13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3370 í B-deild Alþingistíðinda. (2513)

Umræður utan dagskrár

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður, en vil þó nota tækifærið, meðan hæstv. forsrh. er staddur í d. og hæstv. dómsmrh., og vilna örstutt í þátt sem ég sagði frá í gær að ég hefði tekið upp og ætti vélritað handrit af. Í þeim þætti segir m. a. svo, með leyfi forseta, Magnús T. Ólafsson talar:

„Það er orðið mjög aðkallandi að breyta sjálfu kosningafyrirkomulaginu, svo að allir kjósendur fái aukinn rétt til þess að velja sína þm., og ég vildi að þessi einhugur, sem er við þetta borð, yrði til þess að þetta mál kæmist á rekspöl þegar á næsta Alþ., svo að við gætum kosið eftir nýjum kosningalögum, sem gefi hverjum kjósanda aukinn rétt, þegar kjörtímabilið rennur út næsta vor:

Spyrjandi: „Já, í framhaldi af þessu ætla ég að spyrja að því, hvort þessi einhugur, sem hér er, muni leiða til aðgerða.“

Hæstv. forsrh., Geir Hallgrímsson, svarar svo : „Ég tel alveg sjálfsagt að taka þetta mál til meðferðar og hef raunar lítið svo á, að þetta mál væri til meðferðar í stjskrn. Þó sú hreyting, sem við erum að tala um hérna, sé í byrjun aðeins breyting á kosningalögum, og við erum að reyna að ná þessu markmiði, sem við erum sammála um, að efla tengsl milli kjósenda og umbjóðanda hans á Alþ., þá eru það einnig ýmsar leiðir, sem liggja í þá átt, en kosta þá og þarfnast hreytinga á stjskr. Við þurfum að vega og meta hinar ýmsu leiðir, og ég tel ekki unnt að slá því föstu, hvort við náum fram breytingum á kosningalögunum á þessu þingi, fyrr en við lítum á málið í heild. Ég fyrir mitt leyti vil stuðla að því, að ítrekaðar umr. fari fram um það, hvort unnt er að breyta kosningalögunum í þessa átt sem við allir viljum.“

Síðan tekur fyrirspyrjandi til máls og fleira blandast inn í, en hæstv. dómsmrh. svarar svo: „Það er hugsanlegt að gera ýmsar breytingar á kosningalögunum án þess að stjskr. sé breytt, og þ. á m. hef ég gert ráð fyrir því, að það yrði tekið til athugunar í vetur, hvort hægt væri að koma fram breytingum í þessa átt, sem menn hafa verið .að koma fram með hugmyndir um, að reyna að gera kjör persónulegra. Það er það sem menn sakna, eftir að stofnað var til þessara fjölmennu kjördæma og horfið frá einmenningskjördæmunum, að samband milli þm. og kjósenda sé ekki eins persónulegt og áður. Og ég álít að það sé mjög æskilegt að reyna að gera þetta persónulegra. Til þess eru vissulega ýmsar leiðir.“

Svo er rætt um fleira og fyrirspyrjandi spyr ýmissa spurninga á milli, en Benedikt Gröndal fær orðið og segir: „Vill ríkisstj. hafa frumkvæði um viðræður milli flokkanna um þetta?“ þ. e. a. s. að breyta kosningalögunum og auka lýðræði í landinu.

Hæstv. dómsmrh. svarar: „Ja, ætlast menn ekki alltaf til þess, að ríkisstj. hafi frumkvæði um alla hluti?“

Og Benedikt þakkar fyrir það, en hæstv. forsrh. svarar: „Mér sýnist mjög eðlilegt, að viðræður fari fram milli flokkanna og að svo miklu leyti sem stjskrn. fjallar ekki um þetta, þá sé einnig fjallað um það utan stjskrn.

