, sem nú eru þegar komnar í notkun að hluta, t. d. norðurlínurnar, er greiddur með lánsfjáröflun samkv. lánsfjáráætlun 1978.

Þá vil ég láta koma fram, að það verður vitaskuld ákvörðun Alþ., að hve miklu leyti skattleggja skuli alla landsmenn til þess að ná jöfnunarverði á orku. En þegar er til staðar 11% verðjöfnunargjald, sem var líklega fimmfaldað fyrir tæpum 4 árum, þegar Rafmagnsveitur ríkisins voru fjárþrota síðla sumars 1974. Þetta nýja raforkuverðjöfnunargjald var arftaki annars verðjöfnunargjalds, sem var föst krónutala, að því er mig minnir, og átti í raun og veru að hverfa smám saman. Það þótti ófullnægjandi. Önnur till. þremenninganna var um hækkun á þessu verðjöfnunargjaldi. Ég sagði það sem mína skoðun í umr. um daginn, að ég teldi útilokað að hækka þetta verðjöfnunargjald á þessu stigi málsins, og hv. 2. þm. Austurl. tók undir það með mér. Ef hann hvorki vill hækka raforkutaxta né verðjöfnunargjald, þá er ekki nema það þriðja eftir, sem hann tók fram í ræðu sinni hér áðan, og það er að hækka skatta á landsmenn til að afla fjár til þess í fyrsta lagi að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og í öðru lagi, að því er mér skildist, að koma á frekari jöfnun raforkuverðs í landinu. En við skulum athuga, að hér er um töluverða skattlagningu á landsmenn almennt að ræða í þessu skyni. Það er ekki eingöngu um að ræða 13% verðjöfnunargjald á raforku, sem allir rafmagnsnotendur greiða og rennur óskipt til Rafmagnsveitna ríkisins eða nú í ár einnig til Orkubús Vestfjarða. Þessu til viðbótar er sem svarar einu prósentustigi af söluskatti eða um eða yfir 2 milljörðum kr. varið í þessu skyni á fjárlögum, annars vegar til niðurgreiðslu á hitunarkostnaði íbúðarhúsnæðis og hins vegar beinlínis til þess að standa undir ýmsum orkuframkvæmdum sem til þess eru fallnar að lækka hitunar- eða annan orkukostnað landsmanna. Ég dró mjög í efa, að við hefðum efni á því eða tök væru á því að auka almenna skattlagningu á landsmenn í því skyni að koma á meiri jöfnuði í orkuverði en sem næmi þessu tvennu: 13% verðjöfnunargjaldi á raforku annars vegar og hins vegar framlagi úr ríkissjóði, er svaraði til tekna af einu prósentustigi af söluskatti. Innan þessa tekjuramma verðum við að haga orkuframkvæmdum okkar og þ. á m. greina á milli, eins og ég sagði að rafmagnsveitustjóri hefði hug á að gera, arðbærra framkvæmda á orkusviðinu og svokallaðra félagslegra framkvæmda. Fjárveitingavaldið og Rafmagnsveitur ríkisins hafa gert nægilegan greinarmun að þessu leyti, en komi á daginn, að með slíkri aðgreiningu sé ekki unnt að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins innan þessa tekjuramma, sem ég gat um áðan að nú væri eftir farið, þá verður Alþ. auðvitað að taka málið til endurskoðunar og endurnýjaðrar meðferðar.

Varðandi virkjun Bessastaðaár vil ég segja, að það liggur fyrst og fremst fyrir að fullhanna þá virkjun, fyrsta virkjunaráfangann eða Fljótsdalsheiðarvirkjun, ef ég nefni áfangann rétt. Til þess skortir á þessu ári 110 millj. kr., að því er mér skilst. Til eiga að vera samkv. lánsfjár- og framkvæmdaáætlun milli 50 og 60 millj. kr. og annað eins þarf því að útvega til þess að fullnaðarhönnun virkjunarinnar verði lokið á þessu ári. Ef svo er, þá á það ekki að tefja framkvæmdir. Ég lít svo á, að ekki liggi fyrir hjá ríkisstj. till. um tímasetningu þessarar virkjunar, þar sem á skortir niðurröðun almennt í tímaáætlun virkjunarframkvæmda sem nú eru í undirbúningi. Þegar við erum búnir að byggja bæði norðurlínu og austurlínu, þá eru tök á að nýta virkjanir á þessum svæðum og á Suðvesturlandi með samvirkum hætti, og þar sem tæknilegir erfiðleikar kunna að vera, ef misvægi er á orkuframleiðslu, ef hún er aðeins öðrum megin þessara stofnlína, verður auðvitað að taka tillit til þess við niðurröðun einstakra virkjunarframkvæmda. Okkur er nauðsyn að gera okkur heildstæða mynd af tímaáætlun virkjunarframkvæmda töluvert mörg ár fram í tímann, og það er þessi heildstæða áætlun sem þarf að liggja fyrir áður en endanleg ákvörðun er tekin um tímasetningu einstakra virkjana. Ég held að við alþm. getum allir verið sammála um að slíkt eru skynsamleg og sjálfsögð vinnubrögð í orkumálum.