Það kom fram núna í svari hæstv. forsrh., að rólega hefur gengið í þessu máli, en hann er sama sinnis og hann sagðist vera í haust. Hann er hlynntur þessum breytingum, hæstv. forsrh., að mínu mati. Það, sem hefur komið þessu máli af stað aftur af hálfu þm., er að það hefur — skilst mér og fleirum — eiginlega ekkert gerst og menn eru óþolinmóðir og vilja hreyfa við málinu. En samkv. því, sem sagt var utan dagskrár í ræðu sem ég þarf ekki að rekja, því að hún er í 1. hefti Alþt., þá var gefið fyrirheit í framhaldi af þessum ágæta þætti, sem var í sjónvarpinu rétt áður en þing kom saman, um að eitthvað mundi ske.

Allir eru sammála um að það þurfi ítarlegar umr., og það megi ekki rasa um ráð fram, og hæstv. forsrh. nefndi ein þrjú atriði, sem veigamest eru og mikilvægast að menn nái samstöðu um. Ég tel og margir fleiri, að ekki þurfi annað en breytingu á kosningalögunum. Í frv. mínu eru tveir þættir, en hann nefndi aðeins fyrri þáttinn, þ. e. a. s. 5%-töluna, til að tryggja ákveðnum hóp manna, sem nú getur orðið 6–7 þúsund manns, fulltrúa á Alþ. Ef það er ekki áhugi á auknu lýðræði í þá átt, þá má segja að lýðræðið stansi við túnfótinn hjá ýmsum. Það er ekkert við því að segja, þeir eru frjálsir að hafa þá skoðun, en miðað við allt tal um aukið lýðræði og aukin áhrif í þessu landi, þá er eðlilegt að menn geri meira en tala og gefa yfirlýsingar — það er þess vegna sem umr. hefjast um þessi mál nú, þó að seint sé. Menn hafa hugleitt þessi mál lengi, svo að þeir ættu að vita hvað þeir vilja í þessu efni. Ef það er bundið við einstakar persónur sem eiga að fara inn á Alþ. — það þarf ekki að vera bundið við einstakar persónur sem kjósendur, þá er lýðræðið ekki mikils virði. Það er þess vegna, sem við viljum ýta á eftir þessu nokkrir þm., raunar úr öllum flokkum. Ég harma hve seint hefur gengið að aðhafast eitthvað í málinu.

Ég legg til í frv. mínu, að tölur ráði úrslitum í samræmi við það sem allir telja rétt, að aukin áhrif í lýðræðisátt skipi mönnum inn á Alþ. Hins vegar skal ég fúslega fallast á, að það er engan veginn mögulegt að veita þéttbýlisstöðunum — tökum t. d. þrjú kjördæmi: Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og Norðurl. e. — það mikinn rétt, að hann verði einn á móti einum, ef svo má segja, á móti hinum svæðunum. Mér dettur það ekki í hug. Hann mætti vera einn á móti tveimur, jafnvel aðeins rýrari að mínu mati. Ég er alveg til viðræðu um það. En að hann þurfi að vera þrisvar, fjórum og jafnvel fimm sinnum meiri en í tveimur eða þremur kjördæmum annars staðar nær auðvitað ekki nokkurri átt. Það eru lýðræðisréttindi í landinu, sem við viljum í heiðri hafa, og hæstv. forsrh. sagði áðan: Ljóst er að endurbætur á kosningafyrirkomulagi eru nauðsynlegar. — Undir þetta taka landsmenn. Ég leyfi mér að vitna í grg. í frv. mínu, í orð hæstv. núv. dómsmrh. um það, hvað sé eðlilegt að laga í þessu efni. Ég efast ekki um að sá ágæti maður er á þessari skoðun, þó hann skipi ráðherraembætti í dag í þessum málum. Það verður eitthvað að aðhafast. Það er engin afsökun að mínu mati, þegar menn eru búnir að hugleiða þessi mál svona lengi, að ekki sé hægt að gera eitthvað á tveimur eða þremur víkum, þó að það séu síðustu víkur þingsins. Það er eitthvað annað, sem stöðvar lýðræðið í landinu. Það er þá persónuleg afstaða til einstakra manna sem ræður úrslitum, en ekki til fólksins í landinu. Og það er ömurlegt, ef slíkt á að ríkja á hv. Alþ. á því herrans ári 1978.